Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
9.2.2007 | 19:27
Amma! Ertu að blogga?
eftir Ragnhildi Sigríði Eggertsdóttur.
Jæja, þá er bara að hella sér út í óvissuna! Fyrsta bloggið mitt birtist hér og nú - (konan er komin hátt á sjötugsaldur!) Tillfinningin er svolítið skrítin og kitlið í maganum magnast. Og hvers vegna er ég eiginlega að þessari vitleysu? Jú, af óteljandi ástæðum svo það er eins gott að byrja.
Fyrst af öllu. Þar sem kosningar til Alþingis eru í nánd og við í Samfylkingunni erum svo lánsöm að tefla fram hinum frábæra formanni Ingibjörgu Sólrúnu, þá verða næstu mánuðir afar spennandi. Ég verð að skjóta því að að mér finnst ég alltaf vera einhvers konar fórnarlamb kúgunar þegar ég neyðist til að nota karlkynsorð til að lýsa konu; en ,,forkonan Ingibjörg Sólrún hljómar afar óspennandi. Ef til vill lúrir einhver á ylhýru hljómfögru kvenkynsorði yfir formann?
Ingibjörg Sólrún er hæfasti stjórnmálamaðurinn (karlkynsorð aftur) sem við eigum í dag. Hún er bæði skarpgreind og býr yfir mikilli kímnigáfu ásamt þeim ómetanlega en því miður sjaldgæfa hæfileika að hlusta á aðra og vega og meta orð þeirra af heiðarleika og rökfestu. Og nú vantar aðeins uppá hjá mér að hrópa ,,hallelúja.
Þetta er hinsvegar mín reynsla af Sollu sem ég kynntist fyrst árið 1984 þegar ég tók sæti í ritnefnd tímaritsins Veru fyrir hönd Reykjanesanga Kvennalistans.
Og góðir hálsar, nú er tækifæri til að sýna viljann í verki. Gerum nú allt sem í okkar valdi stendur til að fyrsta konan í forsætisráðherrastóli Íslands komi úr röðum Samfylkingarinnar!
Það voru stór orð sem einn af okkar fyrrverandi ráðherrum viðhafði um Samfylkinguna í Silfri Egils nú á dögunum - látum þau ekki reynast sönn. Við skulum líka vera á varðbergi gagnvart fordómum hvort heldur þeir snúast gegn konum, eldra fólki, öryrkjum eða innflytjendum, veruleikinn er einfaldlega sá að samfélagið samanstendur af þessum hópum - ásamt hinum ,,útvöldu.
Ég var í símanum nú rétt áðan að tala við elsta barnabarnið mitt og hún spurði hvað ég væri að gera. Eftir að ég hafði svarað kom smá þögn en svo hljómaði hátt og snjallt:
,,AMMA! ERTU AÐ BLOGGA?!
Ragnhildur Sigríður Eggertsdóttir er margföld amma, ritstýrði Veru, og flutti jómfrúrræðu sína sem þingkona kvennalista árið 1992 um götubörnin í Ríó.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
9.2.2007 | 12:15
Slúðrandi strákar
eftir Guðrúnu Ögmundsdóttur
Það er margt sem kætir hjartað þessa dagana. Trúnó er eitt af því. Loksins náum við stelpurnar að festa okkur í sessi í bloggheimum. En margt er bloggið og skrifin á síðum blaðanna um menn og málefni. Ekki síst um konur og þá sérstaklega konur sem ,,vilja upp á dekk". Hvað skildu þær vilja þangað? Þar eru strákar á fleti fyrir og finnst þeim greinilega ógnað. Allt er tínt til, svei mér þá. Þeir segja að baklandið í Samfylkingunni sé í hættu, hópar flokksmanna séu með valdarán í huga og gvöð má vita hvað... það er nú meira hvað línan er að þynnast á milli skáldskapar og slúðurs en hún hefur nú kannski alltaf verið þunn!
Þeir eru sérstaklega ötulir í skrifum sínum gegn Ingibjörgu Sólrúnu, en athuga ekki að hún er þegar komin ,,upp á dekk" og verður illa vikið til hliðar - þó þeir ólmist og berjist við að tala hana niður. Ég hef ekkert að óttast í þeim efnum því við höfum séð það svartara hér á árum áður. Það er eins og allir séu löngu búnir að gleyma því...
En auðvitað létum við engar slíkar lægðir hafa áhrif á störf okkar og stefnur og stóðum keik og lýstum markmiðum og málefnum jafnaðarmanna.
Auðvitað gerum við eins nú! Það er algjörlega nauðsynlegt að Samfylkingin fái skýrt umboð í næstu kosningum, því án hennar verða litlar sem engar breytingar. Ég hef meira en fulla trú á því með öllu því einvala liði sem í framboði er og með sterkan formann þar sem Ingibjörg Sólrún er - þó svo að slúðurstrákunum finnist eitthvað annað.
Við sjáum líka hilla í sögulegan viðburð með konu sem fyrsta forsætisráðherra landsins. Það er svo sannarlega saga til næsta bæjar og á að veita okkur enn meiri kraft fyrir stóra slaginn.
Við höfum allt í hann; hugmyndir, hugsjónir, málefni og fólk til að vinna verkin.
Áfram nú elskurnar mínar...
Guðrún Ögmunds er þingkona samfylkingar og bara með skemmtilegri konum í heimi hér.
8.2.2007 | 22:48
Jafnrétti kynjanna er mikilvægasta byggðamálið
eftir Svanfríði Jónasdóttur
Það hefur lengi verið umhugsunarefni af hverju strákar í grunnskóla fá lægri einkunnir en stelpur. Einkum hefur þessi munur verið mikill í sjávarbyggðum og á þeim svæðum þar sem konur eru síður þátttakendur í pólitík eða ráðandi í atvinnulífi.
Einkum á þeim svæðum þar sem ,,gömlu atvinnugreinarnar eru enn grundvöllur efnahagslífsins; sjávarútvegur á Íslandi, skógarhögg og námugröftur í grannlöndum. Allt kemur út á eitt. Umræðan og gildin eru karllæg, kröfur til strákanna aðrar en til stelpnanna og strákum gengur verr í skóla.
Í Jokkmokk í norður Svíþjóð höfðu menn veitt því athygli, rétt eins og menn hafa gert hér á landi, að einkunnir stráka voru til muna lakari en stelpnanna. Hópur vísindamanna við Uppsalaháskóla rannsakaði málið.
Niðurstaðan varð sú að vandinn lægi í karlmennskunni í samfélaginu. Strákunum í Jokkmokk fannst nóg að kunna að keyra skellinöðru og að veiða fisk. Og komust upp með það. Stelpurnar notuðu frítíma sinn i að læra til að mennta sig í burtu frá hinu fábreytta samfélagi sem býður strákum mun meira frjálsræði og tækifæri.
Við vitum líka að hluti skýringarinnar hér heima er að aðrar væntingar eru til stráka en stelpna; stelpnanna er gætt betur, þær búa við meiri aga. Strákunum leyfist fremur að þvælast úti og lifa ákveðnu áhættulífi. Það er ekki karlmannlegt í skilningi hins ,,gamla samfélags að sitja heima og læra.
Það eru haldnar ráðstefnur til að pæla í því hvað sé hægt að gera til að strákunum líði betur í skólanum. Það er út af fyrir sig gott en málið er stærra. Hér er um samfélagsvanda að ræða. Það má nefnilega ekki gleymast að þó strákunum leiðist í skólanum þá ganga þeir út sem sigurvegarar og hinar prúðu stelpur yfirgefa skólann með, jú hærri einkunnir en líka mun lakari sjálfsmynd en strákarnir.
Við þurfum að rannsaka þetta betur á Íslandi. En við verðum líka að læra af rannsóknarniðurstöðum og nýta þær til að breyta. Jafnréttisstarf er sífelld vinna á meðan verið er að ná fram breytingum. Framtíð byggðanna úti um landið er undir því komin að takist að breyta þessum karllægu viðhorfum í samfélaginu þar sem strákarnir una sér en stelpurnar flýja í fjölmennið við fyrsta tækifæri eins og íslenskar rannsóknir hafa sýnt að gerist hér í stórum stíl.
Og ekkert samfélag fær þrifist án þess að bæði kynin eigi þar hlut að máli. Þetta er því mikilvægt byggðamál; kannski það mikilvægasta.
Svanfríði Jónasdóttur þarf vart að kynna en hún er bæjarstjóri Dalvíkinga um þessar mundir.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 9.2.2007 kl. 09:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
8.2.2007 | 14:05
Hugsaðu þér.....
...ef í öllum snæviþöktum görðum væru snjókerlingar
...ef það væri kona í tunglinu
...ef það væri græn kona á gangbrautarljósinu
...ef það væru ráðfrýr og forsetur
...ef það væru kóngínur
...ef bleikur væri líka strákalitur
...ef farið væri í frið í stað þess að fara í stríð!
...ef ráðfrýr væru ekki frekjudósir heldur ráðsnjallar og ákveðnar
...ef hægt væri að vera föðursjúkur en ekki móðursjúk
...ef míns og þíns væru jöfn
Elín er fræðslufulltrúi þjóðkirkjunnar og áhugamanneskja um konur og menn
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
8.2.2007 | 13:29
Lágtekjuskatturinn og ríkisstjórnin
eftir Ingibjörgu Stefánsdóttur
Eins og alþjóð veit þá hefur ríkisstjórnin lækkað hátekjuskattinn en hækkað lágtekjuskattinn. Á Íslandi er nefnilega lagður lágtekjuskattur á fólk sem hefur tekjur undir öllum eðlilegum framfærslumörkum. Og þar eru konur í meirihluta.
Nýlega voru samþykkt lög sem munu hækka lágtekjuskattinn enn frekar. Það eru lögin um Ríkisútvarpið OHF. Til allrar lukku var Jóhanna Sigurðardóttir á vaktinni eins og endranær. Hún benti á að nefskattur ríkisstjórnarinnar myndi aðeins leggjast á þá sem greiða tekjuskatt.
Þeir sem lifa aðeins á fjármagnstekjum og greiða saklausan tíu prósent skatt, áttu að vera undanþegnir nefskattinum. Líklega skiptir nefskattur RÚV ósköp litlu máli fyrir þennan hóp. Hins vegar mun okkur hin muna um nefskattinn.
Þetta benti Jóhanna á og nú er ríkisstjórnin að undirbúa frumvarp sem mun breyta þessu þannig að: ,,Nefskattur leggist á öll nef eins og þetta var orðað í Ríkisútvarpinu. Þarna áttuðu menn sig allt í einu á því að það: ...samrýmist það ekki tilgangi skattalaga að hópar skattgreiðenda séu undanþegnir þessum gjöldum (http://www.ruv.is/heim/frettir/frett/store64/item143124/).
Nema hvað. Hefði það ekki átt að liggja ljóst fyrir frá upphafi? En hver er tilgangur skattalaganna? Jú, að hið opinbera hafi nægar tekjur til þess að sinna verkefnum sem því er ætlað. En þetta er ekki svona einfalt.
Nóbelsverðlaunin og hagfræðingurinn Joseph E. Stiglitz skilgreinir eiginleika góðs skattkerfis sem svo að það sé: 1. Gott fyrir hagkerfið og vinni t.d. ekki gegn því að fólk vilji vinna og leggja mikið á sig. 2. Einfalt að framkvæma, sveigjanlegt, þannig að hægt sé að breyta kerfinu í takt við þarfir efnahagslífsins. 3. Gegnsætt og ábyrgt þannig að ekki sé hægt að leggja á nýja skatta eða auka skattbyrði án samþykkis þings 4. Réttlátt.
Nú er kannski hægt að deila um einhver þessarra skilyrða og önnur er erfitt að meta. En eitt er að víst að íslenska skattkerfið uppfyllir ekki tvö hin síðasttöldu.
Útfrá skilgreiningum Stiglitz má líta svo á að gróflega hafi verið brotið gegn þriðja skilyrðinu þegar persónuafslátturinn var ekki hækkaður í takt við verðbólgu. Það varð til þess að skattbyrði jókst hlutfallslega mest hjá fólki með lágar tekjur.
Það var aldrei kynnt og aldrei lagt fram sem stefna ríkisstjórnarinnar, það bara gerðist. Þannig var um leið brotið gegn fjórða skilyrðinu; því að skattkerfið sé réttlát. Skattkerfi þar sem skattbyrðin eykst á þá lægstlaunuðustu á meðan henni er létt á þá sem meira hafa, getur ekki verið réttlátt.
Lágtekjuskattur ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks er nákvæmlega þetta; óréttlátur, óábyrgur og ósanngjarn. Hann er stærsta ástæða aukinnar stéttaskiptingar á Íslandi. Skattkerfið hefur ekki verið notað til tekjujöfnunar heldur þvert á móti til þess að auka bilið.
Og auðvitað hefur það bitnað mest á konum sem enn glíma við allt of mikinn launamun. Þessu þarf að breyta og þessu verður breytt. Þegar við höfum fengið nýja ríkisstjórn.
Ingibjörg er 39 ára verkefnisstjóri og bókaormur sem dreymir um alvöru vinstri stjórn á Íslandi.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.2.2007 | 00:17
Viðskiptaval
Orðið ,,boycott útleggst á íslensku sem ,,viðskiptaval. Þeir sem viðskiptavelja reyna með athæfi sínu að hafa áhrif á markaðssetningu og sölu ýmissa vara. Viðskiptaval er öflugt vopn sé því rétt og skynsamlega beitt. Ekki veitir neytendum af öllum þeim vopnum í baráttunni við ofríki, ofsköttun og okur. Ég fékk eftirfarandi fundarboð sent út fyrr í dag:
,,Léttar veitingar á sama uppsprengda verðinu og annars staðar á þessu andskotans landi sem stjórnað er af hvítum, miðaldra og ógeðslega ríkum
körlum sem láta klárar, sætar og duglegar konur borga 22% yfirdráttarvexti
og senda þeim svo tilkynningar annað slagið um að þær sé komnar með FIT-kostnað.
Einn vettvangur sem tilhlýðilegt væri að beita viðskiptavalinu er sjónvarpsþátturinn Silfur Egils. Í þeim þætti hefur hlutur kvenna verið afar rýr í gegnum tíðina og þar birtist fjórðungsjafnréttið í allri sinni dýrð.
Það liggur við að gagnrýnisraddirnar séu hættar að heyrast kynjahlutfall þáttarins er orðin staðreynd sem með tímanum holast í stein og enginn man eftir að setja sérstaklega út á. Konur verða kannski á endanum þakklátar fyrir að fá yfirhöfuð að vera með.
Það má vera að þetta lága hlutfall kvenna í þættinum sé skýrt með því að það endurspegli hlut kvenna annars staðar í þjóðfélaginu, svo sem í pólitík eða viðskiptalífinu. Eða þá að gripið sé til gömlu tuggunar að konur fáist ekki sem viðmælendur. Ef svo er má segja að um sé að ræða ,,a self-reinforcing cycle líkt og heyrist í fordæmisumræðunni um dóma Hæstaréttar í kynferðisafbrotamálum.
Þar er um að ræða kerfi sem engan veginn getur breyst - því ekki eru fordæmi fyrir því að vikið sé frá hefðinni.
Því ekki að hefjast handa við að beita viðskiptavali á Silfrið? Konur hætta að horfa á þáttinn og þær koma ekki fram í þættinum uns kynjahlutföllin hafa verið leiðrétt.
Við þurfum ekki að óttast neitt, við getum haldið því fram að engin marktæk, pólitísk umræða fari fram í þessum sjónvarpsþætti fyrr en hlutföllin hafi verið leiðrétt.
Því er ekki af neinu að missa
Kristín er kvikmyndagerðarkona og búsett í Reykjavík.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (19)
7.2.2007 | 23:50
Hingað og ekki lengra - koma svo stelpur!
eftir Steinunni Valdísi Óskarsdóttur
Birni Bjarnasyni fannst það hlægilegt um daginn að ég skyldi leggja það til að Ingibjörg Sólrún yrði gerð að næsta forsætisráðherra. Hann gerði lítið úr þeim möguleika að hún gæti orðið forsætisráðherra, vegna lélegrar stöðu Samfylkingarinnar.
Það er nú einu sinni þannig að ég er alltaf mjög ánægð með sjálfa mig ef Björn Bjarnason er mér ósammála. Hann hefur á stundum sent mér tóninn á síðunni sinni og það er greinilegt að tilhugsunin um Sollu sem forsætisráðherra olli honum vanlíðan. En hvað er það eiginlega sem gerir það að verkum að margir, oftast karlar, hrökkva hreinlega upp af standinum ef maður orðar þann möguleika?
Ég hef ekki einfalda skýringu á því en kannski er það ótti við hið óþekkta og að einhver sem tilheyrir ekki karlakórnum, gömlu valdaklíkunni, komist til valda.
Það er ennþá innprentað í allt of marga að treysta ekki konum fyrir miklum völdum. Ingibjörg Sólrún átti mjög á brattan að sækja í aðdraganda borgarstjórnarkosninganna 1994, það er bara svo langt síðan að margir eru búnir að gleyma því. En hún fékk tækifæri og sýndi svo sannarlega að það skiptir máli að hafa konur við völd.
Undir hennar stjórn breyttist Reykjavíkurborg úr karllægu samtryggingarveldi í þjónustusveitarfélag sem setti hagsmuni fjölskyldna og barna í forgang. Í hennar tíð voru jafnréttissjónarmiðin raunveruleg stefna sem hrint var í framkvæmd, en ekki tómt orðagjálfur.
Minnisvarðar Ingibjargar Sólrúnar eru skólar, leikskólar, menningarstofnanir og síðast en ekki síst stjórnkerfi og starfsaðferðir sem tóku mið af þörfum borgarbúa.
Um alla vefheima sér maður logandi blogg þar sem menn kenna Ingibjörgu Sólrúnu um slæmt gengi. Hver étur upp eftir öðrum og undirliggjandi er ákveðin kvenfyrirlitning. En kannski er hér um alheimsvanda að ræða?
Ég sá að í könnun sem var gerð í Bandaríkjunum treysta 93% þjóðarinnar þeldökkum karlmanni til að verða næsti forseti en aðeins 86% treysta konu! Þó hefur bandarískt samfélag hingað til ekki verið talið frjálslynt í garð þeldökkra.
Erna Indriðadóttir, fyrrverandi fréttamaður, skrifaði grein um þetta í Fréttablaðið um daginn. Henni var nóg boðið og kallaði eftir samstöðu kvenna. Mér er líka nóg boðið - tökum okkur saman í andlitinu, stöndum með Sollu og svörum afturhaldsröddunum, hvort sem þær birtast í líki Björns Bjarnasonar eða annara "karlkynsofurbloggara".
Að síðustu legg ég til að Ingibjörg Sólrún verði gerð að forsætisráðherra í vor.
Steinunn Valdís varð borgarfulltrúi 29 ára gömul. Hún er gallharður femínisti, fyrrverandi borgarstjóri og siglir senn inn á alþingi fyrir Samfylkinguna í Reykjavík.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 8.2.2007 kl. 14:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
7.2.2007 | 23:15
Milljón konur í mál
WalMart verslunarkeðjan hefur orðið uppvís að alvarlegum brotum. Þessi stærsta verslunarkeðja Bandaríkjanna á yfir höfði sér fjöldamálsókn vegna kynjamismunar. Alríkisdómstóllinn í San Fransisco heimilaði fjöldmálsóknina nýverið en litlar 1,5 milljón kvenna hyggjast leita réttar síns.
Hvorki meira né minna.
Fyrirtækið mismunaði konunum í launum og starfsframa og ef WalMart tapar málinu þarf fyrirtækið að greiða marga milljóna dala í skaðabætur.
Ójafnrétti borgar sig ekki. Vond fjárfesting.
En það má velta því fyrir sér hvað stjórnendur fyrirtækisins hafi hugsað með sér þegar þeir ákváðu að brjóta á rétti kvennanna:
,,Oh, þetta hlýtur að sleppa hjá okkur þær eru nú ekki nema rúmlega milljón...
Bryndís Ísfold er viðskiptafræðinemi og áhugakona um vonlaus viðskipti.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 8.2.2007 kl. 14:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
7.2.2007 | 17:22
Í megindráttum
eftir Rósu Þórðardóttur
Frétt dagsins segir að Magnús Stefánsson vilji henda sér í að snurfusa fæðingarorlofslöggjöfina svo hún hegni ekki frjósömu fólki fyrir að eignast tvö börn í beit.
Það hefur sýnt sig að frjósemi þjóða eykst við betri fæðingarorlofslöggjöf. Góðar fréttir fyrir þjóð sem telur litlar 300.000 hræður. Við þurfum sannarlega að fjölga í landsliðinu.
Síðustu misseri hafa Jóhanna Sigurðardóttir og Katrín Júlíusdóttir margsinnis imprað á þessum vanköntum fæðingarorlofslöggjafarinnar á alþingi fyrir daufum eyrum. Þær eru sannarlega konur dagsins.
Bryndís Ísfold og Oddný Sturlu hafa skrifað margar greinar upp á síðkastið til að kvarta undan hinni meingölluðu löggjöf sem tekur hvorki tillit til foreldra sem eignast börn með stuttu millibili né einstæðra foreldra, oftast mæðra.
Stundum er sagt að lagalega séð hafi konur náð fullum réttindum á við karla. Í megindráttum, já.
En lengi má gott bæta og það er sannarlega ekki vanþörf á kjörnum fulltrúum sem setja hagsmuni fjölskyldunnar, og kvenna í forgang.
Nú getur fólk tekið til við að fjölga sér.
Í megindráttum er það frétt dagsins.
Rósa er heimavinnandi húsfrú og bóndi, Suðurlandi.
Fyrri fæðingarorlofsgreiðslur ekki lengur lagðar til grundvallar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 8.2.2007 kl. 14:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.2.2007 | 00:05
Sögulegt tækifæri
eftir Oddnýju Sturludóttur
Hver sú kona sem kemst að kjötkötlunum þar sem þeir eru heitastir er þyngdar sinnar virði í gulli. Ef hún dansar í femínískum takti og geymir rætur sínar djúpt í kvennapólitískri moldu, er breytinga að vænta fyrir konur, dætur þeirra og mæður. Hún gefur karlamenningunni langt nef og við þurfum sannarlega á fleiri slíkum að halda til að tryggja jöfn tækifæri allra, dætra okkar sem sona.
Í fyrsta sinn í sögu Íslands eygjum við þann möguleika að kona setjist í stól forsætisráðherra. Sú kona hefur staðið vaktina í jafnréttismálum frá því hún hóf afskipti af stjórnmálum fyrir 25 árum. Sú kona var í hópi fyrstu borgarfulltrúa Kvennaframboðsins og þingkona Kvennalistans.
Hún leiddi sameinaða vinstrimenn í Reykjavíkurlistanum til þriggja glæstra kosningasigra og stjórnaði borginni farsællega. Á þeim tíma náði hún aðdáunarverðum árangri í jafnréttismálum sem vakið hefur athygli út fyrir landsteinana.
Launamunur kynjanna minnkaði um helming hjá Reykjavíkurborg en kynbundinn launamunur hefur staðið í stað í 16 ára valdatíð Sjálfstæðisflokksins.
Enda predika menn þar á bæ gjarnan stöðugleika...
Í borgarstjóratíð hennar urðu konur helmingur æðstu stjórnenda og sama leik ætlar Samfylkingin að leika á landsvísu komist hún í ríkisstjórn. Jafnréttismálin verða færð til forsætisráðuneytis og fléttuð samviskusamlega við allar ákvarðanir sem teknar verða á þjóðarskútunni þar sem kona stendur í brúnni.
Ingibjörg Sólrún hefur alla tíð verið hörð baráttukona gegn ofbeldi mót konum, hún gerði út af við biðlista á leikskóla í Reykjavík og setti afnám launaleyndar á dagskrá í íslenskum stjórnmálum, fyrst allra.
Margfeldisáhrif baráttukvenna í valdastöðum eru gríðarleg, fyrirmyndin sem þær eru öðrum konum og telpum ómetanleg. Sögulegt tækifæri er framundan og nú er lag að standa saman og styðja Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur til áframhaldandi góðra verka.
Látum ekki róginn og eineltið eyðileggja fyrir hæfri konu.
Það kemst enginn leiðtogi með tærnar þar sem Ingibjörg Sólrún hefur hælana þó hann færi á háa hæla.
Oddný er borgarfulltrúi og áhugamanneskja um kjötkatla.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 26.2.2007 kl. 15:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
Pæling dagsins
- Kvennaþing í Hveragerði 11.-12. apríl. Stjórnmálaumræður með femínískum jafnaðarkonum. Ball með ROKKSLÆÐUNNI um kvöldið. Ertu búin að skrá þig?
Nota bene
Bloggandi konur
Anna Kristjáns
Arndís Anna
Arndís Steinþórs
Ása Richards
Ásta R. Jóhannesdóttir
Björk Vilhelmsdóttir
Bryndís Ísfold
Edda Agnarsdóttir
Beta Ronalds
Erla Sigurðardóttir
Eva Bjarna
Guðríður Arnardóttir
Dagbjört Hákonard
Helga Vala
Ingibjörg Stefáns
Jóhanna
Katrín Anna
Katrín Júlíusdóttir
Lára Stefánsdóttir
Magga Stína
Oddný Sturludóttir
Ólína Þorvarðardóttir
Rósa Erlings
Sonja B Jónsdóttir
Steinunn Valdís
Svanfríður Jónasdóttir
Þorgerður Diðriks
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 3
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 3
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar