Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
10.4.2007 | 23:26
Við erum alltaf á réttum aldri!
Eftir Svanfríði Jónasdóttur.
Fyrir nokkrum árum tók ég þátt í gerð myndaflokks fyrir sjónvarpið ,,Maður er kona". Hluti af mínu framlagi var teboð með vinkonum mínum þar sem við ræddum mikilvæg mál, ekki síst fyrir konur. Við ræddum um æskudýrkun sem kom fram í blöðum, ekki síst þegar kynlíf var annars vegar. Engu væri líkara en kynlíf fólks á miðjum aldri eða eldra væri ekki viðurkennt.
Við hins vegar lýstum því yfir fyrir myndavélina að kynlíf batnaði með aldrinum. Og þannig fór það út á öldum ljósvakans.
DALVÍKURYFIRLÝSINGIN var þetta kallað og ýmsar konur fögnuðu þessari tímabæru opinberun á sannleikanum, orðnar hundleiðar á að vera nánast afskrifaðar sem kynverur þegar þær voru komnar yfir þrítugt, hvað þá eldri.
Sumarið 2004 heyrði ég svo í fréttum að einhver sérfræðingur úti í heimi hefði gert þá uppgötvun að þetta væri einmitt staðreyndin; kynlíf batnar með aldrinum. Fólk á fimmtugs, sextugs og sjötugsaldri (og eldra) sé afskaplega vel til kynlífs fallið og njóti þess ómælt.
Er þetta ekki frábært? Í fréttinni var talað um þetta sem andóf gegn æskudýrkuninni. Rétt eins og við vinkonurnar vildum gera hérna um árið með Dalvíkuryfirlýsingunni. Hún var sem sagt sönnuð í útlöndum ;)
Og það er fleira. Það er sannarlega skemmtilegt fyrir okkur sem erum á miðjum aldri að lesa um víðtæk áhrif ,,baby boomers", að stóru árgangarnir fæddir 1946 til 1964 skuli enn hafa svo mikil áhrif vegna fyrirferðar sinnar, og nú á nýjum sviðum. Sannarlega hafa þessir árgangar haft víðtæk áhrif á kerfi Vesturlanda þó ekki væri nema stærðar sinnar vegna.
Þessi mikli fjöldi fullorðinna sem nú lifir og hrærist í þjóðfélaginu er einfaldlega enn svo stór miðað við aðra árganga fólks að hann kallar enn á athygli stjórnvalda, menntastofnanna og iðnaðarins. Eldra fólk er líka betur menntað, við betri heilsu og betur fjárhagslega statt en nokkru sinni fyrr. Líklega er það skýringin á því að farið er að virða fullorðna meira en áður.
Ég las um það í The Scotsman að til þess að ná enn frekar athygli þessa hóps séu fyrirsætur á miðjum aldri að verða eftirsóttari. Samkvæmt könnun sem birtist í Easy Living Magazine eyddu konur á aldrinum 30 til 59 ára 6,4 billjónum punda í tískuvörur á síðasta ári og 1,4 billjónum punda í fegrunarvörur. Það sé því einhvers virði að beina sjónum að þeim, það er líka mun meira sannfærandi að auglýsa konu undir stýri á hraðskeiðum bíl sem greinilega hefur efni á að kaupa hann og að fólk sem er raunverulega með hrukkur auglýsi hrukkukremin.
Þetta þýðir, mínar elskulegu, að hrukkur og lífreynsla telst fegurð. Við erum alltaf á réttum aldri.
Svanfríður er bæjarstjóri á Dalvík og auðvitað á réttum aldri.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
9.4.2007 | 23:03
Hvað er að konum?
Eftir Iðunni Steinsdóttur.
Hann var ekki gæfulegur páskadagsboðskapur Staksteina í Mogganum sem byggður var á síðustu skoðanakönnun Capacent- Gallup. Ekki nóg með að Ingibjörg Sólrún og Steingrímur Joð væru bæði sett út í kuldann heldur fylgdu í kjölfarið Össur og allt nánasta samstarfsfólk hans og Ingibjargar í Samfylkingunni.
Burt úr pólitíkinni, allt þetta leiðindalið! Og það sem meira er: Ekki örlar á neinni yngri forystusveit í Samfylkingunni þannig að dagar hennar eru taldir. (Ha, ha, ha!) Það á nú ekki við Sjálfstæðisflokkinn, hann á mjög öfluga unga sveit sem bíður þess í ofvæni að fá að byrja að hræra í pottunum og taka við einkavinavæðingunni.
Græni armurinn mun yfirtaka Vinstri græna og nýtt fólk koma þar til sögunnar, engin ástæða til að hafa áhyggjur af þeim. Getur verið að Mogginn sé kominn með spámann sem sér fram í tímann? Þetta var slík örlagaspá að óneitanlega setti að mér kuldahroll.
Að vísu hef ég allt frá barnæsku vanist því að taka ekki pólitískan boðskap Moggans bókstaflega, ekki einu sinni á jólum eða páskum. En ég er ekki samnefnari fyrir allar konur í landinu.
Þetta málgagn hefur nú nítt af Ingibjörgu Sólrúnu skóinn svo mánuðum og árum skiptir og mér til sárrar armæðu sé ég hve vel það hefur skilað sér til margra kynsystra minna. Ein af annarri tyggur það sama:
- Mér finnst nú að hún Ingibjörg ætti að fara að hugsa sig um og róa sig niður.
- Ha, segi ég forviða, hvað meinarðu?
- Nú, hún er svo frek og hörð.
- Bíddu, en karlarnir? Er hún frekari en þeir?
Þá vefst viðmælendum yfirleitt tunga um höfuð, þær höfðu greinilega ekki spáð í karlana eða dottið í hug að bera hana saman við þá.
- Ja, mér mér finnst bara að hún gæti brosað svolítið.
- Mér finnst hún einmitt alltaf svo brosmild, ég dáist að því hvað hún getur endalaust verið glaðleg, sama hvaða leiðindagaurar eru í kringum hana.
- Nei, hún er alltof hörð.
Og þá dett ég ofan í mína hefðbundnu ræðu um það hvað Ingibjörg sé skýrmælt og rökföst. Ég bendi þeim líka á að meðferð moggans á henni stafi af því að hún sé keppinauturinn sem stjórnarflokkarnir hræðist.
- Heldurðu það? svara sumar öldungis hissa.
Þegar ég spyr hvort þeim finnist ekki kominn tími til að kona verði forsætisráðherra verður fátt um svör.
Ég hélt reyndar að það væru bara konur, komnar yfir miðjan aldur sem hugsuðu svona. En þegar rúmlega tvítug stúlka sem hafði á sínum tíma stutt Ingibjörgu til formannskjörs kom með sömu klisjuna var mér allri lokið.
Hvað er að konum? Af hverju geta þær ekki staðið með kynsystrum sínum, og sjálfum sér um leið?
Ég hef kennt í grunnskóla í áranna rás og skynjað muninn á kynjunum þegar komið er upp í 7. til 8. bekk. Það er að sjálfsögu ekki hægt að alhæfa og segja: Strákar eru svona og stelpur hinsegin. En í heildina eru stelpurnar samviskusamar, duglegar, hlédrægar og standa klárar á sínu meðan stór hluti strákanna er barnalegur, óþægur og alltaf til í að láta álit sitt í ljósi, líka óumbeðið.
Það er svo skrítið að horfa upp á þennan mun og finna hvað stelpurnar eru miklu hæfari en um leið víkjandi. Ég spyr mig hvort það sé innbyggt í kvenkynið að karlkynið sé æðra? Eða er þetta afleiðing af uppeldi?
Hvað sem það er, þarf það að breytast. Það þarf að breytast svo að okkur finnist jafn sjálfsagt að konur svari fullum hálsi eins og að karlar geri það.
Einu sinni sagði kunningjakona mín að jafnréttinu yrði fyrst náð þegar það þætti jafnsjálfsagt að ráða óhæfa konu í stöðu eins og óhæfan karl.
Ég vil bæta við: Og að konur gegni æðstu stöðum af því að þær eru jafnhæfar eða hæfari en karlarnir í kring og þegar kona sem sýnir ákveðni og þor er kölluð "ákveðin" en ekki "frek".
Iðunn er ein af okkar ástsælustu barnabókahöfundum.
7.4.2007 | 14:36
Þökk sé herra Armani...
eftir Völu Þórsdóttur
Það eru margar ástæður og misjafnar fyrir því að ekki er tekið mark á manni. Ég var oftast hunsuð vegna þess að ég var ung listakona. Í ofanálag taldi fólk mig oft vera yngri en ég var, sem var ávísun á að ég hefði líklega ekkert til málanna að leggja.
Það getur semsagt verið slæmt að vera ung kona sem sýnist yngri en hún er. Sem helst illa í hendur við þá staðreynd að fátt er meira eftirsóknarvert í henni veröld.
Fyrir nokkrum árum velti ég því mikið fyrir mér hvað ég gæti gert til að fólk tæki meira mark á mér og hætti að tala við mig eins og ómarktækt krútt eða sveimhuga unga listakonu.
Ég skoðaði framkomu mína vel, spáði í hvernig ég setti fram erindi mín, hvernig ég sat við borðið og hvernig ég klæddi mig.
Ástandið breyttist ekki til batnaðar og ég gekk því enn lengra. Ég breytti fataskápnum, tamdi mér ákveðnari framkomu og hermdi eftir töktum karlmanna. Ég einbeitti mér að því að setja hlutina fram á einfaldan hátt, án málalenginga eða tilfinningasemi.
Á svipuðum tíma las ég Ilminn eftir Patrick Suskind. Í kjölfarið fékk ég hugmynd og hætti ég að nota ilmvatn en keypti mér rakspíra. Rakspírann nota ég fyrir mikilvæga fundi en dagsdaglega nota ég mildari karlailmi.
Það áttar sig enginn á því að ég geng með karlailm. En viðmót fólks hefur breyst gagnvart mér. Það tekur mark á mér og finnst ég hafa eitthvað til málanna að leggja... Þökk sé herra Armani.
Vala er leikskáld og ólst upp á tilraunabúinu Skriðuklaustri ásamt 700 fjár, 20 gæsum, 7 hundum og 14 köttum. Hún á fimm systkini og foreldrar hennar eru ennþá giftir.
5.4.2007 | 08:41
Karlaslagsíða á fjölmiðlum
eftir Svanfríði Jónasdóttur
Einungis 12-18% íþróttafrétta á Íslandi fjalla um konur!
Þriðja hver íþróttafrétt í Evrópu fjallar um knattspyrnu karla! Einungis 12-18% íþróttafrétta á Íslandi fjalla um konur! Hlutur kvenna í erlendum íþróttafréttum sem sýndar eru hér á landi er mun hærri en í innlendum íþróttafréttum!
Þetta og margt fleira hefur evrópska verkefnið Sports, Media and Stereotypes eða ,,Íþróttir, fjölmiðlar og staðalímyndir leitt í ljós en niðurstöður þess voru kynntar í upphafi síðasta árs.
Mér fannst við hæfi að rifja þetta upp þegar ég sá frétt um að Páll Magnússon útvarpsstjóri og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra hefðu nú loks undirritað samning um það að RÚV beri að gæta jafnræðis kynjanna, í umfjöllun um íþróttir og íþróttaviðburði.
Það er hluti skilgreiningar á útvarpsþjónustu í almannaþágu. Samningurinn tekur gildi 1. apríl næstkomandi og er til fjögurra ára. Í honum er kveðið á um að uppfylltar séu menningarlegar, lýðræðislegar og þjóðfélagslegar þarfir íslensks samfélags með sem hagkvæmastri tækni, eins og þar segir.
Hugsa sér að það skuli þurfa sérstakan samning um það að ríkisútvarpið gegni þessu lýðræðislega hlutverki. Lengra erum við ekki komin.
Ljóst er að stórlega hallar á hlut kvenna þegar litið er til íþróttafrétta. Markmið verkefnisins Sports, Media and Stereotypes var ekki einungis að leiða í ljós þann mun sem væri til staðar heldur einnig að leita leiða til að breyta því ástandi sem fyrir er.
Því var unnið, samhliða rannsókninni, fræðsluefni sem er ætlað íþróttafréttamönnum, íþróttakennurum og þjálfurum. Fræðsluefnið er gefið út á margmiðlunarformi. Markmið fræðsluefnisins er að hvetja til breytinga á birtingamyndum kynjanna í íþróttum og íþróttafréttum með því að vekja athygli á áhrifum einsleitrar endurspeglunnar af íþróttakonum og körlum.
Íþróttafréttamennirnir hafa því aðgang að góðu fræðsluefni nú þegar þeim verður gert að vinna öðruvísi en hefðin og vaninn segja þeim og er þá vonandi ekkert að vanbúnaði að segja meira frá hinum helmingi landsmanna.
Uppáhalds íþróttagrein Svanfríðar er sund sem hún stundar á hverjum morgni, í öllum veðrum. Sem unglingur átti hún laugarmet í 100 metra bringusundi í gömlu Kópavogslauginni.
4.4.2007 | 06:54
Vor í lofti!
eftir Guðrúnu Helgadóttur
Nú látum við vora í íslenskum stjórnmálum! Það er komið að því að ganga í vorverkin af kjarki og dugnaði; við erum liðsmenn í stórum flokki með sterka stefnu. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir sagði réttilega á 60+ fundinum hér á Sauðárkróki um daginn að sú mikla andstaða og áróður sem hafður er uppi gegn Samfylkingunni er okkar heilbrigðisvottorð, það sýnir að við erum verðugur andstæðingur stjórnaraflanna. Nú er hinsvegar nóg komið af því aðrir segi söguna af Samfylkingunni, nú þurfum við að láta til okkar taka og vekja athygli á því að við erum flokkur sem lætur sér ekki nægja að vera með meiningar, við vinnum að lausnum og höfum frumkvæði að því að setja mál á dagskrá.
Samfylkingin vinnur markvisst að jafnrétti og bættum lífskjörum á öllum sviðum; Kvennahreyfingin ályktaði á sínum aðalfundi um að stytta vinnutíma fólks, færa yfirráð jafnréttismála undir forsætisráðuneytið og fjölga konum í hópi forstöðumanna ráðuneyta og ríkisstofnana. Við þurfum ekki annað en líta til þeirrar metnaðarfullu jafnréttisstefnu sem rekin var í Reykjavík í borgarstjóratíð Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur til að sjá að hún mun láta verkin tala sem forsætisráðherra.
Já ég segi forsætisráðherra, því þó það gangi vel þessa stundina að leiðrétta það sem Guðjón Arnar Kristinsson kallaði kvenlægan misskilning, þ.e. að konur haldi að þær séu til forystu fallnar í íslenskum stjórnmálum þá eigum við Íslendingar sögulegt tækifæri í vor. Að koma konu í stól forsætisráðherra. EF það hvarflar að einhverjum að það skipti ekki máli, bið ég viðkomandi að láta hugann reika aftur til þess tíma þegar við bárum gæfu til að kjósa fyrstu konuna forseta lýðveldisins. Það skipti máli í jafnréttisbaráttunni, það skipti máli fyrir þjóðarsálina og það skipti máli á alþjóðavettvangi.
Guðrún talar fjálglega um vorið, enda hefur hún ástæðu til, það er vorilmur í lofti, látum vorið ná inn í stjórnarráðið.
3.4.2007 | 09:52
Meinfyndið! Indverskur Árni Matt klikkar á jafnréttismálunum...
Stjórnmál og samfélag | Breytt 4.4.2007 kl. 06:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
3.4.2007 | 08:34
Af hverju ekki eitt félag í viðbót?
eftir Önnu Kristjánsdóttur
Ég var á stofnfundi Félags jafnaðarmanna í Árbæ á fimmtudaginn var, þar sem yfirbloggarinn á Trúnó, Oddný Sturludóttir, var fundarstjóri. Þetta var skemmtilegur fundur um leið og ég furða mig á Samfylkingin skuli ekki hafa komið upp hverfafélögum fyrir löngu, enda stutt í að hún nái áratugnum í aldri.
Eftir fundinn kvartaði ónefndur borgarfulltrúi við mig, að ég skuli ekki hafa boðið mig fram til stjórnar félagsins. Ástæða þess er einföld. Fólk á ekki að taka að sér fleiri ábyrgðarstörf en það ræður við. Því mér finnst mikið að sitja í stjórn tveggja félaga í senn ef vinna á að málefnum þessara félaga af heilindum.
Þar til í febrúar síðastliðnum sat ég í stjórnum Evrópsku transgendersamtakanna og Ættfræðifélaginu. Um leið og ég gekk úr stjórn Ættfræðifélagsins, tók ég þátt í stofnun íslensks transgenderfélags og sit þar í bráðabirgðastjórn. Ef ég tæki jafnframt að mér setu í hverfafélagi jafnaðarmanna á sama tíma og ég er á kafi í uppbyggingarstarfi í öðrum félögum, væri ég um leið að gefa mig út í verkefni sem gæti ekki sinnt af heilindum. Því til viðbótar eru mörg brýnustu málefni hverfisins þess eðlis, að ég gæti verið sem utangátta í umræðum félagsins, en þar á ég við uppeldis- og félagsmálin.
Ég bý ein. Ég á engin börn í skóla og barnabörnin búa í öðrum hverfum Reykjavíkur og í Garðabæ. Ég þekki lítið til félagsþjónustunnar og er sjálf að byggja mér upp vænan lífeyrissjóð svo ég þurfi sem minnst á hinu opinbera að halda í framtíðinni. Ég get ekki kvartað yfir strætó af eigin reynslu, enda bý ég í fimm mínútna göngufæri frá vinnunni. En ég viðurkenni um leið að mér finnst gott að búa í Árbænum.
Mínar áherslur liggja frekar í landsmálunum um leið og ég viðurkenni að grunnþættir alls pólitísks starfs liggja í hverfafélögunum, rétt eins og þau lágu í sellunum og leshringjunum í upphafi jafnaðarhreyfingarinnar.
Anna Kristjáns er vel til í ábyrgðarstörf, þó að hún vilji ekki hafa þau of mörg í einu....
1.4.2007 | 21:57
Silfur Egils
eftir Sólveigu Arnarsdóttur
Núna á Sunnudag voru þáttaskil í þeim annars karllæga þætti Silfur Egils. Allt í einu voru þar samankomnar fjórar konur! Mér dauðbrá auðvitað en var samt dáldið lukkuleg með að Egill sæi að sér og áttaði sig á að konur væru kannski bara jafn færar um að ræða þjóðfélagsmál og kallar
Kom mér vel fyrir með kaffibollann.
Áttaði mig samt snarlega á því afhverju honum hafði fundist við hæfi að fá fjórar konur. Það var verið að tala um kvennamál. Jafnrétti. Laun kvenna, múlbindingu þeirra í risamiðstýrðu karlakerfi. Magga Pála kallar þær vinnukonur kerfisins sem er frábært. Um börn og aðstöðu þeirra til náms. Um aldraða. Um langveika. Sumsé kvennamál. Og þegar talað er um kvennamál þá er hægt að hóa saman konum. Enda þeirra prívatvandamál. Auðvitað kemur jafnrétti körlum ekkert við. Hvað þá launamunur, börn, gamalt fólk, langveikir
Velferðarkerfið einsog það leggur sig er sumsé kvennamál.
Og þá hugsaði ég með mér hvort ekki væri best að við tækjum þau bara alfarið að okkur. Verandi greinlega það kyn sem hefur vit á þeim. Væri nú ekki amalegt. Kona sem heilbrigðisráðherra. Menntamálaráðherra. Félagsmálaráðherra. Þyrftum þá að hafa líka kvenfjármálráðherra, til að tryggja að nægt fjármagn fengist, iðnaðarráðherra, til að tryggja velferð í iðnaði, utanríkisráðherra að sjálfsögðu, við hljótum að hugsa velferðina út fyrir landsteinana, og auðvitað forsætisráðherrastólinn. Án hans er svo fátt framkvæmanlegt. Hvað er þá eftir ? Sjávarútvegs- og Landbúnaðarráðuneyti. Held reyndar að það veitti ekki af konum þar.
Umhverfis og tryggingamálaráðherrar verða að vera konur. Pjúra velferðarmál þar.
Samgöngu og kirkjumál? Er ekki alveg hægt að flokka það undir velferðarmál?
En þetta voru fínar umræður í Silfrinu og meira eða minna voru þessar fjórar konur sammála, enda er það svo að konur standa saman, oftast
Þegar konurnar höfðu lokið umræðum um sín prívatpróblem kynnti Egill hins vegar til sögunnar þrjá spekinga til að ræða þjóðmálin. Engar kellingar þar. Enda eru þjóðmál ekki kvennamál. Þannig að um þau geta konur greinilega ekki rætt.
Sólveig er kona, en hún er líka spekingur sem hefur gaman af að ræða þjóðmálin. Hún býður því hverjum sem er í spjall um allt milli himins og jarðar.
31.3.2007 | 13:50
Stækkað álver - nei takk!
eftir Helgu Völu Helgadóttur
Ég bý ekki í Hafnarfirði og fæ því ekki að kjósa. En ég sendi ykkur, kæru Hafnfirðingar hlýja strauma í von um að þið kjósið nú rétt í dag. Eina vitið er að hafna stækkun álvers í Hafnarfirði.
Ástæður eru fjölmargar.
1. Umhverfileg sjónarmið: Loftmengun og sjónmengun samfara stækkun. Stórkostleg lýti á náttúru landsins samfara frekari virkjun til að framleiða rafmagn í þetta ferlíki
2. Framtíðin: Við eigum ekki að klára alla orkumöguleika okkar á einu bretti með því að sundurskera landið. Óafturkræf umhverfisspjöll samhliða virkjanaframkvæmdum. Við eigum að skila landinu amk ekki verra en það var þegar við tókum við því. Við erum með þetta fallega land í láni frá komandi kynslóðum. Við megum ekki skemma það, frekar en annað sem við fáum að láni.
3. Nútíðin: Þensla á höfuðborgarsvæðinu, Faxaflóinn að verða einn mengaðasti pollur á jarðkringlunni alveg sama þótt þetta sé "betra" en kjarnorkuver, þá höfum við nú ekkert sýnt það í verki að okkur sé svona brjálæðislega annt um umheiminn. Skammarlega lágt framlag til þróunarmála og auka mengunarkvóti vegna Kyoto bókunar eru dæmi um að við séum nú ekkert bara að þessu vegna þess hversu annt okkur er um jarðkringluna. Frekari þensla á suðvestursvæði kemur illa niður á öðrum svæðum landsins.
Við verðum að stöðva frekari stóriðjuuppbygginu áður en það er of seint. Hafnfirðingar - þið hafið valdið. Notið það rétt í dag. Það skiptir svo miklu máli.
Helgu Völu er umhugað um framtíðina - þykir vænt um landið og er þakklát fyrir að fá að njóta þess sem landið hefur upp á að bjóða. Hún vill leyfa framtíðarkynslóðum að njóta þess líka og þess vegna vill hún alls ekki stækkað álver í Hafnarfirði.
30.3.2007 | 13:06
NJÓTUM lífsins...
Samfylkingin kynnti í gær ítarlega aðgerðaáætlun um hvernig bæta megi aðstöðu barna og barnafólks á Íslandi. Þar er að finna hugmyndir um foreldraráðgjöf í öllum sveitarfélögum sem miðist við mismunandi aldursskeið barna, frí tannvernd og afsláttarkort vegna tannviðgerða barna, hækkun barnabóta og vaxtabóta og ókeypis námsbækur í framhaldsskólum.
Þá vill Samfylkingin leita samráðs við aðila vinnumarkaðarins um leiðir til að auka sveigjanleika á vinnumarkaði með því að stytta hinn virka vinnutíma foreldra.
Í stefnunni er lögð á það áhersla að á næsta kjörtímabili muni Samfylkingin, fái hún til þess umboð, beita sér fyrir markvissum aðgerðum til að bæta stöðu barna og barnafjölskyldna á Íslandi í samstarfi við foreldra, skóla, sveitarfélög, samtök atvinnurekenda, verkalýðsfélög, meðferðaraðila, samtök sem vinna að heill barna og samtök fólks af erlendum uppruna.
Markmið Samfylkingarinnar verða eftirfarandi:
Bæta hag barnafjölskyldna
Auka stuðning við foreldra til að sinna uppeldishlutverki sínu
Virkja og styrkja hæfileika allra nemenda í skólakerfinu
Leita allra leiða til að draga úr fátækt barna
Auka vernd barna gegn kynferðisafbrotum
Auka stuðning við börn innflytjenda
Auka stuðning við börn og fjölskyldur barna og ungmenna, sem eiga í vanda vegna vímuefna eða hegðunarerfiðleika, og einnig við börn foreldra sem eiga við sama vanda að etja
Bæta lagaumhverfi í málefnum barna og réttarstöðu þeirra
Ritnefnd Trúnó hefur lesið stefnuna í heild sinni og hrópar húrra fyrir heildstæðri stefnu sem setur mikilvægustu borgarana í fyrsta sætið. Stefnuna í heild sinni er hægt að lesa á www.samfylking.is
Pæling dagsins
- Kvennaþing í Hveragerði 11.-12. apríl. Stjórnmálaumræður með femínískum jafnaðarkonum. Ball með ROKKSLÆÐUNNI um kvöldið. Ertu búin að skrá þig?
Nota bene
Bloggandi konur
Anna Kristjáns
Arndís Anna
Arndís Steinþórs
Ása Richards
Ásta R. Jóhannesdóttir
Björk Vilhelmsdóttir
Bryndís Ísfold
Edda Agnarsdóttir
Beta Ronalds
Erla Sigurðardóttir
Eva Bjarna
Guðríður Arnardóttir
Dagbjört Hákonard
Helga Vala
Ingibjörg Stefáns
Jóhanna
Katrín Anna
Katrín Júlíusdóttir
Lára Stefánsdóttir
Magga Stína
Oddný Sturludóttir
Ólína Þorvarðardóttir
Rósa Erlings
Sonja B Jónsdóttir
Steinunn Valdís
Svanfríður Jónasdóttir
Þorgerður Diðriks
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 3
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 3
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar