Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
17.3.2007 | 20:41
Ferfalt húrra fyrir Ágústi Ólafi!
Fyrningarfrestur á kynferðisafbrotum gegn börnum afnuminn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
17.3.2007 | 16:23
Stór dagur fyrir jafnréttisbaráttuna - stór dagur fyrir lýðræðið
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir var heiðursgestur á landsfundi sænskra jafnaðarmanna þegar Mona Sahlin tók við leiðtogaembætti flokksins. Hér á eftir fer ræða Ingibjargar Sólrúnar.
,,Í dag eru tímamót í sögu sænska jafnaðarmannaflokksins, þegar kona tekur í fyrsta skipti við formennsku í flokknum. Það kemur e.t.v. ekki á óvart í sjálfu sér því á hinum Norðurlöndunum er gjarnan litið til Svíþjóðar sem fyrirmyndarþjóðfélags með tilliti til jafnréttismála. Þetta er stór dagur fyrir jafnréttisbaráttuna, en þetta er líka stór dagur fyrir lýðræðið.
Lýðræðið er ekki fasti eða formsatriði heldur stöðugt lifandi ferli þar sem við öll, bæði konur og karlar, leggjumst á eitt við að bæta samfélagið og gera það réttlátara. Konur eru helmingur mannkyns. Samfélag sem byggir á reynslu bæði kvenna og karla, menningarheimi beggja og áhugamálum er sterkara og réttsýnna samfélag en samfélag sem ekki nýtir til fullnustu þann mannauð sem býr í báðum kynjum.
Verkefni okkar er að móta og hrinda í framkvæmd nýrri og nútímalegri jafnaðarstefnu og við verðum að gæta þess að hafa jafnréttismál og kvenfrelsi í huga þegar við greinum samfélagið og mótum framtíðarstefnu. Þess vegna er mikilvægt að við leggjum okkur fram um að fá ungt og framsækið fólk til liðs við okkur sem hefur vilja og getu til að móta framtíð hins norræna samfélags.
Það er mikið rætt um stórar fjárfestingar í opinberri umræðu en okkur hættir til að gleyma þeirri fjárfestingu sem mestu skiptir, börnunum okkar. Velmegun hinna fullorðnu á líka að koma börnunum til góða. En þrátt fyrir stórvirkar tækniframfarir sem eiga að auðvelda líf okkar, þá er hraðinn og streitan meiri en nokkru sinni fyrr. Sífellt meiri kröfur eru lagðar á fólk og fjölskyldur á vinnumarkaði en þau sem líða mest fyrir þetta streituástand eru börnin okkar, þau sem síst skyldi.
Mörgum börnum finnst þau sniðgengin, vanrækt og meðhöndluð á óréttlátan hátt, á stundum vegna þess að foreldrar þeirra eru haldnir vanmetakennd. Þessi börn alast upp við erfið félagsleg skilyrði, s.s. fátækt eða finna til einangrunar, jafnt félagslega og menningarlega.
Þau telja sig ekki hafa sömu möguleika og aðrir í samfélaginu. Þau upplifa sig utanveltu í samfélaginu og vonleysi þeirra og gremja getur hæglega leitt af sér skaðlega hegðun. Við verðum að hafa í huga að ef við nýtum ekki þann auð sem býr í börnunum okkar þá sitjum við uppi með hálfkarað samfélag, ófullkomið lýðræði. Þess vegna er mikilvægt að hlusta á raddir barnanna og hafa þarfir þeirra að leiðarljósi við mótun samfélagsins til framtíðar. Í þessu efni mun hlutur og lífssýn okkar jafnaðarmanna skipta meira máli en nokkru sinni fyrr.''
Ingibjörg Sólrún heiðursgestur á landsfundi sænskra jafnaðarmanna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
17.3.2007 | 11:32
,,Pointið" - unglingar greina femínisma í Degi Sigurðarsyni
eftir Ingileif Ástvaldsdóttur
Ljóðatími í unglingadeild. Nemendur sitja í litlum hópum og lesa hver fyrir annan.
Unglingur: Hey, kennari má sleppa?
Kennari: Sleppa?
Unglingur: Æ, þúst... stytta textann sinn, taka til dæmis aftan af ljóðinu sínu?
Kennari: Nú, hvað ertu að lesa góurinn og hverju viltu sleppa?
Unglingur: Sko, ég er að lesa Lífsreynsluljóð eftir Dag Sigurðarson, hlustaðu:
I
Það er erfitt að vera karlmaður
og mæta fallegri stelpu á götu
af tilviljun.
Brúnin þyngist. Brjóstið
herpist saman. Ég
stend eins og glópur og glápi.
Það er svo sorglegt
svo átakanlegt.
Maður getur næstum farið að skæla
eins og krakki sem fær ekki pelann sinn.
II
Ef til vill sé ég þig aldrei framar.
Það sem verra er: Ég gæti hitt þig
af hendingu eftir 30 ár.
Ég stend kyrr og horfi á þig fjarlægjast.
Ég æpi á þig í hljóði.
Ég sé andlit þitt markast djúpum hrukkum
mittið hverfa í skvap
kálfana þrútna og afskræmast af æðahnútum
hörundið verða á litinn eins og sigin ýsa.
Það er svo sorglegt
svo átakanlegt.
Maður getur næstum
jájá það er mikil mæða
að vera karlmaður.
III
Og þó er það skömminni skárra
en að vera falleg stelpa
fá ekki nema 16,14 á tímann
fyrir að puða í saltfiski
og vera komin uppá einhvern déskotans
draumaprins sem oftast reynist bölvaður
drullusokkur þegar yfir lýkur.
,,Og hverju viltu svo sleppa? spyr kennarinn aftur. ,,Nú, síðasta erindinu mar! svarar drengurinn undrandi á spurningu kennarans. Svo heldur drengur áfram: ,,Það einhvern veginn passar ekkert við hitt. Það erindi, sko, skiluru? Mér finnst pointið helst vera í síðasta erindi annars hluta, ha?
,,Kræst! kvaka bekkjarsystur hans sem höfðu lagt við hlustir. ,,Pointið er niðurstaðan, fattaru? Og hún, niðurstaðan er þarna í því síðasta, finnst okkur, skiluru?
En drengur heldur áfram: ,,Jú, mamma segir það líka. En sko ha, en fyrir mig ha, í þessu ljóði skiluru, þá er pointið þarna í miðjunni, ha!
Bekkjarsysturnar kvaka: ,,Dííí, en sko, raunveruleikinn ha, hann er í síðasta hlutanum, og raunveruleikinn, hann er pointið, fattaru!
Skólabjallan hringdi og saman ruddust bekkjarsystkinin út í raunveruleikann.
Ingileif er kennari á Dalvík og skilur pointið í flestum hlutum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
16.3.2007 | 08:14
Hver er munurinn á nefnd og nefnd hjá hæstvirtum menntamálaráðherra?
eftir Höllu B. Þorkelsson
Á liðnum árum hefur þeim sem hafa reynslu og kunnáttu til kennslu blindra og sjónskertra fækkað. Nú er svo illa komið að aðeins einn blindrakennari er starfandi hér á landi og nokkur ár eru síðan foreldrar blindra barna hófu búferlaflutninga til annarra landa.
Ekki vegna þess að það væri draumur þeirra, þeir neyddust til þess. Á okkar ágæta landi er ekki boðið upp á þjónustu við blind/sjónskert börn í sama mæli og á hinum Norðurlöndunum.
Árið 1999 fluttum við hjónin hingað suður vegna sjónskertrar dóttur okkar. Eitt af því fyrsta sem við gerðum var að ganga í foreldrafélag blindra og sjónskertra barna. Það var mikið heillaspor.
Á sjónstöðinni fékk barnið góða þjónustu en ýmsar brotalamir voru í hinum almenna grunnskóla. Kennarar dóttur minnar gerðu sitt besta og eru hið ágætasta fólk, það dugði bara ekki því sérþekkingu vantaði til þess að aðgengi fyrir hana að námi væri á svipuðu róli og annara barna.
Á fyrstu fundunum okkar með foreldrafélaginu heyrði ég talað um að það þyrfti að byggja upp þekkingarmiðstöð svo hægt væri að sinna betur málum blindra og sjónskertra barna.
Árið 2004 taldi ég að nú væru málin komin í góðan faraveg, en það var mikil bjartsýni.
Á næstsíðasta degi þingsins, veturinn 2007 sagðist menntamálaráðherra Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir ætla að skipa nefnd, en ekki ,,enn eina nefndina, heldur framkvæmdanefnd.
Ég spyr: hafa þá allar þær nefndir sem menntamálaráðherra stofnaði til verið ,,platnefndir? Til að friða heimtufrekan almúginn?
Í sömu ræðu segir ÞKG að blindir nemendur eigi rétt á menntun eins og allir aðrir í samfélaginu. Heyr á endemi. Ég bið hátt og í hljóði að þekkingarmiðstöð fyrir blinda og sjónskertra verði komið á laggirnar.
Ég treysti ekki orðum menntamálaráðherra.
Ég átti fund með ráðherra vegna aðgengi heyrnarskertra og menntunarmála þeirra, þar sem aðstandendur bókstaflega grátbáðu um rittúlkun (talað mál ritað á tölvu og hinn heyrnarskerti les af tölvuskjá) en slík þjónusta er valfrjáls á hinum Norðurlöndunum.
Á fundinum spurði ég ráðherra hvort einhverju fé væri ætlað í þetta brýna aðgengismál heyrnarskertra. Nei, var svarið en ég mun skoða þessi mál....
Síðan er liðið á þriðja ár og enn bólar ekki einu sinni á svari.
Í eldhúsdagsumræðum í fyrradag fór ráðherra mikinn og hafði uppi gífuryrði um stjórnarandstöðuna. Það er mín skoðun að ráðherra ætti að líta eigin barm og láta orðum fylgja efndir og sleppa hanagalinu.
Halla er reið móðir sjónskerts barns.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 08:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
14.3.2007 | 23:34
Íslenska konan & íslenska krónan
eftir Oddnýju Sturludóttur
Ég reyni yfirleitt að vera bjartsýn þegar kemur að stöðu íslensku konunnar. En stundum fæ ég óþyrmilega á tilfinninguna að allt þetta raus um jafnrétti og stöðu íslensku konunnar sé bara vesen, væl og kjaftæði.
Svona eins og íslenska konan sé óþægileg fyrir Ísland, fyrir íslenskt þjóðfélag.
Dálítið eins og íslenska krónan. Þjáningarsystir okkar.
Menn hrista hausinn þegar við, enn og aftur, vekjum máls á því að okkur þurfi að fjölga hér og þar og fá stærri bita af kökunni.
Í KSÍ, á Alþingi, í stjórnum fyrirtækja, í nefndum og ráðum.
Þegar betur er að gáð blasa skilaboðin til íslensku konunnar víða.
Þeir vilja okkur feigar, þeir vilja okkur úr landi. Grípum hér niður í nokkur ummæli bankastjóra og áhrifamanna í viðskiptalífinu. Sigurjón Þ. Árnason bankastjóri landsbankans sagði þetta á dögunum í Krónikunni:
,,Í mínum huga er það bara tímaspursmál hvenær við losum okkur við íslensku konuna. Hún virkaði vel á meðan við vorum einangruð en núna skapar hún lítið annað en óþægindi. Meginókostur íslensku konunnar er óstöðugleiki, það er mjög erfitt að halda henni stöðugri. Hún sveiflast bara upp og niður eins og korktappi í ólgusjó."
Jeremías. Maðurinn er ekki að skafa utan af því. En hvað sagði forstjóri Kaupþings á málþingi hjá Dansk Industri? Þar hélt hann því fram að íslenska konan muni hverfa! Og hann bætti þessu við:
,,Íslenska konan er of lítil og óstöðug og þar af leiðandi mun hún verða lögð niður.
Lögð niður já. Þetta eru býsna harkaleg orð. Og svo er það Hannes Smárason sem treystir ekki íslensku konunni fyrir horn. Í viðtali við Krónikuna sagði hann:
,,Íslenska konan er orðin verulegt vandamál. Það er ástæðan fyrir því að við erum farnir að skoða aðra kosti. Íslenska konan er hreinlega of óstöðug til þess að við getum treyst henni.
Þetta er allsherjar samsæri. Við hljótum allar að sjá það. Íslenska konan vill upp á dekk í íslensku viðskipta- og atvinnulífi og svona tala þeir um hana í hefndarskyni.
Og við getum ekki einu sinni treyst okkar eigin kynsystrum, við munum jú allar hvernig Ingibjörg Sólrún talaði niður íslensku konuna um daginn.
Það er greinilegt á öllu að það þykir engum vænt um íslensku konuna, nema Davíð Oddssyni. Guð blessi manninn.
Oddný hefur áhyggjur af gengi íslensku konunnar.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
13.3.2007 | 23:47
Bæjarstjórinn í Kópavogi er krútt
Eftir Guðríði Arnardóttur.
Nýleg bókun mín í bæjarráði Kópavogs vakti talsverða athygli. Og í því sambandi má velta fyrir sér ýmsum hlutum. Í minni tíð sem oddviti Samfylkingarinnar í Kópavogi hef ég verið málefnaleg og gæti ég tínt til margar glæsilegar bókanir sem ég hef lagt fram í bæjarráði. Að baki þeim bókunum liggur talsverð vinna og andvökur við heimildaöflun og gagnalestur.
En þessi litla krúttlega bókun mín var svo að endingu það sem fjölmiðlar ráku augun í og stöldruðu við. Hún er skrýtin tík, hún pólitík. En hvers vegna krútt?
Þegar ég settist í bæjarstjórn var það skoðun mín að við, pólitískt kjörnir fulltrúar í bæjarstjórn værum að vinna sameiginlega að hagsmunum bæjarins. Ég hélt að við værum samherjar. En það tók mig ekki langan tíma að átta mig á að frá bæjardyrum meirihlutans erum við andstæðingar. Örlög okkar í minnihluta verða þau að hvað eina sem við leggjum til er fellt og oft á tíðum eru orð okkar og athafnir slitnar úr samhengi.
Í þessu tilfelli vorum við að fjalla um umdeildar skipulagsbreytingar á Kársnesi sem meðal annars vörðuðu hækkun þjónustublokka við Sunnuhlíð. Sunnuhlíðarsamtökin eru Kópavogsbúum afar kær og sérstaklega okkur í Samfylkingunni.
Á meðan meirihlutinn samdi við Hrafnistu um uppbyggingu nýrra hjúkrunarrýma og þjónustu við eldri borgara í bænum létu þeir Sunnuhlíð sitja á hakanum. Fyrirhuguð uppbygging í Sunnuhlíð mun bíða betri tíma. Við höfum alla tíð barist fyrir Sunnuhlíð og ítrekað lýst yfir stuðningi vegna fyrirhugaðrar stækkunar.
Fyrir liggur nýlegt deiliskipulag á svæðinu (Kópavogstúni) sem tók talsverðan tíma að ná sátt um og það var staðföst skoðun okkar að því ætti ekki að breyta (hækka úr fimm hæðum í sex) þótt svo einkaaðilar hafi óskað eftir sambærilegri stækkun á nálægum reit.
Við lögðum fram mjög svo málefnalega bókun til að skýra afstöðu okkar til málsins sem bæjarstjóri svaraði með því ,,að þetta sýndi raunverulegan hug okkar til Sunnuhlíðar.
Þarna gerði hann okkur upp skoðanir á mjög ómaklegan hátt.
Þá er tvennt í stöðunni, að munnhöggvast með bókanafargani eða bara slá botninn úr umræðunni með álíka málefnalegum hætti og þess vegna varð bæjarstjóri Kópavogs KRÚTT. Enda ávallt svolítið krúttlegur þegar hann situr eins og snúið roð í hundi þegar við höfum aðra skoðun á málum.
Nú má leggja margt út af svona bókun. Hvað ef Gunnar hefði bókað hið sama um mig?
Líklega hefðu einhverjir risið á afturfæturna og kallað hann karlrembu. En á hitt ber að líta, ef ég hefði verið hann og hann ég, hefði ég aldrei gert honum svona ómaklega upp skoðanir svo við Gunnar erum kvitt. Hann kallar mig forhertan lygara í fjölmiðlum, ég kalla hann krútt!
Það er ábyrgðarstarf að vera bæjarfulltrúi og það skiptir máli hvað við segjum og gerum. Hvort sem við erum í meiri- eða minnihluta skiptir máli að tökum starf okkar alvarlega, en það er ekki þar með sagt að það eigi að taka á málum of hátíðlega.
Þrátt fyrir núning og oft á tíðum harkaleg átök þurfum við að vinna saman í mikilli nálægð, bæði í bæjarstjórn og í bæjarráði. Ég myndi einfaldlega mygla ef ég þyrfti alla tíð að ganga fram með einhverri helgislepju ... það er einfaldlega ekki ég. Kannski er þetta munurinn á körlum og konum og hvað með það?
Við þurfum ekkert endilega að vera eins þótt við séum jafn hæf!
Guðríður er oddviti Samfylkingar í bæjarstjórn Kópavogs og stenst krúttinu bæjarstjóranum fullkomlega snúning.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 14.3.2007 kl. 09:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
12.3.2007 | 23:35
Sama suðið - alltaf hreint!
Það er kannski ekki sérlega klókt að játa það á bloggsíðu femínískra jafnaðarmanna að ég skildi það fyrst í síðustu viku hvernig kynjakvóti virkar. Í tilefni alþjóðlegs baráttudags kvenna var blaðað aðeins í nýja jafnréttisfrumvarpinu í Speglinum á rás eitt og fjallað um ákvæðið um jafnt hlutfall kynja í nefndum, stjórnum og ráðum á vegum ríkis og sveitarfélaga.
Þar er mælt með þeirri reglu að hlutur hvors kyns sé ekki minni en 40 % þegar um fleiri en þrjá er að ræða. Þetta ákvæði nær líka til fyrirtækja sem ríki eða sveitarfélag eru aðaleigendur að, sem og opinberra hlutafélaga. Síðan kom pistill frá Noregi þar sem lög um kynjakvóta í opinberum hlutafélögum og hlutafélögum á almennum markaði hafa verið í gildi í rúmlega þrjú ár.
Fréttaritarinn spurði forstöðukonu jafnréttisdeildar norska vinnuveitendasambandsins um þýðingu laganna um kynjakvóta. Svar forstöðukonunnar var nógu einfalt og skýrt til að það kviknaði ljós í áður óupplýstu hugskoti í höfði mér. Hún sagði:
LÖGIN HAFA Í ÞAÐ MINNSTA ÞÁ ÞÝÐINGU AÐ HÆFILEIKAR EINSTAKLINGA RÁÐA NÚ MEIRU EN ÁÐUR UM VAL Á FÓLKI Í STJÓRNIR. ÞAÐ ER LEITAÐ BÆÐI TIL KARLA OG KVENNA.
Vá! hugsaði ég með mér um leið og ég smeygði mér fram fyrir eldavélina. Ég hef aldrei skoðað málið frá þessari hlið. Aldrei sett mig í spor hagsmunaaðilans hinu megin við eldavélina. Alltaf stillt mér upp í einmanalega stöðu konunnar á bak við eldavélina og þar af leiðandi hef ég oft á tíðum átt erfitt með að tengja við þá staðreynd að ég er hluti fjölskyldunnar, samfélagsins, þjóðarinnar og heimsins alls. Og sem slík hef ég umtalsverðra hagsmuna að gæta hinum megin í eldhúsinu.
Nú vil ég taka það fram að það er sérstaklega langt í leiðslunum hjá mér og fyrir mig skiptir það líklega óvenjulega miklu máli hvernig hlutirnir eru orðaðir. Ég held samt við konur þurfum að huga betur að því hvernig við orðum staðreyndir málsins og hvernig við setjum þær fram í umræðunni um jafnrétti.
Við þurfum að vera vakandi fyrir því að tala ekki staðlað stofnanamál og skipta út stöðnuðum frösum með reglulegu millibili. Opinber umræða og fjölmiðlaumfjöllun er nefnilega órtrúlega fljót að festast í ákveðnu fari og þar hjakkar hún síðan árum og áratugum saman án þess að nokkur nenni að leggja við eyrun.
Ég fyrir mitt leyti vissi ekkert um ástand mála í Líbanon þótt ég hafi árum saman hlustað á fréttir sem hófust á orðunum: Enn er barist í Beirút.
Linda er skáldkona og gamaldags sósíalisti.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (26)
12.3.2007 | 08:29
Hitti ég Guð?
Eftir Völu Þórsdóttur
Ég fór í minn hefðbundna morgungöngutúr. Ég naut þess að ganga um göturnar í yndislegum rigningarúða, umkringd allskyns borgarhljóðum, sírenum, fuglatísti, hjólabjöllum og hrópum í byggingarmönnum.
Ég sá mann vera að hrista lak fram af lítilli verönd á annarri hæð. Þessi sýn fékk mig til að hugsa til Marques, eða kannski var það einhver annar.
Að minnsta kosti fór ég að hugsa um sögurnar þegar lakið er hengt upp til sýnis eftir brúðkaupsnóttina svo allir þorpsbúar og fjölskylda brúðarinnar gætu andað léttar, blóðbletturinn í lakinu staðfesting á meydómi sem heyrir sögunni til, merki um að hjónabandið eigi eftir að blessast og hjónin lifi saman í harmoníu til æviloka...
Maðurinn hristi lakið, sem reyndist ekki vera lak, þar sem ég rýndi í þeirri von um að ég væri að upplifa eina af þessum sögum. Þetta reyndist vera sængurver og líklegast hefur hann bara verið að borða hrökkbrauð í rúminu.
Ég kallaði til hans Guten Morgen! Hann brosti og bauð mér sömuleiðis góðan dag. Ég hélt áfram götuna brosandi með sjálfri mér, örlítið vonsvikin yfir því að hann var bara að dusta hrökkbrauðsmylsnu úr sænginni sinni.
Þá heyrði ég kvenmannsrödd að ofan spyrja mig hvort í dag væri mánudagur.
,,Auðvitað er Guð kona hugsaði ég og leit upp. Á annarri hæð gægðist út um glugga fjörgömul kona með úfið hár eins og Einstein. Hún spurði mig aftur hvort það væri mánudagur í dag. Já, sagði ég, Heute ist Montag. Hún tók svarið gott og gilt, svo ég gekk áfram.
En mig langaði að vita hvort það hefði verið betra fyrir hana ef í dag væri sunnudagur, nú eða þriðjudagur eða einhver annar dagur, en þýskan mín leyfir ekki slíka hnýsni.
Kannski var þessi fjörgamla frú Guð. Kannski var hún fegin því að í dag væri bara mánudagur og hún hefði fimm daga í viðbót til að betrumbæta sköpunarverkið.
Kannski hafði Guð verið svo upptekin lengi að hún varð stressuð og áhyggjufull yfir að vera í tímahraki.
Ef svo er, þá er ég glöð með að geta aðstoðað guð eitt augnablik. Létt af henni áhyggjunum með þessum einföldu upplýsingum;
Í dag er mánudagur, þú hefur nógan tíma.
Vala er frábært leikskáld og vann meðal annars leikgerð upp úr smásögum Svövu Jakobsdóttur; Eldhús eftir máli, sem sló í gegn í Þjóðleikhúsinu.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
11.3.2007 | 12:32
Hver hleypur útundan sér?
eftir Helgu Völu Helgadóttur
Auðlindaskrípaleikurinn er í brennipunkti þessi dægrin. Ríkisstjórnarflokkarnir settu það inn í stjórnarsáttmálann að gera eitthvað í auðlindamálunum en hafa svo ekkert aðhafst í þá veru. Þeir hafa haft til þess árafjöld en ætla svo að ljúka þessu á kortéri. Því nú eru að koma kosningar og í stað þess að fá á sig orð fyrir að hafa ekkert aðhafst til að vernda okkar sameignir þá hlaupa þeir nú af stað.
Afrakstur örvinnu þeirra við auðlindaákvæði er í samræmi við tímann sem þeir gefa sér. Óskiljanlegt og merkingarlaust ákvæði sem troða á inn í stjórnarskrána. Lögfróðir aðilar hafa í röðum gefið þessu ákvæði falleinkunn án þess að formenn stjórnarflokkanna svo mikið sem staldri við.
Stjórnarskráin er okkar æðsta réttarheimild. Stjórnarskráin á að vera hafin yfir svona vinnubrögð. Þessi vinnubrögð eru þó velþekkt við lagasetningar hérlendis, því á hverju vori mætir ríkisstjórnin með bunkann af lagafrumvörpum sem þeir vilja þröngva í gegn með góðu eða illu. En nú ræðum við um stjórnarskrárákvæði.
Til að breyta stjórnarskránni þarf tveggja þinga samþykki. Það þarf að samþykkja þetta á Alþingi, rjúfa þing og kjósa, og svo bera þetta aftur undir þingheim. Að því loknu skal bera þetta undir forsetann til samþykktar eða synjunar og eru þetta þá gild stjórnskipunarlög. Auðveldara verður þetta ekki framkvæmt, sem betur fer.
Og nú á að kenna stjórnarandstöðunni um þetta klúður. Stjórnarandstöðuflokkarnir eru sagðir hlaupa út undan sér því þeir vilja ekki kokgleypa bullið frá stjórnarherrunum.
Stjórnarandstöðuflokkunum verður líklega næst kennt um að vilja ekki leiðrétta mistökin varðandi kvótastefnuna. Þeim verður þvínæst kennt um að allur mengunarkvótinn er að skiptast á hendur örfárra erlendra stórfyrirtækja. Allar okkar sameiginlegu auðlindir eru undir og stjórnarflokkarnir bera ekki meiri virðingu fyrir þeim en það að eyða nokkrum klukkustundum í að semja stjórnlagafrumvarp.
Svo eru sagt að stjórnarandstaðan hlaupi útundan sér. Má ég biðja stjórnarandstöðuflokkana um að hlaupa sem hraðast burt frá þessum skrípaleik stjórnarflokkanna. Við verðum að vernda auðlindir okkar. Sjálfstæðismenn og framsóknarmenn hafa klúðrað málum varðandi fiskinn í sjónum og andrúmsloftið okkar en nú verðum við að spyrna við fótum, ígrunda vel hvaða auðævi við eigum saman og setja það svo inn í stjórnarskrána.
Stjórnarskráin á skilið betri vinnubrögð, þjóðin á líka skilið betri vinnubrögð.
Helgu Völu laganema er umhugað um fagleg vinnubrögð á Alþingi, enda veitir ekki af þegar þingið er rúið trausti þjóðarinnar sbr. nýjustu kannanir.
9.3.2007 | 21:33
Kæru systur og bræður!
Eftir Guðrúnu Evu Mínervudóttur
Stundum getur kona ekki annað en furðað sig á því að baráttan fyrir jafnrétti kynjanna skuli ganga svona hægt og að það sé svona mikil fyrirhöfn að leiðrétta augljóst óréttlæti. Samfélagið er ennþá illa haldið af komplex eða nevrósu sem á sér rætur djúpt aftur í fortíðinni og kallar á sálgreiningu jafnt sem hugræna atferlismeðferð.
Þegar ég var lítil stelpa átti ég mér þann vonlausa draum að vera strákur. Samt var ég alls ekki í hjarta mínu strákur fastur í stelpulíkama. Frekar mætti segja að ég vildi vera strákur fastur í stelpulíkama. Það var í mínum unga huga skárra en að vera stelpa föst í stelpulíkama.
Ég hafði nefnilega óljósa hugmynd um að strákarnir væru betri og merkilegri en við stelpurnar, en ég vissi ekki hvaðan sú hugmynd kom og velti því heldur ekki fyrir mér. Þetta var bara eitthvað sem ég taldi mig vita án þess að vita hvernig ég vissi það. Ég trúði móður minni fyrir þessu og hún sagði mér að henni hefði liðið eins. Hún sagðist á sínum tíma hafa spurt mömmu sína: Mamma, hvenær verð ég strákur? Eins og í því fælist eins konar stöðuhækkun til handa verðugum stúlkum.
Við sáum ekki í gegnum þetta. Það er skelfilega erfið játning, en ég er ansi hrædd um að mér hafi þótt það viss huggun að ég skyldi ekki vera eins og aðrar stelpur; ég var merkileg manneskja í dulargervi.
Nú veit ég að þetta er ekkert einsdæmi. Þær eru óteljandi konurnar sem hafa trúað mér fyrir því að þegar þær voru litlar hefðu þær verið strákastelpur. Síðan eru tínd til ýmis dæmi um að þeim hafi þótt gaman að klifra í trjám og að þær hafi haft keppnisskap og svo framvegis. Svona tal veldur mér alveg sérstökum hrolli því nú þykir mér liggja í augum uppi að lítil stúlka sem hefur ekki gaman af að klifra í trjám er ekki af náttúrunnar hendi venjuleg lítil stúlka heldur bæld lítil stúlka.
Auðvitað hef ég vissan skilning á þessu; það eru ekki nema tæp tíu ár síðan einhver hrósaði mér fyrir að vera karl-leg kona. Þvílíkt endemis bull! En það var meint sem hrós og ég var nógu stutt á veg komin í sannleiksleit minni til að taka því sem slíku.
En hvaðan koma þessar undarlegu hugmyndir sem valda því að þegar stúlkur/konur uppgötva í sér vissa kosti (áræðni, dugnað, úthald, sjálfstæði) dragi þær þá ályktun að þær búi yfir þessum kostum vegna þess að innst inni séu þær strákalegar/karllegar?
Svarið er: Úr misskilningsþrungnu og hugsunarlausu daglegu tali okkar. Úr sjónvarpinu og bíómyndum. Meira að segja úr bókum, sem þó hafa það orð á sér að vera einstaklega göfgandi miðill.
Ég get nefnt óteljandi dæmi, en ætla bara að nefna tvö:
Enid Blyton var greinilega óskaplega hrifin af strákum. Þeir voru sterkir og klárir og redduðu öllu án þess að hafa neitt fyrir því. Eina stelpan sem lagði eitthvað til málana (eitthvað annað en að hlaupa grenjandi heim til sín) var það sem nú til dags er kallað trans-sexúal. Það er að segja; hún var í raun og veru strákur. Enid Blyton er óhemju afkastamikill og vinsæll höfundur og bækurnar hennar sitja pikkfastar í kollinum á okkur flestum.
Indiana Jones myndirnar voru í miklu uppáhaldi hjá mér í gamla daga, en þegar ég sá þær aftur um daginn fékk ég hversdagsáfall. Skilaboðin í þeim eru afar skýr: Konur eru leiðinlegir aumingjar sem þvælast fyrir í stað þess að gera gagn. Ef heimurinn ætti eitthvað sameiginlegt með Indiana Jones bíómynd væri betra að hafa sex ára strák með sér í liði en fullorðna konu.
Já, þetta eru stór orð, en ég er líka dáldið sár yfir að hafa verið heilaþvegin með þessum hætti og þurfa síðan að eyða tíma og kröftum í að endurforrita sjálfa mig. Þetta skiptir máli. Lífsbaráttan er hörð og það hefur sýnt sig að ef konur eru fyrirfram dæmdar úr leik fer allt fjandans til. Ef við erum öll saman í liði gengur allt betur.
Guðrún Eva er rithöfundur og stolt af því að vera bæði feminín og femínisti.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (23)
Pæling dagsins
- Kvennaþing í Hveragerði 11.-12. apríl. Stjórnmálaumræður með femínískum jafnaðarkonum. Ball með ROKKSLÆÐUNNI um kvöldið. Ertu búin að skrá þig?
Nota bene
Bloggandi konur
Anna Kristjáns
Arndís Anna
Arndís Steinþórs
Ása Richards
Ásta R. Jóhannesdóttir
Björk Vilhelmsdóttir
Bryndís Ísfold
Edda Agnarsdóttir
Beta Ronalds
Erla Sigurðardóttir
Eva Bjarna
Guðríður Arnardóttir
Dagbjört Hákonard
Helga Vala
Ingibjörg Stefáns
Jóhanna
Katrín Anna
Katrín Júlíusdóttir
Lára Stefánsdóttir
Magga Stína
Oddný Sturludóttir
Ólína Þorvarðardóttir
Rósa Erlings
Sonja B Jónsdóttir
Steinunn Valdís
Svanfríður Jónasdóttir
Þorgerður Diðriks
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 1
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 4
- Frá upphafi: 106410
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 4
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar