Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Vikugamalt trúnó - rúmlega 9.000 heimsóknir

Ritnefnd trúnó þakkar lesendum samfylgdina sína fyrstu viku í bloggheimum - viðtökurnar hafa verið framar öllum vonum og margar konur sent okkur efni. Höfundar fylla nú fimm tugi og gott betur, ef smellt er á HÖFUNDAR hér til vinstri sjást trúnópennar í stafrófsröð.

Fyrsti pistill trúnó setti tóninn - andsvar kvenna við reykfylltum bakherbergjum. Óneitanlega kemur ljóð Ingibjargar Haraldsdóttur upp í hugann, sem birtist í ljóðabókinni Orðspor daganna. Ljóðið heitir ,,Kona" og er jafngamalt Kvennalistanum sáluga sem bauð fyrst fram til Alþingis árið 1983. Þá voru þrjár konur á þingi en eftir kosningarnar 1983 voru þær orðnar níu.

Þær voru komnar til þess að opna bakherbergin, breyta dagskránni og skilgreina vandamál heimsins upp á nýtt.

Ýmislegt hefur breyst en samt eru konur allt of víða ekki með í ráðum - þar sem ráðum er ráðið. Þær eru ekki við kjötkatlana þar sem þeir eru heitastir.

Skrif trúnókvenna bera vott um óþreyju. Nýja Ísland er í okkar huga land beggja kynja.

KONA

Þegar allt hefur verið sagt
þegar vandamál heimsins eru
vegin metin og útkljáð
þegar augu hafa mæst
og hendur verið þrýstar
í alvöru augnabliksins
-kemur alltaf einhver kona
að taka af borðinu
sópa gólfið og opna gluggana
til að hleypa vindlareyknum út.

Það bregst ekki.

Ingibjörg Haraldsdóttir, úr ljóðabókinni Orðspor daganna frá árinu 1983.


Falleinkunn í leikfimi

Eftir Bryndísi Ísfold Hlöðversdóttur

Verði maður, kona eða barn var við að frjálshyggjan hafi farið langt fram úr heimildum ætti sá hinn sami að snarhemla og beita sérlegri félagshyggju á málið.

Enda hvað er samfélag án umhyggju manna á milli? 

Ríkið, og hlutverk þess, hefur verið skreytt niðrandi fánum frjálshyggjunnar í opinberri umræðu af stjórnarliðum síðustu árin. Tilgangur með sameiginlegum sjóðum vefst fyrir sumum þeirra og til eru frambjóðendur á lista íhaldsins sem myndu glaðir afnema nær allan skatt af öllu hefðu þeir völd til.

Tilefnið er jú að gera hinni margrómuðu frjálshyggju hátt undir höfði, þar sem lögmál frumskógarins er yfirfært á þá sköpun mannskepnunnar sem við köllum samfélag. Síðustu árin hefur íslenskt samfélag togast nær þeirri samfélagsgerð sem Bandaríkjamenn þekkja betur en aðrir. Auðurinn er þar mikill en valdinu ógurlega ójafnt skipt á milli þegnanna.  

Það er ,,bert á milli” í bandarísku samfélagi og þeir sem sitja aftast í vagninum eru þeir sem minnsta féð hafa. Uppbygging samfélagsins er ekki í forgangi, forganginn eiga þeir sem keyra hraðast og taka fram úr.
 

Sumum gæti fundist þetta spennandi kostur og til eftirbreytni. 

Á Íslandi má nú segja svipaða sögu um þá sem minnst mega sín, öryrkja og aldraða. Á sama tíma kitlar forsætisráðherra fjármálageirann undir iljarnar með tillögum um afnám skatts á fjármagnstekjur. Og hvort þeir hlæja.  

Á meðan tína ellilífeyrisþegar dósir úr ruslinu. 

Samtrygging er ekki ljótt orð. Það lýsir því hvernig við veitum hverju öðru það skjól sem verndar okkur ef eitthvað óvænt hentir okkur. 

Viðskiptalífið þarf heldur ekki að vera óvinur litla mannsins – ekki ef stjórnvöld veita því stöðugt eftirlit og aðhald því gamla góða sagan segir okkur að fjármagn, völd og frelsi eru vandmeðfarið tríó.  Hófleg skattheimta sem leggst á sanngjarnari hátt á bæði viðskiptalíf og einstaklinga, er erfið jafnvægisleikfimi.

Ríkisstjórn Íslands er ekki fimari en Solla stirða og fær falleinkunn í leikfimi – gott ef hún þarf ekki bara vottorð næstu fjögur árin.
 Sjaldan hafa einstaklingar verið eins skattpíndir og nú. Lágtekjufólk þó mest.  Þeim sem þykir vænt um samfélagið, veita því jafnframt aðhald.  

Ótakmarkað frelsi er eins og að láta barn ala sig upp sjálft og sitja svo uppi með óalandi og óferjandi (1) ungling.
 

Hver vill búa í samfélagi slíkra manna ? 

Bryndís Ísfold situr í mannréttindanefnd Reykjavíkurborgar og leggur stund á viðskiptafræði við HÍ

1
  vera óalandi og óferjandi: vera ekki hæfur í mannlegu samfélagi (vegna afbrota, leiðinda eða annars)


Frekja að ætla í forsætið?

eftir Örnu  Einarsdóttur

Ég kom heim að morgni 7. febrúar eftir kvöld- og næturvakt og ákvað að lesa blöðin fyrir ,,bjútíslípinn”. Þá rakst ég á óvenjulega grein í ólíklegasta blaðinu, Morgublaðinu. Greinin bar heitið ,,Þolum við að kona sé formaður stjórnmálaflokks?” Umræða sem mér finnst bæði brýn og þörf.

Greinin fjallaði um sterka konu í íslenskri pólitík sem eins og við vitum hóf feril sinn á því að berjast við gömlu karlana með gildi kvenfrelsis og kvenréttinda á lofti. Þeir hljóta að hafa hlegið óspart að þessari vitleysu, að til dæmis leikskólar væru sjálfsögð þjónusta! Ég tek ofan fyrir þessum sterku konum sem létu ekki bugast í baráttunni þegar mest á móti blés.

Konur á öllum aldri njóta góðs af þeim mikla árangri sem frumherjarnir náðu.

Körlunum, sem vitanlega ólust upp í karlaheimi, hlýtur að hafa liðið eins og þeir væru að vakna upp við vondan draum þegar þeir gerðu sér grein fyrir því að karlaheimurinn tilheyrði fortíðinni. En nú finnst mér eins og það sé búið að vekja taugaveiklaðan hláturinn aftur upp frá dauðum. Nú gerir kona (les: frekja) tilkall til þess að verða forsætisráðherra.

Í innsendum greinum og pungum dagblaða, í Staksteinum, Klippt og skorið og ekki síst á blogginu hafa menn skiptst á að leggja konuna í einelti. Mannskepnan er jú einföld, þegar ógn er fyrir hendi er árás einfaldasta leiðin - og líklegust til að skila árangri. Og menn tala um allt annað en það sem hún stendur fyrir og það sem hún segir. Það er hvernig, hvers vegna og í hverju hún segir það.

Meira að segja á okkar ágæta trúnó er þegar komin ábending frá konu um að Ingibjörg Sólrún eigi alls ekki að vera í pels.

En gott og vel. Það að andstæðingar skulu leggja Ingibjörgu Sólrúnu í einelti ætti kannski ekki að koma á óvart. Miðaldra karlar mega mín vegna fetta fingur út í allt stórt og smátt sem viðkemur Ingibjörgu Sólrúnu. En öllu alvarlegra er að við konur, stuðningsmenn og almenningur skuli falla í þá gryfju að láta koma okkur úr jafnvægi - trúa eineltinu.

Einföld og barnaleg áform smíðuð í umræddum reykmettuðum bakherbergjum eru fullkomlega að ganga upp!

Þess vegna var yndislegt að lesa þessa grein frá stuðningsmanni Ingibjargar Sólrúnar og Samfylkingarinnar sem talaði af mikilli skynsemi.

Greinin gladdi mig svo að ég ákvað að hella upp á espresso og skrifa fyrsta blogg ævi minnar, enda gott tilefni þegar kominn er frábær vettvangur, trúnó kvenna.

Ég vona að þessi skynsömu orð Gísla Gunnarssonar, sagnfræðiprófessors, geti verið upphafið að tímabærri, heilbrigðri og skemmtilegri umræðu um Samfylkinguna. Ég tel að vandamál Ingibjargar Sólrúnar, ef vandamál skyldi kalla, sé að hún er ekki bara sterkur málsvari kvenfrelsis og jafnréttis, því ef svo væri gætu mestu karlremburnar auðveldlega afskrifað hana og afneitað henni.

Það sem kallar á sterk viðbrögð víða er að hún er fantasterkur og heilsteyptur stjórnmálamaður, jafnvíg á alla hluti.

Forneskjan sér í Ingibjörgu Sólrúnu andstæðing sem ber að óttast. Óttinn leiðir af sér einelti.

Snúum umræðunni við og berum höfuðið hátt!

Arna Einarsdóttir er læknir og tveggja barna móðir í Reykjavík.


Ráð við karlrembu

eftir Guðrúnu Helgadóttur


Við mæðgurnar gáfum okkur í jólagjöf litla bók sem heitir ,,Það er sérstakur staður í helvíti fyrir konur sem styðja ekki hver aðra" eftir Lizu Marklund og Lottu Snickare. Ég hvet alla jafnréttissinna til að lesa þessa bók.

Með titlinum er vísað til orða sem Madeleine Albright, fyrrum utanríkisráðherra Bandaríkjanna, viðhafði á alþjóðlegri ráðstefnu;

,,There´s a special place in hell for women that don´t support other women".

Ég las hana á undan endurminningum Margrétar Frímannsdóttur, Stelpan frá Stokkseyri, og í þeirri reynslusögu bættust við sannanir og dæmi um það sem sænsku stöllurnar draga vel saman í sinni bók.

Þessar bækur skýra margt af því sem fyrir augu og eyru ber í pólitíkinni þessa dagana. Hún getur meðal annars hjálpað okkur að skilja orsakir árása Vg á Samfylkingarkonur, þar er um að ræða grímulausa karlrembu hvort sem konur eða karlar í þeim flokki tala.

Karlremburnar hika ekki við að hæðast að konum sem hafa náð frábærum árangri á opinberum vettvangi samanber þessi ummæli í áramótapistli á Múrnum, sem varaformaður Vg, Katrín Jakobsdóttir skrifar undir ásamt öðrum: ,,Bók ársins: Minnislausa stelpan frá Stokkseyri. Margrét Frímannsdóttir heimfærir endurminningar Thelmu Ásdísardóttur upp á sjálfa sig."

Það er einmitt ein af þeim aðferðum karlaveldisins sem lýst er í bókunum að ofan; að gera lítið úr og hæðast að konum.

Það er skiljanlegt að Vg séu viðkvæm fyrir því hvernig Margrét lýsir karlrembunni í Alþýðubandalaginu, meðal annars viðskiptum sínum við núverandi liðsmenn Vg, en hvað á það að þýða að draga Thelmu Ásdísardóttur inni í myndina og misnota þannig nafn konu sem hefur sýnt kjark til að tala opinberlega um reynslu sína af misnotkun í æsku? Hver er tilgangurinn?

Ómerkilegt flokkspólitískt pot til þess að koma enn einum karlinum betur fyrir í valdastöðum þjóðfélagsins. Svo beit varaformaður Vg, hausinn af skömminni í sjónvarpsfréttum Stöðvar 2 þar sem hún var ekki manneskja til að biðjast afsökunar á ummælunum heldur reyndi að útskýra brandarann.

Hluti af hinni langsóttu skýringu hjá Katrínu er að þetta snúist ekki um Margréti og Thelmu heldur um einhver ummæli sem Jón Baldvin Hannibalsson hafi látið hafa eftir sér!

Það sem er þó alvarlegast í þessari ,,skýringu" er sú kenning að með því að líkja kvennakúgun í stjórnmálum við heimilisofbeldi væri Jón Baldvin að gera lítið úr heimilisofbeldi. Er kúgun kvenna í stjórnmálum þá svona lítið mál?

Jafnréttissinnar eiga að styðja konur í stjórnmálum með sanngjarnri og málefnalegri umræðu um störf þeirra og stefnu. Það að nota valdatök karlrembunnar, stjórnmál ofbeldis og eineltis gegn þeim, þjónar eingöngu þeim tilgangi að viðhalda misrétti kynjanna. Konur í stjórnmálum þurfa að berjast á fleiri vígstöðvum en karlar, ekki bara fyrir stefnu síns flokks heldur líka gegn rótgróinni kvenfyrirlitningu.

Hvaða stjórnmálaleiðtogi hefur sýnt að hún getur þetta? Hvaða flokkur býður kjósendum konu sem forsætisráðherra?

Svarið er Samfylkingin, ráð við karlrembu.

Guðrún Helgadóttir býr á Hólum í Hjaltadal. Hún er í leikfélaginu á Hofsósi, Kvenfélagi Hólahrepps og Samfylkingunni. Hún á einn mann, tvö börn, nokkur hross og eitt tré.

Segðu það sem þér finnst - hátt!

eftir Evu Bjarnadóttur

Eitthvert hreyfiafl þykir mér vera hrokkið í gang aftur í þjóðfélaginu. Undanfarin misseri hefur ríkt óvenjulega mikill baráttuandi yfir landi og þjóð. Ekkert yfirgengilega mikill en þó mun meiri heldur en tíðkaðist fyrir aðeins nokkrum árum síðan. Þegar ég var menntaskólanemi kvörtuðu kennarar okkar, sem oftar en ekki voru af ’68 kynslóðinni, sáran undan skoðanaleysi okkar og almennu meðvitundarleysi.

Ég held að þar hafi ekki einungis verið um unglingaveiki að ræða heldur var þetta ástand í samfélaginu. Allir voru sáttir við sitt og enginn gagnrýndi samfélagskipanina, nema einhverjir sem þóttu vera róttækir og vitleysingar.

Davíð sá um málin fyrir okkur.

Í menntaskólanum birtist þetta í tískubylgju. Það þótti ekki kúl að hafa skoðanir. Ég hafði það á tilfinningunni að sama væri uppi á teningnum hjá fullorðna fólkinu.

Sofandaháttur almennings hafði ekki góð áhrif á lýðræði landsins. Lýðræði, ólíkt því sem margir halda, er nefnilega ekki stöðugt fyrirbæri. Það þótti orðið sjálfsagt að ráðamenn tækju einræðislegar ákvarðanir um okkar hagi, enda enginn sem mótmælti. Fyrirtæki, bankar og viðskipti almennt breyttust líka á þessu tímabili, en án þess að við hefðum nokkuð um það að segja. Hugtakið viðskiptaval er enn þann dag í dag ekki orðið þjált í munni Íslendinga.

Eftir langvarandi lognmollu fóru róttæku vitleysingarnir að gerast kræfari. Konur og karlar skáru í sameiningu upp herör gegn versnandi staðalímynd kvenna og stofnuðu Femínistafélag Íslands. Það þótti vera slæm hugmynd í fyrstu. Enginn mátti heyra á það minnst að eitthvað væri athugavert við súludansstaði, klámblöð í verslunum eða flóð auglýsinga og tónlistarmyndbanda með berrössuðum og berbrjósta konum í söluhlutverki. Femínistar trufluðu fólk í notalegu ástandi skoðana- og meðvitundarleysis.

Allt í einu þurfti fólk að taka afstöðu til mála.

Samhliða og í kjölfar þriðju byltingar femínista á Íslandi hefur margt fleira breyst til batnaðar, lýðræðinu í hag. Hægt en bítandi vaknar fólk af værum svefni og áttar sig á því að það ber ábyrgð á heilu landi. Það var víst ekki Davíð sem átti að sjá um málin, heldur voru það við öll. Náttúruverndarumræða síðasta árs varð hápunkturinn á þessari vitundarvakningu og það sem ég held að hafi bundið enda á meðvitundarleysi Íslendinga gagnvart sameiginlegri eign okkar allra – í bili að minnsta kosti.

Við berum sjálf ábyrgð á því að samfélag okkar sé mönnum bjóðandi. Við þurfum á ríkisstjórn að halda sem skilur  að hún situr í umboði landsmanna.

Oft hef ég rætt við fólk sem er í vandræðum með hvernig það getur beitt sér fyrir hagsmunum sínum og skoðunum. Félagsstarfssemi er ekki fyrir alla, en það sem virkar jafnvel betur en félagsstarf er að viðra skoðanir sínar við hvert tækifæri sem gefst. Umræða er af hinu góða hvort sem hún fer fram í þingsal eða heima við eldhúsborðið. Skoðun okkar og virkni í samfélaginu er nauðsynlegt lýðræðinu.

Eva Bjarnadóttir er BA í kynja- og stjórnmálafræði og þjónar nú til borðs á kaffihúsi í Kaupmannahöfn.


Geir, komdu niður af stallinum!

eftir Helgu Völu Helgadóttur


“... auðvitað er ekkert hægt að fullyrða að stúlkurnar hefðu ekki orðið barnshafandi hvort eð er...”

Þessi orð koma úr munni Geirs Hilmars Haarde, forsætisráðherra. Hann sat í Silfri Egils í gær og tjáði sig um konurnar tíu sem ljóst er að hafa orðið barnshafandi sökum misneytingar í Byrginu.

Það er auðvitað ljóst að þegar manneskja verður fyrir ofbeldi hvers konar, þá hefði það getað gerst á öðrum stað á öðrum tíma.

En það gerir ofbeldisverkið ekki léttvægara.

Það að Geir taki svona til orða er ótrúlega niðurlægjandi fyrir þessar stúlkur. Hvað átti hann við? Að þær hefðu hvort sem er verið að sofa hjá annars staðar og því getað orðið barnshafandi? Að þetta gerist á hverjum degi og þess vegna sé þetta í lagi?

Þessar stúlkur voru í Byrginu vegna þess að þær áttu í meiriháttar erfiðleikum í sínu lífi. Þær leita þangað, á ríkisstyrkt meðferðarheimili sem starfar í skjóli hins opinbera, í von um betra líf. Þar mæta þær greinilega einhverju misjöfnu. Upp á yfirborðið hafa komið sögur um alls kyns kynlífssvall milli starfsmanna og skjólstæðinga og á fagmáli kallast það einfaldlega misneyting. Þegar verið er að notfæra sér bága stöðu einstaklinga með þessum hætti.

Það að Geir sé að reyna að moka yfir eigin slóðaskap með því að skíta út þessar stúlkur er hneyksli og kallar vonandi fram hörð viðbrögð í samfélaginu. Hann er forsætisráðherra. Þær eru í vanda og þurfa síður en svo á því að halda að forsætisráðherra kasti rýrð á þeirra trúverðugleika. Að forsætisráðherra setji sig á háan hest og tali niður til sín.

Ég óska eftir því að Geir Hilmar biðji þessar stúlkur afsökunar á ummælum sínum. Þær eiga það svo sannarlega skilið frá honum.


Helga Vala er búsett í Bolungarvík og umhugað um að komið sé fram við fólk af virðingu.


Hugleiðing um kynbundinn launamun

Eftir Arndísi Steinþórsdóttir

Kenningar um launamun kynjana eru margar og ólíkar.

Hér er sú fyrsta:

Konur fara fram á lægri laun en karlar. Þetta á sérstaklega við á ,,frjálsa” vinnumarkaðnum – konur virðast eiga erfiðara með að sækja sér kauphækkun en karlar. Þessu hefur VR reynt að vinna á móti t.d. með auglýsingaherferðum en árangurinn hefur látið á sér standa. Æ fleiri taka undir þá skoðun að hér sé launaleyndin á almenna markaðnum stærsta hindrunin.

Hér er önnur:

Karlar vinna lengri vinnudag en konur og fá því hærra heildarkaup. Þetta er sannarlega rétt og ekki óeðlilegt að karlar fái vel greitt fyrir langan vinnundag. Margir benda samt á að á meðan karlarnir eru að vinna fram að kvöldmat eru konurnar iðulega að sækja börn, kaupa í matinn, laga til, sinna heimanámi og búa til matinn. Semsagt – að vinna ólaunuðu störfin.

Þetta leiðir okkur að þriðju ástæðunni:

Hefðbundin kvennastörf eru talin minna virði en karlastörfin. Það er staðreynd að umönnunar og fræðslustörf eru á botninum í launapottinum, ekki síst þegar tekið er tillit til menntunar því flest þessi störf krefjast langskólanáms. Þetta er störfin sem konur sinntu að miklu leyti inni á heimilum áður, einkum umönnunarstörfin. Sú skoðun á fyllilega rétt á sér að það sé einmitt þess vegna sem stjórnvöld hafa ekki talið þessi störf fullra launa virði – þetta eru gömul ,,ókeypis” kvennastörf.

Í þessari síðustu útskýringu gæti stór hluti óútskýrða launamunarins verið fólginn. Að störf kvennastétta eru minna metin. ,,Ef ungar konur vita hvað launin í þessum greinum eru lág, af hverju læra þær þá ekki eitthvað annað?” er stundum spurt. Það er góð spurning sem ekki er til einhlítt svar við. Skýringin gæti verið í menningunni, meiri kröfur eru gerðar til ungra karla en ungra kvenna að standa sig sem ,,skaffari” fjölskyldunnar á meðan kröfurnar eru meiri á ungar konur að standa sig sem verndari heimilisins.

Kannski er eina rétta svarið bara að spyrja á móti: ,,Af hverju ættu þær að þurfa að velja eitthvað annað en hugur þeirra stendur til? Er ekki bara hægt að borga karlmannskaup fyrir hjúkrun og kennslu?” 

Arndís Steinþórsdóttir er kennari og meistaranemi sem vill jafna launamun kynjanna


Karlar sem styðja konur

eftir Erlu Sigurðardóttur

Ég man eftir síðustu alþingiskosningum. Ég sat negld við netið fram eftir öllu og sofnaði sæl með þær fréttir í fanginu að Ingibjörg Sólrún og Lára Stefánsdóttir væru komnar inn. Næsta morgun voru þær báðar dottnar út – og munaði mjóu.

Ég man eftir vangaveltum góðra kvenna, sem höfðu staðið með Ingibjörgu Sólrúnu í kvennapólitíkinni. Fengi hún nú raunveruleg áhrif sem forsætisráðherra ef hún var titlalaus innan flokksins? Þær veðjuðu á aðra hesta en urðu frekar niðurlútar þegar í ljós kom hve litlu hafði munað. 

Erna Indriðadóttir fjallaði um valt brautargengi stjórnmálakvenna í Mogganum 6. febrúar. Á því „herrans ári“ 2007 virðist lýðræðið ekki náð það langt, að umboð íslenskra stjórnmálakvenna sé jafngilt umboði karla. Þá virðist stuðningur kvenna við Samfylkinguna vera á reiki. Þar ræður prófkjörið eflaust einhverju um en fyrir mér staðfesti það illan grun um vafasamt ágæti þessa fyrirbæris – ekki síst fyrir konur.

Hér í Danmörku virðist Helle Thorning-Schmidt, formaður danskra jafnaðarmanna, hinsvegar sópa að sér fylgi. Þegar hún var kjörin formaður naut hún þess - andstætt Ingibjörgu Sólrúnu - að enginn vænti neins af henni. Það var glott að kvenlegu útliti hennar og Gucci-veski. En hún stóð fast á sinni sannfæringu. Hún myndaði sterkan hóp í kringum sig og setti gamla gæðinga tímabundið út á gaddinn ef þeir voru með neikvæðni. Sumir eru komnir inn í hlýjuna aftur en skilaboðin eru skýr:

Formaðurinn verður að geta treyst sínu fólki.

Danski krataflokkurinn er að vísu rótgróinn, andstætt Samfylkingunni. Þar kallast grasrótin á við forystuna og þykir eðlilegt lýðræðislegt ferli. Allir vita þó að samtakamátturinn er grundvallarforsenda fyrir að vinna traust kjósenda. Það skal enginn segja mér að fv. formenn flokksins hafi aldrei efast um hæfni Helle Thorning en enginn þeirra valsar um í fjölmiðlum af ábyrgðarleysi eins og Jón Baldvin Hannibalsson gerði á dögunum. Var það athyglisþörf hans og málgleði sem réð ferðinni? Eða var karlmannsstolt hans sært? Hefur nýi formaðurinn ekki leitað ráða hjá honum?

Karlar í öllum flokkum, líka hennar eigin flokki, hafa einbeitt sér að því að draga úr mætti Ingibjargar Sólrúnar. Aðferðirnar eru útúrsnúningar og rangtúlkanir. Er þetta viðmót að hafa áhrif á konur? Er lausnin að stökkva upp í fangið á öðrum flokksforingjum þegar Samfylkingin ein getur státað af formanni sem hefur unnið ötullega árum saman bæði í grasrót kvennahreyfingarinnar og í pólitík í umboði kvenna? Feminískar áherslur hennar hafa ekki alltaf þótt nógu beinskeyttar, hún hefur líka verið gagnrýnd fyrir hve sein hún var að átta sig á mikilvægi röggsamrar stefnu í umhverfismálum.

Engu að síður er hún líklegust íslenskra flokksforingja til að leiða raunhæfar breytingar í íslensku þjóðfélagi.

Er það gamalt óöryggi í okkur konum sem gerir það að verkum að við treystum ekki kynsystrum okkar til að gera hlutina betur? Ætlum við að lenda í þeirri stöðu eftir kosningar að sitja uppi með óbreyttar áherslur af því að konurnar sem við bundum vonir við voru ekki nákvæmlega eins og við vildum hafa þær?

Það er stutt til kosninga og ég hvet allar konur til að skoða málin með feminískum gleraugum og láta ekki pólitískan loddaraskap rugla okkur í ríminu.

Í Politiken síðastliðin sunnudag kom fram hvað Jens Stoltenberg, forsætisráðherra Noregs, var Helle Thorning mikill stuðningur. Þegar sótt var að henni úr öllum áttum sendi hann henni sms og hvatti hana til að gefast ekki upp. Þetta virðist vera almennilegur maður sem er vanur því að konur séu forsætisráðherrar. Hann styður félaga sína, jafnvel þó að það séu konur.

Komið þið auga á einhvern karl með þennan kalíber í íslenskri pólitík?

Erla Sigurðardóttir er 49 ára ritstjóri og þýðandi, búsett í Kaupmannahöfn


Eru loforðin tómt píp?

eftir Rósu Þórðardóttur

Nú er runninn upp tími loforðanna hjá ráðherrunum okkar. Nokkrar vikur í kosningar og þá byrja þeir að útdeila milljónunum, og milljörðunum ef því er að skipta.

Eða það höldum við að minnsta kosti.

Fyrir hverjar kosningar er þetta gert og við smyrjum snittur og opnum freyðivín og skálum fyrir þessum örlátu ráðherrum okkar. Skál! - þrátt fyrir að við höfum mýmörg dæmi þess að ráðherraloforðin eru orðin tóm. Orð sem standast ekki nánari skoðun. Orð sem þýða ekkert að kosningunum liðnum. Nú hefur Sturla samgönguleysisráðherra undirritað viljayfirlýsingu um samgöngumiðstöð í Vatnsmýri. Bíðum nú við.

Fyrir borgarstjórnarkosningarnar 2002 settust borgarstjóri Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og heilbrigðisráðherra Jón Kristjánsson niður og undirrituðu viljayfirlýsingu, ekki loforð, heldur viljayfirlýsingu um byggingu hjúkrunarheimila fyrir aldraða. Fjármálaráðherra, Geir Hilmar, rauk upp í fjölmiðlum þarna í maímánuði og sagði Jón ekki hafa neina heimild til þess að gera slíkt. Sagði hann orðrétt að milljörðum króna yrði ekki ávísað úr ríkissjóði nema með atbeina fjármálaráðherra og ríkisstjórnar, jafnvel þó að það væri fyrirvari um fjárveitingar í viljayfirlýsingunni.

Þetta var alveg rétt hjá honum, ráðherrar hafa ekkert vald til að lofa einu né neinu. Hvorki þá né nú. Þeir hafa ekkert fjárveitingarvald. Tilefni þessara orða Geirs er síst minna í dag en þá – munurinn er að þeir sem lofa i dag eru með honum í liði. Því þegir Geir þunnu hljóði. Og við smyrjum snittur.

Það er meginregla samkvæmt stjórnarskránni, að fjárveitingarvaldið er hjá Alþingi, sbr. 40. og 41. gr. stjórnarskrárinnar.

Þetta þýðir einfaldlega að þessi endalausu loforð ráðherranna verða að fara í gegnum Alþingi. Loforð núverandi ráðherra standa því og falla með næstu ríkisstjórn sem samþykkir þá eða hafnar loforðunum eftir því sem vindarnir blása. Eftir situr loforðsmóttakandinn með sárt ennið, og enn á eftir að vaska upp eftir partýið.

Árið 1996 féll dómur í Hæstarétti í máli loðdýrabónda eins gegn ríkinu. Hann vildi láta landbúnaðarráðherra þurfa að standa við gefin loforð um stuðning við sig, en tekist höfðu samningar um kaup ríkis á húsbyggingum sem notaðar voru undir þessa uppáhaldsiðju landans í þá daga. Dómstóll komst að þeirri niðurstöðu að ráðherra væri laus allra mála, því að hann hefði hreint ekkert haft vald til að gera þennan samning.  Hann hafði ekkert vald til að deila út fjármunum þá frekar en nú. Fallist var á það að loðdýrabóndinn hefði mátti ætla að ráðherra hefði þarna umboð til verksins, en það vara skipti engu máli. Dómurinn komst að því einu að ráðherrann hefði verið skuldbundinn til að spyrja Alþingi hvort hann mætti standa við gerðan samning. Um það var loforðið í raun, "ég skal spyrja þingið"

Næst þegar ráðherrann kemur til okkar og lofar öllu fögru munum þá að hann á eftir að biðja um pening.

Rósa Þórðardóttir er húsfrú og bóndi á Suðurlandi og sérlega  umhugað um að fólk standi við orð sín.


mbl.is Viljayfirlýsing um byggingu samgöngumiðstöðvar í Vatnsmýri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Konur eru að breyta stjórnmálunum

eftir Rósu Erlingsdóttur

Það er nauðsynlegt lýðræðinu að konur gegni ábyrgðarstöðum í stjórnmálum. Styrkur Ingibjargar Sólrúnar sem stjórnmálamanns liggur meðal annars í þeirri staðreynd að hún er kona, kona sem hefur breytt ásýnd íslenskra stjórnmála. Að halda því fram að sú staðreynd geri lítið úr konum og dragi úr viðurkenningu kjósenda á hæfni þeirra sem einstaklinga einkennist af kvenfyrirlitningu sem hefur verið áberandi í stjórnmálaumræðu síðustu missera. 

Án kvenna er ekkert lýðræði

Árið 1997 samþykktu Alþjóðasamtök þjóðþinga almenna stefnuyfirlýsingu um lýðræði, þar sem einn af hornsteinum þess er sagður þessi: “Lýðræði verður ekki skapað á annan hátt en þann að karlmenn og konur vinni saman að málefnum samfélagsins á jafnréttisgrundvelli og auðgist að reynslu, með þekkingu á því sem kann að skilja kynin að.”

Yfirlýsingin viðurkennir að kyn skiptir máli í stjórnmálum, að mismunandi reynsla og félagsmótun kynja valdi því að sýn karlmanna á stjórnmál er önnur en sýn kvenna. Hún bendir á að kynferði er ein þeirra félagslegu breytna sem hefur afgerandi áhrif á líf einstaklingsins.

Femíniskir stjórnspekingar allt frá John Stuart Mill til okkar tíma hafa bent á þessa staðreynd. Samkvæmt þeim hefur þátttaka kvenna í stjórnmálum táknræna þýðingu og með henni eru pólitískar stofnanir gerðar lögmætari og lýðræðið stöðugra. Jafnframt hefur verið bent á að þátttaka kvenna í stjórnmálum sé spurning um réttlæti, að það sé fjarstæðukennt og ósanngjarnt að karlar einoki ábyrgðarstöður í stjórnmálum.

Hugmyndafræði nýfrjálshyggjunnar sem byggir á athafnafrelsi einstaklingsins hafnar hins vegar samfélagslegri þýðingu kynferðis og er þannig að upplagi andsnúin konum.

Jöfn þátttaka kynjanna í stjórnmálum og opinberu lífi þarf ekki endilega að þýða breytingu á stefnu, markmiðum eða framkvæmd stjórnmálanna. Hagsmunir kvenna komust hins vegar ekki á dagskrá stjórnmálanna fyrr en konur hófu afskipti af þeim. Þannig hefur það sýnt sig að þar sem konur koma að ákvarðanatöku verða áherslubreytingar í stjórnmálum, einkum ef konur eru meðvitaðar um samfélagslegt kynjamisrétti og ef þeim tekst að yfirvinna þær hindranir sem konur í stjórnmálum mæta. 

Fjöldi rannsókna hefur sýnt fram á að konur mæta margvíslegum hindrunum í stjórnmálum jafnvel eftir að þær hófu þátttöku. Þegar konur komast í fulltrúastöður hafa þær þurft að beygja sig undir ríkjandi hefðir, þær hafa þurft að fylgja karlkyns flokksbræðrum og málflutningi þeirra til að hasla sér völl innan kerfisins. Það er mikil áskorun að vilja breyta kynjasamsetningu í stjórnmálum því í því felst gagnrýni á það samfélag sem við búum í, samfélag sem kerfisbundið hefur skilið konur útundan og neitað að fjalla um hagsmunamál þeirra.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir er dæmi um stjórnmálamann sem farið hefur óhefðbundnar leiðir. Hún var farsæll borgarstjóri í Reykjavík í 9 ár. Um það verður ekki deilt að miklar breytingar á sviði jafnréttismála áttu sér stað undir hennar stjórn í Reykjavík, gífurleg uppbygging í grunn- og leikskólum, stjórnkerfisbreytingar sem byggja á öguðum vinnubrögðum, áætlanagerð og skýrum,
gagnsæjum leikreglum.

Annað sem gerðist undir hennar stjórn er að konum í stjórnunarstöðum hjá borginni fjölgaði mjög.

Af slæðukonum og alvöru körlum

Umræðan um þátttöku kvenna í stjórnmálum einkennist oft af virðingarleysi gegn konum og það beinist að konum innan allra flokka. Það mátti til dæmis merkja af úrslitum prófkjöra í Sjálfstæðisflokknum fyrir síðustu alþingiskosningar og umræðunni í kjölfar þeirra. Slæmur hlutur kvenna þar var meðal annars skýrður sem svo að tími slæðukvenna væri liðinn og í flokknum væri fólk dæmt eftir verðleikum einstaklingsins en ekki kyni.

Femínistar spurðu á sama tíma í forundran: Ef kynferði skiptir ekki máli í stjórnmálum hvernig stendur þá á því að ungir og óreyndir karlkyns frambjóðendur unnu sigur á þeim mun reyndari konum? Slæður eða ekki slæður; konur eru í mínum huga jafningjar karla og eiga brýnt erindi stjórnmál m.a. vegna þess að þær eru konur.

Við það stöndum við enn í dag fjórum árum seinna.

ÁFRAM STELPUR !

Rósa Erlingsdóttir er stjórnmálafræðingur, blaðamaður og móðir. Hún er búsett í Kaupmannahöfn.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundar

Trúnó
Trúnó
Trúnó er vettvangur kvenna sem aðhyllast femíníska jafnaðarstefnu

Tónlistarspilari

Brigitte Bardot - Ca pourrait changer

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband