Frískir fætur

Konur sem vinna allan daginn, bera mikla ábyrgð á heimilishaldi og gera nánast allt fyrir börnin sín og barnabörn verða oft ansi þreyttar í fótunum. Þessu björgum við eins og öðru á meðan við höfum heilsu og liðleika til að nostra við tærnar. Þegar við eldumst eða veikjumst og stirðnum upp, þá skreppum við til kynsystra okkar sem starfa sem fótaðgerðafræðingar. Sú fagstétt er töfrum gædd, lagar allt sem aflaga fer varðandi neglur, hæla og húð og gefur góð ráð um fótahirðu og skóbúnað.

Störf þessara kvenna sem bæta fótaheilsu og auka vellíðan samborgara sinna, eru afskaplega mikilvæg. En þjónustan er kostnaðarsöm og ekki er óalgengt að það kosti 4800 – 5500 krónur að fara í fótaaðgerð. Eldra fólk og veikt fólk þarf sérstaklega á þessari þjónustu að halda, en almannatryggingakerfið okkar hefur rúið margt af þessu fólki inn að skinni.  Fólk á því erfitt með að kaupa sér þessa þjónustu, eins og margt annað, til dæmis tannlæknaþjónustu og kaup á gleraugum.

Þessu þarf Samfylkingin að taka á í komandi þingi, vonandi í ríkisstjórn. Að mínu mati ætti þjónusta fótaaðgerðafræðinga að vera niðurgreidd fyrir þá sem þurfa á henni að halda en geta af heilsufarsaðstæðum ekki sinnt þessum hluta líkamans.

Ég held að verðlagning þessarar þjónustu sé sanngjörn og ætlast ekki til þess að konur í þessum atvinnurekstri gefi vinnu sína. Mér svíður hins vegar sárt þegar eldri konur, sem hafa alið önn fyrir okkur sem yngri erum, geta ekki veitt sér þessa sjálfsögðu þjónustu né farið til tannlæknis eða keypt sér ný gleraugu. Þess vegna vil ég nýja ríkisstjórn.

PS. Nú er ég komin á trúnó og gæti því rétt eins deilt því með ykkur hvernig ég minni sjálfa mig á að ég sé í fríi. Ég set ekki slaufu á puttann heldur lakka á mér táneglurnar. Daginn áður en ég fer í frí, hvort sem er upp í bústað eða til útlanda lakka ég táneglurnar í fallegum dökkum lit. Þegar ég vakna kíki ég niður á tærnar og segi við sjálfa mig – frábært Björk, þú ert í fríi!

Björk Vilhelmsdóttir er borgarfulltrúi sem er með fæturna niðri á jörðinni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta eru orð í tíma töluð og megi þau fara sem víðast . vona að umræða um þessi mál eigi eftir að verða mikil og faginu veitir ekki af góðum talsmönnum sem  og skilningi ráðamanna á því  réttlætismáli að greiða beri niður kostnað aldraðra og sjúkra einstaklinga við fótaaðgerðir . Takk fyrir Björk að vekja athygli á þessu máli. 

kv. Kristín Steingrímsdóttir fótaaðgerðarfræðingur,hjúkrunarheimilinu Eir

Kristín S. Steingrímsdóttir (IP-tala skráð) 16.5.2007 kl. 23:54

2 Smámynd: Bryndís Ísfold Hlöðversdóttir

Björk þú ert æði

Bryndís Ísfold Hlöðversdóttir, 17.5.2007 kl. 01:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundar

Trúnó
Trúnó
Trúnó er vettvangur kvenna sem aðhyllast femíníska jafnaðarstefnu

Tónlistarspilari

Brigitte Bardot - Ca pourrait changer

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband