Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

"Í vikulokin"

Eftir Drífu Kristjánsdóttur

Var að hlusta á þáttinn "Í vikulokin".  Björk Vilhelmsdóttir, Samfylkingunni, Gísli Marteinn sjálfstæðisflokki og Gyða Margrét, félagsfræðingur og kynjafræðingur, voru að ræða málin.

Mér finnst alveg frábært að þættir í útvarpi og sjónvarpi fara á netið.  Á netinu geta allir hlustað á þætti sem þeir hafa misst af eða vilja heyra aftur, og tekið saman hvað hver sagði.  Heyra orðaflauminn og innihald þeirra orða sem sögð eru.

Ég legg til að áhugasamir um jafnrétti hlusti á þennan þátt sem var á dagskrá fyrir hádegi á laugardag.

Mjög sérstakt að hlusta á Gísla Martein í umræðu um launamál og jafnrétti.  Hann reif orðið af konunum hvað eftir annað, hótaði því að konur muni hafa það verra af, ef launajafnrétti fæst. Vill ekki að launaleynd verði afnumin hótar versnandi hag kvenna ef svo verði.

Tekur orðið hvað eftir annað og neitar að hlusta á rök kvennanna.  Tekur svo þáttinn yfir í lokin og færir málefnið yfir á umhverfismál og því miður láta konurnar til leiðast og fylgja honum í umræðunni. eða þær hlusta bara, kurteisar.  Þær fara jafnvel að hrósa honum, þótt hann hafi verið hundleiðinlegur fram að þessu í þættinum

Björk og Gyða Margrét voru mjög einbeittar og flottar í sínum málflutningi framan af þættinum, en svo fékk Gísli Marteinn að vaða yfir allt og taka stjórnina.  Mig langaði miklu meira að heyra meir í Björk og Gyðu Margréti en þær gáfust hreinlega upp enda ekki furða, yfirgangurinn í Gísla Marteini var slíkur og málflutingur hans fyrst og fremst fullyrðingar gegn fullyrðingum.  Hann var eins og krakki í þættinum og sagði oft bara nei, nei, víst, víst, víst...... 

Ég vona að konur hlusti á þáttinn og styðji Ingibjörgu Sólrúnu til góðra verka.  Ekki veitir af. Mín ósk er að hún verði næsti forsætisráðherra Íslands.

Drífa býr á Torfastöðum í Biskupstungum og nýtur þess að hlusta á gömlu gufuna.

 


Áfram stelpur !

Eftir Steinunni Valdísi Óskarsdóttur

Síðustu daga hef ég henst á milli staða og stofnana, heilsað upp á fólk og kynnt stefnuna.  Það er gömul klisja stjórnmálamanna að segjast finna fyrir miklum meðbyr og svona bla bla tal.  Ég hef tekið þátt í þó nokkrum kosningabaráttum og það er nú bara þannig, að maður finnur nokk hvernig landið liggur.  Þannig fann ég síðastliðið vor að það var stemming fyrir því að skipta um stjórn í Reykjavík og þannig finn ég núna að það er mjög rík krafa um að skipta um ríkisstjórn.   Síðustu daga er ég búin að fara í Spöngina, Kringluna, Kolaport og víðar og ég skynja mjög sterkt að landið er heldur betur að rísa hjá okkur í Samfylkingunni.  Sérstaklega finn ég að konur sem ætluðu að kjósa aðra flokka og kannski sérstaklega  VG eru farnar að skipta um skoðun.  Ég ætla ekki að velta mér upp úr hvers vegna þær urðu okkur afhuga en annað er víst að margar konur sjá núna að atkvæði greitt Samfylkingunni er ávísun á áherslur sem eru konum að skapi.  Auðvitað veit ég að útkoma okkar margra kvenna í prófkjörum hefur  farið fyrir brjóstið á mörgum, en það þýðir ekkert að gráta það endalaust heldur bara að setja undir sig hausinn og halda áfram.  Við samfylkingarkonur eigum líka svo flotta ferilskrá og eigum að minna á það.  Ég nefni eitt lítið dæmi úr félagsmálaráðherratíð Jóhönnu Sigurðar - konur sem standa í atvinnurekstri þekkja sjóð sem er vistaður í félagsmálaráðuneytinu og gengur alltaf undir nafninu "Jóhönnusjóður"  Sá sjóður var settur á laggirnar til að styðja og styrkja sérstaklega konur í atvinnurekstri.  Við þekkjum allar verk Ingibjargar Sólrúnar í Reykjavík.  Þar var biðlistum á leikskóla eytt, sett var tímasett aðgerðaáætlun varðandi kyndbundinn launamunur og konum var fjölgað í yfirstjórn.  Sjálf finn ég að fólk metur það mikið að í minni borgarstjóratíð hækkuðu laun lægst launuðu kvennastéttanna verulega.    

Við eigum nefnilega að vera óþreytandi að hæla hver annarri, við eigum frábærar konur út um allt land.  Og það sem við höfum umfram Sjálfstæðisflokkinn er að við höfum konur með feminískar ferilskrár.  Þegar sjálfstæðiskonur eru spurðar um þessi málefni nefna þær alltaf fæðingarorlofslögin og ekkert annað.  Allir eru sammála um að þessi lög voru stórt skref til jafnréttis en má ég minna á eitt.  Það var gamli Kvennalistinn sem fyrst flutti þingmál um stofnun fæðingarorlofssjóð en þá - eins og oft áður - var ekki réttur flokkslitur á þeim sem áttu hugmyndina.  Ég var á landsfundi Kvennalistans líklega 1992 þar sem Ingibjörg Sólrún talaði fyrir þessu.  Þá þótti hún alltof róttæk hugmyndin um að atvinnurekendur greiddu allir ákveðið framlag í sjóð sem myndi gera það að verkum að það yrði "jafn áhættusamt" að ráða karla eins og konur, vegna réttarins til töku fæðingarorlofs.    

Það er gott að sjálfstæðisflokkurinn er ánægður með fæðingarorlofslögin enda voru þau hugsuð og sett fyrst fram af framsýnum feministum í Kvennalistanum.

Steinunn Valdís er feministi og frambjóðandi.    


Hið raunverulega frelsi felst í rökræðunni

eftir Önnu Láru Steindal

Þessa dagana er mikið skrafað um stefnumál og aðferðafræði stjórnmálaflokkanna einsog eðlilegt er þegar kosningar nálgast. Og einsog eðlilegt er sýnist sitt hverjum.

Nokkuð hefur borið á gagnrýni á Samfylkinguna fyrir meint stefnuleysi. Sumir eiga það til að fara háðulegum orðum um áherslu okkar á það sem við getum kallað samræðustjórnmál og telja að slíkt beri vott um stefnuleysi eða ótta við að taka einarða afstöðu. Þeir hinir sömu vilja láta verkin tala og predika ágæti athafnastjórnmála. Vilja einhenda sér í framkvæmdir og frábiðja sér allan kjaftavaðal og rökræður um málefnin.

Sumir hafa líka gagnrýnt Samfylkinguna fyrir kröfuna um virkara íbúalýðræði þar sem almenningur fær að taka beina afstöðu til mikilvægra mála. Einhverjir vilja túlka það sem ragmennsku og stefnuleysi – en í mínum huga er það merki um hugrekki og virðingu fyrir kjósendum. Eru það ekki grundvallar mannréttindi að fá að njóta vitsmunna sinna og sjálfstæðrar hugsunar í eins ríkum mæli og mögulegt er?

Auðvitað eiga stjórnmál að snúast um athafnir ekki síður en orðræðu. En kapp er best með forsjá. Það var ekki síst áherslan á rökræðuna sem réði því að ég fann mér stað í Samfylkingunni – enda fæ ég ekki séð að sönn jafnaðarhugsjón fái þrifist án hennar. Hvernig er hægt að móta skynsamlega framtíðarsýn á sameiginlegan veruleika okkar allra – ef bara sumar raddir fá að heyrast? Eða það sem verra er – aðeins útvaldar raddir fá að heyrast?

Sú hugmyndafræði sem Samfylkingin byggir á og kalla má frjálslynda jafnaðarstefnu er skýr. Það vita þeir sem hafa kynnt sér málin og persónulega hef ég aldrei getað skilið þetta píp um að Samfylkingin sé stefnulaus flokkur. Útfærsla stefnunnar verður að taka mið af aðstæðum í þjóðfélaginu hverju sinni eigi hún að hafa hagnýtt gildi og nýtast sem tæki til þess að ná settu markmiði. Pólitísk hugmyndafræði er með öðrum oðrum bitlaust vopn á veruleikann í tómarúmi sem ekki tekur mið af raunverulegum aðstæðum í síbreytilegum heimi.

Það er í rökræðunni sem hið raunverulega frelsi, sem jafnaðarmenn berjast fyrir, getur orðið að veruleika. Frelsið til þess að láta rödd sína heyrast í trausti þess að á verði hlustað og tillit til tekið.

Anna Lára er Skagamær sem dýrkar samræðustjórnmál.


,,Þetta fólk"

Eftir Söru Dögg.

Umræðan um útlendinga á Íslandi er með ólíkindum þessa dagana. Frjálslyndir tala ,,hreint út" eins og þeir segja og vilja að fólk átti sig á því að ,,þetta fólk" er vandamál. Orðræðan er þannig að allir eru farnir að segja ,,þetta fólk" um fólk af erlendu bergi brotið og það sem meira er að ,,þetta fólk" virðist einungis vera vinnuafl.

Það gleymist alveg að tala um fjölskyldur ,,þessa fólks", börn þessa fólks sem útleggjast kannski sem ,,þessi börn þessa fólks".

Ég hef ekki heyrt neinn tala um hvernig okkur gengur að taka á móti börnum þessa fólks og láta þeim líða vel í okkar samfélagi, enda er væntanlega flestum nákvæmlega sama - eða hvað?

Vandamálið er nefnilega ekki ,,þetta fólk". Vandamálið er stjórnarhættir, fyrirkomulag og eftirfylgni með öllum fjölskyldunum sem tilheyra ,,þessu fólki". Skólakerfið berst í bökkum og reynir hvað það getur að sinna menntun barna ,,þessa fólks". Hver er árangurinn þar?

Hvað eru það aftur mörg ,,þessi ungmenni" sem ná að fóta sig í framhaldsskóla? Ég man ekki töluna en ég man að það er skammarlegt.

Einhvern tímann var stefnan að kenna öllum erlendum börnum íslensku á sama hátt. Þá var stefnan sú að móðurmál erlendra barna skipti ekki máli í framgöngu þeirra í námi. Nú hefur því verið snúið við, loksins, og viðurkennt að móðurmálið skiptir öllu máli þ.e. góð undirstaða í eigin tungumáli er forsenda þess að vel geti tekist til í öllu öðru námi.

Menntamálaráðherra komst þannig að orði að við værum að sinna íslenskunámi ,,þessa fólks" afar vel í sjónvarpinu um daginn. Ég er ansi hrædd um að hún hafi verið að tala um vinnuaflið og allt snúist um að vinnuaflið geti nú tjáð sig í miðri stíflunni svo allt fari nú ekki í bakkgír.

Ég vona nú að pólitíkin fari nú að tala um málefni fólks af erlendu bergi brotið af meiri virðingu og af einhverju viti.

Sara Dögg er kennari og bendir á að í öllum könnunum kemur í ljós að umburðarlyndi og jákvæð viðhorf til fjölmenningar er mest meðal þeirra sem kjósa Samfylkinguna...


Græðum á nýju sumri.

Eftir Bryndísi Ísfold Hlöðversdóttur

Nú þegar fer að líða að sumri með hækkandi sól tínist fólk út í 
garðana sína til að þrífa upp ruslið sem fokið hefur og fest sig í 
gróðrinum. Vandvirkir hreyfa við moldinni og þeir metnaðafyllstu sá 
fræjum sem veita þeim svo ómælda ánægju þegar sumarið skellur á.

Ástandið í garði ríkisstjórnarinnar er ekki glæsilegt og sæmir ekki 
stjórnarheimilinu. Illgresið hefur náð miklum vexti og fá fræ hafa 
verið sett niður. Helstu blómin sem nú “blómstra” í vetrarhörkunni 
eru afleggjarar sinnuleysis og fyrir það líður þjóðin. Sinnuleysið er 
mikið en eitt þeirra fúnu blóma sem virðist aldrei ætla að ná að 
blómstra í þessum illa hirta garði er marglitaða jafnréttisblómið.

Kynjajafnrétti þessarar ríkistjórnar hljóðar upp á 0% árangur í 
baráttunni gegn kynbundnum launamun. Skelfileg skilaboð til allra 
þeirra kvenna sem leggja á sig ómælda vinnu til þess að standa til 
jafns á við karla í samfélaginu. Leikreglurnar eru svo óskýrar að 
þrátt fyrir lög um jafnan rétt kvenna og karla þá virðist tilefni til 
þess að framfylgja lögunum lítið sem ekkert. Enda getur hver sem er 
brotið þau lög og hlotið fyrir vikið enga refsingu.

Kynbundið ofbeldi hefur hvorki minnkað né hafa dómar sem fallið hafa 
hækkað í hlutfalli við tilkynnta ofbeldisglæpi gagnvart konum. Ekki 
er þó svo að skilja að stjórnarliðar hafi ekki vitnesku um alvarleika 
málsins því þeir lofa bótum í hver sinn sem þeir fá tækifæri til í 
fjölmiðlum. En ekki þora þeir svo að framkvæma þegar á reynir þrátt 
fyrir að stjórnarandstaðan hafi boðið upp á ýmsar leiðir til að bæta 
úr ástandinu.

Rétt fyrir lok þingsins auglýstu stjórnarliðar nýtt frumvarp til 
breytinga á jafnréttislögum. Bjartsýni ríkti í u.þ.b. viku, þar til í 
ljós kom að þeir myndu ekki þora að leggja frumvarpið í dóm sinna 
eigin þingmanna. Frumvarpið var bara hluti af þeirri sýningu sem þeir 
munu nú standa fyrir í aðdraganda kosninganna sem gengur út á að 
þykjast ætla að jafna leikinn og boða hinar ýmsu leiðir í því skyni 
en á endanum segja þeir einfaldlega: þetta er allt að koma.

Í raun hefur jafnréttið verið ,,alveg að koma” allan síðasta áratug í 
stjórnartíð Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins.

Engar aðgerðir, engar lausnir og á meðan sitja konur með styttra 
stráið í höndunum og vetrarharkan geisar áfram í þeirra garði. Fyrir 
okkur sem virkilega langar í jafnréttisinnaðan garð er tækifærið núna 
að kjósa aðgerðir í stað orða.  Sú sem kann að rífa upp gamlan og 
rótgróinn arfa og sú sem þorir að hreyfa við moldinni og getur 
plantað kynjuðum blómum til framtíðar er leiðtogi Samfylkingarinnar 
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir.

Gefum von með vorinu og kjósum alvöru garðyrkjumann til að sá fræjum 
til jafnréttisframtíðar.

Bryndís Ísfold er frambjóðandi í Reykjavík fyrir Samfylkinguna. Hún 
hlakkar til að taka á móti sumrinu í íslenskri pólitík.


Tarsanleikur á landsfundi...

Eftir Önnu Láru Steindal.

,,Sniðugt að vera með svona barnapólitík", sagði sonur minn fimm ára í Egilshöll um helgina. Samfylkingin sýndi barnapólitík sína í verki með því að bjóða upp á skemmtilega dagskrá fyrir börnin. Áhersla okkar á velferð barna er ekki orðin tóm.

Mér fannst ánægjulegt að sjá hversu margir foreldrar nýttu sér barnadagskrá fundarins og tóku börnin sín með. Enda er það svo að í hugum sona minna toppar þessi fundur flest það sem fjölskyldan hefur gert saman síðustu misserin. Tarsanleikur með þjálfurum Heilsuakademíunnar, skautasvell og barnahorn fyrir þau yngstu. Í Egilshöllinni er líka nóg pláss til að hlaupa um og allir tóku þeim vel, ótal margir stöldruðu við og spjölluðu við þessa ungu fundargesti og komu fram við þá af þeirri virðingu sem þeir eiga skilið. Þannig á það líka að vera.

Það ríkti einstakur andi á þessum fundi, vinalegur, glaður og einlægur andi, sem synir mínir skynjuðu. Fimm ára drengurinn sem skottaðist um undir vökulu augnaráði foreldra sinna með símanúmer mömmu í sokknum (planið var að leita uppi starfslið fundarins og láta hringja í mömmu ef hann týndist) kom líka fljótlega hlaupandi til mín og spurði hvort reglan um að tala ekki við ókunnuga ætti nokkuð við í þessum félagsskap. ,,Mamma, má ég ekki alveg tala við ókunnuga núna af því að við erum öll vinir í sama liðinu?" spurði hann og einhvern vegin datt mér ekki í hug að banna honum það.

,,Sniðugt hjá Rauða liðinu að vera með svona barnapólitík, það er svo skemmtilegt hérna," bætti hann svo við og var rokinn.

Ég tek undir með syni mínum, það er frábært hjá Samfylkingunni að bjóða upp á alvöru barnapólitík. Ég hvet alla foreldra til þess að kynna sér Unga Ísland, aðgerðaáætlun í málefnum barna og velta því fyrir sér hvort ekki sé kominn tími til að kjósa betri framtíð fyrir börnin okkar. Ég kýs það fyrir mín börn. En þú?

Anna Lára býr uppi á Skaga og þar er einmitt kvennapartý næsta miðvikudagskvöld!!! Allar velkomnar.


Hvernig kona ert þú?

Eftir Kristínu Atladóttur.

Það er oft talið konum til minnkunnar að hafa hin mjúku mál á oddinum í pólitík. Velferð, hvort sem hún birtist í heilbrigðiskerfinu, almannatryggingum eða skólakerfinu, eru mjúk mál og því mál kvenna. Stjórnmálakonur sem stunda pólitík af þessu tagi eru ekki taldar traustvekjandi og ekki til þess hæfar að stýra heilli þjóðarskútu. Þetta er bull, en því miður lífseigt bull.

En já, sumar konur er mjúkar og næmar og hafa samkvæmt nýlegum athugunum ekki viðlíka áhuga á að græða peninga og karlar. Vissulega hafa þær áhuga á að eignast peninga en ekki á kostnað velferðarsamfélagsins. Þessar konur hafa ekkert á móti því að lifa við lúxus, safna eignum og auðin það gera þær ekki fyrr en sjálfsögðum þörfum fólks hefur verið mætt.

Þær telja sig ekki hafa efni á því fyrr en:
öldruðum er tryggð mannsæmandi afkoma og þeim er þurfa hjúkrað við aðstæður sem taka að fullu tillit til mannlegrar reisnar.
börnum er tryggt gott atlæti, hvatingu og þá bestu umönnun sem samfélagið hefur getu til að veita þeim á heimilum, í dagvistun og í skóla.
veikburða einstaklingum er veitt skjól og stuðningur til að lifa eins góðu lífi og aðstæður hvers og eins leyfa.
hlúð er að ungu fólki á þann hátt að það nær að nýta til fulls hæfileika sína og getu, í skóla sem og á vinnumarkaði.
fjölskyldur og heimili landsins eru virt sem hornsteinn samfélagins og þeim tryggð eins góð afkoma, í fjárhags- og félagslegu tilliti, og unnt er.

Þessar konur sem um ræðir vita að það verður að stunda ábyrga hagstjórn, tryggja atvinnu- og viðskiptalífinu hagstæð skilyrði, ástunda skynsamleg samskipti við erlend ríki og bandalög og huga að framtíðinni með því að reka styrka og ábyrga stefnu í náttúru- og umhverfismálum sem og í menntun, vísindum og tækni.

Þessar konur vita líka að samábyrgð er skynsamleg, allir eigi að leggja eitthvað af mörkum öðrum til handa. Hvers vegna? Vegna þess að það er mennska og slík mennska gerir samfélag að góðu samfélagi.

En hvaða konur eru þetta? Hvaða konur eru svona skynsamar, þroskaðar og réttsýnar? Þær finnast víða, sem betur fer, en margar segja eins og Mona Sahlin sagði við upphaf landsfundar Samfylkingarinnar: Ég er kona og þess vegna hugsa ég um velferðarmál. Ég er kona og þess vegna er ég jafnaðarmaður.

Þjóðin á skilið svona konu í forsætisráðherrastól í vor.

Kristín er svona kvikmyndagerðarmaður, svona kona...og jafnaðarmaður.


Koma svo!

Eftir Oddnýju Sturludóttur.

Landsfundi Samfylkingar lauk í gær, raunar nótt, því dansinn dunaði á Grand hótel til klukkan 3. Landsfundurinn var einfaldlega stórkostleg upplifun. Setningarathöfnin og ræður Ingibjargar Sólrúnar, Helle Thorning-Schmidt og Monu Sahlin voru einfaldlega magnaðar. Þráin eftir jafnrétti, jöfnuði og betri heimi skein hreinlega úr augum þeirra, og raunar allra landsfundargesta. Tár féllu og menn féllust í faðma. Önnur dagskrá fundarins var frábær, skapandi og frumleg. Krefjandi og góðar pólitískar umræður en ég tók þátt í málefnahópum sem tengdust kvenfrelsis- og jafnréttismálum, mannréttindum og innflytjendum.

Umgjörð fundarins var æðisleg enda ekki við öðru að búast þegar Þórhildur Þorleifsdóttir og Beta Ronalds leggja saman krafta sína. Þvílíkar kempur sem skipulögðu fundinn, Sigrún Jónsdóttir, Sólveig Arnarsdóttir og Hólmfríður Garðarsdóttir sem leiddi vinnunna. Ótal fleiri lögðu hönd á plóg. Það var einmitt Hólmfríður sem bað mig að flytja stutta ræðu í gær, en undir þeim dagskrárlið töluðu einnig Amal Tamimi, Jakob Frímann Þorsteinsson og Arnar Guðmundsson. Hér er hún, værsogú.

,,Í gær, föstudaginn 13. apríl, var gaman að lifa. Þá stóðu hér í rósahafi þrjár konur sem markað hafa djúp spor í stjórnmálasögu Norðurlandanna. Allar eru þær í minnihluta í sínu landi, allar eru þær í meirihluta í hjarta mínu.

Helle Thorning-Schmidt talaði um velferð og hinn eina sanna tón jafnaðarstefnunnar sem meinar það sem hún segir, alltaf og einatt. Helle varaði við felubúningum hægriflokkanna sem þeir klæðast þegar kosningar nálgast. Jafnaðarstefnan er nefnilega svo dásamleg að flestir vilja komast í fötin okkar þegar mikið liggur við.

Þetta könnumst við vel við á Íslandi. Á kosningavori vilja allir vera eins og við – munurinn á okkur og hinum er sá að þessi föt, eru okkar hversdagsföt – velferðin og jafnréttismálin klæða okkur best. Svo einfalt er það.

Mona Sahlin talaði um af hverju hún væri jafnaðarmaður, og hún tíndi margt til. Hún er jafnaðarmaður af því hún er kona, svo einfalt var það! Hún nefndi líka velferðarmálin, börnin og erindið sem jafnaðarhugsjónin ætti við samfélagið á öllum tímum. Viðfangsefnin eru þau sömu - öll viljum við betrumbæta samfélagið. Heimurinn hins vegar breytist og svörin og lausnirnar er ekki alltaf þau sömu. Þess vegna er svo nauðsynlegt að jafnaðarstefnan sé við lýði.

Að vega og meta hverja þraut sem fyrir okkur er lögð er okkar stærsti kostur. Samstarf, samráð, athygli og löngun til að þekkja hversdagsleg verkefni, vandamál og verkefni fullorðinna, barna og barnafólks, þarfir atvinnulífs og launþega, er okkar aðall.

Viðfangsefni réttlátrar og jafnréttissinnaðrar Samfylkingar eru ofin úr margbreytilegum þráðum sem spinna hinn hversdagslega vef. Lífið er pólitík og pólitík er lífið. Gleymum því aldrei. Og í lífinu, rétt eins og pólitíkinni er sífellt verið að gefa upp á nýtt, lausnirnar og svörin eru aldrei þau sömu. Gleymum því aldrei.

Ingibjörg Sólrún talaði í sinni ræðu um hversdagsleg vandamál sem er svo áríðandi að greiða úr. Biðlista sem verður að eyða, vanrækslusyndir og óstjórn.

En hún talaði ekki bara um biðlista, heldur líka lista sem tveir menn ákváðu að skrá okkur á og við viljum helst koma okkur út af sem fyrst – Að eyða biðlistum og blóðugum stríðlistum verða fyrstu verkefni ríkisstjórnar undir forystu Ingibjargar Sólrúnar.

Mona eggjaði mig mjög með þrástefi ræðu sinnar, af hverju hún væri jafnaðarmaður: og ég spyr sjálfa mig af hverju ég sé í Samfylkingunni? Fyrir því eru þrjár ástæður: Ingibjörg, Sólrún og Gísladóttir. Þó er ég sannarlega laus við foringjadýrkun og tel víst að fyrirmyndin Ingibjörg Sólrún skipti meira máli en persónan sjálf.

Ég var lítil stelpa þegar Ingbjörg Sólrún kom fram á hið pólitíska sjónarsvið. Alla tíð hefur hún verið þarna, inni í sjónvarpskassanum, á síðum blaðanna og alltaf að tala um hversdagsleg viðfangsefni sem snertir fólk, mig og ykkur á hverjum degi.

Vera hennar í stjórnmálum, óbilgirni, sigrar, hæðir og lægðir hafa fylgt mér öll unglingsárin og árin mín sem ung kona á Íslandi. Ég varð þeirrar gæfu aðnjótandi að hafa hana sem fyrirmynd – hún hafði engar, eins og hún kom að í ræðu sinni í gær. Ég hafði hana og það hefur haft mikið að segja fyrir mig og aðrar konur. Konur gátu stjórnað borg og gert það vel, konur hlutu þá að geta allt. Kvenfrelsi er kraftaverk í lífi hverrar konu, hefur Ingibjörg Sólrún sjálf sagt.

Fyrirmyndir eru geysilega mikilvægar, þess vegna var dásamlegt að sjá þessar þrjár konur á sviðinu í gær. Ef landsmenn þeirra bera gæfu til að leiða þær allar til forsætis, ef franska og bandaríska þjóðin bera gæfu til þess að kjósa konur sem forseta verður heimurinn ekki samur.

Berum höfuðið hátt, kæru vinir og finnum fyrir krafti og mikilvægi jafnréttisbaráttunnar sem er ein af þungamiðjum okkar flokks.

Lífið er pólitík og pólitík er lífið. Þær stöllur Mona og Helle margsögðu í gær að þetta væri ekki flókið. Konur eru helmingur mannkyns og við græðum öll á því að hlusta á sjónarmið beggja. Svo einfalt er það.

Við í Samfylkingunni höfum skýrustu velferðarpólitíkina, barnapólitíkina, jafnréttispólitíkina, efnahagspólitíkina og umhverfispólitíkina. Við megum vera rígmontin af byggðapólitíkinni, menntapólitíkinni og menningarpólitíkinni.

Við vitum þetta ósköp vel, okkar starf næstu vikur verður að kalla þetta á torgum úti, hvísla í óákveðin eyru, tjá okkur í ræðu og riti, og leyfa engum landsmanni að ganga til náða þann 11. maí án þess að hafa hlýtt á okkar boðskap.

Það er verkefni næstu vikna, og ekkert okkar má liggja á liði sínu. Koma svo!"

Oddný er í sjöunda himni eftir frábæran landsfund.


Vigdís, Ingibjörg Sólrún og Ségoléne Royal

Eftir Bergþór Bjarnason.

Í síðustu viku hlustaði ég á Vigdísi Finnbogadóttur á fyrirlestri í Sorbonne-háskóla í París. Hún sagði sögu sína og íslenskra kvenna í baráttunni fyrir jafnrétti í stjórnmálum sem og víðar í þjóðlífinu. Það var sannarlega gaman. Ekki síst að heyra upprifjun á öllum þeim neikvæðu röddum sem heyrðust meðal annars frá mótframbjóðendum hennar eins og ,,hver sér þá um heimilið? Hvernig getur einhleyp kona verið forseti?" og fleira í þeim dúr. Vigdís sýndi svo sannarlega hvað í henni bjó, um það þarf ekki að hafa fleiri orð.

En þar sem ég sat í Sorbonne og hlustaði á Vigdísi, velti ég fyrir mér hvort kjör hennar, og síðar tilurð Kvennalistans, hafi mótað lífsýn mína sem æ síðan hefur grundvallast af jöfnum rétti kvenna og karla til að blómstra í einka- og opinberu lífi. Ég rifjaði upp vorið ´94 þegar við söfnuðumst saman í kringum Ingibjörgu Sólrúnu til að vinna borgina, það var einstök upplifun og stemning.

Þá voru uppi loforð um að breyta stöðluðu kerfi til að jafna hlut kvenna hvað varðaði laun, stöðuveitingar og ekki má gleyma öllum leikskóladeildunum sem voru reistar og gerðu konum kleift að hella sér af krafti út í atvinnulífið til jafns við karla.

Þetta voru loforð sem voru efnd.

Enn eina ferðina er ég að dreifa bæklingum, líma plaköt og senda tölvupósta til vinahópsins, fyrir konu, jafnaðarkonuna Ségolène Royal sem keppir um forsetaembætti Frakklands. Frakkland er svo sannarlega eftirbátur Íslands í jafnrétti í stjórnmálum því hér heyrast allir frasarnir sem voru notaðir um Vigdísi árið 1980.

Á dögunum var Ségolène gestur í pólitískum þætti og fyrsta línan í einu blaðanna daginn eftir var ,,í hvítum jakka yfir svartan kjól..." Það var það fyrsta sem blaðamanni kom í hug! Ég get ekki einu sinni ímyndað mér einhleypa konu í framboði í Frakklandi. Ségolène er ekki gift en hefur búið áratugum saman með manni sínum og á með honum fjögur börn, en hún yrði fyrsti ógifti forsetinn sem sest að í Elysée-höll.

En baráttan er hörð og þegar er búið að endurtaka hundrað þúsund sinnum að þessi kona sem hefur ,,bara" verið þingmaður fjögur kjörtímabil og ,,bara" verið ráðherra í sex ár (að auki í ,,ómerkilegum kvennaráðuneytum" eins og umhverfis-, fjölskyldumála- og skólamálaráðuneyti en ekki fjármála- eða innanríkisráðuneyti, og ,,bara" verið forseti héraðstjórnar Poitou-Charente, þá eru sumir byrjaðir að trúa því að ,,hún geti ekki verið forseti."

Nú kem ég að efninu. Því hugurinn leitar heim þegar líður að þinkosningum. Því miður er vantrú karla, og kvenna, á konum enn rótgróið. Jafnvel á Íslandi. Mér finnst svo augljóst að markvisst sé unnið að því að sverta orðstír Ingibjargar Sólrúnar, kannski til þess að koma í veg fyrir að hún verði forsætisráðherra.

Hvarlar það ekki að neinum að það sé gamla karlveldið sem ,,ætlar nú ekki að lát´ana komast í Stjórnarráðið, hún hrifasði nú til sín völdin í Ráðhúsinu í þrígang"!

Hvað varð um þann góða stuðning kvenna sem fylgdu Kvennalistanum að málum og R-listanum síðar meir? Að styðja við konur í prófkjörum og kosningum til þess að koma þeim að, hver sem flokkurinn væri? Ég veit vel að Samfylkingunni hefur ekki tekist nógu vel að skipa konur í efstu sæti listanna en það á ekki við í Reykjavík þar sem góðar konur eins og Steinunn Valdís, Kristrún Heimisdóttir og Valgerður Bjarnadóttir eru í framboði.

Það er heldur ekki nóg að hafa fallega jafnréttisstefnu, það þarf sömuleiðis að framkvæma hana og það gerði fyrrum borgarstjóri svo sannarlega í þau níu ár sem hún stýrði borginni. Hvaða stjórnmálamaður getur státað af jafn augljósri og góðri ferilskrá í jafnréttismálum og Ingibjörg Sólrún?

Ætla konur að hoppa af vagninum þegar konur mega síst við því?

Bergþór Bjarnason er fyrsti karlmaðurinn sem fær að skrifa á trúnó enda gallharður femínísti. Hann var aðstoðarkosningastjóri Kvennalistans árið 1995, starfar hjá tískuhúsi Yves Saint Laurent í París og vinnur nú í kosningabaráttu Ségolène Royal í frítíma sínum.

Alltaf á haus og passa gleraugun

Eftir Þórhildi Þorleifsdóttur.

Einhver, ég man ekki hver, var að agnúast út í Ingibjörgu Sólrúnu og kvað úreltan stjórnmálastíl hennar vera orsök óvinsælda hennar. Gaman að einhver skuli vekja máls á stíl. Eitthvað sem vert væri að skoða oftar og betur. Og reyna að greina.

En til að festast ekki í staðalímyndum er nauðsynlegt að víkka sjónarhornið, setja upp ný gleraugu eða jafnvel standa á haus (en passa að missa ekki gleraugun) og spyrja síðan: Hver er hinn rétti stíll og er nauðsynlegt að vera karlmaður til að ganga upp í ímyndinni um réttan stíl stjórnmálaskörunga, leiðtoga, formanna og forsætisráðherra?

Úff, mér verður bókstaflega illt í huga og hönd! Þvílíkir titlar og allir lýsa þeir karlmönnum. Er það furða að kona passi ekki inn í ímyndina og að ekki sé óskað eftir nærveru hennar. Það myndi svo sannarlega riðla góðri heildarmynd.

En nú ætla ég að taka mér Bessaleyfi og spá í stíl þeirra leiðtoga sem voru í Kastljósi síðastliðið mánudagskvöld. Þá verður fyrst að nefna heildarmyndina. Fimm karlar og ein kona. Stílleysi heildarmyndarinnar blasti við: konan eins og prentvilla í annars gallalausum stíl.

Byrjum greininguna á vinstri væng skjásins, þar sem sátu reyndar hægri öfl stjórnmálanna. Þar sátu fastir fyrir þrír karlar sem helst minntu á sextugan hamarinn og upp í hugann komu ljóðlínur Jóns Helgasonar: Jötuninn stendur með járnstaf í hendi, jafnan við Lómagnúp, kallar hann mig og kallar hann þig...

Svartklæddir voru þeir með ljósa bringu og litla skrautrönd sem vísaði niður í átt að manndómsmerkjum þeirra. Minnti á ýmsa fuglategundir sem skreyta sig til að ná athygli kvenfugla! Þeir töluðu, sérstaklega tveir þeirra, eins og virðulegir embættismenn frá 19. öld.

Sá fyrsti, í annálum kallaður Jón, haldinn pínulítilli þráhyggju og gat ekki hætt að segja ,,stopp" og ,,handbremsa". Dálítið eins og upptrekktur dúkkukarl sem byrjar aftur á prógramminu þegar búið er að vinda hann upp.

Næsti, sem gegnir nafninu Geir, var meira eins og góðlátlegur og vel taminn bangsi sem átti ekki að ,,performera" í kvöld. Tók bara einstaka spor og settist svo aftur. Engin sérstök tilþrif og ekkert niðrandi athugasemdir um sætustu stelpuna eða einhverjar kvensur sem hvort eð er verða ófrískar.

Sá þriðji, Guðjón, er kannski best geymdur bak við tjöldin!

Fjórði, að vísu einnig í traustvekjandi stjórnmálaleiðtogajakkafatastíl með tilheyrandi skyrtu og skrautrönd en auk þess líka með hjartað hangandi utan á sér. Fullt af blóði og hjartslátturinn ,,Ómaraði" inn á hvert heimili þar sem á annað borð var sjónvarp í gangi. Það voru bara jakkafötin sem komu í veg fyrir alvarlegt stílbrot.

Síðan kom stílbrotið, skarðið í hamrabergið. Hvítklædd kona með plíseraðar ermar! Snjóskafl sem ekki hefur náð að bráðna með hækkandi sólu, eða ljós í myrkri. Spurning um stíl og smekk.

Henni við hlið sat karlmaður í jarðarlitum. Minnti á mosató sem fest hefur rætur utan í berginu. Hefði verið alvarlegt stílbrot ef framkoman og talsmátinn hefði ekk ihalað hann í land. Aldrei þessu vant æpti hann ekki eins og hann vissi ekki að búið væri að finna upp hljóðnema og hátalara. En vísifingurinn var alltaf á lofti. Predikarinn og besserwisserinn á sínum stað. En hann mælti oft manna heilastur. Verst hvað mér gengur illa að trúa því að Steingrímur J sé gargandi femínisti!

Skoði nú hver eins og hann hefur gáfurnar til, og muna að standa á haus og passa gleraugun, stíl Ingibjargar Sólrúnar og spyrji svo: Hver er úreltur?

Þórhildur er leikstjóri og tekur sér gjarnan Bessaleyfi.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundar

Trúnó
Trúnó
Trúnó er vettvangur kvenna sem aðhyllast femíníska jafnaðarstefnu

Tónlistarspilari

Brigitte Bardot - Ca pourrait changer

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband