1.10.2007 | 22:22
Vannýttur mannauður
Það er við hæfi að bjóða allar konur og alla menn velkomna á trúnó á þessu hausti. Nú þegar þing er komið saman að nýju er vert að pússa kynjagleraugun og rýna vel um holt og grundir. Vissulega þarf ekki bara að rýna á störf framkvæmdavaldsins heldur ekki síður gjörðir þeirra sem ráða um sveitir og borg. En tímasetningin er samt sem áður engin tilviljun. Trúnó fór í loftið í aðdraganda þingkosninga og því fannst ritstjórn vel til fundið að koma saman, um leið og þingheimur, til skrafs og ráðagerða. Velkomin á trúnóið. Fyrst ríður á vaðið Kristín Atladóttir kvikmyndagerðarkona.
"Fuglaflensan er lent, það segir Stefanía!" Dóttir mín kom heim úr skólanum með þessar fréttir. Fuglaflensufurðusögufaraldurinn, sem átti upptök sín í fréttum annars vegar og hjá skólasystur með ríkt hugmyndaflug og djúpstæðan sjúkdómaótta hins vegar, var búinn að geisa um nokkurt skeið á heimilinu. "Hvaða vitleysa, þetta var gæs sem fannst við norðurströnd Skotlands, hún drukknaði eftir að hafa étið yfir sig".
Fuglaflensuhræðslan var að stigmagnast og fuglaflensufréttir næsta dags voru: "Fjölskyldan hennar Stefaníu er búin að fylla búrið af dósamat, mamma hennar segir að það verði allir í einangrun heima hjá sér." Það rifjaðist upp fyrir mér sagan um maurinn og engisprettuna og undir ábúðarfullu augnaráði dótturinnar íhugaði ég eigið fyrirhyggjuleysi. Kannski er eitthvað til í þessu, mamma Stefaníu er jú læknir og pabbi hennar kennari...
Nokkru síðar, þegar ég var að hlusta á fréttir af loftslagsbreytingum rifjaðist fuglaflensufárið upp. Í framhaldi velti ég fyrir mér hvort og á hvaða hátt fjallað er um loftslagsbreytingar í skólum. Einnig hvort einhverjar áætlanir væru uppi í ráðuneyti og hjá viðeigandi stofnunum um að útbúa fræðsluefni og samræma upplýsingamiðlun til barna (og foreldra). Vissulega er erfitt að velja flöt á þá umræðu því fátt er vitað um loftslagsbreytingarnar annað en að þær eru að eiga sér stað. Mikil umræða á sér stað í fjölmiðlum og niðurstöður nýrra rannsókna á framgangi og hugsanlegum afleiðingum breytinganna á vistkerfi og náttúru eru kynntar reglulega og oftar en ekki stangast niðurstöðurnar á. Heimildamyndir um efnið eru sýndar í sjónvarpi og kvikmyndir eru gerðar um líf í kjölfar náttúruhamfara. Allt þetta berst börnunum til eyrna, og augna. Sjálfsagt eru mörg þeirra sem nú þegar eiga sér andvökustundir og dreymir óþægilega drauma.
Mér er ekki ljóst hvernig á að upplýsa börnin um gróðurhúsaáhrif og loftslagsbreytingar án þess að vekja ótta og óöryggi. Né hvernig fara á að því að tryggja að samfélagsumræða og fréttaflutningur ræni ekki börnin áhyggjuleysi æskuáranna. Þau okkar sem upplifðu kjarnorkuógn Kalda stríðsins þekkja slíkar tilfinningar og vangaveltur. Mannfólkið óttast hið ókunnuga og börn í dag búa við það að veröldin sem þau þekkja er að breytast, jafnvel það hratt að ekki er hægt að fullyrða um hvernig náttúrufar og umhverfi þeirra verður eftir einn eða tvo áratugi.
Það hlýtur að þurfa að ræða þetta á opinskáan hátt við börnin og leita leiða til að miðla til þeirra upplýsingu og þekkingu á einhvern þann hátt að viðunandi skilningur á stöðunni sé í boði fyrir þau. Með þessum hætti væri einnig hægt að forðast rangfærslur og misvísandi túlkanir sem gjarnan leiða til misskilnings og hræðslu.
Kristín Atladóttir er kvikmyndagerðarkona.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 3.10.2007 kl. 10:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.6.2007 | 07:29
19. júní - verum bleik í dag fyrir réttlætið.
Það er svo magnað að hugsa til þess að fyrir ekki svo löngu hafi konur fengið kosningarétt á þessum degi. Það er svo ótrúlegt til þess að hugsa að þær hafi ekki haft kosningarétt fyrr en árið 1915.
Hverjum datt eiginlega í hug að þær ættu ekki að hafa kosningarétt?
Hverjum datt eiginlega í hug að karlar ættu einir að kjósa til þings og sveitastjórna?
Það er eitthvað svo ótrúlega fáránlegt að hugsa til þess í dag að fólk telji annað kynið eiga að hafa annan og meiri rétt en hitt kynið.
En svona var þetta í byrjun tuttugustu aldar og því miður er það ennþá svona víða um heim, jafnvel hér heima á Íslandi á sumum sviðum.
Hverjum dettur það eiginlega í hug?
5.6.2007 | 12:24
Unga Ísland, á 11. degi komið í framkvæmd
Fækkun á biðlistum forgangsatriði í aðgerðaáætlun í þágu barna og unglinga | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
30.5.2007 | 10:54
Sumarbyrjun - fögur fyrirheit
Eftir Oddnýju Sturludóttur
Sumarbyrjun á Íslandi er guðdómlegur tími og sem borin og barnfædd borgardóttir (og borgarfulltrúi) skammast ég mín ekki fyrir að halda því kinnroðalaust fram að Reykjavík sé fallegasti staður á jarðríki - sérstaklega í sumarbyrjun.
Sumarið gefur fögur fyrirheit og það er margt sem gleður femíníska jafnaðarkonu nú um mundir. Ég gleðst innilega yfir kjarki Ingibjargar Sólrúnar og hvernig henni tókst að flétta velferðar- og jafnréttismálin inn í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar. Það verður spennandi að fylgjast með henni takast á við alþjóðamálin. Enga aðra en Kristrúnu Heimisdóttur hefði ég viljað sjá henni til fulltingis í því verkefni.
Síðan er það Þórunn. Ég reyni ekki að leyna aðdáun minni á Þórunni Sveinbjarnardóttur; gegnheil, traust og eldsnjöll kona. Skipan hennar í ráðuneyti umhverfismála sannar það að Samfylkingin meinrar það sem hún segir og segir það sem hún meinar; í umhverfis- og jafnréttismálum. Húrra!
Jóhanna hefur þegar þegið skærbleika rós frá ritnefnd Trúnó, til hamingju með nýja starfið Jóhanna og ég veit að þig klæjar í fingurna að gera vel með réttsýni og heiðarleika að leiðarljósi. Fyrir ykkur sem ekki vitið þá er Jóhanna einn skærbleikasti femínísti sem Ísland hefur alið. Nú hefjum við störf kvennastétta til vegs og virðingar og sýnum í verki hversu mikilvæg þau eru fyrir unga og gamla. Velferðarmál eru dauðans alvara - svo einfalt er það. Það vita Jóhanna, Ingibjörg Sólrún og Þórunn.
Af öðrum ráðherrum er það að frétta að Björgvin G. Sigurðsson, nýskipaður viðskiptaráðherra sagði í hádegisviðtali stöðvar 2 í gær að oft þyrfti róttækar aðgerðir til að knýja fram stórstígar framfarir. Vísaði hann þar til þess að konur í stjórnum hundrað veltumestu fyrirtækjanna eru 8% af stjórnarmönnum. Þeim hafði fækkað frá árinu 2005 og var þó ekki úr háum söðli að detta! Björgvin lofar sannarlega góðu og það verður spennandi að fylgjast með því hvert hlutfallið verður eftir fjögur ár... En víðar þarf að sópa og lofta út - konur í nefndum og ráðum á vegum hins opinbera eru sorglega fáar. Þrátt fyrir að konur séu almennt jafn, ef ekki betur menntaðar en karlar virðast þeir sem raða í nefndir og ráð hafa úr ægilega mörgum körlum að velja, og konurnar teljast ekki nógu ,,sérfróðar", eða kannski datt þeim hreinlega engin kona í hug?
Ég læt hér hluta af stórfínum pistli Katrínar Júlíusdóttur fylgja með, sem hún skrifaði á Trúnó fyrr í vetur. Þar reifar hún kynjahlutfall í nefndum og ráðum á vegum hins opinbera frá 2004-2006. Hér eru niðurstöðurnar....
Forsætisráðuneytið 68% karlar og 32% konur
Fjármálaráðuneytið 69% karlar og 31% konur
Iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið 77% karlar og 23% konur þó var því ráðuneyti stýrt af konu á tímabilinu...
Sjávarútvegsráðuneytið 80% karlar og 20% konur
Samgönguráðuneytið 81% karlar og 19% konur
En ekkert slær þó Landbúnaðarráðuneytinu við 88% karlar og 12% konur
Margar nefndir voru einungis skipaðar körlum, eins og nefnd á vegum forsætisráðuneytisins um endurskoðun örorkumats og endurhæfingu.
Í hana skipaði Halldór Ásgrímsson 10 karla.
10 karla? Og enga konu! Kemur örorkumat og endurhæfing konum ekki við? Ég hefði nú haldið það. Sama á við um marga aðra málaflokka þar sem konum er beinlínis haldið frá.
Ég hlakka til að fylgjast með nýjum ráðherrum Samfylkingarinnar á næstu mánuðum.
Oddný er borgarfulltrúi og kætist þegar glittir í framfarir - konum og körlum til handa.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
24.5.2007 | 12:53
Skærbleik rós dagsins
Fær hinn nýskipaði ráðherra velferðarmála, Jóhanna Sigurðardóttir.
Trúnó fagnar endurkomu þessarar öflugu konu í stól ráðherra jafnréttismála, aldraðra, öryrkja, innflytjenda, fjölskyldunnar já stól ráðherra velferðarmála.
Jóhanna hefur verið einn af öflugustu talsmönnum jafnréttis á Alþingi um áratugaskeið og væntum við mikils af henni.
Þess vegna hlýtur hún bleikustu rós dagsins í dag!
22.5.2007 | 13:28
Hvað gerir Sjálfstæðisformaður?
Hugsið ykkur hvað það yrði stórkostlegt ef formaður Sjálfstæðisflokksins gerði slíkt hiðsama og skipaði konur jafnt sem karla í sæti ráðherra ríkisstjórnarinnar.
Sjálfstæðismenn sóttu Þorgerði í fjórða sæti listans á sínum tíma til að gegna ráðherraembætti, og þótti bara sjálfsagt mál. Það þarf ekkert endilega að vera oddamaðurinn,karlinn, sem tekur sæti ráðherra, heldur á að velja þann hæfasta í hverjum málaflokki.
Þess vegna er út í hött að láta kynferðið eitt ráða og setja tóma karla í sætin. Það á nefnilega að líta á hæfni einstaklinganna. Þess vegna á að skipa hæfar konur í embætti ráðherra landsins. Vegna þess að þær eru amk jafnhæfar til að gegna þeim embættum.
Ingibjörg Sólrún: Skipting kynja í ráðherraembættum jöfn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
20.5.2007 | 22:54
Jafnréttisrósin.
eftir ritstjórnina
Nú funda þau á Þingvöllum, Ingibjörg Sólrún og Geir Hilmar. Ritstjórn Trúnós væri ljúft að sveima þar sem lítil fluga, en þykist þess þó fullviss að jafnréttisrósin sé þar höfð á lofti, enda Ingibjörg glæsilegur beri þeirrar rósar.
Sælt er að minnast orða hennar um jafna kynjaskiptingu í ráðherrasæti þau sem flokknum koma í hlut, en ritstjórn Trúnósins veit sem er að sætin eru ekki allt ef hugurinn fylgir ekki með hjá þeim sem í ríkisstjórninni sitja. Það er ekki nóg að sætin skipi jafnt konur sem menn heldur verða allir í ríkisstjórninni að skilja hversu mikilvægt það er að jafnrétti sé á milli kynjanna hér á landi, hversu mikilvægt það er að rödd begga kynja heyrist sem víðast.
Allt of lengi hafa stjórnvöld lokað augunum fyrir eigin ábyrgð í jafnréttisbaráttunni.
Allt of lengi hafa ráðamenn komist upp með að skipa karla eina í hverja opinberu nefndina á fætur annarri.
Allt of lengi hafa ráðamenn komist upp með að raða körlunum í toppstöður á vegum hins opinbera.
Nú þegar fréttir berast af því að ekkert, ekkert hafi þokast í jafnréttisátt við kynjahlutföll í stjórnum 100 fyrirtækja landsins sem könnuð voru á undanförnum tveimur árum, þá er ljóst að stjórnvöld verða að grípa inn í með góðu fordæmi.
Það er ekki nóg að búa til tímalausa jafnréttisáætlun ríkisstjórnarinnar sem varla er pappírsins virði.
Það eru verkin sem tala. Viljinn og verkin.
Þar treystir ritstjórn Trúnós Ingibjörgu Sólrúnu til góðra verka.
Ritstjórnin hlakkar til að lesa málefnasamning þann sem nú er í smíðum, því það er hennar bjargfasta trú að jafnréttisforkólfurinn Ingibjörg Sólrún hafi lagt sitt af mörkum í átt að auknu jafnrétti. Það er hennar bjargfasta trú að Ingibjörg Sólrún láti ekki orðin ein standa heldur sýni í verki í ríkisstjórn, rétt eins og hún gerði í borgarstjórn, að jafnréttismálin eru einn af hornsteinum velferðar í landinu. Þar er Ingibjörg Sólrún á heimavelli.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.5.2007 | 14:20
Samviskuvetur
Síðustu mánuðir hafa treyst sambandið við samviskuna verulega. Öfug við Bubba kóng geymi ég samviskuna ekki ofan í ferðatösku heldur hef hana með mér í mislöngu snæri eða naflastreng á vegferðinni. En líkt og snærið er mislangt er samviskan og lífskilningurinn ekki alltaf í sama formi og sömu stærð. Og þar sem ætla mætti að kona komist stöðugt til meira vits er sífelld endurskoðun á pólitískri og húmanískri afstöðu nauðsynleg. Hvers vegna? Jú, til að tryggja að líf konu og afstaða sé ávallt í samræmi við upplýsingu og þekkingarstig en ekki byggt á kreddum og úrsérgegnum mímum.
Þetta endurskoðunarferli er sérstakleg mikilvægt á kosningavetri þó tímafrekt sé. Þá þarf að forgangsraða málefnum í flokkana:
1. Grunnforsendur - sem ekki verður hróflað við (þetta er sérlega mikilvægt fyrir fólk sem elst upp við þá hugmyndafræði að pólitísk afstaða endurspegli í raun öll persónuleg gildi og lífssýn einstaklingsins).
2. Kjölfestumál - sem brýnt er að hafa mótaða skoðun á og þörf er að nái fram að ganga .
3. Skiptimyntin mál sem maður verður að hafa heiðarleika til að viðurkenna að skipta mann ekki sérstöku máli og má gefa eftir þegar kemur til málamiðlana.
Næst er að staðsetja sjálfan sig sem næst einhverju því pólitísku afli sem hefur getu til þess að fara með umboðið inn á Alþingi og stjórna landinu á skynsamlegan og því sem næst þeirri málefnaniðurröðun sem endurspeglast í flokkaniðurröðunnin sem lýst er hér að ofan. Getur reynst tímafrekt og einstaklega ruglandi ferli, sem jafnvel þarf að endurtaka ítrekað, eftir því sem líður á kosningabaráttuna.
Síðan hefst ferli sem telst í því að gera greinarmun á afstöðu byggðri á tilfinningarökum annars vegar og þekkingu á því hvernig veruleikinn í markaðssinnuðu velferðarhagkerfi er í raun. Hef hingað til ekki talið neitt sérlega eftirsóknarvert að einangra tilfinningalega hlutann frá þeim vitsmunalega þegar mál eru skoðuð hef álitið það karllæga aðferðafræði ekki sérlega vænleg til ábata fyrir mannkyn og því ástæðulaust að tileinka sér hana. Hagfræðinám síðustu vetra hefur hins vegar kallað eftir endurskoðun á þessu og myndu margir halda því fram að áhrifin væru þau að gera konu grimmilega hagsýna í hugsun og afstöðu. What ever - eins og dóttirin myndi segja.
Í ljósi alls þessa, sem og í nafni skynseminnar, var niðurstaða samviskuráðstefnu vetrarins þessi: Þar sem ISG fer í forsvari, á leið í forsæti, set ég mitt eina x.
En nú eru uppi ný tíðindi. ISG hefur kost á forsæti en virðist, þegar þetta er skrifað, ekki ætla að fara þá leiðina. Hvað gerir herskái feministinn nú! Þegar kona hélt að málefnabyggðar samviskuráðstefnur væru yfirstaðnar og vorið eitt tæki við þarf að hefja endurskoðun eina ferðina enn. Eða hvað? Er ásættanlegt að vinstri stefna snúist upp í að verða velferðarkapítalisk umbótarstefna á markaðsdrifnum kapitalisma? Já. Er ásættanlegt að gefa xD tækifæri til að endurskoða umhverfisstefnu sína? Já. Er ásættanlegt að koma til móts við atvinnu- og viðskiptalífið og hlúa að því á sama tíma og hagsmunir einstaklinga og fjölskyldna eru tryggðir? Já.
Er ásættanlegt að treysta Ingibjörgu Sólrúnu fyrir því að standa vörð um hagsmuni kvenna og vinna markvisst að útrýmingu kynbundins misréttis innan ríkisstjórnar þó hún kjósi að fara ekki í forsætisráðuneytið? Ójá.
Viti konur! Þetta reyndist ekki svo erfitt. Út í vorið, með traust á forystukonu okkar í farteskinu. Enda hvíldar þörf eftir langan (samvisku)vetur.
Kristín Atladóttir er kona og bara nokkuð sátt eins og mál standa.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
17.5.2007 | 11:45
Sögur úr rósastríði
________________________________________
,,Rós? Ég kýs ykkur, - en er með ofnæmi fyrir rósum." Konan bandar frá sér hendinni. Við kveðjum, óskum henni alls hins besta og flýtur okkur burt með rósirnar.
Ásta Ragnheiður er þingmaður Reykvíkinga og færði hundruðum Reykvíkinga rós í aðdraganda kosninga.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
15.5.2007 | 22:13
Frískir fætur
Konur sem vinna allan daginn, bera mikla ábyrgð á heimilishaldi og gera nánast allt fyrir börnin sín og barnabörn verða oft ansi þreyttar í fótunum. Þessu björgum við eins og öðru á meðan við höfum heilsu og liðleika til að nostra við tærnar. Þegar við eldumst eða veikjumst og stirðnum upp, þá skreppum við til kynsystra okkar sem starfa sem fótaðgerðafræðingar. Sú fagstétt er töfrum gædd, lagar allt sem aflaga fer varðandi neglur, hæla og húð og gefur góð ráð um fótahirðu og skóbúnað.
Störf þessara kvenna sem bæta fótaheilsu og auka vellíðan samborgara sinna, eru afskaplega mikilvæg. En þjónustan er kostnaðarsöm og ekki er óalgengt að það kosti 4800 5500 krónur að fara í fótaaðgerð. Eldra fólk og veikt fólk þarf sérstaklega á þessari þjónustu að halda, en almannatryggingakerfið okkar hefur rúið margt af þessu fólki inn að skinni. Fólk á því erfitt með að kaupa sér þessa þjónustu, eins og margt annað, til dæmis tannlæknaþjónustu og kaup á gleraugum.
Þessu þarf Samfylkingin að taka á í komandi þingi, vonandi í ríkisstjórn. Að mínu mati ætti þjónusta fótaaðgerðafræðinga að vera niðurgreidd fyrir þá sem þurfa á henni að halda en geta af heilsufarsaðstæðum ekki sinnt þessum hluta líkamans.
Ég held að verðlagning þessarar þjónustu sé sanngjörn og ætlast ekki til þess að konur í þessum atvinnurekstri gefi vinnu sína. Mér svíður hins vegar sárt þegar eldri konur, sem hafa alið önn fyrir okkur sem yngri erum, geta ekki veitt sér þessa sjálfsögðu þjónustu né farið til tannlæknis eða keypt sér ný gleraugu. Þess vegna vil ég nýja ríkisstjórn.
PS. Nú er ég komin á trúnó og gæti því rétt eins deilt því með ykkur hvernig ég minni sjálfa mig á að ég sé í fríi. Ég set ekki slaufu á puttann heldur lakka á mér táneglurnar. Daginn áður en ég fer í frí, hvort sem er upp í bústað eða til útlanda lakka ég táneglurnar í fallegum dökkum lit. Þegar ég vakna kíki ég niður á tærnar og segi við sjálfa mig frábært Björk, þú ert í fríi!
Björk Vilhelmsdóttir er borgarfulltrúi sem er með fæturna niðri á jörðinni.
Pæling dagsins
- Kvennaþing í Hveragerði 11.-12. apríl. Stjórnmálaumræður með femínískum jafnaðarkonum. Ball með ROKKSLÆÐUNNI um kvöldið. Ertu búin að skrá þig?
Nota bene
Bloggandi konur
Anna Kristjáns
Arndís Anna
Arndís Steinþórs
Ása Richards
Ásta R. Jóhannesdóttir
Björk Vilhelmsdóttir
Bryndís Ísfold
Edda Agnarsdóttir
Beta Ronalds
Erla Sigurðardóttir
Eva Bjarna
Guðríður Arnardóttir
Dagbjört Hákonard
Helga Vala
Ingibjörg Stefáns
Jóhanna
Katrín Anna
Katrín Júlíusdóttir
Lára Stefánsdóttir
Magga Stína
Oddný Sturludóttir
Ólína Þorvarðardóttir
Rósa Erlings
Sonja B Jónsdóttir
Steinunn Valdís
Svanfríður Jónasdóttir
Þorgerður Diðriks
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 5
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 5
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar