Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Björt og fögur framtíð blasir við konum

Eftir Þórhildi Þorleifsdóttur.

Jæja stelpur. Ekki blæs byrlega um þessar mundir og á ég þá ekki við baráttuna að koma okkar konu í forsætisráð”herra”stólinn. Hún tekur nú hvern glæsisprettinn af öðrum eins og sannkölluð veðhlaupahryssa. Líneyk veit ég langt af öðrum bera...

Það sem ég á við er að varla líður sá dagur að ekki berist ótíðindi af málum kvenna. Þau alvarlegustu þykja mér vera þau að veruleg afturför hefur orðið í afstöðu ungs fólks til jafnrar stöðu kynjanna og kvenfrelsis. Rannsóknir sýna svo ekki verður um villst að unga fólkið er íhaldsamara en þeir sem eldri eru. Kannski ræður aldurinn og reynslan þarna einhverju um. Raunveruleikinn er besti kennarinn, en það þarf þó að taka til hendinni til að hafa áhrif á skoðanir unga fólksins og breyta þeim til hins betra. Reynslan sýnir að ekki dugir að treysta á guð og lukkuna í þessum efnum og ekki heldur stjórnvöldum, a.m.k. ekki þeim sem setið  hafa við völd.

Það er oft rifjað upp í gamni og haft í flimtingum þegar stjórnmálamanni nokkrum varð fótaskortur á tungunni fyrir svo sem eins og tveimur áratugum og sagði að konan væri best geymd bak við eldavélina. En við skulum hætta að hlæja að brandaranum – unga fólkið er að stórum hluta sammála þessum forna kappa. Finnst konan best geymd við þvottavélina með skúringafötuna sér við hlið. Þar á hún að vera óáreitt meðan maðurinn er úti að sinna fjármálunum. Ekki mælt með að hún skipti sér af þeim! Ekki björt framtíðarsýn það!

Nýlega mátti lesa um rannsóknir í framhaldsskólum þar sem kom m.a. í ljós að stelpurnar – ekki síður en strákarnir – treysta strákum betur til að gegna embættum í skólanum og notuðu sígilt orðalag um þær stelpur sem sóttust eftir áhrifum. Frekar, stjórnsamar (lesist neikvætt þegar stelpur eða konur eiga í hlut) og athyglissjúkar. Við þekkjum þetta allt enda margt viðlíka brúkað undanfarið til að hnekkja á vissri konu – nefni engin nöfn. Þetta er getraun!

Og talandi um getraunir, hvað finnst okkur um “Gettu betur”? Strákar og aftur strákar og aðeins einstaka sýnishorn af hinu kyninu. Er ekki alltaf verið að lýsa áhyggjum af slæmu gengi stráka í skólanum! Eða auglýsing SPRON! Grobbinn strákur sem veit allt best – hefur meira að segja vit á hljómburði í kirkjum – og á eftir honum töltir lítil niðurlút stúlka sem mælir ekki orð af vörum og gengur ævinlega í humátt. Þetta á líklega að vera grín, en hverjum þykir þetta fyndið? Ekki mér, en ég er kannski búin að missa húmorinn, hafi ég þá einhvern tíma haft hann. Og svo halda menn því fram að þetta sé allt að koma!

I frábærum pistli Þorgerðar Einarsdóttur um daginn kallaði hún það örlagabjartsýni að halda að sér höndum og treysta á guð og lukkuna. “Þetta er allt að koma” hefur verið hin opinbera stefna  undanfarið og því miður kvaka margar konur með. Árangurinn blasir við. Þetta er greinilega ekki allt að koma – þetta er allt að fara. Nema konur grípi í taumana og blási til aðgerða. Krefjist virkrar jafnréttisfræðslu í skólum og að kennaranemar fái þá menntun sem nauðsynleg er til að vera færir um að annast þá fræðslu og að námsefni sé endurskoðað og kennsluaðferðir sömuleiðis. Það eru frábærar konur að reyna þetta í KHÍ en eru af lýsingum að dæma dálítið eins og Don Kíkóti. Vindmyllurnar allt í kring.

Ef það er staðreynd að unga kynslóðin sé svona íhaldssöm, og ekkert bendir til að ástæða sé til að véfengja það, þá verður að spyrja af hverju það stafi. Hún lærir það sem fyrir henni er haft og ætli að það sé ekki örlagabjartsýniskarlveldið sem er helsta fyrirmyndin og sú megna kvenfyrirlitning sem við blasir út um allt í orði og æði. Og ekki hjálpar klámið sem flæðir út um allt óáreitt. Örlagabjartsýniskarlveldið er borið uppi af andlega samkynhneigðum körlum sem girnast hreinlega ekki konur. Þeir dást hver að öðrum, elska, virða  - og kjósa. Konur eru því miður upp til hópa gagnkynhneigðar og girnast því karla, dást að þeim, elska, virða og kjósa!

Konur þurfa enn einu sinni að sameina kraftana, verða andlega samkynhneigðar og byrja á því að koma konu í forsætisráð”herra”stólinn. Það yrði mikilvægt skref en nægir ekki eitt og sér. Mörg önnur eru framundan og sum verður að stíga oft, en hvað um það - konur eru nú vanar síendurteknum tiltektum.

Þórhildur er baráttukona.

Það skiptir máli hver stjórnar.

eftir Aðalheiði Birgisdóttur

„Það verður kosið um hvort við eigum að halda áfram á sömu braut“ sagði forsætisráðherra í sjónvarpsþætti aðspurður um hvað yrði kosið í vor.  Kannski er það rétt hjá honum.  Ég fór að velta þessu aðeins fyrir mér. 

Langar mig til að horfa á sömu mennina og konurnar þjösnast áfram í sínum stórkallalegu kvikkfix verkefnum næstu árin?  Til „bjargar landsbyggðinni“!

Langar mig til að horfa upp á úrræðaleysi þessa sama fólks í öllum stóru málunum sem skipta okkur venjulegar fjölskyldur í landinu mestu máli?

Langar mig til að búa við næst hæstu verðbólgu í Evrópu?

Langar mig til að borga eina hæstu vexti á byggðu bóli?

Langar mig til að búa áfram við hæsta matvælaverð í heimi? 

Langar mig til að konur haldi áfram að hafa miklu lægri laun en karlar?

Langar mig til að börnin okkar þurfi að bíða árum saman eftir greininu á sjúkdómum sínum og jafn lengi eftir úrræðum?

Langar mig til að mamma mín verði orðin rænulaus áður en hún fær húsnæði sem hentar fólki á níræðisaldri?

Nei, svei mér þá, mig langar hreint ekkert til að halda áfram á brautinni þeirra Geirs og Jóns.

Mig langar ekki einu sinni til að hlusta á fólkið sem setið hefur 12 ár í ríkisstjórn segja að nú sé lag; nú megi byggja, breyta og bæta allt það sem þessi ríkisstjórn hefði átt að gera fyrir löngu.  Núna, fáeinum dögum fyrir kosningar!

„Það skiptir máli í hvaða stóli fólk situr“, sagði annar frambjóðandi í sama þætti.

Já, það skiptir sannarlega máli.  Það skiptir nefnilega máli hver stjórnar!

Setjum konu í stól forsætisráðherra 12. maí svo við getum komið á eðlilegu ástandi í landinu.

Aðalheiður getur varla beðið eftir fyrstu tölum því það er svo sannarlega kominn tími á Samfylkinguna í ríkisstjórn.


Af uppeldi drengja og stúlkna...

eftir Vilborgu Ólafsdóttur

Í uppeldi barna í kringum mig hef ég orðið vör við gríðarlega mismunun eftir því hvort alið er upp strák eða stelpu. Í bústaðarferð sem ég fór í um daginn voru tvö börn að leik, bæði tveggja ára gömul. Strákurinn gerði sér það að leik að klifra upp á stofuborð og hoppa í næsta lausa sófa. Djarfur leikur, en þegar foreldrar hans komu honum niður á gólf ræddu þau í leiðinni um það í viðurkenningartóni hversu strákar væru áræðnari en stelpur. Þeir þyrðu svona leikjum alveg án þess að blikna. Stúlkan gerði tilraun til að leika sama leikinn. Hún klifraði upp á sófaborðið og hoppaði í næsta sófa. Foreldrar hennar komu strax á staðinn, létu hana á gólfið, litu djúpt í augun á henni og sögðu: “Ekki príla. Þetta er hættulegt, þú getur meitt þig”. Enginn minntist á áræðni stúlkunnar en seinna um daginn heyrði ég á tal foreldranna þar sem að í hálfkæringi var hlegið að uppátækjum stúlkunnar, hún var kölluð óhemja og “svakaleg...”. 

Þetta litla dæmi er aðeins eitt af fjölmörgum. Strákum og stúlkum er mismunað frá deginum sem þau fæðast og því er ekki furða að einhver munur mælist á verkefnavali og því hvernig fólk af mismunandi kyni lítur á hlutina síðar meir.

Sæmir okkur, upplýstri og menntaðri þjóð, að ala börnin okkar upp í þeirri hjátrú að eðli karla og kvenna sé í grunninn svo ólíkt að það hafi áhrif á starfsval og áhugasvið ævina á enda? Ég segi hjátrú því að engar vísindalegar staðfestingar hafa fengist á því að áhugasvið sé mótað í móðurkviði, á sama tíma og kynfærin. Er hægt að líta framhjá því að uppeldi og félagsmótun eru mestu áhrifavaldur þess að konur flokkast í einn hóp og karlar í annan?
 
Vilborg er áhugamanneskja um jafnan rétt stúlkna og drengja til að spreyta sig í sófaklifri og öðrum glannaskap.


,,Léttur húmor" í boði Björns Inga

Eftir Rósu Þórðardóttur

Björn Ingi Hrafnsson er með athyglisverða færslu á bloggsíðu sinni þar sem hann vitnar í pistlaskrif Ellýjar Ármanns þar sem Ellý sagði sögu vinkonu sinnar sem keppti um athygli kærastans við fótboltaleik. Björn Ingi ákvað í færslu sinni að skella inn ,,tveimur léttum um samskipti kynjanna og fótboltann", enda er að hans mati lífið fótbolti...

Hér fer annar hinna léttu brandara orðrétt: 

 

,,Konan mín yrði frábær markvörður" sagði Jón við mig um daginn, þar sem við vorum staddir á herrakvöldi KR. Og þegar ég leit spurnaraugum á hann, bætti hann svo við til útskýringar: ,,Ég hef ekki skorað í marga mánuði".

 

Rósa hefur ágætan húmor en ekki þann sama og formaður fjölskyldunefndar ríkisstjórnarinnar...


1. maí!

Verkafólk, til hamingju með daginn!


Who´s afraid of Ingibjörg Sólrún?

Eftir Sigríði Ingibjörg Ingadóttur

Eftir að Samfylkingin, með Ingibjörgu Sólrúnu í fararbroddi, sigraði kosningarnar árið 2003 voru það jafnaðarfólki sár vonbrigði að fá ekki tækifæri til að gera loks konu að forsætisráðherra. Margir úr hinum flokkunum vörpuðu þó öndinni léttar enda hafði Ingibjörg Sólrún Gísladóttir sýnt það í borgarstjóratíð sinni hvers femínisti getur megnað fái hann til þess völd.

Valdakerfið sem Sjálfstæðisflokkurinn hafði byggt upp í borginni var löngu komið á síðasta söludag og með innkomu Reykjavíkurlistans fóru frískir vindar um stjórnkerfi borgarinnar. Í dag er borgarkerfið – a.m.k. enn sem komið er – ávallt með hag borgarbúa að leiðarljósi þar sem börn og fjölskyldur hafa verið sett í forgang.

Lýðræðisleg vinnubrögð eru ástunduð og fjöldinn allur af mikilhæfum konum fékk loks stjórnunarstöður enda var það aðalsmerki að velja fólk eftir hæfileikum en ekki flokksskírteini eða kynferði.

Eftir kosningasigur Ingibjargar Sólrúnar í Alþingiskosningunum 2003 hrikti heldur betur í karlveldinu þó þeir hafi varpað öndinni léttar að hún komst ekki til valda, þrátt fyrir glæsilegan árangur flokks hennar. Þeim var þó öllum ljóst hversu alvarleg ógn hún er við núverandi valdakerfi þeirra sem byggir á bræðralagi og samtryggingu.

Síðustu ár hefur því verið unnið að því víða, jafnt í stjórnmálaflokkunum og fjölmiðlum, að tala Ingibjörgu Sólrúnu niður. Hún brást trausti Reykvíkinga þegar hún fór í framboð, hún kann ekki að vera formaður í stórum flokki, flokkur hennar er stefnulaus og hún er ekki sá leiðtogi sem fólk taldi hana vera.

Staðreyndin er hins vegar sú að Ingibjörg Sólrún er einn af hæfustu leiðtogum sem Ísland hefur fóstrað. Hún hætti sem borgarstjóri í Reykjavík því körlunum í samstafsflokkum Samfylkingarinnar í Reykjavíkurlistanum stóð ógn af því að hún færi í þingframboð og settu henni afarkosti.

Hún hefur leitt stefnumótunarvinnu í Samfylkingunni sem er að skila glæsilegri stefnu sem fjöldinn allur af flokksmönnum hefur komið að og mun vonandi stjórna áherslum íslenskra stjórnmála í framtíðinni. Hún er frábær stjórnmálakona og ástundar lýðræðisleg vinnubrögð en sér það ekki sem hlutverk sitt að deila og drottna.

Þessi vinnubrögð hræða núverandi valdhafa og hefðbundna stjórnmálaleiðtoga því þeirra aðferðir henta ekki samræðustjórnmálunum.

Þeir hræðast Ingibjörgu Sólrúnu því í samanburði við hana er svo augljóst að þeir eru komnir á síðasta söludag.

Sigríður Ingibjörg er femínisti þó það hafi aldrei háð henni að vera kona!


Skipt um fólk

eftir Aðalheiði Birgisdóttur

Mér er alveg sama um þjóðlendumálið ...

Mér er alveg sama hvað verður um allt húsnæðið á Keflavíkurflugvelli ...

Mér er alveg sama hvort það verður reist álver í Helguvík ...

Mér er alveg sama hvað verður um rústirnar í miðbæ Reykjavíkur ...

Mér er alveg sama hvort það verður virkjað í Þjórsá – það má virkja Gullfoss mín vegna -... meðan tæplega 200 börn bíða eftir plássi á Barna- og unglingageðdeildinni.

Hvernig getur ein ríkasta þjóð í heimi komið svona fram við börnin sín?  Þetta er ekki bara forkastanlegt.  Þetta er ófyrirgefanlegt!

Ef við bætum svo við öllu gamla fólkinu og geðfötluðum sem bíða eftir mannsæmandi búsetuúrræðum þá er þetta orðinn dágóður hópur sem fær engin viðunandi úrræði mála sinna.

Á meðan hreykir forsætisráðherra sér að því að hér hafi kaupmáttur aukist um 75% á síðustu árum (sem er auðvitað bara bull og leikur að tölum og ekkert annað) og muldrar eitthvað um að nú sé verið að byggja við BUGL og nú eigi að fara að gera eitthvað í málefnum geðfatlaðra.  Núna?  Rétt áður en gengið er til kosninga?  Af hverju var ekki byggt við BUGL fyrir tveimur árum –nú eða bara 10?  Maðurinn er búinn að sitja 16 ár í ríkisstjórn og gjarnan mjög nálægt peningakassanum.  Hann skilur eftir sig sviðna jörð í málefnum þeirra sem minna mega sín.  En vafalítið hefur kaupmátturinn aukist vel hjá þeim sem skammta sér laun að vild. 

Ég er yfirmig þreytt á sinnulausum og skilningsvana stjórnvöldum.  Ég sætti mig ekki lengur við að börn fái ekki þá geðheilbrigðisþjónustu sem þau eiga skilið.  Ég sætti mig ekki við að geðfatlaðir þurfi að liggja úti í Öskjuhlíðinni af því það finnast ekki úrræði fyrir þá.  Ég sætti mig ekki við að mamma mín þurfi að deyja áður en hún fær húsnæði sem hentar henni.  Hún er margbúin að borga fyrir það húsnæði á langri ævi. 

Það þarf að skipta um stjórnendur í landinu.  Gefa þeim frí sem eru með allt niðrum sig í velferðamálunum.  Það þarf konu í stjórnarráðið við Lækjargötu.  Konu sem þorir, vill og getur og hefur sýnt hvers hún er megnug.   Við eigum stórkostlegt tækifæri til þess eftir nokkra daga.  Látum það ekki ganga okkur úr greipum.

Aðalheiður er almennt afskaplega þolinmóð og umburðarlynd kona.. en nú er þolinmæði hennar á þrotum. Það bara verður að skipta um ríkisstjórn, fyrir Aðalheiði og okkur hin.


Ekki benda á mig

eftir Lindu Vilhjálmsdóttur

Það er ekki svo ýkja langt síðan að mér var gersamlega fyrirmunað að samþykkja þá staðreynd að ég væri sjálf ábyrg fyrir lífi mínu og hamingju. Þrátt fyrir það þóttist ég vera sjálfstæð kona og ég stóð á því fastar en fótunum að ég hefði alla tíð fylgt hugsjónum mínum eftir af festu og einurð. Ég taldi mér sömuleiðis trú um að ytri aðstæður lífs míns hefðu komið í veg fyrir að ég væri ekki bara málsmetandi manneskja, heldur mikilsvirt á einhverju sviði – sem ég vissi reyndar ekki alveg hvert var. Það var ýmislegt, og raunar ansi margt ef grannt var skoðað, sem hindraði mig í að ná þeim árangri í lífinu sem efni stóðu til. Það voru foreldrar mínir til dæmis og skólakerfið. Foreldrarnir voru ekki nógu vel stæðir og skólinn var sífellt að púkka uppá ofvitana og tossana en á sama tíma gleymdist að hvetja okkur hin til dáða. Það voru krakkarnir sem fæddust með silfurskeið í munni og þurftu ekkert fyrir lífinu að hafa. Menntaskólinn í Reykjavík sem fældi mig frá langskólanámi. Maðurinn minn sem skildi mig ekki. Sjúkraliðafélagið sem samþykkti lúsarlaun fyrir mína hönd. Jólabókaflóðið. Rithöfundasambandið. Húsnæðismálastofnun. Launamisréttið. Skatturinn. Ríkisstjórnin. Stefnuskrá fjórflokksins sem var aldrei sniðin að mínum þörfum. Óeining á vinstri væng stjórnmálanna. Kosningalögin og kjördæmaskipanin.

Í öllu þessu volæði minntist ég sjaldnast á kynbundið misrétti enda ætlaði ég ekki að láta húkka mig á einhverju kvennavæli. En lýðræðið var mér fjötur um fót. Mér fannst Íslendingar misnota lýðræðisleg réttindi sín gróflega. Málfrelsið með því að úttala sig í heitu pottunum en þegja síðan þunnu hljóði á opinberum vettvangi og kosningaréttinn með því að kjósa yfir sig sömu stjórnina á fjögurra ára fresti en kvarta sáran yfir óréttlætinu í þjóðfélaginu þess á milli. Mér ofbauð þýlyndi þjóðarinnar og skildi ekki hvers vegna þessi sínöldrandi meirihluti sat alltaf á sömu þúfunni og beið eftir Godot í stað þess að rísa upp og mótmæla. Ég var orðin ansi rassblaut þegar ég áttaði mig loksins á því að ég var einn af forsöngvurunum í þessum aðgerðarlausa búktalarakór. Á sama tíma rann það upp fyrir mér að afstaða mín til manna og málefna var alltaf byggð á neikvæðum forsendum. Viðhorf mín og viðbrögð stjórnuðust af mótþróa við afstöðu og athafnir annarra og atkvæði mitt var yfirleitt svokallað mótatkvæði. Ég vissi uppá hár hvað ég vildi ekki en ég var tregari til að viðurkenna það, bæði fyrir sjálfri mér og öðrum, hvað það var sem ég vildi. Þá hefði ég hugsanlega þurft að standa fyrir máli mínu – og það sem verra var – ég hefði neyðst til að líta í eigin barm og gangast við ákvörðunum mínum og gjörðum í gegnum tíðina.

Ég tel það síðan mitt mesta lán í lífinu að hafa staldrað við á þessum tímapunkti. Þá fékk ég ráðrúm til að endurskoða viðhorf mín til sjálfrar mín og lífsins. Ráðrúm til að taka ábyrgð á eigin velferð og annarra. Ráðrúm til að breytast. Þeir þræðir tilverunnar sem ég hef í hendi mér eru að vísu sárafáir en þeir eru traustir ef ég beiti þeim rétt. Þó að vald mitt sé eingöngu fólgið í því hvernig ég bregst við lífinu frá degi til dags getur það engu að síður haft víðtæk áhrif á tilveru annarra. Þess vegna vil ég vanda mig. Ég kýs að leita að því sem tengir mig við aðra menn í stað þess að einblína á það sem greinir mig frá þeim. Rækta þau málefni sem sameina okkur mennina í stað þess að einblína á þau sem sundra okkur. Leggja mitt af mörkum til að við getum öll notað þá hæfileika sem við búum yfir, okkur sjálfum og öðrum til góðs. Til þess að svo geti orðið þarf grunnurinn sem samfélagið byggir á að vera heilsteyptur. Við þurfum að gefa okkur tíma til að finna það út hvernig við ætlum að lifa í þessu landi án þess að ganga sífellt á náttúruna. Við verðum að vera reiðubúin til að borga okkar réttláta skerf í sameiginlegan sjóð til að treysta grunninn. En við eigum líka að gera kröfu til þess að þeim fjármunum sé varið á skynsamlegan hátt. Það er skylda okkar að endurreisa velferðarkerfið frá grunni og byggja upp metnaðarfullt skólakerfi. Ekki af því að við höfum efni á því – heldur er ástæðan sú að við höfum ekki efni á öðru.

Þegar ég spyr sjálfa mig að því hverjum ég treysti best til að búa þannig í haginn
– að börn þessa lands hafi jafnan rétt til að njóta sín
– að öryggisnetið fyrir þá sem búa við skerta getu og starfsorku sé strekkt út í öll horn
– að frelsi eins sé aldrei á kostnað annars
þá liggur svarið í augum uppi. Það eru jafnaðarmenn. Þess vegna kýs ég Samfylkinguna í vor.      

Linda er einn af okkar allra bestu rithöfundum og hún hefur valið...


Við viljum konu - en kannski ekki þessa konu....

eftir Guðrúnu Helgadóttur

Í fréttum og stjórnmálaskýringum frá Bandaríkjunum heyrist því haldið á lofti að þar í landi geti menn alveg hugsað sér konu á forsetastóli – en kannski ekki Hilary Clinton. Sama er uppá teningnum í Frakklandi gagnvart Ségoléne Royal, fyrstu konunni sem þar stefnir í stól forseta lýðveldisins. Þetta væri alveg eðlileg vangavelta ef það væru margar konur sem stefndu að forsetaframboði í þessum löndum í næstu kosningum – þá væri hægt að spyrja hvort kjósendur vilji þessa eða hina konuna. Eins og er stendur spurningin þó bara um hvort þeir vilji konu eða enn einn karlinn. Það er nefnilega bara ein kona í boði.

Þannig var það líka þegar frú Vigdís Finnbogadóttir bauð sig fyrst fram til embættis forseta Íslands. Þá hafði það aldrei gerst hérlendis og reyndar óvíða erlendis að kona væri kjörin þjóðhöfðingi eða þjóðarleiðtogi. Það er enn sjaldgæft, því miður er það enn ekki orðið jafn eðlilegur hlutur að konur séu leiðtogar og karlar. Fordæmi Vigdísar hafði þó mikil áhrif á hugarheim okkar íslendinga, það að hafa hana sem forseta gerði það eðlilegt og sjálfsagt að sjá konu í því hlutverki. Litlar stelpur jafnt sem litlir strákar áttu jafna möguleika á að verða forseti þegar þau yrðu stór.

Við stöndum aftur frammi fyrir þeirri spurningu hvort við séum tilbúin að brjóta blað í jafnréttismálum og kjósa okkur konu sem forsætisráðherra. Erum við tilbúin að fylgja jafnréttishugsjónum okkar eftir og segja þegar margir jafnhæfir eru í boði skulum við velja konu? Eða ætlum við að falla í þá gryfju að segja að við viljum ekki þessa ákveðnu konu, heldur einhverjar aðrar sem því miður eru ekki í framboði og velja þá bara enn einn karlinn af gömlum vana?

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir er án alls vafa jafn hæf til forystu og formenn annarra stjórnmálaflokka. Það er því sögulegt tækifæri í þessum alþingiskosningum að kjósa Samfylkinguna og kjósa þar með konu í fyrsta sinn forsætisráðherra lýðveldisins Íslands. Það er eðlilegt og sjálfsagt skref í átt til jafnréttis á Íslandi.

Guðrún vill einmitt svona konu í stól forsætisráðherra....


Hverju breytir stjórnmálaþátttaka kvenna?

eftir Rósu Erlingsdóttur

Í aðdraganda kosninga vilja allir stjórnmálaflokkar vera málsvarar kynjajafnréttis og benda gjarnan á hlutfall kvenna á framboðslistum sínum eða mál sem þeir telja sig hafa talað fyrir á liðnu kjörtímabili samanber íslenska umræðu um fæðingarorlofslögin. Aðrir stjórnmálamenn sem aldrei eða sjaldan hafa tjáð sig opinberlega um jafnréttismál gera það gjarnan síðustu vikurnar fyrir kosningar. Þetta gera stjórnmálaflokkar af því þeir vita að konur kjósa konur og konur kjósa frambjóðendur sem þær telja líklega til að vinna að hagsmunamálum sem snerta daglegt líf kvenna.

Valgerður Sverrisdóttir er dæmi um stjórnmálamann sem sífellt kemur á óvart. Hún hefur verið málsvari kvenna í utanríkisráðuneytinu og breytt áherslum í verkefnum friðargæslunnar. Hún hefur stóraukið stuðning Íslands við UNIFEM og UNICEF sem eru undirstofnanir Sameinuðu þjóðanna og vinna að málefnum kvenna og barna. Forverar hennar í embætti voru ekki miklir femínistar og þó breytingar Valgerðar hafi ekki verið stórkostlegar var um mikla andlitslyftingu fyrir karllæga utanríkisþjónustu að ræða. Í gær, þriðjudag mátti lesa í Fréttablaðinu tilvitnun í ræðu Valgerðar um jafnréttismál þar sem hún talar um karlægar samþykktir á alþjóðavettvangi og kerfi andsnúið konum í pólitík. Sama kona hefur oftar en einu sinni talað um sterkar konur í Framsóknarflokknum sem þurfi ekki kynjakvóta eða aðra sérmeðferð í stjórnmálum.  Hún hafi aldrei orðið þess vör að konur og karlar búi við mismunandi aðstæður í stjórnmálum. Var Valgerður alltaf femínisti eða er þetta undirbúið útspil framsóknarmanna nú skömmu fyrir kosningar? Ég veit það ekki.

Ingibjörg Sólrún er dæmi um stjórnmálamann sem aldrei víkur frá áherslum kvenfrelsins og jafnréttismála. Hún lætur verkin tala og er sér meðvituð um ábyrgð sína sem kona í forystusveit íslenskra stjórnmála.

En hvaða máli skiptir það að hafa konur í stjórnmálum? Eiga þær að hafa áhrif á inntak stjórnmálanna eða erum við bara ánægð (-ar) þegar hausatalningin sýnir jafnt kynjahlutfall.

Stjórnmálafræðingurinn Anne Phillips segir fræðilega og opinbera orðræðu um konur og stjórmál enn bera þess merki að ekki ríki einhugur um hvort og þá hverju þátttaka kvenna breyti fyrir skipulag og inntak stjórnmálanna. Hún segir fullyrðingar um að konur séu á einhvern hátt öðruvísi en karlar og muni þ.a.l breyta inntaki stjórnmálanna með þátttöku sinni sjaldgæfari en þær voru fyrir tíu árum. Með öðrum orðum er óskýrara hvernig við viljum færa rök fyrir nauðsyn aukinnar þátttöku kvenna í stjórnmálum.

Phillips er einna helst þekkt fyrir að hafa fært sterk rök fyrir lýðræðislegri nauðsyn þess að fulltrúasamkundur endurspegli þjóðfélagið. Hún hefur bent á að kosningaréttur sé ekki réttur mælikvarði á lýðréttindi kvenna. Lítil stjórnmálaþáttaka og fæð þeirra í áhrifastöðum endirspegli ójöfn tækifæri og ójafna möguleika kynjanna til félagslegs hreyfanleika þ.e.a.s möguleika einstaklinga til að breyta þjóðfélagi byggðu á kynjamisrétti. Lýðræðið verði að taka mið af kynjamismun og ójafnrétti kynjanna til að konur geti orðið þátttakendur í sama mæli og karlmenn í pólitískri ákvarðanatöku. Ef þátttaka kvenna er tryggð með sértækum aðgerðum eins og kynjakvótum muni það til lengri tíma draga úr áhrifum kynferðis á skipulag stjórmálanna sem í dag þjónar hagsmunum karla fremur en kvenna. Fjölgun kvenna sé þannig upphafið að réttlátara fulltrúalýðræði þar sem pólitísk þýðing mismunar hefur verið viðurkennd.

Rök Phillips fyrir nauðsyn þess að auka hlut kvenna í stjórnmálum hafa verið dregin saman í fjórar megináherslur. Í fyrsta lagi séu konur í stjórnmálum sterk fyrirmynd annarra kvenna, í öðru lagi sé um að ræða sjálfsagt réttlæti milli kynja, í þriðja lagi verði sérhagsmunir kvenna að eiga ötula talsmenn og í fjórða lagi muni aðkoma kvenna auka gæði stjórnmálanna og lögmæti fulltrúastofnanna. Síðasta áherslan byggir á þeirri skoðun Phillips að sýn kvenna og karla á stjórnmál sé mismunandi og byggi að einhverju leyti á ólíkum bakgrunni og reynslu kynjanna. Sterkustu rökin segir hún vera réttlætisrökin þ.e að það sé fjarstæðukennt, ósanngjarnt og andstætt hugmyndum okkar um fulltrúalýðræði að karlar einoki pólitískar stöður.

Hausatalning ? sagan öll?

En er krafan um réttlæti nægilega sterk til að ná samþykki og þar með nauðsynlegum stuðningi almennings við markmiðið um jafnara hlutfall kynjanna í fulltrúastöðum? Mikið hefur verið rætt og ritað um framtíð lýðræðis vegna vaxandi óánægju almennings með stjórnmál sem m.a kemur fram í sífellt lægri kosningaþátttöku í vestrænum lýðræðisríkjum eins og Þýskalandi, Frakklandi, Bretlandi og Bandaríkjunum.

Umræðan um kynjajafnrétti í stjórnmálum verður að taka mið af þeirri stöðu sem upp er komin og hún verður að snúast meira um áhrif kvenna á inntak stjórnmálanna, stefnumótun og þar með á líf hins almenna kjósenda. Við eigum að sannfæra fólk um að það sé á valdi stjórnmálanna að breyta lífi þeirra til hins betra, að fátækt, láglaunastörf og kynskiptur vinnumarkaður sé ekki náttúrulögmál. Að til séu leiðir til að berjast gegn heimilisofbeldi og skorti á dagvistunarúrræðum svo dæmi séu tekin. Ein leiðin er að fjölga konum í stjórmálum þar sem alþjóðlegar samanburðarrannsóknir sýni að konur eru frekar málsvarar þeirra hagsmuna sem brenna á flestum konum eins og þeirra sem snúa að jafnrétti, félagslegu réttlæti og úrræðum í heilbrigðis og félagsmálum.

Á Íslandi hafa stjórnmálakonur á vinstrivæng stjórnmálanna barist fyrir ofangreindum áherslum, áherslum sem hafa skipt sköpum fyrir stöðu jafnréttismála á Íslandi. Í vor getum við kosið um frekari framgang jafnréttismála þar sem okkur stendur til boða að kjósa konu í stól forsætisráðherra, konu sem er þekkt fyrir árangur í málaflokknum.

Rósa Erlingsdóttir, femíniskur stjórnmálafræðingur.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundar

Trúnó
Trúnó
Trúnó er vettvangur kvenna sem aðhyllast femíníska jafnaðarstefnu

Tónlistarspilari

Brigitte Bardot - Ca pourrait changer

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband