Valkostir í fæðingarhjálp - sjálfsögð réttindi kvenna

Í tíð sitjandi ríkisstjórnar hefur verið vegið að valfrelsi kvenna á sviði mæðraverndar og fæðingarhjálpar. Niðurskurðarhnífnum hefur verið beitt harkalega á Kvennasviði Landssítalans.

Þetta málefni er mörgum konum á barneignaaldri mjög hugleikið en fæðingarhjálp er mikilvægur hluti velferðar kvenna og nýfæddra barna þeirra. Mikilvægt er að vel sé séð fyrir valkostum í mæðravernd og fæðingarhjálp, en því miður er ekki hægt að halda því fram að svo sé á Íslandi í dag.

Síðastliðið haust var tekin sú ákvörðun í heilbrigðisráðuneytinu að loka Miðstöð mæðraverndar sem starfað hafði í Heilsuverndarstöðinni við Barónsstíg. Starfsemin var lögð niður og henni tvístrað annars vegar á heilsugæslustöðvar á höfuðborgarsvæðinu og hins vegar á kvennasvið LSH. Starfsfólki miðstöðvarinnar var gert að skipta um starfsvettvang nánast með engum fyrirvara. Skömmu áður hafði starfsemi MFS einingarinnar (Meðganga,fæðing, sængurlega) verið hætt en stækka átti hið svokallaða Hreiður inni á kvennasviðinu.

MFS einingin hafði allt frá upphafi verið mjög vinsæl og annaði ekki eftirspurn enda aðeins kleift að sinna litlum hluta mæðra á höfuðborgarsvæðinu. Vinsældir einingarinnar skýrast einkum af samfellunni sem þjónustuþegar hennar nutu á meðgöngu, í fæðingu og sængurlegu þar sem leitast var við að veita konum þjónustu sömu ljósmæðra allan tímann.

Á Vesturlöndum hafa slík þjónustuform fest sig í sessi enda talið að samfella í þjónustu skipti miklu máli í barneignarferlinu. Niðurstöður fjölda rannsókna og tilmæli Alþjóðheilbrigðismálastofnunarinnar um fæðingarhjálp renna einnig stoðum undir þá kenningu að slík samfella sé æskilegri en umönnun margra ólíkra heilbrigðisstarfsmanna á meðgöngu.

Konur sem velja að eiga börn sín í heimahúsi og konur á fámennum stöðum á landsbyggðinni verða eftir þessar breytingar þær einu sem njóta samfelldrar mæðraverndar en þær eru samanlagt innan við 10% barnshafandi kvenna á Íslandi.

Mæðravernd á Íslandi er að mörgu leyti til fyrirmyndar en hins vegar er ekkivel séð fyrir fæðingarvalkostum á suðvesturhorni landsins. Á höfuðborgarsvæðinu er ekki fæðingarheimili, ekki er boðið upp á vatnsfæðingar (sem viðurkenndar eru af WHO) og aðeins um 1% barnshafandi kvenna njóta samfellu í þjónustu og nú hefur MFS einingunni verið lokað með þeim rökum að hún hafi verið svo vinsæl að ekki hafi verið unnt að anna eftirspurn!?

Á Selfossi og í Keflavík er unnt að fæða í vatni en ekki er í alvöru hægt að ætlast til þess að konur á höfuðborgarsvæðinu sæki þá þjónustu í stórum stíl.

Í ljósi þessara staðreynda og vinsælda MFS einingarinnar er eðlilegt að spyrja hvað liggi að baki þessum ákvörðunum. Kostnaðurinn af mæðraverndinni færist til heilsugæslunnar og Tryggingastofnun Ríkisins mun greiða ljósmæðrum fyrir umönnun kvenna í sængurlegu. Því er eðlilegt að spyrja hvort krafa um sparnað og hagræðingu í rekstri Landspítalans vegi ekki þyngst í þessari ákvörðun. Konur vilja vita hvað liggi þessum breytingum til grundvallar.

Eru breytingarnar í samræmi við óskir kvenna? Voru þungaðar konur spurðar hvernig þjónustuform þær vilja eða með öðrum orðum; var framkvæmd þarfagreining meðal skjólstæðinga mæðraverndar? Var hagsmunafélag ljósmæðra haft með í ráðum?

Mjög mikilvægt er að auka umræðu um þessi mál. Fæðingar á fæðingardeildum hátæknisjúkrahúsa eru dýrar eða allt að fjórum sinnum dýrari en heimafæðingar og hlutfall læknisfræðilegra inngripa í eðlilegt fæðingarferli er mun hærra en á fæðingarheimilum og í heimafæðingum. Það er því bæði órökrétt og rangt að langflestar fæðingar á landinu fari fram á hátæknideild Kvennasviðs Landspítalans en með lokun MFS mun ekki verða breyting þar á heldur mun þeim þvert á móti fjölga.

Rósa Erlingsdóttir er áhugakona um mæðravernd og fæðingarhjálp.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þokkalegasta umfjöllun en mér fannst vanta eitt. Gallharðir feministar nefna þetta karlmenn eða feður, þ.e. eftir því hvaða hlutverki þeir gegna. Spurning hvort þessi fyrirbæri séu alveg heillum horfnir hjá nútíma feministum. Kveðja, Sverrir.

Sverrir (IP-tala skráð) 15.5.2007 kl. 20:27

2 identicon

Vantar umræðu um karlmenn segirðu? Síðan hvenær fóru þeir að fæða börn?

hee (IP-tala skráð) 16.5.2007 kl. 16:12

3 identicon

sælar konur með skoðanir

varðandi heimafæðingar, hreiður eða aðra valkosti:

hver ákveður hvað er í boði fyrir verðandi foreldra? ríkisstjórn hverra tíma fyrir sig.  N'u er ný ríkisstjórn í burðarliðnum( fallegt ljósmæðratal þar sem ég er ljósmóðir) og hún hefur áhrif á hver framvindan er. Allt finnst mér þetta snúast um hugsunarhátt og hvort við sjáum svokallð heilbrigðiskerfi sem heilbrigðiskerfi eða sjúkdómakerfi sem gerir við?

 Helmingur þjóðarinnar er konur og við verðum að ræða þessi mál mun víðar og á allt öðrum nótum, vöndum orðaval okkar, tölum ekki um fæðingarhjálp heldur að aðstoða verðandi foreldra við fæðingu nýs barns.

bestu kveðjur

Ágústa J'ohannsdóttir ljósmóðir,

Ágústa Jóhannsdóttir (IP-tala skráð) 19.5.2007 kl. 18:27

4 identicon

Kærar þakkir Rósa fyrir að vekja máls á þessu efni á vefnum! Ég útskrifast sem ljósmóðir nú í vor og get glatt þig með því að í lokaverkefni mínu rannsaka ég hvers konar þjónustu konur vilja fá þegar þær eiga börnin sín. Mér blöskruðu einmitt þær breytingar sem voru gerðar s.l. haust, en gladdist að sama skapi yfir því að konur létu mótmælabréfum rigna yfir þingheim. Við sem vinnum í þessum geira þurfum að fá að heyra í ykkur!

Ekki síður þurfa konur að láta í sér heyra í eyru þeirra sem halda utan um fjármögnun og leyfisveitingar í heilbrigðiskerfinu. Ljósmæður hafa gert ítrekaðar tilraunir til að veita þjónustu sem konur vilja fá, en leiðin á milli þeirra er vörðuð ótal skriffinskubáknum þar sem hagsmunir og óskir fæðandi kvenna virðast ekki eiga sér málsvara.

Í stuttu máli get ég sagt þér að þú ert ekki ein um að óska eftir fjölbreyttari valkostum í fæðingarþjónustu og samfellu milli meðgöngu, fæðingar og sængurlegu. Það fer ekkert á milli mála í rannsókninni minni að þetta er það sem konur vilja, og fellur þar fyrir utan eins og flís við rass að hugmyndafræði ljósmæðra. Þannig að nú þurfum við bara að koma þessu í framkvæmd! Vönduð barneignaþjónusta sem samræmist gildismati hverrar konu fyrir sig eru mannréttindi. Látum engan segja okkur annað.

Berglind Hálfdánsdóttir (IP-tala skráð) 19.5.2007 kl. 20:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundar

Trúnó
Trúnó
Trúnó er vettvangur kvenna sem aðhyllast femíníska jafnaðarstefnu

Tónlistarspilari

Brigitte Bardot - Ca pourrait changer

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband