Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
28.3.2007 | 22:52
Bleikur stimpill - góð hugmynd til að auka jafnrétti
eftir Oddnýju Sturludóttur
Hugmyndin er sótt í matvæla- og lyfjageirann. Fáir vilja versla og eiga viðskipti við matvælafyrirtæki nema þau uppfylli ákveðna staðla; GMP (Good Manufactoring Proceedurs) og nú kaupa mörg fyrirtæki og svo til allir skólar hreinsiefni sem eru umhverfisvottuð. Gæðavottun sem þessi tryggir að viðskiptavinir fái gæðavöru og minni líkur eru á hættulegum vörum sem geta leitt til sýkinga. Í mörgum geirum þykir orðið sjálfsagt mál að uppfylla slíkar kröfur og í raun eru fyrirtæki vart samkeppnishæf ef ekki er staðið við slíkar skuldbindingar.
Hugmyndin gengur út á að fyrirtæki sækji um GÆÐAVOTTUN þess efnis að þau uppfylli kröfur um að konur og karlar fái sömu laun fyrir sömu vinnu, jafnræði sé milli kynja í stöðuveitingum, konur séu 40% af stjórn fyrirtækisins og tillit sé tekið til foreldra á barneignaraldri.
Sérstök jafnréttisnefnd myndi meta hvert fyrirtæki og veita því bleikan stimpil ef jafnréttismarkmiðum er fylgt.
Ríkið myndi ganga á undan með góðu fordæmi og tryggja að allar ríkisstofnanir uppfylli skilyrðin og hljóti bleika stimpilinn innan tveggja ára. Reykjavíkurborg og sveitarfélögin ættu að fylgja í kjölfarið, sérstaklega eftir eftirtektarverðan árangur í jafnréttismálum í tíð Reykjavíkurlistans.
Þegar því takmarki er náð og fleiri fyrirtæki í einkageiranum sigla í kjölfarið mun stimpillinn fljótlega ávinna sér sess og verða sjálfsögð forsenda þess að fyrirtæki geti tekið þátt í útboðum á vegum hins opinbera.
Fljótlega sjá samkeppnismarkmið um hvatninguna, ekkert fyrirtæki vill verða af bleika stimplinum enda verður ár hvert þeim fyrirtækjum veitt viðurkenning fyrir framúrskarandi árangur í jafnréttismálum og metnaðarfullt starfsfólk sækist eftir störfum hjá þeim.
Þau fyrirtæki sem vilja komast í hóp þeirra gæðavottuðu geta sótt um greiningu á stöðunni inann fyrirtækisins og fengið ráðgjöf um hvað þau þurfa að bæta og laga til að öðlast gæðavottun.
Og af hverju ekki að ganga því næst alla leið og veita gæðavottun á sviði mannréttinda? Fyrirtæki sem nýtir mannauð starfsmanna af erlendum uppruna fá stimpil sem verður í öllum regnbogans litum...
Samfélags ábyrgð okkar allra er mikil atvinnulífið verður að taka þátt í jafnréttis- og mannréttindabaráttunni með okkur. Starfsmenn- og konur eiga hlut í hagsældinni og eiga að gera kröfur til fyrirtækjanna rétt eins og fyrirtækin gera kröfur til þeirra.
Oddný er áhugamanneskja um jafnrétti og umhugað um að allir taki þátt í að stuðla að því nema hvað!
28.3.2007 | 08:04
Eru álver fyrir konur?
eftir Arndísi Steinþórsdóttur
Undanfarin 30-40 ár hafa ungar konur flutt af landsbyggðinni til borgarinnar. Þetta er ekkert einsdæmi á Íslandi, sama þróun hefur átt sér stað víðast hvar í heiminum. Heimurinn hefur verið að breytast, vélar hafa fækkað ársverkum í landbúnaði, konur hafa fengið aukið frelsi og ungar konur á landsbyggðinni hafa ekki fundið sig í hefðbundnum hlutverkum í heimabyggð. Þær hafa tekið rútuna suður og farið í framhaldsnám eða fjölbreyttari störf. Strákarnir hafa svo fylgt í humátt á eftir.
Þingmenn og sveitastjórar (70% karlar) hafa reynt að snúa þessari þróun við með því að skapa "öflugt atvinnulíf" handa kjósendum sínum á landsbyggðinni. Laxeldi, refa- og minkarækt hafa samt ekki stöðvað ungu konurnar. Þær hafa viðstöðulaust brunað í bæinn, borðað þar laxinn og klætt sig í restina. Nú eru álverin töfralausnin. Þannig á hið nýja Fjarðarál ekki einungis að fá konur ofan af því að flytja til borgarinnar heldur er talið að það muni beinlínis laða konur austur. Skyldi hugmyndin um hamingjusömu konuna sem vinnur í álveri höfða til kvenna?
Í könnun sem Fjarðarál lét Gallup gera fyrir rúmu ári kom í ljós að um 94% kvenna á Austurlandi vildu gjarna vinna í álverinu. Reyndar var hart deilt á aðferðafræðina en spurningin mun hafa verið á þessa leið "ef spennandi starf væri í boði, hefðir þú þá áhuga á að starfa hjá Alcoa Fjarðaráli?" Þrátt fyrir meintan áhuga 94% austfirskra kvenna eru aðeins 32% af starfsmönnum Fjarðaráls konur. Líklegt er að hlutfallið lækki þegar búið verður að ráða starfsmenn í framleiðslustörfin en reynsla hinna álveranna er sú að konur sækja síst í þau. Í álverinu í Straumsvík eru konur um 17% starfsmanna. Á Grundartanga eru um 16% starfsmanna konur. Það virðist því vera að þegar konur geta valið um störf þá velja þær ekki álver. Það segir manni einnig að þegar konur geta valið á milli búsetu sem býður upp á fjölbreytt störf og búsetu sem býður upp á álver þá munu þær í langflestum tilfellum velja fjölbreytnina.
Í ýmsum könnunum sem gerðar hafa verið á viðhorfum fólks til umhverfismála og til ýmissa byggðamála kemur alltaf það sama í ljós. Konur vilja fjölbreytt atvinnulíf, menningu og mannlíf, góða skóla og góða þjónustu í nærumhverfinu.
Arndís er hugsandi yfir mýtunni um hamingjusömu álverskonuna.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (20)
26.3.2007 | 23:40
Fjórðungsjafnrétti
eftir Kristínu Atladóttur
Tveir hópar skipta með sér völdum. Í hópunum eru jafn margir einstaklingar og allir einstaklingar jafnir gagnvart lögum og rétti. Við ákvarðanatöku og stjórnun eru það 75% einstaklinga úr öðrum hópnum sem hafa eitthvað um hlutina að segja en 25% úr hinum. Samt telur fólk jafnræði ríkja meðal hópanna.
Það er afar merkilegt að í samantektum um hlutfall kynja í stjórnun og við ákvarðanatöku, sem og við kringumstæður þar sem gæðum og völdum er útdeilt, er kynjaskiptingin undantekningarlítið 17-24% konur á móti 76-83% körlum.
Aftur og aftur, æ ofan í æ staðfestist að á Íslandi ríkir fjórðungsjafnrétti.
,,Réttindi kvenna hafa færst fram um ljósár sagði Jakob Frímann Magnússon í Silfri Egils fyrir tveimur árum í aðdraganda formannskjörs Samfylkingarinnar.
Ekki er ég viss um að hún amma mín, sem barðist fyrir kosningarétti kvenna og stofnaði fyrsta verkakvennafélag landsins fyrir rétt tæpum 100 árum síðan, væri honum sammála. Vissulega myndi hún gleðjast yfir því að á árinu 2007 myndu konur standa sig almennt betur í námi en karlar og nálgast það að verða sá helmingur samfélagsins sem betur er menntaður.
En hvernig ætti ég að útskýra fyrir henni hlut kvenkyns stjórnenda í atvinnulífinu? Kynbundinn launamun? Hlutfall kvenna í stjórnum og ráðum, hvort sem er í einkageiranum eða hjá hinu opinbera?
Mér væri það ekki fært enda málið í raun óskiljanlegt.
Það mætti halda að mönnum þyki sem jafnrétti kynjanna eigi að komast á smám saman og algjörlega af sjálfu sér. Samfélagið þarf einungis nokkrar aldir í viðbót og þá smellur þetta hjá okkur. Þrátt fyrir misrétti í launum og stöðuveitingum höfum við náð þokkalegasta árangri.
Þetta er afstaða þeirra sem valdið hafa og vilja síður deila því. Þetta er afstaða þeirra sem telja fjórðungsjafnréttið boðlegt og ásættanlegt.
Kristín er kvikmyndargerðarkona og búsett í Reykjavík.
26.3.2007 | 00:17
Íslenskar ofurkonur slá met á flestum sviðum
eftir Svanfríði Jónasdóttur
Á heimasíðu félagsmálaráðuneytisins er vísað í evrópsku hagstofuna Eurostat, en þar er meðal annars að finna yfirlit um stöðu mála á vinnumarkaði á evrópska efnahagssvæðinu og þróun atvinnuþátttöku í hinum ýmsu ríkjum.
83 prósent Íslendinga á aldrinum 15 til 64 ára voru með einhverjum hætti virk á íslenskum vinnumarkaði árið 2005.
Meðaltal ESB-ríkja er 63 prósent.
Þau ríki sem komu næst Íslandi hvað atvinnuþátttöku varðar voru Sviss, Danmörk og síðan Noregur, en þar var hlutfallið 75 prósent.
Þegar konurnar eru skoðaðar sérstaklega kemur í ljós að atvinnuþátttaka kvenna á EES-svæðinu er 55% að meðaltali
Á Íslandi er hún rúmlega 80%.
Þetta gera íslenskar konur ásamt því að eiga hlutfallslega flest börn í Evrópu. Hagstofan segir, að í allflestum löndum Evrópu sé frjósemi umtalsvert minni en á Íslandi. Fólksfjölgun í löndum Evrópu verður einkum vegna streymis aðkomufólks.
Samkvæmt tölum frá Hagstofu Evrópusambandsins getur einungis eitt Evrópuland státað af meiri frjósemi en Ísland og það land er Tyrkland með frjósemi upp á 2,2 börn á konu.
Þess vegna er svo mikilvægt að hlúa vel að börnum með góðum leikskólum og skólum og að hugað sé að styttingu vinnutímans eins og jafnaðarkonur lögðu til ekki alls fyrir löngu.
90% foreldra með börn telja sig eiga erfitt með að samræma fjölskyldulíf og vinnu. Það eru bæði dökkar og ljósar hliðar á dugnaði Íslendinga.
Það liggur fyrir að þó við Íslandingar vinnum langan vinnudag þá er framleiðnin ekki í samræmi við það. Það gefur vísbendingu um að hægt sé að gera betur; stytta vinnutímann án þess að afkoman skerðist.
Erum við ekki ótrúlegar? Já, það þarf að tala meira um stöðu barnafjölskyldna á Íslandi og sýna því skilning í verki hve mikið álag fylgir því að vera íslensk kona.
Svanfríður er bæjarstjóri, fyrrverandi þingkona Samfylkingarinnar og á þrjú börn og nokkur barnabörn.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
24.3.2007 | 08:11
Karíus og Baktus ríkisstjórnarinnar
eftir Ingibjörgu Stefánsdóttur
Þeir eru feitir og sællegir enda hafa þeir fengið nóg að borða og getað höggvið og lamið í tennur íslenskra barna lítt truflaðir undanfarin ár. Hér á Íslandi hefur ekki þótt mikil ástæða til þess að amast við þeim bræðrum enda hafa holur og tannskemmdir barna aldrei verið fleiri. Skólatannlæknar starfa ekki lengur vegna þess að það getur unnið gegn samkeppni og það hlutfall af tannlæknakostnaði sem fæst endurgreitt fer lækkandi.Niðurstaðan er sú að fjöldi fólks fer ekki með börnin sín til tannlæknis. Annað hvort af því að það hefur ekki efni á því eða af því að það hefur ekki hugsun á því.
Nú er kannski einhver lesandinn farinn að æpa: Forræðishyggja, forræðishyggja!
En mér er bara alveg sama. Málið er að tannheilsa barna er orðið heilbrigðisvandamál á Íslandi. Niðurskurður í heilbrigðiskerfinu, oftrú á að samkeppni eigi alltaf og alls staðar við og síðast en ekki síst aukið tekjubil í samfélaginu hafa haft þau augljósu áhrif að tannskemmdum fjölgar. Fátækum börnum hefur fjölgað og fátæk börn borða óhollari mat og hreyfa sig minna.
Börn með skemmdar tennur eru orðin táknmynd þeirrar ríkisstjórnar misskiptingar og einkavinavæðingar sem hér hefur setið undanfarin tólf ár.
Það er kominn tími til þess að gefa þeim Karíusi og Baktusi frí og kjósa velferðarstjórn. Velferðarstjórn jafnaðarmanna eins og þá sem ríkt hefur annars staðar á Norðurlöndum nær alla síðustu öld. Í Skandinavíu hafa, undir forystu jafnaðarmanna, verið byggð upp samfélög sem eru til fyrirmyndar fyrir allan heiminn.
Nýleg könnun UNICEF um líðan barna í heiminum leiddi þetta ótvírætt í ljós. Þar skipuðu Norðurlöndin sér í efstu sætin á meðan Bandaríkin voru miklu, miklu neðar.
Ísland var því miður í neðsta sæti þegar kom að tíma sem foreldrar eyða í að tala við börnin sín. Íslensk ungmenni skoruðu líka mjög hátt í vanlíðan og einmanaleik. Keyrslan í þjóðfélaginu er orðin slík á tímum ofþenslu og góðæris að við gefum okkur ekki tíma til að tala við börnin okkar.
Ef eitthvað er til vitnis um gott samfélag þá er það líðan barnanna sem þar búa. Þar sem börnum líður vel, þar er vel stjórnað. Þess vegna viljum við stjórn jafnaðarmanna. Stjórn þar sem hugsað er um þarfir allra, barna, aldraðra og alla þar á milli.
Ingibjörg bjó í Danmörku þar sem dætur hennar fengu boðskort frá skólatannlækninum og bæði skoðun og tannréttingar ókeypis.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
22.3.2007 | 15:20
Kynbundinn launamunur og "frelsi einstaklingsins"
eftir Örnu Einarsdóttur
Í Kastljósi gærkvöldsins tókust Oddný Sturludóttir, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar og Heiðrún Lind Marteinsdóttir, laganemi, á um kynbundinn launamun.
Heiðrún Lind gerðist svo brött að halda því fram að launamunur kynjanna væri í raun enginn. Hún hélt því fram að vísindakannanir væru ófullkomnar og að það hlyti að vera önnur ástæða fyrir þessum 15-20% mun sem iðulega kemur fram. Ég veit ekki hvers vegna hún leggur í þennan leiðangur en mér dettur ekki í hug að horfa fram hjá vísindum út af illa rökstuddri skoðun einnar konu, þó svo að kannanir séu aldrei fullkomnar.
Oddný gerði grein fyrir máli sínu á afar málefnalegan og skýran hátt og gerði okkur þann greiða að leiðrétta nokkuð útbreiddan misskilning þegar kemur að launaleynd.
Að aflétta launaleynd er að tryggja rétt einstaklingsins til þess að ræða um laun sín EF einstaklingurinn hefur áhuga á því. Að aflétta launaleynd segir ekkert um að opinbera öll laun eða að einstaklingar verði að gefa upp laun sín við hvern sem er. Hins vegar má hann það, ef hann vill!
Að mínu mati eru þetta sjálfsögð mannréttindi sem snúa að frelsi einstaklingsins, eins og Oddný benti réttilega á. Launaleynd hins vegar heimilar fyrirtækjum að banna starfsfólki að gefa upp laun sín eða ræða sín á milli. Þar hallar nú heldur betur á frelsi einstaklingsins, sem Heiðrún Lind og félagar hampa þó iðulega sem sinni helstu pólitísku lífssýn.
Ég get nefnt dæmi af eigin reynslu:
Sem stendur starfa ég hjá ríkisspítölum og er blessunarlega laus, að ég tel, við kynbundinn launamun. Þrjú sumur, 1997-1999, starfaði ég hins vegar við rannsóknir hjá stóru fyrirtæki.
Þriðja sumarið safnaði ég kjarki og bað um launahækkun í ljósi reynslu. Ekki var orðið við þeirri beiðni, með þeirri skýringu að sumarstarfsfólkið væri allt á sömu launum.
Félagi minn úr háskólanáminu fékk starf við svipaða rannsóknarvinnu og ég þetta sumar. Mér sárnaði ekki lítið seinna um sumarið þegar ég komst að því að hann hafði fengið talsvert hærri laun en ég. Við vorum jafnlangt komin í okkar grunnnámi. Það eina sem skildi okkur að var að ég var kona og hafði tveggja sumra lengri starfsreynslu en hann, sem var nýr.
Ég má teljast langrækin en ég hef aldrei getað gleymt þessu vegna þess að mér fannst á mér brotið. Í fyrirtækinu ríkti launaleynd sem varð til þess að ég þorði aldrei að kvarta undan þessu misrétti. Þetta var eitthvað sem ekki mátti ræða og mér leið og eins sakamanni að hafa komist að sannleikanum. Vitanlega var fyrirtækið einfaldlega að mismuna okkur.
Þetta dæmi er fullkomlega óvísindalegt í stærra samhengi en engu að síður persónuleg reynsla sem styrkti mig í minni trú á jafnréttisbaráttuna. Að halda því fram að ekki þrífist kynbundinn launamunur í okkar samfélagi er ekkert annað en sorgleg afneitun í ljósi þeirra ótal vönduðu kannanna sem fyrir liggja.
Með því að aflétta launaleynd leysum við ekki allan vandann en það er sannarlega skref í rétta átt. Og þar tala ég af eigin reynslu.
Arna er læknir og treystir Samfylkingunni best til að leiðrétta kynbundinn launamun. Það gerðu Samfylkingarkonur í Reykjavíkurborg í tíð R-listans. Næst á dagskrá er landið allt.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
22.3.2007 | 08:04
Kannast lesendur við orðið ÞEIR í merkingunni ÞAU sem ráða?
eftir Sigríði Björk Jónsdóttur
Oft er því haldið fram að jafnréttisbarátta síðastliðinna 25 ára hafi í raun skilað okkur konum litlu. Í kjölfar baráttunnar tóku þær, konurnar, aðeins að sér fleiri ,,utanhúss verkefni og skildu þá, karlana, eftir í tilvistarkreppu, ráfandi um heimilið í óvissu um hlutverk sitt í hinu feminíska draumalandi.
Þær konur sem upplifðu kvennafrídaginn árið 1975, sem virkir þátttakendur eða sem smábörn í vögnum eru líklega nokkuð meðvitaðar um nauðsyn þess að vera sívakandi í jafnréttisumræðunni en þær ungu konur sem fæddar eru á síðasta áratug 20. aldar eru hins vegar ekki allar nógu meðvitaðar að mínu mati.
Það er hætta á að sú kynslóð hafi hreinlega ekki alist upp við þennan sama veruleika, heldur allt annan veruleika sem stjórnast í meira mæli af ytri áhrifum og áreitum markaðsafla. Þessar ungu konur eiga mæður sem ólust upp við þá hugsun að jafnrétti kynjanna væri svo sjálfsagt fyrirbæri að ekki tæki að tala um.
Orð eru til alls fyrst og langar mig að fjalla lítillega um mikilvægi og merkingu persónufornafna í tungumálinu og hvaða undirliggjandi áhrif þau geta og hafa haft á jafnréttisbaráttuna. Að undanförnu hef ég tekið eftir því að orðið þeir hafi í málvitund íslensku þjóðarinnar (þrátt fyrir síaukinn fjölda kvenna í stjórnum og ráðum og aukna atvinnuþátttöku kvenna undanfarna áratugi) öðlast aukna merkingu a.m.k. í daglegu tali fólks. Orðið þeir virðist oft vera notað í merkingunni yfirvald, eða um það fólk sem ræður.
Dæmi: Þeir í Seðlabankanum hækka vextina og ráða hvort að talið er fram í krónum eða aurum/evrum. Þeir hjá olíufélögunum ráða eldsneytisverðinu og þeir hjá Mogganum vinna markvisst að því að gera formann Samfylkingarinnar ótrúverðugan, með því að vitna sundurlaust í eitt og annað sem sagt hefur verið á síðustu misserum.
Enda er hún hún en ekki hann, hvað þá þeir. Í kjölfar þessara hugleiðinga þá velti ég því fyrir mér hvað hafi orðið um þau og hvar þær séu að vinna? Ekki hjá KSÍ, það er alveg ljóst! Ekki á meðan þeir ráða.
Í mannfræðinni og málvísindum hafa verið gerðar margar rannsóknir á áhrifum tungumáls á hugsun og telja sumir að formgerð tungumáls og þau orð sem það býr yfir móti hugsun þeirra sem nota það.
Eða þá hitt að hugsunin móti tungumálið sem er nú öllu sennilegri skýring. Ef hallast er að hinu fyrra þá getum við með því að íhuga vel hvernig við notum orð eins og þeir, ráðið miklu um viðhorf ungs fólks í dag. Ef við veljum seinni skýringuna þá er ljóst að eitthvað er ekki enn eins og það ætti að vera.
Sigríður Björk er sveitarstjórnarfulltrúi Borgarlistans í Borgarbyggð og rannsakar og skrifar um friðaðar kirkjur í Borgarfjarðarprófastsdæmi fyrir húsafriðunarnefnd.
21.3.2007 | 08:17
Leikskóli er bara byrjunin...
eftir Evu Bjarnadóttur
Þrennt skilur á milli frelsi kvenna til þess að velja eigin lífsstíl og að þær neyðist til þess að velja milli barna og frama; dagvistun, viðurkenning á jafnri þátttöku kvenna á atvinnumarkaði og sameiginlega ábyrgð foreldra á börnum.
Við eigum það til að gleyma orrustunum sem unnist hafa í baráttunni fyrir kynjajafnrétti. Það er ekkert skrítið, þar sem auðvitað er fullkomlega eðlilegt að konur hafi kosningarétt, geti boðið sig fram til Alþingis og sveitastjórna, þeim séu tryggð jöfn réttindi samkvæmt lögum og geti haft börn sín á leikskóla meðan þær vinna.
Við megum þó ekki gleyma því að þessi réttindi eru ekki sjálfsögð um heim allan. Ekki þarf að leita lengra en til Þýskalands, þar sem ríkisrekin dagheimili eru af skornum skammti og einkarekin eru of dýr fyrir meðalfjölskyldu.
Það er þó ekki það eina sem hamlar þýskum konum, heldur er almenningsálitið þannig að jafnvel þótt þær sæki sér mikla menntun vinna þær heima eftir hafa átt börn. Lausnin fyrir konur sem vilja vinna úti er að eignast ekki börn og velja sífellt fleiri konur þann kost. Það getur varla talist sanngjarnt val ef val skyldi kalla.
Sameiginleg ábyrgð foreldra á barnauppeldi og breytt viðhorf til kvenna er lykilþátturinn í því að ná jafnrétti, auk þess sem ríkið verður að koma til móts við foreldra með ríkisreknum leikskólum. Það hefur verið sýnt fram á það, t.d. í Kanada, að dagvistun er ekki hægt að einkareka ef verðið á að vera viðráðanlegt fyrir meðalfjölskyldu.
Við megum ekki gleyma því að ef ekki væri fyrir góða leikskóla á Íslandi gætu mæður ekki unnið úti, sem hefði í för með sér fólksfækkun og minni atvinnuþátttöku kvenna.
Þannig stendur jafnrétti á Íslandi í dag. Leikskólarnir eru undirstaða þess að konur geti unnið úti á meðan að sameiginleg ábyrgð foreldra á börnum og heimili er ekki orðin almenn.
Sameiginleg ábyrgð á börnum og heimili hefur ekki aðeins áhrif á atvinnuþátttöku kvenna. Það er einnig baráttumál karla að fá jafnan aðgang að heimilinu. Feðraorlof var skref í rétta átt og vonandi hefur það í för með sér jafna skiptingu á uppeldishlutverkinu og heimilisstörfunum. Hvernig heimilin í landinu eru rekin er ekki síður mikilvægt heldur en atvinnulífið.
Leikskólar eru bara byrjunin. Við verðum líka að breyta hugfari okkar. Tvöföld byrði kvenna er hnattrænt vandamál, sem við ættum í sameiningu að há orrustu gegn.
Eva Bjarnadóttir er BA í kynja- og stjórnmálafræði og hefur alið konuna í Köben í vetur. Hún kemur heim í dag velkomin Eva!
20.3.2007 | 00:58
10 góðar ástæður fyrir því að ganga í Evrópusambandið...
eftir Oddnýju Sturludóttur
Jafnrétti eykst
Ísland tekur nú þegar þátt í nokkrum jafnréttisáætlunum Evrópusambandsins í gegnum EES-samninginn, en ákvæði Amsterdamsáttmálans um jafnrétti eru ekki hluti af EES.
Með ESB-aðild getur Ísland tekið af fullum krafti þátt í vaxandi samstarfi á sviði jafnréttismála. Svo dæmi sé tekið verða allar tillögur að nýrri löggjöf í ESB að fara í ,,jafnréttismat áður en þær eru lagðar fram.
Vextir af húsnæðislánum lækka
Agi er nauðsynlegur öllum þeim ríkjum sem taka stefnuna á Evruaðild, öðruvísi fá ríkin ekki inngöngu. Vextir verða að lækka til að innganga sé yfirhöfuð hugsandi, verðbólga verður að vera minni.
Vinnutími styttist
Aukin hagkvæmni samfara lægri vaxtakostnaði og matvælaverði hefur gert það að verkum víða í Evrópu að vinnustundum hefur fækkað.
Matarverð lækkar
Tollar á landbúnaðarafurðir frá aðildarríkjum ESB hverfa sama dag og aðild tekur gildi.
Samkeppni verður virkari
Aðild að Evrópusambandinu og Evruaðild þýðir að samkeppni í verslun og þjónustu verður mun virkari. Það skilar sér í hagstæðari lánakjörum og í lægra verði fyrir margskonar þjónustu og vörur.
Tækifærum til menntunar fjölgar
Gangi Ísland í Evrópusambandið standa allir skólar í Evrópu, líka í Bretlandi, íslenskum nemendum opnir á sama hátt og innlendum nemendum og á sömu kjörum og innlendum nemendum.
Ísland tekur þátt í að móta framtíð heimsins
Evrópusambandið er stærsta viðskiptaveldi heims, örlátur veitandi þróunaraðstoðar og í fararbroddi í umhverfisvernd á alþjóðavettvangi.
Evrópusambandið hefur áhrif á heimsbyggðina með viðskiptum, samningum og styrkjum, ekki með hernaði, þvingunum og fangelsun.
Ísland fengi sæti við borðið sem aðildarríki, okkar rödd á að heyrast.
Velmegun eykst
Með Evrópusambandsaðild hverfur viðskiptakostnaður við aðildarríki ESB, þar sem tæplega 80% viðskipta Íslands eru.
Öryggi eykst
Aðildarríki Evrópusambandsins yrðu öflugir bakhjarlar Íslendinga. Öryggi eykst gegn hvers kyns vá, þar sem aðildarríkin standa ekki aðeins saman á vettvangi alþjóðastofnanna heldur leggja þau hönd á plóginn vegna nátttúru- og efnahagslegra hamfara
Landbúnaðarstefna verður hagkvæmari
Evrópusambandið hefur hagrætt í landbúnaði og leggur áherslu á að halda landi í byggð og styrkja bændur til búsetu og verkefna í þágu landgræðslu, ferðamennsku, menntunar og varðveislu þjóðararfs, ÁN ÞESS að eyða milljörðum á milljarða ofan í framleiðslustyrki.
Oddný er framtíðarsinni. Hún vill að hugað verði betur að framtíð lands og þjóðar en áður hefur verið gert. Hún er bjartsýn á framtíðina.
19.3.2007 | 09:06
Samningatækni Erin Brockovich
eftir Valgerði Bjarnadóttur
Fékk tilkynningu frá félagi viðskipta- og hagfræðinga í e-meilnum. Hún var um vinnustofu sem ber heitið: ,,Samningatækni og Julia Roberts. Kona fær oft svona tilkynningar eða auglýsingar, sem vissulega gleður hana því þá veit hún af þeim aragrúa námskeiða, fyrirlestra og tónleika sem hægt er að sækja hér í borg.
Þessi vakti sérstaka athygli því á námskeiðinu á að nota eina af mínum uppáhaldsbíómyndum til að kenna fólki samningatækni. Með slíkri tækni er ætlunin ábyggilega að ná góðum samningum og þá vaknaði spurningin: hvað eru góðir samningar.
Mætur maður sem löngum stóð í samningaviðræðum fyrir okkur íslenska þjóð, sagði eitt sinn eitthvað á þá leið að Íslendingar teldu ekkert góðan samning nema að viðsemjandinn lægi eftir bjargarlaus og helst vildum við stela veskinu hans líka.
Ég er þeirrar skoðunar að góður samningur er sá sem báðir geta unað glaðir við. Þess vegna finnst mér bíómyndin Erin Brockovich ekki endilega gott sýnishorn af samningagerð. Ekki vegna þess að mér líkaði ekki endirinn, þegar þrjótarnir hlutu makleg málagjöld og fólkið sem níðst hafði verið á fékk þó allavega peninga til að hjálpa því í veikindum sínum og hryllingi. En fólkið fékk auðvitað ekki það sem tekið hafði verið af því nefnilega heilsuna eða ættingjana sem höfðu látist. Aðstæðurnar í bíómyndinni eru þess eðlis að ég sé ekki alveg hvernig draga á lærdóm af henni í daglegu lífi, hvað þá útrásarviðskiptalífi.
Af hverju drífur manneskjan sig ekki í vinnustofuna og sér hvernig þetta er áður en hún heldur lengra í gagnrýni sinni, hugsar ábyggilega einhver. Nú kemur skýringin á því: bent er sérstaklega á fjögur atriði sem leggja á áherslu í vinnustofunni:
1) ,,Samningsstíl. Allt í lagi með það, gæti verið um hvort fólk er glaðlegt eða alvarlegt, hvernig það er klætt og margt svoleiðis sem getur verið nytsamlegt.
2) ,,Vörpun akkera í samningaviðræðum. Ja hérna, hvað skyldi það nú vera, líklega að hafa fast land undir fótum. Að allir gangi í sömu átt en ani ekki út og suður í viðræðunum og reki sitt í hverja áttina. Svo getur þetta líka verið að staldra við, þæfa, jafnvel láta ekki draga sig eða reka í einhverja átt sem kona vill ekki fara í. Þetta er örugglega eitthvað sniðugt.
3) ,,Hvernig auka má vald. Aha, það er vegna þessa sem ég dæmi vinnustofuna fyrirfram. Hvað hefur það með góðan samning að gera að auka vald sitt? Gömul karlakenning sem veldur skaða út um allt: á heimilum, á vinnustöðum og í þjóðfélaginu öllu. Gerir að verkum að fólk er alltaf með einhver undirmál, vinnur jafnvel ekki vinnuna sína eyðir fjármunum ríkissjóðs allt til þess að auka vald sitt. Ég vil bara alls ekki fara á námskeið sem kennir slíkt. Væri ég Vinstri græn þá mundi ég örugglega leggja til að námskeið eða vinnustofur sem hafa slíkt á matseðlinum væru bönnuð.
4) ,,Byggja upp traust við samningaborðið. Þetta er kjarni málsins, nema að mér finnst orðunum ,,við samningaborðið ofaukið. Af hverju bara við samningaborðið, er ekki traust það sem skiptir máli í hjónabandinu, í uppeldinu, í vinnunni, við stjórn landsins ?
Ég á mér þá ósk að úrslit kosninganna í vor verði þau að til verði þingmeirihluti sem fer vel með það vald sem fellur þingmeirhluta í skaut, hann reyni ekki að auka vald sitt heldur kannski einmitt hitt hið gagnstæða auki vald fólksins í landinu og taki í gerðum sínum tillit til minnihlutans, þannig að sem flestir uni sáttir við.
Og síðast en ekki síst þingmeirihluti sem er traustsins verður.
Valgerður telur traust meira virði en vald og heilsu meira virði en peninga.
Pæling dagsins
- Kvennaþing í Hveragerði 11.-12. apríl. Stjórnmálaumræður með femínískum jafnaðarkonum. Ball með ROKKSLÆÐUNNI um kvöldið. Ertu búin að skrá þig?
Nota bene
Bloggandi konur
Anna Kristjáns
Arndís Anna
Arndís Steinþórs
Ása Richards
Ásta R. Jóhannesdóttir
Björk Vilhelmsdóttir
Bryndís Ísfold
Edda Agnarsdóttir
Beta Ronalds
Erla Sigurðardóttir
Eva Bjarna
Guðríður Arnardóttir
Dagbjört Hákonard
Helga Vala
Ingibjörg Stefáns
Jóhanna
Katrín Anna
Katrín Júlíusdóttir
Lára Stefánsdóttir
Magga Stína
Oddný Sturludóttir
Ólína Þorvarðardóttir
Rósa Erlings
Sonja B Jónsdóttir
Steinunn Valdís
Svanfríður Jónasdóttir
Þorgerður Diðriks
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 1
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 4
- Frá upphafi: 106410
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 4
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar