Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Eftir Oddnýju Sturludóttur
Vísindasagnfræðingurinn Londa Schiebinger telur brottfall stúlkna úr raunvísindanámi svo mikið að það þarf 2000 grunnskólastelpur til þess að búa til einn kvendoktor í raunvísindum.
Sambærileg tala hjá strákum er 400.
Þetta kemur fram í stórgóðri grein Þorgerðar Einarsdóttur í Fréttablaðinu í dag. Í greininni er tæpt á raungreinafælni, námskrá framhaldsskólans og trénuðum klisjum um ,,vísindamanninn" sem lítil börn hafa nær öll þá skoðun á að sé roskinn, úfinn og hvítur karlmaður, viðutan sérvitringur sem vinnur mikið og þvær aldrei sín eigin sokkaplögg.
Ég mæli með grein Þorgerðar. Fantagóð lesning.
Oddný Sturludóttir er borgarfulltrúi og frábær píanókennari.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 4.3.2007 kl. 16:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.2.2007 | 22:54
Að semja eins og karlmaður
Eftir Kristínu Sævarsdóttur
Samkvæmt launakönnun VR 2006 eru karlar í fullu starfi með 22% hærri heildarlaun en konur. Að teknu tilliti til þátta sem áhrif geta haft á laun, svo sem vinnutíma, starfsaldurs og fleiri þátta, er munurinn 15%.
Karlar fá að jafnaði 15% hærri laun en konur í sömu eða sambærilegum störfum.
Eitt sinn vann ég hjá einkafyrirtæki sem borgaði mér 20 - 30 % lægri en laun karlanna sem unnu við hlið mér í samskonar starfi. Vegna reglna um launaleynd hafði ég ekki hugmynd um launamisréttið á þessum vinnustað. En ég vissi að ég var ekki ánægð með launin mín.
Þar sem ég er þolinmóð kona og vil frekar fara friðsamlega fram, reyndi ég um langa hríð að fá vinnuveitandann til að hækka launin mín með ýmsum aðferðum. Ég fór margar ferðir inn á teppi til forstjórans og skrifstofustjórans til að biðja um launahækkun - en án árangurs. Ég reyndi að sýna fram á með ýmsum rökum að starfsframlag mitt væri í raun meira virði en stjórnendur fyrirtækisins töldu.
Það bar ekki árangur.
Þá fór ég fór bónleiðina, sýndi fram á að ég þyrfti hærri laun til að geta lifað sómasamlegu lífi. Ekki gekk það betur.
Þar kom að því að ég missti þolinmæðina. Ég gekk á tvo karlkyns vinnufélaga mína og krafðist þess að vita hvaða þeir hefðu í laun. Annar þeirra, sá sem hafði unnið hjá fyrirtækinu í mörg ár, gaf í skyn upphæð sem var um 30 % hærri en ég fékk í launaumslagið. Hinn félagi minn hóf störf þremur mánuðum á undan mér. Launin hans voru um 20 % hærri en mín og þá var mér nóg boðið.
Ég óskaði eftir tafarlausum fundi með yfirmanninum þar sem ég skýrði frá þessari uppgötvun minni. Ég var svo reið að ég hótaði að kæra til Jafnréttisráðs (þó ég vissi að einkafyrirtækjum væri í sjálfsvald sett hvort það mismunaði fólki eftir kynferði) auk þess sem ég myndi hætta í starfi, strax.
Málaleitan minni var afar vel tekið og ég fékk 25 % launahækkun við næstu útborgun. Eftir þetta hef ég haft í huga ráðleggingar VR til kvenna um hvernig á að semja um laun. Ég sem eins og karlmaður. Það virkar!
Kristín er sölustjóri og skemmtir sér aldrei eins vel og í kosningabaráttu.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 4.3.2007 kl. 16:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
27.2.2007 | 00:07
Hring eftir hring....
eftir Sólveigu Arnarsdóttur
Ókey, þetta er vísbendingaspurning.
Spurt er um 12 mánaða tímabil í Íslandssögunni.
Ef svarað er rétt eftir fyrstu vísbendingu fást 3 stig, 2 fyrir næstu og eitt fyrir síðustu.
Um hvaða tímabil er spurt?
1. vísbending:
Íslendingar eignast alheimsfegurðardrottningu.
Íslendingar stunda hvalveiðar.
Launamunur kynjanna er um 15%.
Sykurmolar halda tónleika.
Vextir á Íslandi eru miklu mun hærri en í nágrannalöndunum.
Jón Páll Sigmarsson er mikið í umræðunni.
(3 stig)
2. vísbending:
Duran Duran skekur landann.
Stóriðja er stefna stjórnvalda.
Dagur Vonar er sýnt hjá Leikfélagi Reykjavíkur.
Karlkyns stjórnmálamenn tala opinberlega á niðurlægjandi hátt um konur.
Bubbi Mortens er kóngurinn.
Alvarlegur fjárhagsvandi steðjar að Kvennaathvarfinu í Reykjavík.
(2 stig)
3. vísbending:
Ár eru virkjaðar og náttúrperlum sökkt til að skapa orku fyrir stóriðju.
Hlutfall kvenna í nefndum á vegum Alþingis er skammarlega lágt.
Landslið Íslands stendur sig vel á alþjóðlegu stórmóti.
Forsætisráðherra og borgarstjóri eru karlmenn.
Eiríkur Hauksson keppir fyrir Íslands hönd í Eurovision.
Matarverð á Íslandi er stórkostlega mikið hærra en í viðmiðunarlöndunum.
Mikil umræða er um sifjaspell og ábyrgð dómstóla vegna kynferðisafbrotamála.
(1 stig)
Nú hafa glöggir keppendur kannski áttað sig á því að rétt svör eru tvö: nefnilega árin 1986/7 og 2006/7. Já, lítið hefur breyst og annað fer í hringi.
Það hefur löngum þótt fínt á Íslandi að taka staðfasta ákvörðun og kvika ekki frá henni.
No matter what.
Ákveða að finna rollu, hætta ekki fyrr en hún er fundin. ,,Heldur í feldinn, horfir í eldinn og hrærist ei.
Það sýnir karlmennsku og þor, dáð og djörfung að skipta ekki um skoðun þó aðstæður breytist. Hitt er túlkað sem hviklyndi, ábyrgðarleysi, lýðskrum..
Þess vegna þykir sá stjórnmálamaður sem lætur ekki reikular skoðanir þjóðarinnar hafa áhrif á sig, góður stjórnmálamaður. Stendur á sínu, stendur með sér, stendur á sama.
Hinsvegar á ekki að vera á þann stjórmálamann treystandi sem hlustar á sína þjóð, treystir henni og metur.
Sem bregst við breyttu andrúmi, viðurkennir mistök, bætir um betur.
Slíkt er náttúrlega ólíðandi í lýðræðisríki!
Ha?
Það að sagan endurtaki sig er ekkert náttúrulögmál, ekki óhagganleg staðreynd sem við verðum að sætta okkur við. Við getum breytt, viljum breyta, eigum að breyta.
Ekki nema við viljum bara fara hring eftir hring eftir hring...
Sólveig Arnarsdóttir er leikkona, meðlimur í Framtíðarlandinu og skipar 9. sætið á lista Samfylkingarinnar í Reykjavík norður. Hún á einnig glæstan feril að baki í þýskum sápuóperum.
26.2.2007 | 00:02
Hneyksli á Alþingi - gamaldags viðhorf
eftir Katrínu Júlíusdóttur
Margir virðast telja að fólk verði feministar eða kvenfrelsissinnar með því að segjast vera það. Sama fólk sýnir það alls ekki í verki. Samþykkt eru plögg og lög sem ekki er farið eftir. Á hinu háa Alþingi hefur verið samþykkt jafnréttisáætlun fyrir ráðneytin þar sem þeim er gert að gæta jafnvægis milli kynja í öllum nefndum og ráðum á þeirra vegum.
Eftir þessu er ekki farið það kom glögglega í ljós í svari forsætisráðherra við fyrirspurn sem ég lagði fram um kynjaskiptingu í nefndum á vegum ráðuneytanna.
Ég spurði hvernig kynjaskipting væri við skipan í nefndir og ráð hjá ráðuneytunum frá nóvember 2004 til febrúar 2006.
Niðurstaðan var hláleg hneyksli.
Forsætisráðuneytið 68% karlar og 32% konur
Fjármálaráðuneytið 69% karlar og 31% konur
Iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið 77% karlar og 23% konur þó var því ráðuneyti stýrt af konu á tímabilinu...
Sjávarútvegsráðuneytið 80% karlar og 20% konur
Samgönguráðuneytið 81% karlar og 19% konur
En ekkert slær þó Landbúnaðarráðuneytinu við 88% karlar og 12% konur
Margar nefndir voru einungis skipaðar körlum, eins og nefnd á vegum forsætisráðuneytisins um endurskoðun örorkumats og endurhæfingu.
Í hana skipaði Halldór Ásgrímsson 10 karla.
10 karla? Og enga konu! Kemur örorkumat og endurhæfing konum ekki við? Ég hefði nú haldið það. Sama á við um marga aðra málaflokka þar sem konum er beinlínis haldið frá.
Gamaldags viðhorf og karllægur hugsanaháttur vaða uppi á Alþingi og ég rekst á það aftur og aftur í mínum störfum að menn taka jafnréttismálin ekki alvarlega.
Þess vegna verðum við að koma þessari ríkisstjórn frá.
Katrín Júlíusdóttir situr á þingi fyrir Samfylkinguna og er dauðþreytt á gamaldags viðhorfum sem lifa góðu lífi á Alþingi.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 08:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
25.2.2007 | 14:20
Málefnalegur ágreiningur
eftir Elfi Logadóttur
Það er ekki flókið mál að rífast. Það er eiginlega óþægilega einfalt mál. Maður er ósammála öðrum einstaklingi og tekur að rökræða við hann. Oftast reiðist annar aðillinn hinum fyrir að vera ósammála og við það tilefni nálgast annar rökþrot og grípur oftar en ekki til persónulegra ávirðinga eða órökstuddra fullyrðinga. Sumir ganga svo langt að kasta fram algjörlega óraunhæfum fullyrðingum með risastórum lýsingarorðum til þess að taka niður manneskjuna með valdi, úr því ekki tókst að taka hana niður með rökum.
Það er hins vegar miklu flóknara mál að rökræða andstæðar skoðanir með málefnalegum hætti. Að vinna rökræðu á grundvelli málefna, án þess að grípa til útúrsnúninga, rökvilla eða persónulegra neðanbeltisskota, krefst aga og yfirvegunar.
En málefnalegur og ómálefnalegur ágreiningur á það þó oftast sammerkt að andstæðingnum verður ekki snúið - rökræðan verður ekki unnin. Í mesta lagi verður fólk sammála um að vera ósammála.
En hvers vegna er þá rökrætt, ef gagnaðilanum verður ekki snúið? Getur það verið að við rökræðum og jafnvel rífumst til þess að sannfæra einhvern annan en gagnaðilann? Eða getur verið að rifrildið snúist um völd? Um viljann til að vinna?
Ég hugsa að flestar þær rökræður sem fara fram á opinberum vettvangi, málefnalegar eða ómálefnalegar, eru gerðar til þess að snúa þriðja aðila. Einkum og sérílagi pólitískar rökræður.
Ég stóð upp um daginn og varði sjónarmiðið ,,Ingibjörg Sólrún er ekki vindhani". Ég varði sjónarmiðið af því ég trúi því raunverulega að hún sé öflugur stjórnmálaleiðtogi og að fullyrðingar pólitískra andstæðinga formannsins séu fyrst og fremst pólitískt skak settar fram til að taka niður manneskjuna með valdi, úr því ekki hafði tekist að taka hana niður með rökum.
Ég varði sjónarmiðið vitandi að ég myndi ekki snúa gagnaðilanum í rökræðunni. Ég varði það af því ég taldi það rétt og ég taldi mikilvægt að rökræðan færi fram - að túlkunum hægri manna yrði mótmælt á þeim vettvangi sem til þeirra var stofnað.
Hvaða sjónarmið hefur þú varið nýlega?
Elfur er lögfræðingur og viðskiptafræðingur í framhaldsnámi í upplýsingar- og samskiptatæknilögum við Háskólann í Osló.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
23.2.2007 | 15:05
Hvað ef....
eftir Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur
...ég hefði ekki orðið þeirrar gæfu aðnjótandi að eiga þátt í stofnun Kvennaframboðs í Reykjavík fyrir 25 árum? Ég get eiginlega ekki hugsað þá hugsun til enda slíkur örlagavaldur var Kvennaframboðið í mínu lífi.
Þar mótaðist feminísk sýn mín á samfélagið sem hefur fylgt mér allar götur síðan; þar lærði ég að hugsa sjálfstætt og fylgja eigin sannfæringu; þar losnaði ég undan pólitísku skilgreiningavaldi vinstri sinnaðra karla; þar lærði ég að meta mitt eigið kyn að verðleikum; þar skynjaði ég til fulls reynslu og þekkingu kvenna; þar kynntist ég öllum þeim frábæru konum sem ég hef síðan átt samleið með.
Konum sem voru tilbúnar til að þrasa um viðtekna hluti. Allt sem ég hef tekið mér fyrir hendur í stjórnmálunum hefur mótast af fyrstu skrefunum sem ég steig með Kvennaframboðinu og síðar Kvennalistanum.
Á kosningahátíð Kvennaframboðsins í Laugardalshöll vorið 1982 stóð ég á sviðinu, nýgræðingur í stjórnmálum í blómóttum kjól og sagði að þátttakan í Kvennaframboðinu hefði verið stærsta ævintýr lífs míns. Ég var ekki nema 27 ára en ég hafði mjög sterka tilfinningu fyrir því að ég væri að upplifa eitthvað einstakt einhvers konar straumhvörf - og ekkert yrði eins og það áður var. Breytingin lá í loftinu, það var næstum hægt að þreifa á henni. Þrátt fyrir allt sem hefur á daga mína drifið síðan þá er þetta ennþá stærsta ævintýrið.
Kvennaframboðið og síðar Kvennalistinn mörkuðu tímamót í íslenskum stjórnmálum. Nú varð ekki lengur undan því vikist að taka mark á konum, hlusta eftir röddum þeirra og þörfum og gera hindranir, sem urðu á vegi þeirra á degi hverjum, að pólitísku úrlausnarefni.
Kosningahegðun kvenna breyttist og þær tóku í auknum mæli að kjósa konur, konum fjölgaði í öruggum sætum á framboðslistum, leikskólar, launajafnrétti og fæðingarorlof urðu stefnuskrármál flokkanna. Það hefur náðst mikill árangur en samt er enn langt í land raunverulegs jafnréttis.
Konur og karlar eru ekki eins. Ef þau væru það þá þyrfti ekki að berjast fyrir jafnrétti. Jafnrétti snýst um að leggja að jöfnu, meta einstaklingana á eigin forsendum en leggja ekki á þá mælistiku smíðaða úr aldagömlum, menningarbundnum fordómum.
En þarna liggur hundurinn einmitt grafinn. Mörgum sýnilegum hindrunum hefur verið rutt úr vegi jafnréttis en við erum enn í viðjum menningarbundins arfs sem er konum óhagstæður. Þessi arfur birtist í því gildismati og þeim leikreglum sem ríkja í atvinnulífi og stjórnmálum.
Þegar við veljum konur sem fulltrúa á þjóðþingum, í ríkisstjórn eða í öðrum valdastofnunum samfélagsins þá sendum við þær inn í umhverfi sem er mótað af körlum fyrir karla. Í þessu kerfi lenda þær gjarnan í mikilli togstreitu. Þær halda fram hugmyndum og gildum sem skipta kynsystur þeirra miklu, í umhverfi sem stjórnast af öðrum gildum og byggist á annars konar hefðum en þeirra eigin.
Sendiboðarnir okkar verða að sætta tvo ólíka heima og þóknast báðum. Þær verða að halda í sjálfar sig en aðlagast um leið. Þær verða að standast körlunum snúning án þess þó að kasta kvenhlutverkinu fyrir róða.
Við þessu er bara eitt ráð og það er að fjölga konum í öllum valdastofnunum samfélagsins. Við þurfum að vera margar. Þó að ein og ein kona rati inn í raðir stjórmálamanna eða embættismanna verður engin kerfisbreyting. Ein kona, hversu velviljug og dugleg sem hún er breytir ekki eins og hendi sé veifað stórvirku karlakerfi sem byggir á áratugahefð.
Við þurfum að verða fleiri. Reynsla mín m.a. sem borgarstjóri hefur kennt mér að það skiptir höfuðmáli að fjölga konum hvarvetna þar sem mikilvæg mál eru til lykta leidd. Þannig næst fram viðhorfsbreyting í stjórnkerfinu sem mun skila bæði konum og körlum miklum ávinningi.
Ingibjörg Sólrún er formaður Samfylkingarinnar.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
23.2.2007 | 00:01
Kvennahreyfingin og stjórnarskráin
eftir Kristrúnu Heimisdóttur
Ég var að ljúka störfum í stjórnarskrárnefnd - að sinni. Þar var ég önnur tveggja kvenna, hin var Jónína Bjartmarz. Þegar nefndin hóf störf átti Ingibjörg Sólrún sæti í henni og þær tvær voru fyrstu konurnar til að taka sæti í nefnd um stjórnarskrármálefni í sögu landsins.
Það er sláandi staðreynd.
Eftir tvö ár og 26 fundi er stjórnarskrárnefnd að skila áfangaskýrslu og einni tillögu; allar breytingar að stjórnarskránni skal bera undir þjóðaratkvæði.
Nú ríður á að allir sameinist um að heildarendurskoðun fari fram sem allra fyrst eftir kosningar því stjórnarskráin er að mörgu leyti úrelt.
Kvennahreyfingar landsins stilltu saman strengi sína og komu fram með frábærlega vel unnar tillögur sem Samfylkingin tók hjartanlega undir í nefndinni. Því miður fengu þær ekki mikinn tíma í dagskrá nefndarinnar. Og því miður höfðum við ekki dagskrárvaldið.
Það var mergjaður samhljómur með tillögum kvennahreyfingarinnar og því sem framtíðarhópur Samfylkingar um lýðræði og jafnrétti skilaði af sér. Þar var lögð ofuráhersla á að koma jafnréttismálum í framkvæmd - með róttækum breytingum, fagmennsku og fjármagni.
Það er hægt að minnka kynbundinn launamun, fjölga konum í stjórnunarstöðum og efla jafnrétti á öllum sviðum: Það sannaði Reykjavíkurlistinn eftirminnilega.
Kvennahreyfingin lagði til að við 2. málsgrein 65. greinar stjórnarskrárinnar yrði bætt setningu um athafnaskyldur stjórnvalda til að afnema misrétti og tryggja jafnrétti kynjanna - ábyrgjast jafnrétti í reynd.
Þetta er lykilatriði til að styrkja framkvæmdir í jafnréttismálum.
Hin mikla hægristjórn sem hér hefur ráðið of lengi er á móti því að skylda stjórnvöld til að aðhafast. Það telur hún brjóta gegn frelsi. Þess vegna verða jafnréttismarkmið aldrei nema innantóm orð hjá þeim, engar aðgerðir fylgja kné fylgir ekki kviði.
Kvennahreyfingin lagði líka til að við 71. grein, sem fjallar um friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu, yrði bætt setningu sem kveður á um að ,,allir skuli njóta mannhelgi og verndar gegn ofbeldi á opinberum vettvangi sem og í einkalífi og að allir skuli njóta líkamlegs sjálfsforræðis".
Mannréttindahugtakið hefur í íslenskri lagahefð fyrst og fremst tengst vernd eignarréttinda og annarra borgaralegra réttinda - en mannhelgi og forræði kvenna yfir líkama sínum hefur notið mun veikari lagaverndar. Þetta náðist ekki í gegn, því miður.
Vinnu sameinaðrar kvennahreyfingar leiddu Birna Þórarinsdóttir (UNIFEM), Drífa Snædal (Kvennaathvarfi), Elsa Þorkelsdóttir (lögfræðingur) og fleiri konur sem sóttu í smiðju stjórnarskrárbreytinga í Finnlandi, Grikklandi, Þýskalandi, Suður-Afríku, Kólumbíu og Brasilíu.
Það munar öllu þegar svo faglega er að málum staðið. Við megum nefnilega ekki við vanhugsuðum tillögum að nýjum lagabókstaf.
Óframkvæmanleg lög spilla fyrir góðum málstað.
Fögrum fyrirheitum í lögum verður að fylgja vilji og kunnátta til
framkvæmda. Það höfum við lært af misheppnuðum jafnréttislögum fyrri ára á Íslandi. Við höfum verk að vinna í vor.
Kristrún Heimisdóttir er lögfræðingur og var einn af hópstjórum Framtíðarhóps Samfylkingarinnar - www.framtid.is. Hún býr beint á móti ísbúðinni á Hjarðarhaga.
ATHUGASEMD: Sigríður Dúna var í stjórnarskrárnefnd fyrir Kvennalistann 1985-1992, það láðist að geta þess í pistilinum - Kveðja, Kristrún HeimisdóttirStjórnmál og samfélag | Breytt 25.2.2007 kl. 14:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
22.2.2007 | 14:14
Til hamingju Ísland
Radisson SAS hótelið í Reykjavík hefur nú ákveðið að synja gestum á ráðstefnu netklámsframleiðenda, Snowgathering 2007, um gistingu. Því neyðast skipuleggjendur til að hætta við að halda ráðstefnuna á Íslandi.
Borgarstjórn sendi frá sér þverpólitísk skilaboð á þriðjudaginn og málið hefur verið tekið upp á alþingi.
Ótrúleg skilaboð frá lítilli höfuðborg - með stórt hjarta og mikinn metnað.
Þetta er landkynning sem bragð er að.
Ritnefnd Trúnó
Hætt við klámráðstefnu hér á landi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (19)
22.2.2007 | 01:07
Hvað ef?
Guðbjörg Linda Rafnsdóttir er næstsíðust í röð pistlahöfunda sem Trúnó fékk til að líta um öxl og ímynda sér hvernig veröldin væri ef Kvennaframboðskonur hefðu haldið um stjórnartaumana síðastliðin 25 ár. Við hvetjum alla til að kynna sér hina pistlana sem allir bera titilinn Hvað ef? Ingibjörg Sólrún Gísladóttir er pistlahöfundur morgundagsins og í pistli sínum rifjar hún upp örlagaríka stund í Laugardagshöll fyrir 25 árum.
Annars minnir Trúnó á ársþing Kvennahreyfingar Samfylkingarinnar sem verður á laugardaginn og opinn baráttufundur að því loknu fyrir konur og karla. Koma svo!
eftir Guðbjörgu Lindu Rafnsdóttur
Hvað ef...
Ef Kvennalistinn hefði verið við völd síðastliðin 25 ár væri margt öðruvísi og betra í dag en nú er. Ekki einungis vegna þess að Kvennalistakonur hefðu tekið betri ákvarðanir en þeir sem hafa setið stjórnarheimilið þessi ár. Heldur og vegna þess að það bæri vott um að samlandar mínir væru víðsýnni en þeir eru nú.
Ef Kvennalistinn hefði verið við völd síðastliðin 25 ár þá
hefðum við ekki haft forsætisráðherra heldur forsætisráðynju
hefðum við ekki forsætisráðherra sem talar um konur eins og leigubíla sem maður fer með heim af böllum
hefðum við fleiri konur og réttsýnni karla í Hæstarétti og réttari dóma í kynferðisafbrotamálum
væri búið að leggja bann við því að opinberir starfsmenn geti notað dagpeninga á ferðalögum til að kaupa klám og vændi
hefði karlstjórnandinn sem ég hlustaði á um daginn ekki gert grín að konunni sem hafði verið í fyrirtækinu frá upphafi (sýndi hvað hún var orðin gömul) en talað af lotningu um þá karlmenn sem höfðu starfað jafn lengi (sýndi hvað þeir voru orðnir miklir reynsluboltar)
hefði stráknum sem valt niður tröppurnar á þríhjólinu sínu ekki verið sagt að hætta að grenja eins og smástelpa
þætti strákum ekki asnalegt að hjóla á stelpuhjóli en stelpum upphefð í að hjóla á strákahjóli
fengju karlmenn sem vinna á leikskólum ekki þau skilaboð að eitthvað sé að hjá þeim ef þeir líti ekki á starfið eingöngu sem biðstöð í leit að karlmannlegri vinnu
hefði kvenkyns háskólakennari ekki sagt í viðtali nýverið að hún ætlaði ekki að bjóða nemendum upp á að horfa á sig sem gamlan krumpaðan kennara og láta því af störfum áður en hún verður of gömul
væri ekki hrópað að litlum drengjum sem standa sig illa á íþróttavellinum kerlingar!
Já ef Kvennalistinn hefði verið við völd síðastliðin 25 ár, þá væri það tákn um að bleikt hefði sömu virðingu og blátt og að konur og karlar stæðu jafnfætis á eyjunni fögru í Atlantshafinu.
Guðbjörg Linda sem er alltaf kölluð Linda er dósent í félagsfræði við Háskóla Íslands
21.2.2007 | 17:42
Er kennarastéttin kvenlægari en gott þykir?
eftir Söru Dögg Jónsdóttur
Getur verið að kennarastéttin sé of kvenlæg? Getur verið að ástæðan fyrir því að ekki næst að semja við kennarastéttina sé að meirihluti stéttarinnar eru kennslukonur?
Getur verið að ekki sé tekið mark á kröfum kvenna sem hafa yfirtekið stétt sem áður var karlastétt?
Getur verið að laun kennara hafi verið á við laun þingmanna vegna þess að þá var stéttin samansett af kennslukörlum? Getur verið að laun kennara hafi dregist aftur úr vegna stöðu kvenna yfirleitt? Getur verið að laun kennara séu eins og þau eru vegna þess að konur hafa lægri laun en karlar?
Getur verið að launabaráttu kennarastéttarinnar þurfi að skilgreina sem hluta af jafnréttisbaráttunni?
Það fara um mig ónot þegar ég velti þessum spurningum upp, ekki vegna þess að ég skammist mín fyrir að tilheyra stéttinni eða vegna þess að ég er kennslukona.
Nei, hreint ekki. Það sem pirrar mig mest er að þetta er ekki svo ólíklegt. Það er bara full ástæða til þess að velta sjónarmiðum sem þessum upp. Kennarastéttina, kennaramenntunina og skólasamfélagið allt þarf að fara skoða með kynjagleraugum. Umræðan þarf að fara fram og verða sýnileg.
Rýnum í þá heildarmynd sem skólasamfélag er. Ég minnist þess ekki að hafa heyrt mikið um jafnréttissjónarmið meðal kennarastéttarinnar.
Hvar er sú umræða? Þykir hún virkilega ekki skipta neina máli fyrir gott skólasamfélag þar sem markmiðið er einstaklingsmiðað nám?
Hver hefur velt því fyrir sér hvort ein breytan sem þurfi að huga að varðandi áhrifavalda á framvindu náms sé einmitt kynferði?
Getur verið að ástæða sé til þess að kippa skólasamfélaginu inn í jafnréttisbaráttuna af fullum þunga?
Sara Dögg er frábær kennari og er einingarstjóri við Barnaskóla Hjallatstefnunnar í Hafnarfirði.
Pæling dagsins
- Kvennaþing í Hveragerði 11.-12. apríl. Stjórnmálaumræður með femínískum jafnaðarkonum. Ball með ROKKSLÆÐUNNI um kvöldið. Ertu búin að skrá þig?
Nota bene
Bloggandi konur
Anna Kristjáns
Arndís Anna
Arndís Steinþórs
Ása Richards
Ásta R. Jóhannesdóttir
Björk Vilhelmsdóttir
Bryndís Ísfold
Edda Agnarsdóttir
Beta Ronalds
Erla Sigurðardóttir
Eva Bjarna
Guðríður Arnardóttir
Dagbjört Hákonard
Helga Vala
Ingibjörg Stefáns
Jóhanna
Katrín Anna
Katrín Júlíusdóttir
Lára Stefánsdóttir
Magga Stína
Oddný Sturludóttir
Ólína Þorvarðardóttir
Rósa Erlings
Sonja B Jónsdóttir
Steinunn Valdís
Svanfríður Jónasdóttir
Þorgerður Diðriks
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 3
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 3
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar