Bæjarstjórinn í Kópavogi er krútt

Eftir Guðríði Arnardóttur.

Nýleg bókun mín í bæjarráði Kópavogs vakti talsverða athygli. Og í því sambandi má velta fyrir sér ýmsum hlutum. Í minni tíð sem oddviti Samfylkingarinnar í Kópavogi hef ég verið málefnaleg og gæti ég tínt til margar glæsilegar bókanir sem ég hef lagt fram í bæjarráði. Að baki þeim bókunum liggur talsverð vinna og andvökur við heimildaöflun og gagnalestur.

En þessi litla krúttlega bókun mín var svo að endingu það sem fjölmiðlar ráku augun í og stöldruðu við. Hún er skrýtin tík, hún pólitík. En hvers vegna krútt?

Þegar ég settist í bæjarstjórn var það skoðun mín að við, pólitískt kjörnir fulltrúar í bæjarstjórn værum að vinna sameiginlega að hagsmunum bæjarins. Ég hélt að við værum samherjar. En það tók mig ekki langan tíma að átta mig á að frá bæjardyrum meirihlutans erum við andstæðingar. Örlög okkar í minnihluta verða þau að hvað eina sem við leggjum til er fellt og oft á tíðum eru orð okkar og athafnir slitnar úr samhengi.

Í þessu tilfelli vorum við að fjalla um umdeildar skipulagsbreytingar á Kársnesi sem meðal annars vörðuðu hækkun þjónustublokka við Sunnuhlíð. Sunnuhlíðarsamtökin eru Kópavogsbúum afar kær og sérstaklega okkur í Samfylkingunni.

Á meðan meirihlutinn samdi við Hrafnistu um uppbyggingu nýrra hjúkrunarrýma og þjónustu við eldri borgara í bænum létu þeir Sunnuhlíð sitja á hakanum. Fyrirhuguð uppbygging í Sunnuhlíð mun bíða betri tíma. Við höfum alla tíð barist fyrir Sunnuhlíð og ítrekað lýst yfir stuðningi vegna fyrirhugaðrar stækkunar.

Fyrir liggur nýlegt deiliskipulag á svæðinu (Kópavogstúni) sem tók talsverðan tíma að ná sátt um og það var staðföst skoðun okkar að því ætti ekki að breyta (hækka úr fimm hæðum í sex) þótt svo einkaaðilar hafi óskað eftir sambærilegri stækkun á nálægum reit.

Við lögðum fram mjög svo málefnalega bókun til að skýra afstöðu okkar til málsins sem bæjarstjóri svaraði með því ,,að þetta sýndi raunverulegan hug okkar til Sunnuhlíðar’’.

Þarna gerði hann okkur upp skoðanir á mjög ómaklegan hátt.

Þá er tvennt í stöðunni, að munnhöggvast með bókanafargani eða bara slá botninn úr umræðunni með álíka málefnalegum hætti og þess vegna varð bæjarstjóri Kópavogs KRÚTT. Enda ávallt svolítið krúttlegur þegar hann situr eins og snúið roð í hundi þegar við höfum aðra skoðun á málum.

Nú má leggja margt út af svona bókun. Hvað ef Gunnar hefði bókað hið sama um mig?

Líklega hefðu einhverjir risið á afturfæturna og kallað hann karlrembu. En á hitt ber að líta, ef ég hefði verið hann og hann ég, hefði ég aldrei gert honum svona ómaklega upp skoðanir svo við Gunnar erum kvitt. Hann kallar mig forhertan lygara í fjölmiðlum, ég kalla hann krútt!

Það er ábyrgðarstarf að vera bæjarfulltrúi og það skiptir máli hvað við segjum og gerum. Hvort sem við erum í meiri- eða minnihluta skiptir máli að tökum starf okkar alvarlega, en það er ekki þar með sagt að það eigi að taka á málum of hátíðlega.

Þrátt fyrir núning og oft á tíðum harkaleg átök þurfum við að vinna saman í mikilli nálægð, bæði í bæjarstjórn og í bæjarráði. Ég myndi einfaldlega mygla ef ég þyrfti alla tíð að ganga fram með einhverri helgislepju ... það er einfaldlega ekki ég. Kannski er þetta munurinn á körlum og konum og hvað með það?

Við þurfum ekkert endilega að vera eins þótt við séum jafn hæf!

Guðríður er oddviti Samfylkingar í bæjarstjórn Kópavogs og stenst krúttinu bæjarstjóranum fullkomlega snúning.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Tómas Þóroddsson

Mér fannst þetta mjög töff hjá þér. Stundum verður að svara fólki þannig að allir skilji. En ég hjó eftir í viðtali við Gunnar eftir þetta að hann sagði " Maðurinn hennar (Guðríðar) vinnur hjá mér" þetta er ótrúlega Davíð Oddsson-legt svar. Hroki, yfirlæti og karlremmba. 

Tómas Þóroddsson, 14.3.2007 kl. 00:20

2 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

Ég er viss um að fjölmiðlar munu fylgjast betur með bókunum þínum eftirleiðis. Þetta var besta svar sem hugsast gat. - Hitt er að orð eins og "karlremba" eru löngu orðin merkingalausar lummur og best að nota þau sem minnst, - "krútt" er svo óendalega betra.

Helgi Jóhann Hauksson, 14.3.2007 kl. 00:58

3 Smámynd: Guðrún Helgadóttir

Takk fyrir að halda uppi húmornum í þessu fáránlega meirihluta/minnihlutalandslagi sem er að fara með íslensk stjórnmál!

Guðrún Helgadóttir, 14.3.2007 kl. 13:49

4 Smámynd: birna

Þetta var skemmtileg bókun hjá þér. Eina leiðin til að svara svona útúrsnúningi sem Gunnari er gjarnt að grípa til.

birna, 14.3.2007 kl. 22:45

5 Smámynd: Björn Heiðdal

Það skiptir mig máli hvað fólk segir en mestu hvað það gerir. 

Björn Heiðdal, 14.3.2007 kl. 23:18

6 identicon

Gunnar Birgis krúttikrútt,
krunkar sitt síðasta vers,
Kópavogur er kjúttipútt,
og kominn er á Players.


Gunnar Birgis:

I feel pretty,
Oh, so pretty,
I feel pretty and witty and bright!
And I pity
Any guy who isn't me tonight!

I feel charming,
Oh, so charming
It's alarming how charming I feel!
And so pretty
That I hardly can believe I'm real!

Steini Briem (IP-tala skráð) 15.3.2007 kl. 00:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundar

Trúnó
Trúnó
Trúnó er vettvangur kvenna sem aðhyllast femíníska jafnaðarstefnu

Tónlistarspilari

Brigitte Bardot - Ca pourrait changer

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband