Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
9.3.2007 | 00:27
Hamingjusama klámstjarnan - ekki er allt sem sýnist
Eftir Ösp Árnadóttur.
Þegar ég var um það bil átján ára var ung stúlka mjög áberandi í fjölmiðlum. Hún var ákaflega fögur og með vaxtarlag sem setti hana í hóp kynþokkafullra kvenna. Þessi stúlka kom gjarnan fram í tímaritum nakin og aðspurð sagðist hún áhugakona um erótík auk þess að elska líkama sinn. Mér fannst þetta ekkert tiltökumál. Myndirnar fannst mér niðurlægjandi en hugsaði sem svo að ég ætti ekki að setja mig á háan hest gagnvart áhugamálum annara.
Fyrir nokkrum árum síðan opnuðust þó augu mín fyrir veruleika kvenna sem taka þátt í klámiðnaði og þessi stúlka átti þátt í því. Í dag er hún edrú en á sínum tíma var hún í stífri fíkniefnaneyslu. Myndatökurnar voru ,,easy money''. Fjölmiðlar sóttust eftir henni í viðtöl og það var miklu auðveldara fyrir hana að selja þeim (mér og öðrum) ímynd hamingjusömu klámstjörnunnar.
Myndirnar eru hinsvegar ennþá til og hverfa ekki. Þær hafa ennþá áhrif á það hvaða augum fólk lítur hana. Myndirnar valda henni vanlíðan í dag og munu eflaust alltaf gera. Ímynd hamingjusömu klámstjörnunnar er til sölu víðs vegar.
Ímyndarsköpun Jennu Jameson var sterk en hún er í huga margra ein flottasta og sterkasta konan í klámbransanum. Kona sem hlaut frama í klámi og byggði upp klámveldi á eigin spýtur. Fáir hafa þó kynnt sér ævi hennar en sem barn bjó hún við gróft heimilisofbeldi. Sextán ára gamalli var henni hópnauðgað af sex mönnum þegar hún var á leið heim af fótboltaleik. Jenna náði að koma sér lemstruð heim og þegar pabbi hennar gekk á hana afsakaði hún áverka sína með því að segjast hafa lent í áflogum. Pabbi hennar refsaði henni samstundis með barsmíðum. Jenna hefur barist við eiturlyfjafíkn og depurð og hefur farið í óteljandi meðferðir.
Eldra dæmi er Linda Lovelace en henni er oft hampað fyrir frammistöðu sinni í klámmyndinni Deep Throat. Linda sætti andlegum og líkamlegum kúgunum af hendi maka síns sem einnig var ,,pimpinn'' hennar. Eiginmaður hennar fékk hana með andlegum þvingunum til að leika í myndinni og ef ákveðin atriði Deep Throat eru skoðuð má sjá mar á líkama hennar eftir barsmíðar. Linda barðist síðar meir gegn klámiðnaðinum og talaði hispurslaust um fyrrum eiturlyfjaneyslu sína.
Markmiðið með grein minni er einfalt: eftir að klámferli lýkur kemur oftast í ljós að hamingjusama klámstjarnan var ekki svo hamingjusöm eftir allt saman. Það sem leiðir til þess að þessi leið er fetuð eru ytri aðstæður, þættir eins og fíkniefnaneysla, kynferðisofbeldi, erfiðar uppeldisaðstæður auk annara atriða. Margir hafna þó umræðu á þessum grundvelli og ég skil það á vissan hátt. Það er nefnilega ekkert gaman að horfa á kynlífsmyndband og renna í grun að konan og kannski maðurinn líka eru miklu frekar fórnarlömb aðstæðna en afleiðingar frjáls vilja.
Hér í lokin eru tölur úr alþjóðlegum rannsóknum: 65 - 90% kvenna í klámiðnaði hafa verið kynferðislega misnotaðar. 90% kvenna í klámiðnaði glíma við eiturlyfjafíkn. Ekki er allt sem sýnist.
Ösp er framkvæmda- og verkefnastýra með BA í sálfræði, hefur áhuga á unglingum, unglingamenningu og sögu. Ösp vinnur í Hinu húsinu og stóð fyrir átakinu ,,Nóvember gegn nauðgunum''
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
8.3.2007 | 11:51
RIPP, RAPP & RUPP - íslenska viðskiptablokkin...
eftir Margréti Kristmannsdóttur
Það má lýsa íslensku viðskiptalífi sem 100 íbúa blokk. Í þessari blokk búa konur í 15 íbúðum af 100. Það segir sig því sjálft að þær eru í miklum minnihluta og þegar kemur að ákvörðunum á húsfundum eru áherslur karlanna mun líklegri til að hljóta hljómgrunn.
Það skiptir því öllu máli að þessar 15 konur standi saman og styðji hver aðra; mæli með konum sem góðum íbúðarkaupendum, láti aðrar konur vita ef líklegt er að íbúð sé að losna í blokkinni.
Þannig fjölgar konunum smám saman. Og eftir því sem konum fjölgar þá er líklegt að útlit og yfirbragð blokkarinnar breytist. Það koma blóm á svalirnar, gardínur verða settar upp í stigahúsinu og fjölbreyttari mál verða tekin fyrir á húsfundum.
Þessar breytingar munu skila sér í því að öllum íbúum blokkarinnar mun líða betur, enda viðurkennd staðreynd að fjölbreytni er til góða og heilbrigt að allir íbúarnir hafi eitthvað um umhverfi sitt að segja.
Ég las grein um daginn sem fjallaði um ójafnvægi milli kynja í viðskiptalífinu. Þar var haft eftir dönskum ráðherra að þetta væru nokkurs konar RIPP, RAPP & RUPP áhrifin. Ef maður er Ripp þá ræður maður Rapp eða Rupp; einhvern sem er eins og maður sjálfur.
Ég skal ekki segja hvort þessi kenning er rétt eða röng.
En sé litið yfir íslenskt samfélag hvarflar óneitanlega að mér að eitthvað sé til í þessari kenningu.
Margrét er framkvæmdastjóri PFAFF, formaður FKA, félags kvenna í atvinnurekstri og nú síðast; frambjóðandi Samfylkingar í Reykjavík suður!
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
8.3.2007 | 00:10
Áfram stelpur!
Til hamingju með daginn. 8. mars. Þessi alþjóðlegi baráttudagur kvenna er jafn mikilvægur nú og þegar hann var fyrst haldinn. Konur um allan heim eru beittar misrétti, mismiklu, mishörðu. En saman verðum við að standa. Allar sem ein. Saman stöndum við öll sem ein, því að lokum verðum við jöfn. Ekki núna, en vonandi áður en langt um líður.
Í tilefni dagsins vill ritnefnd Trúnó hvetja allar konur, og alla menn til að standa upp úr sætum sínum, hvar sem er, í vinnu, eða skóla, eða heimahúsi og hefja upp raust sína. Jafnréttinu til virðingar. Jafnréttinu til heiðurs. Sameinuð sigrum við allt ójafnrétti.
Áfram stelpur
Lag: Gunnar Edander
Texti: Dagný Kristjánsdóttir og Kristján Jónsson
Í augsýn er nú frelsi,
og fyrr það mátti vera,
ný fylkja konur liði
og frelsismerki bera.
Stundin er runnin upp.
Tökumst allar hönd í hönd
og höldum fast á málum
þó ýmsir vilji aftur á bak
en aðrir standa í stað,
tökum við aldrei undir það.
Viðlag
En þori ég vil ég get ég?
Já ég þori, get og vil.
En þori ég vil ég get ég?
Já ég þori get og vil.
Og seinna börnin segja:
sko mömmu, hún hreinsaði til.
Já seinna börnin segja:
þetta er einmitt sú veröld sem ég vil.
Viðlag
Áfram stelpur standa á fætur
slítum allar gamlar rætur
þúsund ára kvennakúgunar.
Ef einstaklingurinn er virkur
verður fjöldinn okkar styrkur
og við gerum breytingar.
Atkvæði eigum við í hrönnum
komum pólitíkinni í lag
sköpum jafnrétti og bræðralag.
Áfram stelpur, hér er höndin
hnýtum saman vinaböndin
verum ekki deigar dansinn í.
Byggjum nýjan heim með höndum
hraustra kvenna í öllum löndum
látum enga linku vera í því.
Börnin eignast alla okkar reynslu,
sýnum með eigin einingu,
aflið í fjöldasamstöðu.
Stelpur horfið ögn til baka
á allt sem hefur konur þjakað
stelpur horfið bálreiðar um öxl.
Ef baráttu að baki áttu
berðu höfuð hátt og láttu
efann hverfa 'unnist hefur margt.
Þó er mörgu ekki svarað enn:
því ekki er jafnréttið mikið í raun,
hvenær verða allir menn taldir menn
með sömu störf og líka sömu laun?
Fyrsta vísa endurtekin
Til hamingju með daginn!
Ritnefnd Trúnó.
6.3.2007 | 23:42
Útrunnum mat fargað - hvað með ríkisstjórnina?
eftir Björk Vilhelmsdóttur
Mikið voru þær ánægjulegar fréttirnar í gær að 3.5 tonni af útrunninni matvöru hafi verið fargað hjá Sorpu undir eftirliti heilbrigðiseftirlitsins. Fólk sem við öll þekkjum, fólk sem hefur dregist aftur úr fjöldanum á undanförnum árum, hefur að mati fyrirtækja og hjálparsamtaka á borð við Fjölskylduhjálp Íslands mátt nærast á útrunninni matvöru.
Þetta viðhorf og slík aðstoð gerir ekkert annað en að auka enn frekar á fátækt fólks, enda byggir það ekki upp sjálfstraustið að láta sig hafa það sem engum öðrum er bjóðandi.
Það sem á hvergi heima nema á haugunum.
Tími ölmusunnar
Í tíð núverandi ríkisstjórnar hefur ölmusuhugsanaháttur gengið yfir samfélagið. Við höfum siglt hraðbyri frá samtryggingar- og velferðarhugsun norrænna ríkja að amerískri einstaklingshyggju þar sem hinir ríku láta fáeina gullmola falla af gnægtarborðinu til hinna snauðu.
Þetta eru stór orð en sönn. Hugsum nokkur ár aftur í tímann þegar það heyrði til algerra undantekninga að fólk stæði í biðröðum eftir matargjöfum. Lífeyrisþegar höfðu það þá alls ekki gott, en þó þolanlegra en þeir hafa það nú á dögum.
Nú á dögum leita á hverju ári þúsundir eftir matargjöfum frá hjálparsamtökum eins og Mæðrastyrksnefnd, Hjálparstarfi kirkjunnar og Fjölskylduhjálp Íslands.
Það hafa sprottið upp líknar- og vinafélög til að styðja við bakið á þeim sem veikjast og/eða fatlast. Félög sem starfa eftir þeirri hugmyndafræði að gera eitthvað fyrir aumingja fólkið en ekki vinna með því.
Ég vil ekki gera lítið úr þörf fyrir aðstoð hjálpar- og líknarfélaga. Þar sem fólk býr við fátækt og óöryggi er gott að fá aðstoð en aðstoðin má ekki taka af fólki stoltið og sjálfsvirðinguna.
Að mati félagsráðgjafa og annars fagfólks í velferðarmálum er slík aðstoð ekki til þess fallin að hjálpa fólki út úr þeim aðstæðum sem hrjá viðkomandi. Raunveruleg aðstoð felst í að vinna með fólki, breyta lífi þeirra til hins betra.
Það er gert með því að vinna með fólki í að bæta fjárhagsstöðu fólks til lengri tíma og nýta sér þann rétt sem það á. Byggja þarf upp sjálfstraustið og virðingu fyrir sér og samfélaginu.
Á haugana eða...?
Mér finnst að ríkisstjórn sem hefur innleitt meiri ójöfnuð en áður hefur þekkst í íslensku samfélagi eigi að fara sömu leið og útrunni maturinn. Ekki að ég ætlist til þess að heilbrigðiseftirlitið fylgi 12 ráðsmönnum- og konum þjóðarinnar á Sorpu.
Ég vil eftirláta kjósendum 12. maí að ákveða örlög þeirra því kjósendur hafa val. Ólíkt matvælunum sem þóttu að sumra mati nógu góð handa bónbjargarfólkinu má setja ráðafólkið í endurvinnslu. Sumir geta eflaust farið í fyrri störf og aðrir lifað góðu lífi á sínum eftirlaunalífeyri.
Ég er viss um að annað fólk með annað verðmætamat geti tekið við stjórnarráðinu.
Björk er kona og félagsráðgjafi sem getur ekki horft á þann ójöfnuð sem ríkir í samfélaginu þó hún sé í hópi þeirra sem hafa það mjög gott.
5.3.2007 | 22:38
Útlendingar á Íslandi
eftir Ellen Jacqueline Calmon.
Við viljum ekki hafa þá en þurfum samt nauðsynlega á þeim að halda til að byggja fínu húsin okkar með gestaíbúðunum, sundlaugunum og fínu bílskúrunum.
Ríkisstjórnin hefur fram að þessu nánast ekki varið neinu fjármagni til aðstoðar innflytjendum að koma sér fyrir og aðlagast menningu og íslenskri tungu. Þykist ríkisstjórnin taka ábyrgð þá er það með að vísa málefninu til sveitarfélaganna. Hingað til hafa innflytjendur þurft sjálfir að greiða fyrir tungumálakennslu, mismikið eftir því hvaða sveitarfélagi þeir tilheyra. Innflytjandinn minn, sá sem ég bý með núna, fær einhverja niðurgreiðslu á íslenskunámi þar sem hann er með aðsetur í Reykjavík. Nóg kostar það samt, haustönnin kostaði um 30.000 kr.
Innflytjandinn minn er iðnmenntaður Skandinavi með mikla reynslu, góð meðmæli og hefur fengið nám sitt viðurkennt hjá Menntamálaráðuneytinu. Rúma tvo mánuði tók það hann að fá starf á mannsæmandi launum, en er þó ekki enn kominn með íslensk laun. Iðnaðarmaður eða verkamaður það skiptir engu hvort heldur hann er. Hann er útlendingur og verður að sætta sig við minna?
Fréttaflutningur er heldur ekki alltaf til sóma og sýnir kannski hve mikil útlendingafyrirlitning virðist þrífast í þessu litla samfélagi okkar. Bylgjan flutti hádegisfréttir af erlendum verkamanni sem varð fyrir árás ekki sé vitað með vissu hverjir árásarmenn væru en þeir væru 5 talsins og hugsanlega Pólverjar. Hvað er verið að meina? Útlenskir verkamenn eru ekkert nema vandræði. Pólverjar ekki besta sortin? Ég hef nú svo sem ekki mikið ritað opinberlega eða sent inn kvartanir af nokkru tagi, en nú er mér nóg boðið.
Ég sendi meðfylgjandi tölvupóst á Bylgjuna rétt áðan.
Til fréttastofu Bylgjunnar.
Ég vildi gera athugasemd við orðalag fréttaflutnings á Bylgjunni í hádegisfréttum kl. 12, þar er sagt frá árás á erlendan verkamann sem komst við illan leik á bensínstöð við Ártúnshöfða til að leita hjálpar.
Orðalagið ýtir undir "útlendingafordóma" sem nóg er af á Íslandinu góða. "Við Íslendingar" erum að fá upplýsingar um að erlendir verkamenn séu að lenda í útistöðum.
Hvað væri sagt/skrifað ef þetta væri erlendur lögfræðingur? Eða erlendur læknir?
Afhverju er þjóðerni fórnarlambsins ekki tiltekið einungis þjóðerni árásarmanna....hugsanlega Pólverjar, ekki einu sinni staðfest?
Vinsamlegast takið tillit til þessarar ábendingar og endurritið fréttina, vandið orðalag og hafið í huga að útlendingar skilja líka íslensku.
Með vinsemd og virðingu
Ellen Jacqueline Calmon af annarri kynslóð innflytjenda hálf frönsk, 1/4 norsk og 1/4 íslensk og í sambúð með skandinavískum iðnaðarmanni.
Ef við kjósum innflytjendur í störf, ef þeir hafa leyfi til að dvelja hér, þá hljóta þeir að vera velkomnir? Þeir hljóta að eiga skilið sömu laun og öll önnur sömu réttindi og við hin? Sýnum það í verki og bjóðum þá velkomna með einhvers konar aðlögunarferli, í það minnsta íslenskukennslu.
Ef stjórnvöld grípa ekki til róttækra aðgerða varðandi móttökuferli innflytjenda á Íslandi, þá lendum við Íslendingar í risavöxnum vandræðum því við erum svo agnarsmá í þessum útlenska heimi.
Ellen Calmon er ¼ Íslendingur en er ferlega góð í íslensku og hlustar alltaf á fréttir.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 6.3.2007 kl. 07:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
4.3.2007 | 22:22
Skamm Siv, skamm!
eftir Rósu Þórðardóttur
Sigurði Kára finnst að Siv Friðleifsdóttir eigi að segja af sér. Það er líklegast rétt hjá honum, Siv er klárlega komin út á ystu nöf.
Siv á að segja af sér vegna ummæla sinna um að stjórnarsamstarfið sé í hættu vegna þess að annar stjórnarflokkurinn þverskallast við að framfylgja stjórnarsáttmálanum.
Hún bara verður að segja af sér konan.
Aldrei áður hefur íslenskur stjórnmálamaður skorað annað eins sjálfsmark, öðru eins forkastanlegu hneyksli muna elstu menn ekki eftir.
Halldór Ásgrímsson og Davíð Oddsson sögðu auðvitað ekki af sér fyrir að setja Ísland á lista hinna viljugu þjóða og Halldór sagði ekki af sér eftir að hafa selt bestu vinum sínum Búnaðarbankann fyrir spottprís. Enda smámál, pís of keik.
Davíð sagði ekki af sér eftir að hafa leikið öryrkja svo grátt að þeir fóru með mál sitt fyrir Hæstarétt. Davíð vissi hvað hann söng.
Ríkisstjórnin, með manni og mús, braut stjórnarskrárlög sumarið 2004 með því að neita þjóðinni að greiða atkvæði um fjölmiðlalögin í þjóðaratkvæðagreiðslu.
Nýjasta nýtt er Byrgismálið, þar reyndu neikvæðir pólitíkusar og reiður almenningur að fá stjórnarliða til að taka ábyrgð en, neibbs. Engar uppsagnir í sjónmáli þar þrátt fyrir grímulausa vanrækslu og afglöp í starfi.
En það eru hártoganir miðað við það hneyksli sem Siv hefur orðið uppvís að. Orð Sivjar eru skandall síðari áratuga á Íslandi.
Hún er auðsjáanlega alveg að missa það.
Dagar hennar í pólitík eru taldir.
Skamm, Siv.
Rósa býr á suðurlandi og missir helst aldrei af þættinum Silfur Egils.
4.3.2007 | 12:16
Það sem kom EKKI á óvart í fréttum síðastliðinnar viku
Eftir Höllu B. Þorkelsson
Það kom ekki á óvart að fresta eigi frístundavistun fatlaðra barna í 5. til 10. bekk fram til næsta hausts. Það kom heldur ekki á óvart að aðeins einn blindrakennari er starfandi hér á landi.
Það kom sannarlega ekki á óvart að foreldrar blindra/sjónskertra barna flytji nauðug úr landi svo börn þeirra fái þá kennslu sem þeim ber samkvæmt grunnskólalögum.
Það kom alls ekki á óvart að baráttan fyrir þekkingarmiðstöð á Sjónstöð Íslands skuli enn vera í startholunum eftir 10 ára veru á byrjunarreit. Það kom innilega ekki á óvart að umsóknum um táknmálstúlkun var hafnað vegna fjárskorts Samskiptamiðstöðvarinnar.
Þess vegna kom ekki á óvart að heyrnarlausri konu var synjað um tveggja daga túlkun á námskeiði í skyndihjálp. Þó var henni á endanum boðið að vera annan daginn af tveimur.
Það kom því miður ekki á óvart að hjá Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra er ekki boðið upp á rittúlkun.
Það kom fátt á óvart við lestur viðtals við tvær mæður fatlaðra barna. Önnur þeirra lét í ljós vonbrigði með grunnskólann en barnið hennar passaði ekki inn í þann skóla og fundu forráðamenn skólans allt því til foráttu að barnið stundaði nám í skólanum, sem var þó hverfisskóli barnsins.
Hin móðirin sagði neyðarástand ríkja í málefnum einhverfra barna, unglinga og fullorðinna.
Allar þessar fréttir komu mér ekki á óvart í síðustu viku. Það er skömm fyrir þjóð sem er meðal ríkustu þjóða heims. Potturinn er ekki bara brotinn í réttindamálum fatlaðra, hann er mölbrotinn. Mál sem þarfnast úrlausnar flakka stefnulaust á milli félags- heilbrigðis-og menntamálaráðuneytis. Stefnan er ómarkviss og flækjustigið mikið fyrir fatlaða íbúa landsins, sem og aðstandendur þeirra.
Jafnrétti fatlaðra til náms er fyrir borð borið og það á jafnt við um börn og fullorðna. Á þessu verður að taka af einurð og festu þeirra sem þora, vilja og geta.
Hverjum er betur treystandi til þess en Samfylkingunni? Kyndilbera jafnréttis og jafnaðar?
Halla vinnur á skrifstofu, er heyrnarskert og á börn með fatlanir. Hún hefur mikinn áhuga á réttinda- og menntamálum fatlaðra og er í stjórn Kvennahreyfingar Samfylkingarinnar.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
2.3.2007 | 23:44
CV Samfylkingar í jafnréttismálum
Eftir Katrínu Júlíusdóttur, þingkonu.
Samfylkingin er sá stjórnmálaflokkur sem hefur mest látið til sín taka í kvenfrelsis- og jafnréttismálum á Íslandi. Fyrir því mun ég færa rök í pistli mínum. Það kemur ekki á óvart þar sem ein af stoðum flokksins er kvenfrelsið. Það kemur ekki á óvart þar sem saga Kvennalistans er saga Samfylkingarinnar. Saga Alþýðuflokkskvenna er saga Samfylkingarinnar. Saga Sellanna í Alþýðubandalaginu er saga Samfylkingarinnar.
Ég tók saman afrekalista; þingmál sem þingmenn Samfylkingarinnar hafa lagt fram á þessu kjörtímabili. Listinn er örugglega ekki tæmandi. En okkar fólk hefur sannarlega haldið jafnréttis- og kvenfrelsismerkjum á lofti í sölum Alþingis.
Fyrst vil ég nefna þingsályktunartillögu Jóhönnu Sigurðardóttur um framkvæmdaáætlanir um launajafnrétti kynjanna. Jóhanna hefur líka lagt fram áætlun í jafnréttismálum til fjögurra ára og hluti þeirrar tillögu rataði inn í jafnréttisáætlun sem samþykkt var í þinginu, í þverpólitískri samstöðu.
Þórunn Sveinbjarnardóttir hefur lagt fram þingsályktunartillögu um skipan nefndar sem móti stefnu á sviði þróunarsamvinnu Íslands við önnur ríki. Í þeirri tillögu segir að unnið skuli að jafnrétti kynjanna og frumkvæðisréttur kvenna styrktur. Þórunn lagði líka fram á kjörtímabilinu þingsályktunartillögu um að ráðist yrði í gerð námsefnis um hlutskipti kvenna um víða veröld.
Ingibjörg Sólrún hefur lagt fram mikilvægar tillögur á þingi. Má þar nefna þingsályktunartillögu um samþættingu kynja og jafnréttissjónarmiða allri stefnumótun og starfi ríkisstjórnarinnar. Og að forsætisráðuneytinu yrði falin ábyrgð á jafnréttismálum.
Frumvarp Ingibjargar Sólrúnar um afnám launaleyndar er eitt það eftirtektaverðasta að mínu mati, hún setti þau mál rækilega á dagskrá í íslenskum stjórnmálum.
Jóhanna hefur líka lagt fram frumvarp á þingi um að úrskurðir kærunefndar jafnréttismála verði bindandi. Margrét Frímannsdóttir hefur lagt fram á þingi þingsályktunartillögu um fullgildingu samnings Evrópuráðsins um aðgerðir gegn mansali.
Ég sjálf hef lagt fram frumvörp um breytingar á fæðingarorlofslögunum og lagt fram fjölda fyrirspurna um mögulega lengingu þess og bent á annmarka í lögunum sem hamla því að markmið þess aukin samvera barna við báða foreldra og launajafnrétti kynjanna - geti orðið að veruleika.
Ágúst Ólafur hefur lagt fram þingsályktunartillögu þar sem kveðið er á um að tekið verði fastar á heimilisofbeldi.
Við höfum verið dugleg að spyrjast fyrir og leggja fram þingmál sem snerta ofbeldi gagnvart konum og börnum. Þar eru fremst meðal jafningja Ágúst Ólafur, Guðrún Ögmundsdóttir og Margrét Frímannsdóttir.
Þá er fjöldinn allur af fyrirspurnum til ráðherra í feminískum anda sem okkar fólk í þinginu hefur lagt fram.
Anna Kristín hefur verið dugleg að spyrja um t.d. lánatrygginasjóð kvenna sem og atvinnumál kvenna um land allt. Þá hefur hún velgt landbúnaðarráðherra verulega undir uggum með spurningum um jafnréttisáætlun og kynjaskiptingu við skipan í stöður á vegum ráðuneytisins og undirstofnana þess.
Ásta Ragnheiður hefur lagt fyrir ráðherra fyrirspurnir um skiptingu starfslokasamninga hins opinbera milli karla og kvenna. Ásta hefur líka spurt um miðstöð mæðraverndar. Þá hefur Ásta spurt heilbrigðisráðherra um viðbrögð í heilbrigðiskerfinu vegna umskorinna kvenna.
Margrét Frímannsdóttir hefur spurt um stuðning við konur sem fengið hafa brjóstakrabbamein. Og konur sem afplána dóma. Guðrún hefur einnig spurt um stöðu kvenna í fangelsum.
Jóhanna hefur spurt um skoðun viðskiptaráðherra á því að sett verði lög um tiltekið lágmarkshlutfall af hvoru kyni í stjórnir hlutafélaga, hún hefur spurt um aðstæður heimilislausra kvenna í Konukoti, atvinnuleysi kvenna og launajafnrétti hjá hinu opinbera.
Ágúst Ólafur spurði ekki fyrir löngu um MFS eininguna á kvennadeildinni og mótmælti kröftuglega niðurlagningu hennar og Þórunn hefur spurt um hlutföll kynja í íslensku friðargæslunni.
Við höfum verið dugleg í stjórnarandstöðu. Það er kominn tími til að skipta um og leyfa öðrum að spreyta sig í því hlutverki. Við höfum verk að vinna í ríkisstjórn.
Kata er orðin óþreyjufull að láta hendur standa fram úr ermum í alvöru, femínískri ríkisstjórn.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 4.3.2007 kl. 16:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
2.3.2007 | 09:38
Hvers vegna?
Eftir Helgu Völu Helgadóttur.
Einn angi peningahyggjunnar á Íslandi síðustu ára birtist í afskiptaleysi yfir kjörum eldri borgara. Eldri borgarar eru týnda barnið á Íslandi. Það þykir ekkert tiltökumál þó að fullorðin manneskja bíði í tvö ár eftir viðunandi úrræði þegar til þess þarf að koma. Tvö heil ár í lífi manneskju sem aldurs síns vegna býr við ýmis konar krankleika, er heillangur tími og lengri tími en við líðum á nokkrum öðrum stað í velferðarkerfinu. Ég sæi okkur í anda ef við þyrftum að bíða í tvö ár eftir leikskólaplássi eða öðru skólaplássi. Bíða í tvö ár eftir íbúðarlánum eða plássi í áfengismeðferð. En þetta fólk, sem hefur skilað sínu í öll þessi ár til samfélagsins fær að bíða, og það stundum lengur en heilsan leyfir.
Heilabilaðir bíða eftir viðunandi úrræðum og á meðan eru nánustu aðstandendur í gíslingu. Eldri hjón eru skilin að vegna þess að ekki er til viðunandi húsnæði sem hýsir þau bæði. Eldri borgarar sem fá svíðandi lágan ellilífeyri eftir áratuga vinnu fyrir okkur hin, eldri borgarar sem á gamals aldri eru settir í sambúð með öðru gömlu fólki sem það hefur aldrei hitt áður. Eldri borgarar sem vegna stolts síns biður ekki um aðstoð fyrr en á ögurstundu.
Hvers vegna er ekki hrópað á götum úti? Hvers vegna förum við ekki niður á Austurvöll með bílhlöss af drullu og sturtum fyrir framan þinghúsið?
Skýringin felst líklega í því að þetta snertir ekki atvinnulífið. Við þurfum ekki á þeim að halda til að peningavélin gangi. Hjól atvinnulífsins gengur sem smurt þó að þessi hópur búi við kröpp kjör. Við hin erum á spani við að halda okkur sjálfum á floti, svo að gamla fólkið okkar verður útundan. Fólkið sem gerði landið að því sem það er.
Við verðum að vakna upp af doðanum og fara að hugsa með hjartanu. Látum ekki peningavaldið ráða för.
Það stendur ekki allt og fellur með atvinnulífinu á meðan fólkið í landinu blæðir út. Látum hjartað ráða för.
Helga Vala vann eitt sinn á Elliheimilinu Grund og líkaði það vel.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 4.3.2007 kl. 16:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
1.3.2007 | 09:15
Stofnanavæðing grasrótar
Eftir Huldu Björgu Sigurðardóttur
Fyrir nokkru hlýddi ég á fyrirlestur Þorgerðar Einarsdóttur, dósents í kynjafræði við Háskóla Íslands. Fyrirlesturinn var haldinn í tilefni tíu ára afmælis kvenna- og kynjafræðináms við Háskóla Íslands. Ég var svo lánsöm að vera í námi í Háskólanum þegar Kynjafræðin/Kvennafræðin var stofnuð sem námsgrein á vegum þáverandi heimspekideildar og félagsvísindadeildar. Ég get ekki lýst því hvernig það var að upplifa námið öðru vísi en svo að það var eins og að borða hvert eplið á fætur öðru af skilningstrénu.
Þorgerður gerði að megininntaki síns fyrirlesturs þá áhættu sem fylgir stofnanavæðingu grasrótarsamtaka; þegar viðurkenndum málstað er fundinn farvegur innan kerfis þar sem hann verður málefni meðal margra annarra. Og ekki bara það hann verður líka háður ákvörðunum og framsetningu aðila sem ekki hafa skilning eða vilja til þess að halda honum á lofti. Málstaðurinn þynnist út og hverfur í hóp málefna sem eru ákvörðuð skyld og tengd.
Þorgerður tók dæmi af jafnréttisáætlun Háskóla Íslands, orðalagi aðgerðaáætlunar, og ennfremur réttindum og skyldum háskólakennara varðandi námsefnisval. Taldi hún nýlegar breytingar sem orðið höfðu á framsetningu í báðum tilfellum ekki til góðs fyrir femíniskar áherslur. Áherslan færðist frá jafngildi í jafnan fjölda af hvoru kyni. Þetta skýrðist betur í umræðum þegar hún svaraði fyrirspurnum gesta.
Hún útskýrði að höfðatalan segði oft lítið um gildi og viðhorf. Óteljandi dæmi væru um að konur gengju inn í valdastofnanir og félög og tileinkuðu sér þau gildi og viðhorf sem karlahefðin sem fyrir væri hefði mótað.
Stofnanavæðing femínismans er þekkt fyrirbæri og Þorgerður benti á að í öllum hópum, sem ekki byggju við jafnrétti í raun (alla nema hvíta karlinn á valdastólnum) væru konur eða stúlkur helmingur hópsins. Þar af leiðandi þyrfti í öllum hópum að berjast fyrir femínisma, jafngildi kvenna á við karla. Það er því ekki raunhæft að gera konur að einum hópi meðal annarra og ætla að beita sömu aðferðum í jafngildis- og jafnréttisbaráttu þeirra.
En rektor Háskóla Íslands benti á, á fundinum, að margt jákvætt hefur gerst í jafnréttismálum innan skólans.
Hulda Björg er 62 ára Kópavogsbúi og lyfjafræðingur. Hún starfar með lýðræðishópi Framtíðarlandsins.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 4.3.2007 kl. 16:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Pæling dagsins
- Kvennaþing í Hveragerði 11.-12. apríl. Stjórnmálaumræður með femínískum jafnaðarkonum. Ball með ROKKSLÆÐUNNI um kvöldið. Ertu búin að skrá þig?
Nota bene
Bloggandi konur
Anna Kristjáns
Arndís Anna
Arndís Steinþórs
Ása Richards
Ásta R. Jóhannesdóttir
Björk Vilhelmsdóttir
Bryndís Ísfold
Edda Agnarsdóttir
Beta Ronalds
Erla Sigurðardóttir
Eva Bjarna
Guðríður Arnardóttir
Dagbjört Hákonard
Helga Vala
Ingibjörg Stefáns
Jóhanna
Katrín Anna
Katrín Júlíusdóttir
Lára Stefánsdóttir
Magga Stína
Oddný Sturludóttir
Ólína Þorvarðardóttir
Rósa Erlings
Sonja B Jónsdóttir
Steinunn Valdís
Svanfríður Jónasdóttir
Þorgerður Diðriks
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 1
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 4
- Frá upphafi: 106410
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 4
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar