Valkostir í fæðingarhjálp - sjálfsögð réttindi kvenna

Í tíð sitjandi ríkisstjórnar hefur verið vegið að valfrelsi kvenna á sviði mæðraverndar og fæðingarhjálpar. Niðurskurðarhnífnum hefur verið beitt harkalega á Kvennasviði Landssítalans.

Þetta málefni er mörgum konum á barneignaaldri mjög hugleikið en fæðingarhjálp er mikilvægur hluti velferðar kvenna og nýfæddra barna þeirra. Mikilvægt er að vel sé séð fyrir valkostum í mæðravernd og fæðingarhjálp, en því miður er ekki hægt að halda því fram að svo sé á Íslandi í dag.

Síðastliðið haust var tekin sú ákvörðun í heilbrigðisráðuneytinu að loka Miðstöð mæðraverndar sem starfað hafði í Heilsuverndarstöðinni við Barónsstíg. Starfsemin var lögð niður og henni tvístrað annars vegar á heilsugæslustöðvar á höfuðborgarsvæðinu og hins vegar á kvennasvið LSH. Starfsfólki miðstöðvarinnar var gert að skipta um starfsvettvang nánast með engum fyrirvara. Skömmu áður hafði starfsemi MFS einingarinnar (Meðganga,fæðing, sængurlega) verið hætt en stækka átti hið svokallaða Hreiður inni á kvennasviðinu.

MFS einingin hafði allt frá upphafi verið mjög vinsæl og annaði ekki eftirspurn enda aðeins kleift að sinna litlum hluta mæðra á höfuðborgarsvæðinu. Vinsældir einingarinnar skýrast einkum af samfellunni sem þjónustuþegar hennar nutu á meðgöngu, í fæðingu og sængurlegu þar sem leitast var við að veita konum þjónustu sömu ljósmæðra allan tímann.

Á Vesturlöndum hafa slík þjónustuform fest sig í sessi enda talið að samfella í þjónustu skipti miklu máli í barneignarferlinu. Niðurstöður fjölda rannsókna og tilmæli Alþjóðheilbrigðismálastofnunarinnar um fæðingarhjálp renna einnig stoðum undir þá kenningu að slík samfella sé æskilegri en umönnun margra ólíkra heilbrigðisstarfsmanna á meðgöngu.

Konur sem velja að eiga börn sín í heimahúsi og konur á fámennum stöðum á landsbyggðinni verða eftir þessar breytingar þær einu sem njóta samfelldrar mæðraverndar en þær eru samanlagt innan við 10% barnshafandi kvenna á Íslandi.

Mæðravernd á Íslandi er að mörgu leyti til fyrirmyndar en hins vegar er ekkivel séð fyrir fæðingarvalkostum á suðvesturhorni landsins. Á höfuðborgarsvæðinu er ekki fæðingarheimili, ekki er boðið upp á vatnsfæðingar (sem viðurkenndar eru af WHO) og aðeins um 1% barnshafandi kvenna njóta samfellu í þjónustu og nú hefur MFS einingunni verið lokað með þeim rökum að hún hafi verið svo vinsæl að ekki hafi verið unnt að anna eftirspurn!?

Á Selfossi og í Keflavík er unnt að fæða í vatni en ekki er í alvöru hægt að ætlast til þess að konur á höfuðborgarsvæðinu sæki þá þjónustu í stórum stíl.

Í ljósi þessara staðreynda og vinsælda MFS einingarinnar er eðlilegt að spyrja hvað liggi að baki þessum ákvörðunum. Kostnaðurinn af mæðraverndinni færist til heilsugæslunnar og Tryggingastofnun Ríkisins mun greiða ljósmæðrum fyrir umönnun kvenna í sængurlegu. Því er eðlilegt að spyrja hvort krafa um sparnað og hagræðingu í rekstri Landspítalans vegi ekki þyngst í þessari ákvörðun. Konur vilja vita hvað liggi þessum breytingum til grundvallar.

Eru breytingarnar í samræmi við óskir kvenna? Voru þungaðar konur spurðar hvernig þjónustuform þær vilja eða með öðrum orðum; var framkvæmd þarfagreining meðal skjólstæðinga mæðraverndar? Var hagsmunafélag ljósmæðra haft með í ráðum?

Mjög mikilvægt er að auka umræðu um þessi mál. Fæðingar á fæðingardeildum hátæknisjúkrahúsa eru dýrar eða allt að fjórum sinnum dýrari en heimafæðingar og hlutfall læknisfræðilegra inngripa í eðlilegt fæðingarferli er mun hærra en á fæðingarheimilum og í heimafæðingum. Það er því bæði órökrétt og rangt að langflestar fæðingar á landinu fari fram á hátæknideild Kvennasviðs Landspítalans en með lokun MFS mun ekki verða breyting þar á heldur mun þeim þvert á móti fjölga.

Rósa Erlingsdóttir er áhugakona um mæðravernd og fæðingarhjálp.


Sigur og ósigur

Sigrar og ósigrar einkenna kosningaúrslitin í ár. Landsmenn eru heppnir að fá baráttukonuna Steinunni Valdísi á þing en óheppnir að hafa misst Mörð. Anna Kristín og Lára komust ekki að, heldur ekki Gummi Steingríms og Róbert Marshall datt út í morgunsárinu. Ellert B. Schram sigldi óvænt inn og verður fengur fyrir eldri borgara að fá slíkan baráttumann á þing, þó hann sjálfur hafi ekki einu sinni látið sig dreyma um þingsæti.

Samfylkingin stóðs sig bærilega og lokaspretturinn var glæsilegur. Kosningabaráttan var raunar ein sú allra skemmtilegasta og þaulreyndir pólitíkusar og fótgönguliðar líktu henni við kosningabaráttuna 1994, þegar Reykjavíkurlistinn vann borgina og borgin varð fjölskylduvæn og manneskjuleg í kjölfarið. 

Það er margt sem þyrlast upp í kjölfar kosninga. Beiskja í garð Íslandshreyfingarinnar sem ætlaði sér að stöðva stóriðjustefnu ríkisstjórnarinnar en styrkti hana þess í stað í sessi. Staða Margrétar Sverrisdóttur er harla skrítin orðin, ég sagði alltaf að hún hefði átt að ganga til liðs við okkur í Samfylkingunni en hún tók áhættu og fór í annan leiðangur.

Jón Baldvin Hannibalsson hlýtur nafnbótina ,,Óákveðnasti kjósandinn". Hans þáttur í kosningabaráttunni verður lengi í minnum hafður.

Hver vann og hver tapaði? Ríkisstjórnin heldur naumum meirihluta, við snérum vörn í sókn og Framsókn og VG mælast jafnstór. Sjálfstæðisflokkur bætir við sig frá því í síðustu kosningum, þar sem hann mældist mjög lítill - á hans mælikvarða.

Mín ósk er sú að næsta ríkisstjórn endurreisi velferðarkerfið, geri rammaáætlun um náttúruvernd og hefji virka baráttu gegn ójafnrétti og ójöfnuði. Velferðarmál eru dauðans alvara og skipta okkur öll máli. Eða svo ég snúi út úr slagorði Sjálfstæðisflokksins: Þegar öllu er á botninn hvolft er traust velferðarstjórn stærsta efnahagsmálið.

Auk þess að taka okkur út af lista hinna viljugu þjóða.

Ef fólkið í landinu fær ekki aukin lífsgæði út úr myndun næstu ríkisstjórnar, töpum við öll.

Oddný er borgarfulltrúi og þráir breytingar.


Ég á mér draum

Eftir Guðnýju Guðbjörnsdóttur, prófessor og fyrrverandi alþingismann.

Það var árið 1909 sem konur - eða hluti kvenna- fengu kosningarétt á Íslandi. Nú um 100 árum síðar standa konur ekki jafnfætis körlum á mörgum sviðum.

-Um 100 árum síðar eru  konur rúmlega hálfdrættingar á við karla í launum.
-Um 100 árum síðar eru völd kvenna hvergi sambærileg við völd karla í opinberu lífi.

Fyrstu jafnréttislögin á Íslandi tóku gildi fyrir rúmlega 30 árum. Þrátt fyrir skýrt ákvæði í stjórnarskrá um að ekki megi mismuna eftir kynferði, virðist það gert. Nú er kominn tími á eðlisbreytingu.

Þó að bankarnir séu örlátir á laun til bankastjóra, þá eru engar konur í þeim stöðum.  Bilið á milli þeirra sem hafa og þeirra sem hafa ekki er nú óðum að breikka. Gjaldþrot blasir við mörgum heimilum.  En réttlætisbankinn er ekki gjaldþrota, eða hvað?

Nú er tíminn og tækifærið til að komast upp úr misréttishjólförunum á braut jafnréttis í víðri merkingu þess orðs. Nú er tíminn til að hverfa af braut misréttis og á braut jafnréttis.
 
Gerum þjóðfélagið réttlátara fyrir þegna þessa lands. Gerum þetta 100 ára afmæli kvennabaráttunnar á Íslandi að upphafi nýrrar sýnar í stjórnmálum.

Sem betur fer eru nú margir karlar femínistar í þeirri merkingu að vilja jafnrétti kynjanna og vera tilbúnir til að vinna að því. Því göngum við saman til þessa verks konur og karlar. Samstaða kynjanna er mikilvæg nú sem fyrr, öllum í hag.

Líklega þarf ekki að minna okkur Íslendinga á mikilvægi þess að ná fram réttlæti á friðsamlegan hátt, eins og Martin Luther King fannst mikilvægt að árétta við sitt fólk 28. ágúst 1963. Femínistar eru  fyrst og fremst metnaðargjarnt fólk með sterka réttlætiskennd

Við verðum ekki ánægð fyrr en launa- og valdamisréttið hverfur. Við verðum ekki ánægð fyrr en konur og  þeirra störf verða metin til jafns við karla og þeirra störf, bæði til launa og virðingar.

Kosningaþátttaka er á niðurleið. Æ fleiri Íslendingar með full lýðréttindi sjá varla tilgang með því að kjósa, því þeir sjá engan mun á stjórnmálaforingjunum. 
 
Nei við erum ekki ánægð, og verðum það ekki fyrr en réttlætið flæðir um þjóðfélagið, flæðir eins og vatn, eins og öflugt fljót.

Konur hafa oft verið skapandi við sínar aðstæður en hafa jafnframt mátt þola ýmislegt, sem er óðum að koma fram í dagsljósið og að ná athygli stjórnmálanna. En betur má ef duga skal.

Lítum öll í eigin barm, í öllum kjördæmum, til sjávar og sveita, og gerum eitthvað til að breyta þessu.

Eigum við ekki sameiginlegan draum?  Draum um jafnrétti þegna þessa lands, draum um virðingu fyrir landinu og náttúru þess, draum um velferð barna okkar, draum um góðan aðbúnað aldraðra og öryrkja og fallegan draum um örugga framtíð?

Ég á mér draum um að við Íslendingar áttum okkur brátt aftur á því að „allir menn eru fæddir jafnir” og að við höfum að auki stjórnarskrá og jafnréttislög sem ættu að gefa öllum þegnum landsins sömu tækifæri.

Ég á mér draum um að börnin á landsbyggðinni eigi sömu möguleika og börnin í Reykjavík til menntunar og á því að verða það sem þau vilja.

Ég á mér draum um að konurnar í kvennastörfunum; kennarar, hjúkrunarfræðingar og fólk í umönnunarstörfum, vinnukonur kerfisins, geti tekið völdin í sínar hendur, og uppskeri virðingu og réttlæti í  launum.

Ég á mér draum um að fólk verði ekki metið eftir líkamsgerð, hvort sem það er kynferði,  hörundslitur eða  holdafar, heldur eftir hæfileikum, menntun og mannkostum.

Með þessum draumi gætum við breytt landi okkar og þjóð í samhent samfélag bræðra og systra.

Ef  Ísland á að skara fram úr sem jafnréttisþjóðfélag verðum við að snúa af þeirri braut misréttis sem við erum á: Þar sem konur eru  hálfdrættingar í launum á við karla, þar sem ofbeldi gagnvart konum viðgengst, þar sem of stór hópur barna býr við fátækt, þar sem aldraðir, sjúkir og öryrkjar búa við biðlista og afskiptaleysi, þar sem háskólar mismuna nemum og kennurum eftir fræðasviðum- og þar sem þeir ríku verða miklu ríkari.

Hringjum bjöllum réttlætis og jafnréttis- í Reykjavík suður, í Reykjavík norður, í Suðvesturkjördæmi, í Norðvesturkjördæmi, í Norðausturkjördæmi og í Suðurkjördæmi.

Hringjum bjöllum réttlætis og jafnréttis hátt og skýrt út um allt land- alla leið upp í stóla bankastjóranna, inn í stjórnir stórfyrirtækjanna, allstaðar þar sem ráðum er ráðið.

Látum jafnréttið ná upp í stjórnarráðið og helst alla leið - í stól forsætisráðherrans.  

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir lyfti grettistaki í jafnréttismálum í Reykjavíkurborg. Gefum henni umboð og tækifæri til að endurtaka það á landsvísu, landi og þjóð til framdráttar.

Nú í fyrsta sinn í sögu lýðveldisins er kona formaður stjórnmálaflokks, sem á raunhæfan möguleika á að leiða ríkisstjórn. Þessi kona getur gert drauminn að veruleika. Nú er einstakt tækifæri, klúðrum því ekki.

Kjósum Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur í alþingiskosningunum á laugardaginn. Kjósum Samfylkinguna út um allt land. 


Gerum okkar besta - og aðeins betur ef það er það sem þarf!

Eftir Steinunni Valdísi Óskarsdóttur.


Ég er í baráttusætinu fyrir Samfylkinguna í Reykjavík - norður. Verð að játa að cheriósið á morgnana bragðast misvel eftir könnunum dagsins. Í fyrradag var ég úti, í gær var ég inni, og í morgun þegar ég opnaði Fréttablaðið var ég úti.  En eitt er víst að þetta heldur manni við efnið og ég hef bókstaflega verið eins og þeytispjald um allt síðustu daga að tala við fólk.  

En af hverju ætti svo fólk að kjósa undirritaða frekar en Sigga Kára  eða Sigríði Andersen hjá Sjálfstæðisflokknum? Það er ekki til að ég geti skipt um vinnustað, þó að það geti í sjálfu sér verið ágætt, heldur snýst málið um traust, trúverðugleika og fyrir hvað fólk stendur.  

Mér eru svo minnistæðir síðustu dagar kosningabaráttunnar þegar Reykjavíkurlistinn lagði Sjálfstæðisflokkinn í fyrsta sinn í Reykjavík vorið 1994 og ég var í fyrsta skipti í framboði. Þá, eins og nú, lá vilji til breytinga í loftinu.  Það voru sólríkir vordagar og reykvíkingar þyrptust út í sólina, líkt og þessa síðustu daga.  Þá, líkt og nú, spurði fólk skiptir þetta nokkru máli?

En í dag, eins og þá, skipta þessar kosningar öllu máli fyrir framtíðina. Það er tími til að skapa og það er tími til að breyta.  Og til þess þurfum við fólk sem þekkir þarfir og líðan venjulegs fólks og setur jafnrétti, velferð og jöfnuð í fyrsta sæti. Þess vegna skiptir það máli hvaða einstaklingar setjast á þing að loknum þessum kosningum. Ég hef verið borgarfulltrúi í 13 ár, þar af tvo sem borgarstjóri og þekki vel af eigin raun málefni kjördæmisins. Í dag ætla ég að gera það sem ég get til að tala fyrir velferðinni, jöfnuðinum og réttlætinu og mun svo ljúka deginum í hefðbundinni göngu með rauða rósir fyrir Reykvíkinga.

Megi morgundagurinn færa okkur nýja ríkisstjórn!

Steinunni Valdísi á þing!


Æ, æ... ef ekki væri fyrir einskæran klaufaskap...

og gáleysi, eða tæknileg mistök eða yfirsjón eða ,,börn síns tíma" eða hugsunarleysi eða misskilning eða misskilinn húmor eða einhverjar aðrar undarlegar ástæður...

væri jafnréttinu náð!

Trúnó er stolt af því að hafa ,,skúbbað" klaufaskap Einars Odds. Afsökunarbeiðnin er móttekin.


mbl.is Biðst afsökunar á bréfi til bænda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Æ, Einar Oddur! Konur ERU líka bændur!

Í gær hittumst nokkrar konur úr sveitinni og aðalumræðuefnið í eldhúsinu var bréfið sem barst á alla bæi fyrr um daginn, stílað á karlana okkar; ,,kæri vinur…" Bréfið var skreytt stærðar mynd af Einari Oddi og ályktun landsfundar Sjálfstæðismanna um landbúnaðarmál fylgdi með. Vinkona mín, sem er formaður Búnaðarsamtaka Vesturlands og kúabóndi með meiru, fékk ekki einu sinni línu frá frambjóðandanum.

Ég mun í dag dreifa rauðum Samfylkingarrósum á bæina. Ekki bara til kvenna og karla í hefðbundnum búskap heldur til alls þessa öfluga fólks sem byggir hinar dreifðu byggðir. Konurnar skipta meira máli en Golfstraumurinn fyrir framtíð sveitanna. Ég er ekki viss um að Einar Oddur skilji það.

Nú er tími til að kjósa breytingar.

Ragnhildur Sigurðardóttir er umhverfisfræðingur í Snæfellsbæ.


Syndir síðustu ára - ekki missa af þessu!

Trúnó mælir með því að kjósendur horfi á þennan videóbút fyrir laugardaginn...

Svör Samfylkingarinnar við spurningum frá Femínistafélagi Íslands

Femínistafélag Íslands leitaði til allra stjórnmálaflokka og bað þá um að svara nokkrum mikilvægum spurningum um jafnréttismál.  Með mikilli gleði svaraði Samfylkingin femínistum enda hefur flokkurinn bæði frábæra stefnu í jafnréttismálum og gífulega reynslu m.a. úr Reykjavíkurborg í að vinna hörðum höndum að því að bæta jafnrétti kynjanna og ná góðum árangri.

Hér má sjá svör flokksins:

Spurningar Femínistafélags Íslands vegna kosninga til Alþingis 2007

  1. Jafnréttisstofa fær innan við 40 milljónir á fjárlögum ríkisins. Telur flokkurinn þetta vera nægilega fjármuni til að reka skilvirka og árangursríka jafnréttisstefnu og uppfylla kröfur jafnréttislaga og alþjóðlegra skuldbindinga á sviði jafnréttismála? Af hverju eða af hverju ekki? Þá heyra jafnréttismál í dag undir félagsmálaráðuneyti en ýmsar raddir hafa heyrst um að þau ættu að vera á vegum forsætisráðuneytis. Hver er afstaða flokksins gagnvart því?

Mun hærri upphæð þarf til að reka kraftmikið jafnréttisstarf sem uppfyllir kröfur jafnréttislaga, getur sinnt eftirliti með því að þeim lögum sé framfylgt og uppfyllt alþjóðlegar skuldbindingar.

Samfylkingin vill efla starfsemi Jafnréttisstofu til muna, m.a. með því að veita Jafnréttisstofu heimildir til að rannsaka og afla gagna sé grunur um að jafnréttislög séu brotin.

Samfylkingin telur brýnt að jafnréttissjónarmið verði rauður þráður í allri stefnumótun stjórnvalda. Til að svo megi verða telur Samfylkingin að jafnréttismál eigi að vera á forræði og ábyrgð forsætisráðuneytisins. Þingmenn Samfylkingarinnar hafa flutt þingmál þess efnis í samræmi við stefnu flokksins.

  1. Er flokkurinn fylgjandi eða andvígur frumvarpi til nýrra jafnréttislaga sem félagsmálaráðherra kynnti á nýju vorþingi í óbreyttri mynd? Ef ekki, hvaða breytingar myndi þinn flokkur gera? Hver er mikilvægasta breytingin á lögunum að mati flokksins?

Samfylkingin styður frumvarpið og vildi að frumvarpið yrði samþykkt núna á vorþinginu. Sjálfstæðisflokkurinn lagðist hins vegar gegn frumvarpinu, og félagsmálaráðherra vildi ekki leggja það fram. Frumvarp Guðrúnarnefndarinnar s.k. varð til í samkomulagi og í nokkrum atriðum hefði Samfylkingin viljað ganga lengra en telur margar mikilvægar réttarbætur felast í frumvarpinu. Meðal annars varðandi valdheimilidir Jafnréttisstofu og að setja yfirstjórn jafnréttismála undir forsætisráðuneytið.

Meðal mikilvægustu breytinga í nýju frumvarpi er ákvæði um afnám launaleyndar, virkar jafnréttisáætlanir í fyrirtækjum og um bindandi úrskurði kærunefndar jafnréttismála.

  1. Myndi flokkurinn styðja frumvarp sem gerði kaup á vændi refsiverð?

Já umsvifalaust. Þingmenn Samfylkingarinnar hafa átt aðild að frumvarpi þess efnis og gert slíkar breytingatillögur við meðferð hegningarlaga á Alþingi. Það á að gera kaup á vændi refsivert og veita fórnarlömbum vændis stuðning og ráðgjöf. Flokkurinn vill vinna gegn mansali og hefja virka baráttu gegn klámvæðingu í samfélaginu.

  1. Fengi flokkurinn dómsmálaráðuneytið í stjórnarmyndun, hver yrðu tilmæli dómsmálaráðherra til lögreglu um aðgerðir gegn klámi, klámvæðingu opinbers rýmis og heimilisofbeldi?

Samfylkingin leggur mikla áherslu á að lögreglan hafi fullnægjandi úrræði og nauðsynlegar heimildir til að berjast gegn klámi og heimilisofbeldi. Þingmenn Samfylkingarinnar hafa m.a. lagt fram þingmál sem gerir ráð fyrir sérstöku lagaákvæði sem tæki á heimilisofbeldi.

Verklagsreglur lögreglu þurfa að vera þess eðils að baráttan gegn kynbundnu ofbeldi sé í forgrunni í daglegu starfi lögreglunnar. Dómsmálaráðherra Samfylkingarinnar myndi tryggja að svo yrði.

Það þarf að ríkja skilningur á að eðli brotaflokka er ólíkt og kallar á ólíka nálgun af hálfu löggjafans en þann skilning hefur skort að því er varðar kynbundið ofbeldi. Þannig er ekki aðeins nauðsynlegt að tryggja að heimilisofbeldi t.d. verði skilgreint sem sjálfstætt brot í almennum hegningarlögum, því samhliða þurfa að vera fyrir hendi aðrar stoðir innan kerfisins sem gera þolendum heimilisofbeldis kleift að komast út úr þeim vítahring sem ofbeldi innan veggja heimilisins er.

Það er sömuleiðis mikilvægt að stjórnvöld leiti til þeirra sem hafa sérþekkingu og fagþekkingu í þessum efnum.

  1. Ólaunuð vinna í kringum börn, aldraða og sjúka deilist misjafnlega milli kynja.  Skortur á hjúkrunarrýmum og lengri biðlistar á öldrunar-, hjúkrunar- og umönnunarstofnununum valda því að þessi vinna er að flytjast inn á heimilin. Hvernig telur flokkurinn að koma eigi til móts við tekjutap og tap á vinnumarkaðstengdum réttindum, svo sem lífeyrisréttindum, einstaklinga (oftast kvenna) sem vinna þessa ólaunuðu vinnu? Myndi flokkurinn koma til móts við þetta fólk, t.d. með því að greiða í lífeyrissjóði? Hvað má það kosta?

Það er ólíðandi að skortur á hjúkrunarrýmum eða mannekla í umönnunar- og hjúkrunarstörf verði þess valdandi  að ábyrgð á umönnun sjúkra og aldraðra flytjist inn á heimilin aftur og lendi á herðum kvenna sem ólaunuð störf.  

Mikilvægt er að skilgreina rétt aldraðra, fatlaðra og sjúkra til þjónustu og ef hún er veitt á heimili þá sé greitt fyrir hana eins og aðra launaða vinnu hvort sem það er ættingi eða einhver annar sem veitir hana. Lífeyrisgreiðslur og önnur vinnumarkaðstengd réttindi eru þar ekki undanþegin.

Samfylkingin vill endurmeta störf kvennastétta en það felur í sér að endurskoða laun þeirra. Þetta var stærsta einstaka atriðið á bak við þann árangur sem náðist í borginni undir stjórn Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur í baráttunni við kynbundinn launamun. Án endurmats á þessum störfum mun skortur á starfsfólki í þessar stéttir vaxa og grafa undan því velferðarsamfélagi sem við viljum standa vörð um.

  1. Hver er afstaða flokksins gagnvart kynjakvótum í stjórnum fyrirtækja?

Vinna að auknum hlut kvenna í stjórnum og ráðum á almennum vinnumarkaði og í stjórnum almenningshlutafélaga. Þegar í stað verði komið upp samráðsvettvangi stjórnvalda og atvinnulífs til að vinna að þessu máli. Fyrirtækjum verði gefið 4 ára ráðrúm til að rétta hlut kvenna en lög sett að öðrum kosti.

7.  Töluverður munur er á aðstæðum karla og kvenna í hópi innflytjenda. Hvernig telur flokkurinn rétt að bregðast við ólíkum þörfum kvenna og karla í hópi innflytjenda? Einnig, hyggst þinn flokkur veita erlendum konum dvalarleyfi búi þær við heimilisofbeldi? 

Ólíkar aðstæður karla og kvenna í hópi innflytjenda kalla á ólíka ráðgjöf og stuðning af hálfu opinberra aðila í samráði við ýmis samtök og stofnanir s.s. Alþjóðahús, Fjölmenningarsetur, Samtök kvenna af erlendum uppruna og verkalýðssamtök.

Samfylkingin vill tryggja að konur af erlendum uppruna, sem búa við ofbeldi, missi ekki dvalarleyfi sitt eftir skilnað við íslenskan maka sinn. Fjöldi kvenna af erlendum uppruna sem sækja aðstoð til Kvennaathvarfsins síðustu árin hefur aukist mikið. Mikilvægt er að tryggja að konur af erlendum uppruna eigi greiðan aðgang að upplýsingum um aðbúnað sem til er í samfélaginu t.d. fyrir konur sem verða fyrir heimilisofbeldi.

  1. Þau störf sem skapast hafa í kringum stóriðjuframkvæmdir á síðustu árum virðast ekki hafa skilað sér í jöfnum mæli til kvenna og karla. Hvernig myndi flokkurinn tryggja það að atvinnusköpun geri báðum kynjum jafn hátt undir höfði?

Samfylkingin telur að nú eigi að leggja áherslu í atvinnumálum á annað en stóriðjuuppbyggingu. Flokkurinn hefur sett fram stefnu um uppbyggingu í hátækni- og þekkingaiðnaði og leggur áherslu á atvinnugreinar tengdar menntun og menningu. Í þessum atvinnugreinum er full ástæða til að ætla að verði til störf fyrir konur ekki síður en karla.

  1. Hvaða aðgerðum mun flokkurinn beita sér fyrir til að hækka laun lægst launuðu kvennastéttanna?

Samfylkingin vill að farið verði í starfsmat á vegum ríkisins með það að markmiði að vinna gegn vanmati á hefðbundnum kvennastörfum og bæta launakjör þeirra sem vinna þau störf. Þetta var gert hjá Reykjavíkurborg undir stjórn Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur og Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur og var stærsta einstaka aðgerðin á bak við þann árangur að minnka kynbundinn launamun í borginni um helming.

Þessar aðgerðir hefur núverandi ríkisstjórn ekki viljað fara í þrátt fyrir að augljóslega halli á konur þegar kemur að því að meta störf til launa. Þetta verkefni yrði eitt af forgangsmálum í ríkisstjórn Samfylkingarinnar undir forystu Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur.

  1. Innflytjendum er gert skylt að kaupa sér sjúkratryggingar til sex mánaða eftir að þeir flytja til landsins. Þær tryggingar sem eru í boði dekka ekki kostnað vegna meðgöngu og fæðingarhjálpar. Telur flokkurinn þetta vera jafnréttisbrot?

Bið í sex mánuði eftir því að komast inn í almennar sjúkratryggingar á ekki aðeins við um innflytjendur heldur einnig brottflutta Íslendinga sem eru að flytja heim aftur eftir lengri dvöl erlendis. Meðgöngu- og fæðingarhjálp er sjálfsögð þjónusta við konur og ófædd börn þeirra og óviðunandi að hún sé ekki tryggð öllum konum. Þarna er um að ræða brest í velferðarþjónustunni sem brýnt er að finna lausn á.

Ritnefnd Trúnó


Eru konur dæmdar til ævarandi og endalausrar fátæktar?

Eftir Þórhildi Þorleifsdóttur.

Hvað finnst ykkur um þá staðreynd að engar ljósmæður sem útskrifast í vor ætla að fara til starfa á fæðingardeild Landspítala vegna óviðunandi launa? Þær krefjast 285 þúsunda í mánaðarlaun. Algjört lágmark segja þær. Eftir sex ára nám – sér er nú hver frekjan! Ætlar þessu aldrei að linna? Sífelld verkföll kennara, hjúkrunarkvenna, leikskólakennara og ætla nú ljósmæður að bætast við. Konurnar (og nokkrir karlmenn) sem kenna börnunum okkar, annast okkur í veikindum, öryrkju og í ellinni osfrv. osfrv., í stuttu máli allar uppeldis- og umönnunarstéttir landsins, eru í sífelldri baráttu við vinnuveitendur sína (kannski er orðið vinnukaupendur betra), og þar af leiðandi þjóðina, í þeim tilgangi að fá störf sín metin að verðleikum og komast varla af byrjunarreit.

Er það ekki bara frekja að neita að bera sífellt skarðan hlut frá borði þrátt fyrir aukna menntun og mikilvægi starfanna? Frekjur, nei, burðarásar – það er eina réttnefnið en hvernig launum við þeim lífgjöfina? ILLA!

Það má treysta því að ef Ingibjörg Sólrún kemst í forsætisráð”herra”stólinn, og þar ráða atkvæði kvenna úrslitum, muni hún minnka eða jafnvel útrýma kynbundnum launamun. Guð láti gott á vita en hitt stendur eftir að matið á öllum hefðbundnum kvennastörfum er óviðunandi og algjörlega óásættanlegt og dæmir konur til endalausrar, ef ekki fátæktar, þá til efnahagslega verri stöðu en karla.

Það er ljóst að þetta mat, sem sífellt setur kvennastörfin skör lægra en karla, er ekki mat á störfunum heldur á konum. Samfélagið, stjórnað af körlum, metur konur einfaldlega minna en karla og er afrakstur og birtingarmynd andlegrar samkynhneigðar karla. Þeir eru hreinlega ekki nógu hrifnir af konum!

Það er til lítils að segja sífellt að konur verði bara að læra til og sækjast eftir betur launuðum störfum. Það geta ekki allar konur farið út í bissness, stofnað fyrirtæki, orðið forstjórar eða komist á þing. Ekki frekar en karlar.

Enda væri hollt fyrir alla að hugleiða hvernig færi ef allar konur hlýddu því kalli.

Enn og aftur er niðurstaðan sú sama. Konur verða að standa saman um breytingar sem enginn mun gera nema þær sjálfar. Þeim hefur aldrei verið réttt neitt á silfurfati – þær hafa sótt öll réttindi konum til handa sjálfar. Alltaf í óþökk einhverra kvenna sem engu að síður njóta afraksturins. Á því hefur engin breyting orðið.

Aðgerða er þörf -  þegar búið er að vinna kosningarnar, ISG í stólinn - þær skila mestu. Enn einu sinni þarf nýjar hugmyndir, nýjar aðferðir, nýjan kraft. Reynslan sýnir að af þessu eiga konur nóg ef þær leggja saman.

P.S. Það er kaldhæðnislegt að hugsa til þess að Bjarni Ármannsson gæti með því einu að seilast í eigin vasa leyst launamál ljósmæðra og ef allir hinir strákarnir sem hafa sótt í hálaunastörf og farið út í bissness  leggðu nú sitt ávaxtaða pund í púkkið gætu þeir borið meginþungann af sanngjarnri launahækkun kvennastéttanna! Kaldhæðnislegt en ekki ásættanlegt. Beiningakonur viljum við ekki vera heldur - burðarásar.

Þórhildur er baráttukona - og burðarás


Bad things happen when good people do nothing

Eftir Oddnýju Sturludóttur.

Þessi spöku orð mælti Bob nokkur Marley sem mig grunar að hafi verið nokkurn veginn í kjörþyngd. Góðar hugmyndir fæðast á hverjum degi og örfáum er gefið að hrinda þeim í framkvæmd – til allrar lukku fyrir okkur hin, samfélagið og komandi kynslóðir.

Ein slík hugmynd fæddist hjá Mary Evans Young og þann 6. apríl, fyrir 15 árum var fyrsti alþjóðlegi Megrunarlausi dagurinn haldinn hátíðlegur. Ef ég fengi öllu að ráða væru allir dagar megrunarlausir – en þó væri leyfilegt, í einn dag á ári, að rifja upp hallærislegar megrunaraðferðir, trénaðar staðalmyndir og þá gömlu góðu daga ,,þegar fólk var ennþá að fara í megrun, abbabbabb”. Sá dagur rennur upp fyrr en síðar.

Ég er gríðarleg áhugamanneskja um jafnrétti kynjanna og reyni að bregða jafnréttisskapalóninu á allt mann- og kvenlegt. Það þarf engan snilling til að sjá að megrun er náfrænka útlitsdýrkunar sem er stjúpsystir klámvæðingar sem aftur speglast í því að konur eru þolendur í heimi sem innréttaður var af körlum. Sífellt yngri stúlkur eru gagnteknar af vigtinni. Gott fólk; ætlum við að standa aðgerðarlaus hjá? Ætlum við að spyrna við fótunum eða finnst okkur í lagi að fermingarbörn fari í megrun?
 
Konur eiga að vera grannar, og eru minntar á það á hverjum degi. Á forsíðum blaða, í útvarpi, í bíó. Það er hvergi stundarfriður fyrir áróðri um grannar og fallegar konur. Íslensk tímarit eru undirlögð af  hallelújaboðskap um konur sem misstu tugi kílóa. Ég samgleðst þeim innilega en minni á að feitar konur eru líka forsíðustúlkur.

Ég sit oft til borðs með konum sem borða sig ekki saddar. Sem narta í matinn eins og fuglar, sem panta sér forrétt eða ,,smárétt” í kvöldmat. Þessar konur eru ekki feitar en samt fara þær svangar í háttinn. Þessar konur eru æðislegar, fallegar og kynþokkafullar en yfir þeim hangir fitubolluvofan. Það er ljótt að vera feitur segja blöðin, það er óhollt að vera feitur segja læknarnir, það er merki um skort á sjálfstrausti að hafa mjúkar línur og þrýstinn barm.

Gott fólk á ekki að standa hjá og gera ekki neitt, við eigum öll að láta okkur þetta varða. Við gætum byrjað á því að hrósa ekki stelpum og konum í hástert fyrir að vera grannar, jafnvel horaðar. Stundum finnst mér sem konur hrósi ekki öðrum konum nema fyrir eðlisþyngd þeirra!

Konur geta litið vel út fyrir margra hluta sakir, þær geta haft lokkandi blik í augum, heilbrigt og glansandi hár, dásamlega þrýstinn rass, breið og falleg læri, yndislegan húðlit, sérstakt bros. Svo ekki sé talað um hugmyndaauðgi, sanngirni, kímnigáfu og rétthugsun. Það sem gerir manneskju að manneskju.

Breytum þankaganginum. Í trylltum heimi sem keyrir áfram í fimmta gír og sturtar yfir okkur óæskilegum skilaboðum um allt mögulegt er þankagangur eitthvað sem við getum haft sæmilega stjórn á.

Byrjum strax í dag.


Oddný óskar skipuleggjendum Megrunarlausa dagsins á Íslandi til hamingju með 6. maí! Þessi grein birtist í dag í blaði sem tileinkaður er Megrunarlausa deginum, 6. maí.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundar

Trúnó
Trúnó
Trúnó er vettvangur kvenna sem aðhyllast femíníska jafnaðarstefnu

Tónlistarspilari

Brigitte Bardot - Ca pourrait changer

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband