Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
20.2.2007 | 23:29
Hvað ef?
Trúnó er í nostalgíustuði þessa vikuna og hefur birt pistla eftir konur sem stóðu fremstar í fylkingu Kvennaframboðsins sögufræga. Nú um mundir eru 25 ára síðan pilsaþyturinn hertók sali borgarstjórnar og konur breyttu stjórnmálunum. Helga Thorberg er næst og í hennar pistli koma við sögu pilsklæddir strætisvagnar og stjörnusjúkraliðar.
eftir Helgu Thorberg
Hvað ef...
Já, stelpur, hvað ef ?
Hvað ef við hefðum fengið að ráða borgarmálunum, segjum síðustu 25 árin, hvernig væri lífið og tilveran þá? Hvernig væri að eiga heima í borg þar sem hugmyndir kvenna lægju til grundvallar öllu borgarskipulagi?
Götur, byggingar, stofnanir, allt samfélagið skipulagt út frá gildismati og þörfum kvenna. Allt framlag kvenna til samfélagsins yrði gert hæst undir höfði og verðmætustu störfin í samfélaginu væru umönnunar- og uppeldisstörf.
Hæstu launin væru greidd til leikskólakennara, grunnskólakennara, hjúkrunarkvenna og sjúkraliða. Fjölmiðlar kepptust við að flytja okkur fréttir af þeim sem vinna þessi störf, þessir starfshópar væru stjörnur samfélagsins.
Matráðskonur í leikskólum og skólum borgarinnar kepptust við að búa til holla rétti fyrir börn og æsku landsins. Áherslan væri á velferð ungra sem gamalla.
Á vinnustöðum væri tekið tillit til fjölskyldunnar, börn gætu fylgt foreldrum í vinnuna og þar væri einnig rými fyrir eldri kynslóðina. Almenningssamgöngur væru gerðar að raunhæfum valkosti og því teknar framyfir einkabíla.
Grænir reitir um alla borg með gróðri og fallegum blómum. Konum væri sýnd virðing í samfélaginu og klám fengi ekki að þrífast. Í sögubókum væru frásagir af vinnu og störfum kvenna gerð góð skil og söfn og styttur þeim tileinkaðar um alla borg.
Hátíðarhöld í minningu kvenna væru daglegur viðburður og afmæli Kvennaframboðsins minnst með þjóðhátíð á hverju ári !
En ef ég hefði fengið völdin þá væru götur Reykjavíkurborgar lagðar bleiku malbiki, strætó gengi í pilsi og ljósastaurar væru með hatta.
Helga Thorberg rekur æðisgengna blómabúð sem heitir Blómálfurinn. Hún á sér þann draum að grilla karlrembusvínið þegar sól tekur að hækka á lofti.
20.2.2007 | 12:19
Loksins loksins... Trúnó komið í Staksteinaklúbbinn!
Fjölmiðlavakt Trúnó kryfur íslenskt samfélag til mergjar. Staksteinar eru fyrstir á dagskrá.
Það var með skjálfandi höndum að ritnefnd Trúnó fletti Morgunblaðinu í dag. Það eru margir dagar síðan bloggsíða kennd við femíníska jafnaðarstefnu fór í loftið og enn ekki orð EKKI STAKT ORÐ! Í dag dró til tíðinda. Í dag er góður dagur því Staksteinar hafa blessað Trúnó með málefnalegri og vandaðri umfjöllun um pistil gærdagsins. Eins og þeim einum er lagið. Yes.
Sumar konur geta þó ekki kvartað yfir sinnuleysi Staksteina. Sumar konur hreinlega vaða uppi í Staksteinum og fá alltaf umfjöllun, eins og eftir pöntun! Ótrúlegt að fylgjast með því hvað Ingibjörg Sólrún hefur til dæmis oft fengið tækifæri hjá Staksteinum - það mætti halda að Staksteinar væru með Sollu á heilanum.
Til að komast til botns í málinu settist ritnefnd Trúnó niður og skoðaði alla Staksteina frá 22. júní 2005 16. júní 2006, vóg og mat, spekúleraði og analýseraði alla mögulega kanta hinna alræmdu steina. Og jú, Staksteinar have a thing for Solla... Hér er brot af því besta frá 2005-2006:
Ingibjörg Sólrún er dómgreindarlaus
Ingibjörg Sólrún er á móti konum (einmitt það já...)
Ingibjörg Sólrún er vinstrimaður (Nú? Í alvöru talað?)
Ingibjörg Sólrún grefur undan trausti milli samfélagshópa (vá, hún getur allt hún Solla!)
Ingibjörg Sólrún er loðin/óskýr (Og Staksteinar tala nefnilega ALDREI undir rós)
Ingibjörg Sólrún styður ekki konur (Halló, hatar hún ekki konur líka?)
Ingibjörg Sólrún styður íslenska auðhringi (bíddu... hvað með dótturfélagið...?)
Ingibjörgu Sólrúnu skortir þekkingu á sögu verkalýðsstéttarinnar (samt er hún sagnfræðingur...?)
Ingibjörg Sólrún skilar ekki árangri (þetta er gasalega ómöguleg kona)
Ingibjörg Sólrún er orsök fylgistaps Samfylkingar (já, já, við höfum heyrt þennan áður)
Ingibjörg Sólrún er ekki á miðjunni
Ingibjörg Sólrún er hrokafull (það er nú eitthvað annað en hann Davíð okkar Oddsson....)
Ingibjörg Sólrún ætlar í stjórn með Framsókn (Nú?)
Ingibjörg Sólrún ætlar í stjórn með Vinstri grænum (Bíddu, megum við kjósa fyrst?)
Ingibjörg Sólrún er sér ósamkvæm
Ingibjörg Sólrún er öfundssjúk (Nei, Trúnó er öfundssjúkt því við erum alltof sjaldan í Staksteinum.)
Næstu daga og vikur munum við halda áfram að analýsera Staksteina enda unaðsleg yndislesning hér á ferð. Fylgist spennt með Trúnó þar sem Staksteinar eru krufðir til mergjar.
Ritnefnd Trúnó líður vel þessa dagana enda með öll spil á hendi sér.
19.2.2007 | 23:23
Hvað ef?
Trúnó heldur áfram að fagna því að um þessar mundir eru 25 ár síðan hið alræmda Kvennaframboð bauð fyrst fram. Nú ætlar leikstjórinn Þórhildur Þorleifsdóttir að líta um öxl og ímynda sér hvernig samfélagið væri ef allir villtustu draumar Kvennaframboðsins hefðu ræst.
Hvað ef .
eftir Þórhildi Þorleifsdóttur
Kvennaframboðið bauð fram 1982 og vann Reykjavík. Sama gerðist á Akureyri. Það er skemmst frá því að segja að konum tókst svo vel upp að borgarbúar réðu sér ekki fyrir kæti. Landsmenn allir vildu taka þátt í gleðinni og sáu því til þess að ári seinna náði Kvennalistinn hreinum meirihluta á Alþingi.
Þar með gat ríki og borg gengið hönd í hönd í gegnumfærðri kvenfrelsisstefnu og fljótlega áttuðu jafnvel hatrömmustu andstæðingar sig á því að hún færði öllum verðmæti, sem enginn gæti núna hugsað sér að vera án.
Fjölskyldu- og umhverfisvæn stefna, aldnir leika við hvurn sinn fingur, menntun og menning í öndvegi og í sífelldri endurskoðun og þróun, lýðræði sem byggir á virkri þátttöku allra sem er ekkert mál núna þegar vinnutíminn hefur verið styttur og fólk sérstaklega konur er ekki að drepast úr þreytu, streitu og samviskubiti.
Blómstrandi atvinnulíf, enda valkostirnir svo margir og spennandi eftir að stóriðjustefnan var lögð á hilluna og byggt fyrst og fremst á menntun og hugviti. En óþarfi að fjölyrða þessa sögu þekkja allir núna.
Það eina sem skyggir á er að sumir karlmenn eru óánægðir með kvótana. Þeir óttast að kyn ráði frekar en hæfni og verðleikar þegar þeir taka sæti á listum, í stjórnum eða fá spennandi störf, sérstaklega stjórnunarstörf.
Þetta er erfitt við að eiga, en sannleikurinn er sá að flestir kjósa konur, bæði í prófkjörum og í almennum kosningum. Konur treysta einfaldlega konum betur og nú er svo komið að meirihluti karla gerir það líka.
Því eru kvótar eina tækið sem tiltækt er til að halda því lýðræðislega jafnvægi sem sjálfsagt er og eðlilegt. En það er líka talsverður hópur karla sem vill ganga lengra og berst fyrir tímakvóta á ráðherraembætti, sem er reyndar í anda kvenfrelsis.
Því er það eina sjáanlega ógnunin við kosningu Ingibjargar Sólrúnar í forsætisráðskonuembættið í vor að karlmenn taki sig saman og sjái til þess með atkvæði sínu að karlforsætisráðherra nái kjöri eftir óslitna röð kvenforsætisráðskvenna síðastliðin 24 ár.
Þórhildur er löngu orðin lifandi goðsögn. Og óræk sönnun þess að konur verða róttækari með aldrinum.
19.2.2007 | 18:49
Hræsni íslenskra stjórnvalda
eftir Bryndísi Nielsen
Umræða síðustu daga um væntanlega klámráðstefnu í Reykjavík í mars hefur vakið marga til umhugsunar.
Afstaða Geirs H. Haarde, forsætisráðherra, er til að mynda mjög undarleg, en hann telur varla tilefni til að hefta för framleiðenda netklámefnis nema ljóst sé að fólkið hyggist stunda ólöglegt athæfi hér á landi.
Í fyrsta lagi er nokkuð ljóst að fólkið hyggist stunda ólöglegt athæfi hér á landi. Þarna er um viðskiptaráðstefnu að ræða, í viðskiptum sem ólögleg teljast á Íslandi. Þetta er auglýst á heimasíðu ráðstefnunnar. Flóknara er það nú ekki.
Í öðru lagi virtist það ekkert mál fyrir íslensk stjórnvöld að hefta för Vítisengla til landsins þegar þeir ætluðu að fjölmenna og eignast vini hér. Þó voru engar sannanir fyrir væntanlegum glæpum þeirra... að minnsta kosti opnuðu þeir ekki heimasíðu og auglýstu athæfið.
Né heldur var það tiltökumál að banna hinum blásaklausu og friðsælu Falun Gong liðum að koma til landsins.
Have a one night stand in Iceland... please enjoy your dirty weekend.
Sumsé, ef þú vilt berjast fyrir mannréttindum með friðsælum mótmælum er sjálfsagt mál að hefta för þína til landsins. En ef þú ætlar að halda viðskiptaráðstefnu með framleiðendum klámefnis (en framleiðsla klámefnis er ólögleg), tja, vertu velkomin/n!
Þetta mál hefur opinberað blákalt fyrir þjóðinni hver afstaða stjórnarinnar er til klámvæðingarinnar, sem í buxnafaldi sér felur mansal, kvenfyrirlitningu, vændi og barnaklám.
Er ekki kominn tími til að breyta til?
Bryndís Nielsen er kynningafulltrúi Íslenska dansflokksins og hefur ekkert að fela í sínum buxnafaldi
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
19.2.2007 | 00:10
Hvað ef?
Ekki missa af trúnó næstu dagana. Þórhildur Þorleifsdóttir, Ingibjörg Sólrún og Helga Thorberg munu hleypa ímyndaraflinu á flug og spá í hvað ef...
Fyrsti pistillinn er í boði Kristínar Ástgeirsdóttur, forstöðukonu Rannsóknarstofu í kvenna- og kynjafræðum við Háskóla Íslands.
Hvað ef?
eftir Kristínu Ástgeirsdóttur
Ef Kvennaframboðið hefði komist til valda árið 1982 liti borgin okkar öðruvísi út. Reykjavík væri kvenna-, barna-, umhverfis- og menningarborg Evrópu. Reykjavík væri borg fyrir fólk en ekki bíla. Ráðhúsið hefði aldrei verið byggt ofan í Tjörninni. Fjalakötturinn stæði á sínum stað í Grjótaþorpinu sem elsti varðveitti bíósalur Evrópu.
Gömul hús hefðu fengið að vera á sínum stað og Kvosin hefði endurheimt svip sögunnar. Tónlistarhúsið væri löngu komið í notkun.
Almenningssamgöngur væru öflugar og ókeypis í strætó, löngu búið að banna nagladekk og draga verulega úr notkun einkabíla. Notað væri umhverfisvænt eldsneyti. Um borgina væri net göngu- og hjólastíga og flugvöllurinn væri að sjálfsögðu löngu farinn. Vatnasvæði Tjarnarinnar væri verndað og ekki þrengt að einstöku fuglalífi hennar.
Hverfi væru skipulögð þannig að öll þjónusta væri í nágrenninu, verslanir, félagsmiðstöðvar fyrir alla, skólar og leikskólar. Fólk þyrfti ekki sífellt að aka langar leiðir. Löngu væri búið að eyða öllum launamun kynjanna og stytta vinnudaginn niður í sex stundir, einnig barna.
Hlutur kvenna og karla væri jafn í nefndum og ráðum, sem og stjórnunarstöðum enda kynjakvótar virtir. Íbúar gætu lagt tillögur beint fyrir borgarstjórn og almennar atkvæðagreiðslu með tölvum væru daglegt brauð. Íbúalýðræði væri virkt með hverfa- og ráðgjafanefndum ákveðinna hópa, aldraðra, barna, fatlaðra og innflytjenda.
Allar tillögur og aðgerðir væru metnar út frá jafnréttis- og umhverfissjónarmiðum áður en þær væru afgreiddar. Borgin væri hrein og snyrtileg og löngu búið að gera stórátak í uppeldi borgaranna hvað varðar flöskubrot, tyggjóslettur og eyðileggingu á eigum borgarinnar og borgaranna.
Stórlega hefði dregið úr ofbeldi og eiturlyfjum, bæði á götum úti og í heimahúsum. Kynbundið ofbeldi á konum og börnum væri ekki liðið og börn vernduð. Rekin væri öflug meðferð fyrir ofbeldismenn og öryggi kvenna og barna tryggt utan sem innan dyra.
Stórlega hefði dregið úr félagslegri aðstoð vegna markvissrar sí- og endurmenntunar, ókeypis sálfræðiaðstoðar og atvinnu við hæfi. Það væri gott að búa í Reykjavík Kvennaframboðsins.
Kristín er ein af fjölmörgum Kristínum sem stóðu að Kvennaframboði og síðar Kvennalista. Hún stendur fyrir frábærum fyrirlestrum á vegum RIKK í hverjum mánuði - tékkið á http://www.rikk.hi.is/
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
17.2.2007 | 22:59
Fjögurra - að verða fimm ára drengur
eftir Önnu Láru Steindal
Síðustu daga hefur flensuskítur herjað á fjölskylduna og af þeim ástæðum hef ég haft kærkomið tækifæri til þess að vera heima með sonum mínum í ríkari mæli en venjulega. Við höfum notað þetta tækifæri vel. Hið brýna verkefni sem jafnréttisbaráttan er, bar auðvitað á góma meðan við sátum og perluðum eða lásum blöðin á morgnanna. Sérstaklega höfum við átt um þetta innihaldsríkar samræður ég og eldri sonur minn sem er fjögurra - að verða fimm ára gamall.
Það kom mér því nokkuð á óvart og olli mér satt að segja vonbrigðum hver sýn hans var á ýmis grundvallaratriði þegar við settumst niður og ræddum málin í hjartans einlægni. Eftir fréttatíma eitthvert kvöldið lét hann þau orð falla að ,,kallar væru flinkari í pólitík en konur.
Ég varð auðvitað klumsa og spurði hvers vegna í ósköpunum hann teldi svo vera. Þá stóð ekki á svari: ,,Af því ég hef séð það í sjónvarpinu! Sennilega hefur hann fundið á mér hvað ég var vonsvikin því á eftir reyndi hann að milda dóminn með því að segja að ég væri nú samt flinkust í pólitík á Akranesi og Ingibjörg Sólrún væri að sjálfsögðu best af þeim sem væru alltaf í sjónvarpinu en engu að síður...
Hafi ég einhverntíma verið sannfærð um nauðsyn þess að konur verði sýnilegri á hinum pólitíska vettvangi var það eftir þetta komment sonar míns, fjögurra - að verða fimm ára.
Um daginn hélt þessi sonur minn því fram að ,,eiginlega ættu mömmur að vera heima hjá krökkunum þegar þeir eru veikir. Mér fannst þetta nú ekkert náttúrulögmál, sérstaklega ekki á heimili eins og okkar þar sem pabbinn hefur alla tíð tekið virkan þátt í öllu heimilisstússi og krafði hann nánari skýringa. Og ekki stóð á þeim: ,,Smábörn eru stundum svo miklir kjánar og gera alls konar rugl og gleypa pleymó-dót og kafna og pabbar taka bara ekki eftir svona hlutum!
Að mati fjögurra - að verða fimm ára sonar míns eru feður ekki nógu ábyrgir til þess að sjá um börnin sín einir og án íhlutunar mömmunnar.
Ég er enn miður mín yfir því að þrátt fyrir allt mitt ströggl til að lifa drauminn um jafnrétti með dyggri aðstoð mannsins míns, hefur fjögurra - að verða fimm ára sonur minn þessar hugmyndir.
Ég er sannfærð um að ef við ætlum að ná fram raunverulegu jafnrétti - verðum við að róa að því öllum árum að jafna ábyrgð foreldra. Kynin munu aldrei standa jöfnum fæti fyrr en feður fá að bera eins augljósa og sjálfsagða ábyrgð á börnum sínum og mæður þeirra.
Sonur minn dró saman í hnotskurn þann vanda sem við er að etja með fullyrðingum sínum: Við þurfum fleiri konur til pólitískra áhrifa og við þurfum að jafna ábyrgð foreldra.
Í framhaldinu getum við svo notað ráð drengsins til að koma á heimsfriði nefnilega að láta konur vera nr. 1 í öllum liðum (lesist flokkum) í öllum löndum. Hvers vegna? Að hans sögn leika stelpur sér aldrei með sverð eða byssur, þær fara aldrei í ,,gamnislag og stympast ekki heldur. Þær vilja frekar hugsa um dúkkur og lita og dansa og skoða bækur og vera góðar.
Konur myndu ekki nenna að fara í stríð eða rífast um smámuni og öllum liði betur í heiminum ef þær fengju að ráða.
Það er að minnsta kosti álit sonar míns, sem er fjögurra - að verða fimm ára gamall.
Anna Lára Steindal er verkefnisstjóri sjálfboðastarfs hjá Akranesdeild Rauðakrossins og fer aldrei í "gamnislag".
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
16.2.2007 | 15:40
Af klámsjúkdómum
Nú á aldeilis að púkka upp á ímynd Íslands - eina ferðina enn. Hingað á að flytja 150 manns sem ætla að styrkja viðskiptatengsl sín í klámbransanum og glæða vonir þeirra um framleiðsluaukningu og dreifingu á klámi. Á heimasíðu þessara aðila kemur fram að hér eigi að KLÁMVÆÐA ÍSLENSKA NÁTTÚRU OG NÆTURLÍF.
Stígamót hafa margbent á að engin skýr mörk eru á milli kláms, vændis og mansals. Klám er aðeins ljósmyndað vændi og skipulagt vændi er forsenda þess að mansal geti þrifist. En eftir stendur að allt er þetta ólöglegt samkvæmt íslenskum lögum. Það er óþarfi að hafa áhyggjur af skilgreiningunni á klámi; um hana sér hópurinn sjálfur.
Og lýsir því afdráttarlaust yfir að hér sé klám á ferðinni.
Gestir klámþingsins framleiða og dreifa klámi, sumu einstaklega ofbeldisfullu og öðru með grófar tilvísanir í barnaklám. Eitthvað er um að klámsjúkir séu hvattir til vændiskaupa af sömu aðilum.
RÚV stóð sig ágætlega í fréttaflutningi af innreið klámbransans til Íslands í tíu fréttum sínum í gærkvöldi. Brennidepill fréttarinnar var að auglýst lögbrot yrðu framin á degi sem helgaður hefur verið alþjóðlegri baráttu kvenna, 8. mars.
Á tímum þar sem skuggi ofbeldis gegn konum og víðtækt mansal grúfir yfir.
Umræða Stöðvar 2 var hins vegar með ólíkindum. Fólk hlýtur að velta því fyrir sér hversu fyndið ofbeldi gegn konum, mansal og dreifing ólöglegs efnis, er í augum þáttastjórnanda Íslands í dag. Þeir flissuðu og tístu alla umfjöllunina. Þau tóku meira að segja að sér að niðurlægja karlkyns starfsmenn Radison SAS með því að ætla þeim að vera ,,breimandi" af kröfum um að fá vakt á meðan herlegheitin standa yfir á hótelinu.
Þau spurðu iðandi hvort boðið yrði upp á gúmmílök á hótelinu og þetta undarlega háttalag þeirra kórónuðu þau með birtingu klámmynda. Líklegast ,,tæknileg mistök" því nú er búið að fjarlægja klámmyndirnar úr fréttainnslaginu á vef stöðvarinnar.
Þessi meðhöndlun Stöðvar 2 á fréttinni fær mig til að hugsa hvort við ætlum virkilega að yppta öxlum og ljúga því áfram að sjálfum okkur og öðrum að þetta sé saklaust grín?
Ætlum við að halda því áfram að ala upp börnin okkar með því hugarfari að svona sé þetta bara; karlmenn níðast á konum - ef ekki í alvörunni, þá í fantasíunni?
Framkvæmdastjóri Radison SAS, Hrönn Greipsdóttir, tilkynnti stolt að ekki yrði farið í manngreiningarálit á þeim bæ. Litið væri á þennan hóp sem hvern annan hóp viðskiptavina. Nú efast ég ekki um að Radison SAS verði í vandræðum í kjölfar frétta um hvaða hópur er hér á ferðinni - ekki myndi ég samþykkja að dvelja á hóteli sem hýsir slíka samkomu og þekki marga aðra sem hugsa á svipuðum nótum.
Ég velti því líka fyrir mér hvers konar viðbrögð þetta eru af hálfu hótelsins. Finnst þeim ekki vandamál að hópurinn stundi ólöglega starfsemi? Væri það sama upp á teningnum hjá Radison SAS ef hingað boðuðu komu sína samtök barnaníðinga frá Danmörku sem ætluðu sér að styrkja tengsl sín og skiptast á myndum?
Yrði þeim tekið eins og hverjum öðrum teppasölum?
Nú efast ég ekki um að litlu frjálshyggjupattarnir flykkjast að með ræður sínar um frjálsan vilja - en það skiptir einu. Ekki nenni ég að þylja upp, eina ferðina enn, sannanir fyrir því að þessi ,,bransi" byggir á ofbeldi gegn konum og mansali. Frjáls vilji á ekkert sameiginlegt með slíku.
Á landinu eru í gildi lög og það hlýtur að vera krafa um að þeim sé fylgt eftir. Skipulögð framleiðsla og dreifing kláms er hér bönnuð, samkvæmt lögum.
Hér er því um ólöglega starfsemi að ræða og mikilvægt að ríkislögreglustjóri og dómsmálayfirvöld komi í veg fyrir auglýst lögbrot.
Beta Ronalds er klippari og búin að fá nóg af áhugaleysi yfirvalda á lögbrotum sem felast í ofbeldi gegn konum og börnum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
15.2.2007 | 23:37
S.U.L.L. Samtök um launaleynd
eftir Oddnýju Sturludóttur
Klassísk klisja fer gjarnan á flug þegar afnám launaleyndar er rætt. ,,Hún skerðir friðhelgi einkalífs einstaklingsins".
Rétt eins og stefnt sé að því að birta laun Íslendinga á heimasíðum fyrirtækja og á flettiskiltum.
Afnám launaleyndar myndi ávallt vera sértæk aðgerð, unninn innan frá, þar sem örfáum einstaklingum væri veittur aðgangur að upplýsingum um laun fólks - gagngert til að vinna bug á þeirri meinsemd sem kynbundinn launamunur er.
Í haust flutti stjórnarandstaðan á Alþingi sameiginlegt mál um að breyta jafnréttislögum. Þar er kveðið á um að öllum launþegum sé leyfilegt að segja frá laununum sínum, ekki skylt. Launaleyndinni er aflétt á þann hátt að tekið er fyrir þann afleita kúltúr að starfsmenn skrifi undir samning sem meini þeim að skýra frá kjörum sínum.
Leynt og ljóst hafa áhrifamikil samtök, Samtök atvinnulífsins, sem tengd eru órofa böndum við Sjálfstæðisflokkinn, unnið gegn öllum hugmyndum sem varða afnám launaleyndar. Hvort sem um opinbera geirann eða hinn einkarekna er að ræða. Hér eru hollvinir launaleyndarinnar á ferð.
Allt undir borði, feluleikur og leyndó.
Í sameiginlegu frumvarpi stjórnarandstöðunnar eru einnig ákvæði um að gefa Jafnréttisstofu kröftugar heimildir til að fá uplýsingar um launamál fyrirtækja. Jafnréttisstofa myndi fara með slíkt sem trúnaðarmál en grípa til þegar grunur leikur á um launamisrétti.
Samtök atvinnulífsins eru líka á móti slíkum heimildum.
Ríkisvaldið hefur ekki viljað grípa til neinna aðgerða til þess að útrýma kynbundnum launamuni á Íslandi. Afsökun þessa stærsta atvinnuveitenda á Íslandi er sú að laun séu einkamál hvers starfsmanns.
Á nýafstöðnu viðskiptaþingi leit Geir Hilmar Haarde yfir salinn og sagðist þess fullviss að enginn fundargesta myndi vilja að dætur þeirra fengju lægra kaup en synirnir.
En hvað vill Geir?
Hvað vill Sjálfstæðisflokkurinn? Sem í 16 ár hefur látið kynbundna launamuninn óáreittan og spakan? Hann var í kringum 15% fyrir 16 árum og svei mér þá
- hann er líka 15% í dag.
Fögur orð á tyllidögum eru lítils virði þegar vilji til aðgerða er enginn. Það er ekki óyfirstíganlega flókið að eyða því misrétti sem konur á vinnumarkaði eru beittar. Árangur Reykjvíkurborgar, undir stjórn félagshyggjufólks og með borgarstjóra sem vildi, þorði og gat, sýnir að allt er hægt.
Hjá þessum næststærsta vinnuveitenda landsins minnkaði kynbundinn launamunur um helming á 12 árum.
Geri aðrir betur. Geri Geir betur.
Oddný Sturludóttir er borgarfulltrúi og ekki félagi í S.U.L.L.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
15.2.2007 | 16:07
Æi - ég hef ekkert vit á þessu...
eftir Ingileif Ástvaldsdóttur
Í morgun barst inn á heimilið tilkynning frá Rannsóknasetri í barna- og fjölskylduvernd og Félagsráðgjafaskor um málstofur sem haldnar verða á þeirra vegum næstu þrjá mánuði. Umfjöllunarefni þeirra eru fjölskyldustefnur sveitarfélaga. Við lestur tilkynningarinnar vakti athygli mína, gleði og stolt að bæjarstjórarnir sem kynna stefnur sveitarfélaga sinna eru þrjár konur: Ragnheiður Hergeirsdóttir bæjarstjóri Árborgar ríður á vaðið í febrúar, í mars kemur Sigrún Björk Jakobsdóttir bæjarstjóri Akureyrarbæjar og í apríl er röðin komin að Helgu Jónsdóttur bæjarstjóra Fjarðarbyggðar.
Fyrirsögnin hér að ofan kom einnig fram í hugann á meðan ég gladdist yfir þessum málstofum. Þessi orð heyrast gjarnan þegar farið er þess á leit við konur að þær taki sæti á framboðslistum eða í nefndum og ráðum á vegum stjórnmálaflokka eða hreyfinga.
Ég hef þá reynslu að konur þurfi að hvetja meira en karla til að taka að sér þessi störf. En það er ekki bara reynslan sem þetta sýnir. Ef litið er á niðurstöður rannsóknar stjórnmálafræðinganna Svans Kristjánssonar og Auðar Styrkársdóttur frá árinu 2001 Konur, flokkar og framboð þá kemur það sama m.a. fram; konur þurfa meiri hvatningu en karlar.
Og til viðbótar voru flestir aðspurðra sammála um að betur gangi að fá konur til starfa í stjórnmálum ef konur eru fengnar til þess að tala við konur.
Fyrirmyndir eru líka hvatning. Og fyrirmyndirnar hafa nú fram til þessa einfaldlega ekki verið nógu margar. Því ætti markmið okkar allra að vera að fyrirmyndunum fjölgi hraðar nú en nokkru sinni áður. Með því að halda á lofti, styðja og hvetja þær sem þegar hafa tekið að sér þessi störf getum við lagt okkar á vogarskálarnar í baráttunni fyrir auknum hlut kvenna í stjórnmálum.
Fyrirmyndunum verður að fjölga.
Ingileif Ástvaldsdóttir býr á Dalvík, er meistarnemi við KHÍ og er góð fyrirmynd.
15.2.2007 | 11:11
Soccer Moms - í fúlustu alvöru
Eftir Ingibjörgu Hinriksdóttur
Undanfarnar vikur hefur verið mikið rætt um stöðu kvennaknattspyrnu innan KSÍ og hafa margir farið mikinn. Ég ætla ekki að blanda mér í þá umræðu en langar þess í stað að hvetja allar konur sem hafa skoðun á málinu og vilja veita konum í knattspyrnu brautargengi, til að bjóða sig fram til starfa innan sinna félaga.
Fyrst og fremst vantar fleiri konur til starfa í félögunum. Þetta segi ég í fúlustu alvöru og af langri reynslu af starfi innan knattspyrnuhreyfingarinnar.
Í henni Ameríku er til orðasambandið ,,Soccer Mom", fótboltamamma, sem lýsir venjulegri amerískri húsfrú sem fylgir börnunum sínum á fótboltaæfingar og keppni. Við sjáum þessa konu gjarnan afgreiða pylsur og popp í veitingasölu, hún huggar særða knattspyrnukappa af báðum kynjum, hún er alltaf tilbúin með vatnið þegar hlé er gert á leiknum, en síðast en ekki síst er hún ákafasti stuðningsmaður liðs barnanna sinna.
Á Íslandi má finna mýmargar konur sem sinna hlutverki fótboltamömmunnar. En af hverju er ekki til hugtakið ,,Soccer Dad"? Hvar er pabbinn þegar börnin hans eru á æfingum eða í keppni. Jú, vitanlega eru hann og margir aðrir að fylgjast með af sama áhuga og fótboltamamman. En sjaldnar sjáum við hann hugga særða knattspyrnukappann (nei, hann gerir það ekki... pabbinn hugsar öðruvísi en mamman, hann hvetur knattspyrnukappana til að halda áfram leik þá hæst hann stendur, ,,farðu aftur inn á, ekki vola, áfram með leikinn!").
Sjaldan sjáum við fótboltapabbann með vatnsbrúsana (þó megi finna undantekningu á þessu, sérstaklega ef fótboltamamman er upptekin við að hugga knattspyrnukappann). En aldrei, aldrei sjáum við fótboltapabbann í sjoppunni að afgreiða pylsur og popp og alveg örugglega ekki ef barnið hans er að keppa! Það er gjörsamlega útilokað.
En fótboltapabbinn gæti líka verið annars staðar, hann gæti verið á stjórnarfundi að taka mikilvæga ákvörðun um hver eigi að þjálfa barnið hans á næsta tímabili. Hann gæti verið á hliðarlínunni að stýra liðinu og hann gæti verið inni á vellinum að dæma leikinn. Hann er með öðrum orðum það sem oft er kallað ,,virkur þátttakandi í leiknum."
En fótboltamömmur og allar konur geta líka verið ,,virkir þátttakendur í leiknum." Þess vegna hvet ég þær til að mæta á aðalfundi sinna félaga, taka þar til máls um jafnréttismál og hvetja stjórnir þeirra til dáða.
Ég hvet allar konur sem hafa áhuga á fótbolta til að bjóða sig fram í stjórnir félaganna. Ég hvet allar konur, fótboltamömmur sem og aðrar, til að taka knattspyrnudómarapróf og ég vil hvetja allar konur, fótboltamömmur sem og aðrar, til að mæta á eitt af ótal mörgum þjálfaranámskeiðum KSÍ. Þannig koma þær að ákvörðunum um hvernig málum skuli háttað við þjálfun barnanna þeirra.
Á þeim vettvangi hafa fótboltamömmur sannarlega skoðun og liggja ekki á henni í samtölum sínum við aðrar fótboltamömmur. Þetta skiptir öllu máli, þessi mál brenna á mörgum og þessi mál leiða okkur í átt að betra samfélagi þar sem kynin njóta meira jafnréttis en verið hefur innan knattspyrnuhreyfingarinnar.
Þetta á við um KSÍ, öll íþróttafélögin og þjóðfélagið almennt.
Áfram stelpur - í fúlustu alvöru.
Ingibjörg hefur starfað að kvennaknattspyrnu í næstum 30 ár, lengst af í Breiðablik. Síðustu 5 árin hefur hún setið í stjórn KSÍ.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Pæling dagsins
- Kvennaþing í Hveragerði 11.-12. apríl. Stjórnmálaumræður með femínískum jafnaðarkonum. Ball með ROKKSLÆÐUNNI um kvöldið. Ertu búin að skrá þig?
Nota bene
Bloggandi konur
Anna Kristjáns
Arndís Anna
Arndís Steinþórs
Ása Richards
Ásta R. Jóhannesdóttir
Björk Vilhelmsdóttir
Bryndís Ísfold
Edda Agnarsdóttir
Beta Ronalds
Erla Sigurðardóttir
Eva Bjarna
Guðríður Arnardóttir
Dagbjört Hákonard
Helga Vala
Ingibjörg Stefáns
Jóhanna
Katrín Anna
Katrín Júlíusdóttir
Lára Stefánsdóttir
Magga Stína
Oddný Sturludóttir
Ólína Þorvarðardóttir
Rósa Erlings
Sonja B Jónsdóttir
Steinunn Valdís
Svanfríður Jónasdóttir
Þorgerður Diðriks
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 3
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 3
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar