Sigur og ósigur

Sigrar og ósigrar einkenna kosningaúrslitin í ár. Landsmenn eru heppnir að fá baráttukonuna Steinunni Valdísi á þing en óheppnir að hafa misst Mörð. Anna Kristín og Lára komust ekki að, heldur ekki Gummi Steingríms og Róbert Marshall datt út í morgunsárinu. Ellert B. Schram sigldi óvænt inn og verður fengur fyrir eldri borgara að fá slíkan baráttumann á þing, þó hann sjálfur hafi ekki einu sinni látið sig dreyma um þingsæti.

Samfylkingin stóðs sig bærilega og lokaspretturinn var glæsilegur. Kosningabaráttan var raunar ein sú allra skemmtilegasta og þaulreyndir pólitíkusar og fótgönguliðar líktu henni við kosningabaráttuna 1994, þegar Reykjavíkurlistinn vann borgina og borgin varð fjölskylduvæn og manneskjuleg í kjölfarið. 

Það er margt sem þyrlast upp í kjölfar kosninga. Beiskja í garð Íslandshreyfingarinnar sem ætlaði sér að stöðva stóriðjustefnu ríkisstjórnarinnar en styrkti hana þess í stað í sessi. Staða Margrétar Sverrisdóttur er harla skrítin orðin, ég sagði alltaf að hún hefði átt að ganga til liðs við okkur í Samfylkingunni en hún tók áhættu og fór í annan leiðangur.

Jón Baldvin Hannibalsson hlýtur nafnbótina ,,Óákveðnasti kjósandinn". Hans þáttur í kosningabaráttunni verður lengi í minnum hafður.

Hver vann og hver tapaði? Ríkisstjórnin heldur naumum meirihluta, við snérum vörn í sókn og Framsókn og VG mælast jafnstór. Sjálfstæðisflokkur bætir við sig frá því í síðustu kosningum, þar sem hann mældist mjög lítill - á hans mælikvarða.

Mín ósk er sú að næsta ríkisstjórn endurreisi velferðarkerfið, geri rammaáætlun um náttúruvernd og hefji virka baráttu gegn ójafnrétti og ójöfnuði. Velferðarmál eru dauðans alvara og skipta okkur öll máli. Eða svo ég snúi út úr slagorði Sjálfstæðisflokksins: Þegar öllu er á botninn hvolft er traust velferðarstjórn stærsta efnahagsmálið.

Auk þess að taka okkur út af lista hinna viljugu þjóða.

Ef fólkið í landinu fær ekki aukin lífsgæði út úr myndun næstu ríkisstjórnar, töpum við öll.

Oddný er borgarfulltrúi og þráir breytingar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Eins og talað út úr mínu hjarta - velferðarmálin verða að fara á fá meira vægi. 

Og svo verður að fara að finna eitthvað handa JBH að gera ...

alla (IP-tala skráð) 14.5.2007 kl. 12:41

2 identicon

Þetta er nú bara gaman ennþá. Síðast var spælingin algjör þegar ríkisstjórnin hélt áfram eftir að framsókn var með falskt  bros til vinstri fyrir kosningar og náði fylginu þannig upp. Ætli margir framsóknarmenn hafi þá ekki snúið til baka fyrir kosningar af því að þeir vonuðust eftir "R" - listasamstarfi ? Halldór hefur mikið á samviskunni. 

Ég get ímyndað mér þau leiðindi sem Margrét hefur lent í í frjálslyndaflokknum. Svolítið lágkúrulegur maður, J.M, spilar á karlrembu -  minnimáttar - komplexa karlanna í flokknum án þess að þeir átti sig alveg á því hvað er í gangi, og kemur þeim og Margréti í hár saman. Mjög leiðinlegt og lítillækkandi sérstaklega fyrir formann flokksins, Guðjón, en fólk er fljótt að fyrirgefa það þegar illa er komið fram gagnvart konum. Og sumir jafnvel fegnir ? Er ekki líklegt að þeir sem eru hræddastir við útlendinga séu líka hræddir við konur ? Bara leiðinlegt að skíta gott málefni eins og kvótamálið út með því að spyrða það við útlendingahatur og kvenfyrirlitningu. Og Margrét er algjörlega frjáls að því að gera það sem henni sýnist. Við vitum hversu erfitt það er fyrir " fædda " sjálfstæðismenn að fara vinstra meginn við miðju.

I.S. (IP-tala skráð) 14.5.2007 kl. 14:04

3 Smámynd: Hrólfur Guðmundsson

Ég styð endurreist velferðarkerfi.  Er núna að leita mér að vinnu en nenni því eiginlega ekki, mundi vilja hærri bætur og minni hvaðir eða hótanir frá Féló.  Þú ert frábær Oddný.

Hrólfur Guðmundsson, 14.5.2007 kl. 16:09

4 Smámynd: Sigurður Viktor Úlfarsson

"Auk þess að taka okkur út af lista hinna viljugu þjóða. "

Oddný, þú ert klár kona og átt ekki að bakka upp lýðskrum einsog það að taka okkur út af þessum lista sem ekki er til.  Davíð og Halldór komu okkur á þennan lista á sínum tíma.  Þar með studdi Ísland þetta stríð hvort sem Íslendingum líkar það betur eða verr.  Á þeim tímapunkti fóru þeir inn í landið í umboði okkar og fleiri ríkja.

Síðan er búið að drepa hundruð þúsunda manna, kvenna og barna og það er einfaldlega orðið of seint að afturkalla umboðið sem við gáfum á sínum tíma.  Fólkið verður ekki lífgað við.  Það er ekki hægt að ýta á "Undo".

Það sem við getum gert í dag í þessu máli er tvennt:
1. Við getum stutt við bakið á uppbyggingu í Írak og þannig reynt að bæta líðanina og móralinn og bjarga því sem bjargað verður.
2. Við sem þjóð getum lært af þessu og gætt þess að þetta gerist ekki aftur.

Þegar gefið er umboð til að drepa er ekki hægt að draga það til baka eftir að morðið hefur verið framið.  Þannig er það bara.

Sigurður Viktor Úlfarsson, 14.5.2007 kl. 18:15

5 Smámynd: Sigurgeir Orri Sigurgeirsson

Niðurstaða kosninganna er þessi: Samfylkingin tapaði. Það virðist eitthvað vefjast fyrir þér og þessvegna rétt að árétta það: Samfylkingin tapaði.

Sigurgeir Orri Sigurgeirsson, 15.5.2007 kl. 07:41

6 identicon

Það stendur hvergi í þessum pistli að Samfylkingin hafi unnið, aðeins að það hafi verið góð stemmning í baráttunni. Sem það var, enda gaman að hafa jöfnuð að hugsjón. Áfram stelpur!

Bjarni Gunnarsson (IP-tala skráð) 15.5.2007 kl. 12:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundar

Trúnó
Trúnó
Trúnó er vettvangur kvenna sem aðhyllast femíníska jafnaðarstefnu

Tónlistarspilari

Brigitte Bardot - Ca pourrait changer

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband