Sumarbyrjun - fögur fyrirheit

Eftir Oddnýju Sturludóttur

Sumarbyrjun á Íslandi er guðdómlegur tími og sem borin og barnfædd borgardóttir (og borgarfulltrúi) skammast ég mín ekki fyrir að halda því kinnroðalaust fram að Reykjavík sé fallegasti staður á jarðríki - sérstaklega í sumarbyrjun.

Sumarið gefur fögur fyrirheit og það er margt sem gleður femíníska jafnaðarkonu nú um mundir. Ég gleðst innilega yfir kjarki Ingibjargar Sólrúnar og hvernig henni tókst að flétta velferðar- og jafnréttismálin inn í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar. Það verður spennandi að fylgjast með henni takast á við alþjóðamálin. Enga aðra en Kristrúnu Heimisdóttur hefði ég viljað sjá henni til fulltingis í því verkefni.

Síðan er það Þórunn. Ég reyni ekki að leyna aðdáun minni á Þórunni Sveinbjarnardóttur; gegnheil, traust og eldsnjöll kona. Skipan hennar í ráðuneyti umhverfismála sannar það að Samfylkingin meinrar það sem hún segir og segir það sem hún meinar; í umhverfis- og jafnréttismálum. Húrra!

Jóhanna hefur þegar þegið skærbleika rós frá ritnefnd Trúnó, til hamingju með nýja starfið Jóhanna og ég veit að þig klæjar í fingurna að gera vel með réttsýni og heiðarleika að leiðarljósi. Fyrir ykkur sem ekki vitið þá er Jóhanna einn skærbleikasti femínísti sem Ísland hefur alið. Nú hefjum við störf kvennastétta til vegs og virðingar og sýnum í verki hversu mikilvæg þau eru fyrir unga og gamla. Velferðarmál eru dauðans alvara - svo einfalt er það. Það vita Jóhanna, Ingibjörg Sólrún og Þórunn.

Af öðrum ráðherrum er það að frétta að Björgvin G. Sigurðsson, nýskipaður viðskiptaráðherra sagði í hádegisviðtali stöðvar 2 í gær að oft þyrfti róttækar aðgerðir til að knýja fram stórstígar framfarir. Vísaði hann þar til þess að konur í stjórnum hundrað veltumestu fyrirtækjanna eru 8% af stjórnarmönnum. Þeim hafði fækkað frá árinu 2005 og var þó ekki úr háum söðli að detta! Björgvin lofar sannarlega góðu og það verður spennandi að fylgjast með því hvert hlutfallið verður eftir fjögur ár... En víðar þarf að sópa og lofta út - konur í nefndum og ráðum á vegum hins opinbera eru sorglega fáar. Þrátt fyrir að konur séu almennt jafn, ef ekki betur menntaðar en karlar virðast þeir sem raða í nefndir og ráð hafa úr ægilega mörgum körlum að velja, og konurnar teljast ekki nógu ,,sérfróðar", eða kannski datt þeim hreinlega engin kona í hug?

Ég læt hér hluta af stórfínum pistli Katrínar Júlíusdóttur fylgja með, sem hún skrifaði á Trúnó fyrr í vetur. Þar reifar hún kynjahlutfall í nefndum og ráðum á vegum hins opinbera frá 2004-2006. Hér eru niðurstöðurnar.... 

Forsætisráðuneytið – 68% karlar og 32% konur
Fjármálaráðuneytið – 69% karlar og 31% konur
Iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið – 77% karlar og 23% konur – þó var því ráðuneyti stýrt af konu á tímabilinu...
Sjávarútvegsráðuneytið – 80% karlar og 20% konur
Samgönguráðuneytið – 81% karlar og 19% konur

En ekkert slær þó Landbúnaðarráðuneytinu við – 88% karlar og 12% konur

Margar nefndir voru einungis skipaðar körlum, eins og nefnd á vegum forsætisráðuneytisins um endurskoðun örorkumats og endurhæfingu.

Í hana skipaði Halldór Ásgrímsson 10 karla.

10 karla? Og enga konu! Kemur örorkumat og endurhæfing konum ekki við? Ég hefði nú haldið það. Sama á við um marga aðra málaflokka þar sem konum er beinlínis haldið frá.
 

Ég hlakka til að fylgjast með nýjum ráðherrum Samfylkingarinnar á næstu mánuðum.

Oddný er borgarfulltrúi og kætist þegar glittir í framfarir - konum og körlum til handa.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Eva Þorsteinsdóttir

Af hverju talið þið alltaf um kynjahlutföll, er eitthvað réttmæti í því?

Kynjakvóti er ekki lausnin í jafnréttismálum...... langt því frá!

Getur ekki verið að hlutföll kvenna í stjórn fyrirtækja hafi fallið niður vegna eðli mannsins/konunnar, þ.e.a.s. fæðingu og uppeldis barna sinna, ekki geta karlmenn fætt börn........ allavega ekki enn ;)

Eva Þorsteinsdóttir, 31.5.2007 kl. 01:59

2 identicon

Já, nú fara spennandi tímar í hönd. Auðvitað skiptir máli að skipa jafnt konur sem karla í samfélagsmótandi ábyrgðarstöður. Rétt er það hjá Evu að karlmenn geta ekki fætt börn - en þeir eru mjög hæfir til þess að taka ábyrgð í uppeldi barna sinna til jafns við mæður þeirra. Og vaxandi fjöldi feðra gerir einmitt það - þó margir þeirra reki sig ítrekað á veggi í þeirri viðleitni.

Að búa svo um hnúta að feður fái tækifæri til þess axla sjálfsagða ábyrgð í uppeldi barna sinna er brýnt jafnréttismál sem allir græða á móðir, faðir og barn.

Að konur fái tækifæri til þess að njóta hæfileika sinna á öllum sviðum mannlífsins og taka virkan þátt í mótun veruleikans er líka brýnt jafnréttismál sem allir græða á. Einsog Eva bendir réttilega á ERU konur og karlar ólík um margt - Þess vegna er mikilvægt að huga að því að sjónarmið beggja kynja komi fram við mótun samfélagsins.

Anna Lára Steindal (IP-tala skráð) 31.5.2007 kl. 10:03

3 Smámynd: Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir

Það er ekkert réttmæti í því að helmingur þjóðarinnar fá litlu ráðið.  Ég get ekki tekið undir það með þér Eva að það sé eðli kvenna að sjá um uppeldi barna frekar en eðli karla.  

Mér finnst rétt að við veltum fyrir okkur af hverju í ósköpunum konur séu ekki með meiri völd í dag þar sem lagalegar hindranir eru ekki legnur fyrir hendi.

Af hverju í ósköpunum fá konur lægri laun en karlar, af hverju er framlag kvenna í ólaunuðum störfum stærra en karla?

Er það ósanngjarnt að við konur krefjumst þess að taka til jafns á við karla ákvarðanir sem varða alla þjóðina?

Er til einhver þarna úti sem trúir því í hjarta sínu að jafnrétti kynjanna komi af sjálfu sér?

Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir, 31.5.2007 kl. 11:40

4 Smámynd: Laufey Ólafsdóttir

Takk fyrir þetta Oddný og ég vil óska ykkur og okkur öllum til hamingju með þessa glæsilegu ráðherra! Við heyrumst brátt .

Laufey Ólafsdóttir, 13.6.2007 kl. 03:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundar

Trúnó
Trúnó
Trúnó er vettvangur kvenna sem aðhyllast femíníska jafnaðarstefnu

Tónlistarspilari

Brigitte Bardot - Ca pourrait changer

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband