Svör Samfylkingarinnar við spurningum frá Femínistafélagi Íslands

Femínistafélag Íslands leitaði til allra stjórnmálaflokka og bað þá um að svara nokkrum mikilvægum spurningum um jafnréttismál.  Með mikilli gleði svaraði Samfylkingin femínistum enda hefur flokkurinn bæði frábæra stefnu í jafnréttismálum og gífulega reynslu m.a. úr Reykjavíkurborg í að vinna hörðum höndum að því að bæta jafnrétti kynjanna og ná góðum árangri.

Hér má sjá svör flokksins:

Spurningar Femínistafélags Íslands vegna kosninga til Alþingis 2007

  1. Jafnréttisstofa fær innan við 40 milljónir á fjárlögum ríkisins. Telur flokkurinn þetta vera nægilega fjármuni til að reka skilvirka og árangursríka jafnréttisstefnu og uppfylla kröfur jafnréttislaga og alþjóðlegra skuldbindinga á sviði jafnréttismála? Af hverju eða af hverju ekki? Þá heyra jafnréttismál í dag undir félagsmálaráðuneyti en ýmsar raddir hafa heyrst um að þau ættu að vera á vegum forsætisráðuneytis. Hver er afstaða flokksins gagnvart því?

Mun hærri upphæð þarf til að reka kraftmikið jafnréttisstarf sem uppfyllir kröfur jafnréttislaga, getur sinnt eftirliti með því að þeim lögum sé framfylgt og uppfyllt alþjóðlegar skuldbindingar.

Samfylkingin vill efla starfsemi Jafnréttisstofu til muna, m.a. með því að veita Jafnréttisstofu heimildir til að rannsaka og afla gagna sé grunur um að jafnréttislög séu brotin.

Samfylkingin telur brýnt að jafnréttissjónarmið verði rauður þráður í allri stefnumótun stjórnvalda. Til að svo megi verða telur Samfylkingin að jafnréttismál eigi að vera á forræði og ábyrgð forsætisráðuneytisins. Þingmenn Samfylkingarinnar hafa flutt þingmál þess efnis í samræmi við stefnu flokksins.

  1. Er flokkurinn fylgjandi eða andvígur frumvarpi til nýrra jafnréttislaga sem félagsmálaráðherra kynnti á nýju vorþingi í óbreyttri mynd? Ef ekki, hvaða breytingar myndi þinn flokkur gera? Hver er mikilvægasta breytingin á lögunum að mati flokksins?

Samfylkingin styður frumvarpið og vildi að frumvarpið yrði samþykkt núna á vorþinginu. Sjálfstæðisflokkurinn lagðist hins vegar gegn frumvarpinu, og félagsmálaráðherra vildi ekki leggja það fram. Frumvarp Guðrúnarnefndarinnar s.k. varð til í samkomulagi og í nokkrum atriðum hefði Samfylkingin viljað ganga lengra en telur margar mikilvægar réttarbætur felast í frumvarpinu. Meðal annars varðandi valdheimilidir Jafnréttisstofu og að setja yfirstjórn jafnréttismála undir forsætisráðuneytið.

Meðal mikilvægustu breytinga í nýju frumvarpi er ákvæði um afnám launaleyndar, virkar jafnréttisáætlanir í fyrirtækjum og um bindandi úrskurði kærunefndar jafnréttismála.

  1. Myndi flokkurinn styðja frumvarp sem gerði kaup á vændi refsiverð?

Já umsvifalaust. Þingmenn Samfylkingarinnar hafa átt aðild að frumvarpi þess efnis og gert slíkar breytingatillögur við meðferð hegningarlaga á Alþingi. Það á að gera kaup á vændi refsivert og veita fórnarlömbum vændis stuðning og ráðgjöf. Flokkurinn vill vinna gegn mansali og hefja virka baráttu gegn klámvæðingu í samfélaginu.

  1. Fengi flokkurinn dómsmálaráðuneytið í stjórnarmyndun, hver yrðu tilmæli dómsmálaráðherra til lögreglu um aðgerðir gegn klámi, klámvæðingu opinbers rýmis og heimilisofbeldi?

Samfylkingin leggur mikla áherslu á að lögreglan hafi fullnægjandi úrræði og nauðsynlegar heimildir til að berjast gegn klámi og heimilisofbeldi. Þingmenn Samfylkingarinnar hafa m.a. lagt fram þingmál sem gerir ráð fyrir sérstöku lagaákvæði sem tæki á heimilisofbeldi.

Verklagsreglur lögreglu þurfa að vera þess eðils að baráttan gegn kynbundnu ofbeldi sé í forgrunni í daglegu starfi lögreglunnar. Dómsmálaráðherra Samfylkingarinnar myndi tryggja að svo yrði.

Það þarf að ríkja skilningur á að eðli brotaflokka er ólíkt og kallar á ólíka nálgun af hálfu löggjafans en þann skilning hefur skort að því er varðar kynbundið ofbeldi. Þannig er ekki aðeins nauðsynlegt að tryggja að heimilisofbeldi t.d. verði skilgreint sem sjálfstætt brot í almennum hegningarlögum, því samhliða þurfa að vera fyrir hendi aðrar stoðir innan kerfisins sem gera þolendum heimilisofbeldis kleift að komast út úr þeim vítahring sem ofbeldi innan veggja heimilisins er.

Það er sömuleiðis mikilvægt að stjórnvöld leiti til þeirra sem hafa sérþekkingu og fagþekkingu í þessum efnum.

  1. Ólaunuð vinna í kringum börn, aldraða og sjúka deilist misjafnlega milli kynja.  Skortur á hjúkrunarrýmum og lengri biðlistar á öldrunar-, hjúkrunar- og umönnunarstofnununum valda því að þessi vinna er að flytjast inn á heimilin. Hvernig telur flokkurinn að koma eigi til móts við tekjutap og tap á vinnumarkaðstengdum réttindum, svo sem lífeyrisréttindum, einstaklinga (oftast kvenna) sem vinna þessa ólaunuðu vinnu? Myndi flokkurinn koma til móts við þetta fólk, t.d. með því að greiða í lífeyrissjóði? Hvað má það kosta?

Það er ólíðandi að skortur á hjúkrunarrýmum eða mannekla í umönnunar- og hjúkrunarstörf verði þess valdandi  að ábyrgð á umönnun sjúkra og aldraðra flytjist inn á heimilin aftur og lendi á herðum kvenna sem ólaunuð störf.  

Mikilvægt er að skilgreina rétt aldraðra, fatlaðra og sjúkra til þjónustu og ef hún er veitt á heimili þá sé greitt fyrir hana eins og aðra launaða vinnu hvort sem það er ættingi eða einhver annar sem veitir hana. Lífeyrisgreiðslur og önnur vinnumarkaðstengd réttindi eru þar ekki undanþegin.

Samfylkingin vill endurmeta störf kvennastétta en það felur í sér að endurskoða laun þeirra. Þetta var stærsta einstaka atriðið á bak við þann árangur sem náðist í borginni undir stjórn Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur í baráttunni við kynbundinn launamun. Án endurmats á þessum störfum mun skortur á starfsfólki í þessar stéttir vaxa og grafa undan því velferðarsamfélagi sem við viljum standa vörð um.

  1. Hver er afstaða flokksins gagnvart kynjakvótum í stjórnum fyrirtækja?

Vinna að auknum hlut kvenna í stjórnum og ráðum á almennum vinnumarkaði og í stjórnum almenningshlutafélaga. Þegar í stað verði komið upp samráðsvettvangi stjórnvalda og atvinnulífs til að vinna að þessu máli. Fyrirtækjum verði gefið 4 ára ráðrúm til að rétta hlut kvenna en lög sett að öðrum kosti.

7.  Töluverður munur er á aðstæðum karla og kvenna í hópi innflytjenda. Hvernig telur flokkurinn rétt að bregðast við ólíkum þörfum kvenna og karla í hópi innflytjenda? Einnig, hyggst þinn flokkur veita erlendum konum dvalarleyfi búi þær við heimilisofbeldi? 

Ólíkar aðstæður karla og kvenna í hópi innflytjenda kalla á ólíka ráðgjöf og stuðning af hálfu opinberra aðila í samráði við ýmis samtök og stofnanir s.s. Alþjóðahús, Fjölmenningarsetur, Samtök kvenna af erlendum uppruna og verkalýðssamtök.

Samfylkingin vill tryggja að konur af erlendum uppruna, sem búa við ofbeldi, missi ekki dvalarleyfi sitt eftir skilnað við íslenskan maka sinn. Fjöldi kvenna af erlendum uppruna sem sækja aðstoð til Kvennaathvarfsins síðustu árin hefur aukist mikið. Mikilvægt er að tryggja að konur af erlendum uppruna eigi greiðan aðgang að upplýsingum um aðbúnað sem til er í samfélaginu t.d. fyrir konur sem verða fyrir heimilisofbeldi.

  1. Þau störf sem skapast hafa í kringum stóriðjuframkvæmdir á síðustu árum virðast ekki hafa skilað sér í jöfnum mæli til kvenna og karla. Hvernig myndi flokkurinn tryggja það að atvinnusköpun geri báðum kynjum jafn hátt undir höfði?

Samfylkingin telur að nú eigi að leggja áherslu í atvinnumálum á annað en stóriðjuuppbyggingu. Flokkurinn hefur sett fram stefnu um uppbyggingu í hátækni- og þekkingaiðnaði og leggur áherslu á atvinnugreinar tengdar menntun og menningu. Í þessum atvinnugreinum er full ástæða til að ætla að verði til störf fyrir konur ekki síður en karla.

  1. Hvaða aðgerðum mun flokkurinn beita sér fyrir til að hækka laun lægst launuðu kvennastéttanna?

Samfylkingin vill að farið verði í starfsmat á vegum ríkisins með það að markmiði að vinna gegn vanmati á hefðbundnum kvennastörfum og bæta launakjör þeirra sem vinna þau störf. Þetta var gert hjá Reykjavíkurborg undir stjórn Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur og Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur og var stærsta einstaka aðgerðin á bak við þann árangur að minnka kynbundinn launamun í borginni um helming.

Þessar aðgerðir hefur núverandi ríkisstjórn ekki viljað fara í þrátt fyrir að augljóslega halli á konur þegar kemur að því að meta störf til launa. Þetta verkefni yrði eitt af forgangsmálum í ríkisstjórn Samfylkingarinnar undir forystu Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur.

  1. Innflytjendum er gert skylt að kaupa sér sjúkratryggingar til sex mánaða eftir að þeir flytja til landsins. Þær tryggingar sem eru í boði dekka ekki kostnað vegna meðgöngu og fæðingarhjálpar. Telur flokkurinn þetta vera jafnréttisbrot?

Bið í sex mánuði eftir því að komast inn í almennar sjúkratryggingar á ekki aðeins við um innflytjendur heldur einnig brottflutta Íslendinga sem eru að flytja heim aftur eftir lengri dvöl erlendis. Meðgöngu- og fæðingarhjálp er sjálfsögð þjónusta við konur og ófædd börn þeirra og óviðunandi að hún sé ekki tryggð öllum konum. Þarna er um að ræða brest í velferðarþjónustunni sem brýnt er að finna lausn á.

Ritnefnd Trúnó


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Afskaplega þunnur þrettándi og algjörlega samkvæmt væntingum.  Valdboð og refsing. 

-Það á að auka fjárframlag til kennfélagsins *"jafnréttisstofu" og veita þeim lögregluvald, með húsleit, handtökum og öllum pakkanum sem STASI hafði í Alþýðulýðveldinu.  Rauði þráðurinn á að vera "fólkið fyrir ríkisvaldið" ekki "ríkisvaldið fyrir fólkið".

Kærunefnd jafnréttismála á að hafa sama vald og Hæstiréttur, almenningur á ekki að geta leitað réttar síns gegn þessu ríkisvaldi fyrir dómsstólum.

- Ríkið á að hafa eftirlit með því hverjir hafa samfarir og á hvaða forsendum.  Það á að vera refsivert að hafa samfarir.  Hinum opinbera refsivendi ríkisvaldsins á að veita heimild til þess að refsa fólki fyrir það að hafa samfarir ef forsendur samfaranna er refsivendinum ekki að skapi.

-No comment - algjör og innihaldslaus klisja.  SF ekki alveg tilbúnn til að viðurkenna að "kynbundið ofbeldi" er ekki kynbundið frekar en annað ofbeldi.  Tveir mínusar fyrir kjarkleysi og innihaldslaust blaður um ekki neitt.

-Innihaldslaust blaður Sf.  Fullyrða um eitthvað sem þeim augljóslega er ómögulegt að vita.  Enn og aftur mínus fyrir kjarkleysi og útúrsnúninga.

-Sf vill samstarf við fyrirtæki um að neyða eigendur þeirra til að kjósa konu í stjórn félags, óháð eignarhaldi.  Ef eigendur fallast ekki á "samstarf" þá kemur refsivöndur ríkisvaldsins til skjalana og neyðir eigendur til þess að kjósa í stjórn fyrirtækja með lagaboði.  Þessu fylgir auðvitað breyting á hlutafélagalögum, en  Sf hefur ekki hugsað málið svo langt.  Væntanlega verða almennar kosningar í stjórn Glitnis, með flettulista og alles ef Sf fær sínu framgengt.  Allir Íslendingar með kosningarétt fá að velja í stjórn Glitnis, algjörlega óháð því hvort þeir eigi hlut félaginu, eða hafi á annað borð einhver viðskipti við félagið.  Allt í nafni "jafnréttis"  Tvímælalaust heimskulegasta hugmynd sem fram hefur komi hjá feministum, að svipta almenningi ráðstöfunarrétti yfir eignum sínum, og halda því fram að þetta sé gert í nafni réttlætis.  Auðvitað er fólk sem dettur svona vitleysa í hug ekki boðlegt almenningi.

7 - Erlendar konur eiga að njóta réttlætis, karlar af erlendur uppruna skiptir Sf engu máli. Kemur ekki á óvart.

- Klisja - af því að konur vilja ekki starfa við stóriðju, þá er það sönnun þess að stóriðja en karllæg og kvennfjandsamleg.  Sf vill auka þekkingariðnað og hátækni, gæti ælt yfir svona innihaldslausu röfli.

- Sf vill hækka lægstu laun kvenna, en þeim varðar ekkert um láglaunafólk almennt.  Enn og aftur kemur kvennalistinn Sf ekki á óvart.

-Sf vill að íslenskir skattgreiðendur borgi kostnað af meðgöngu og fæðingu erlendra og brottfluttra íslenskra kvenna, þó svo vitað sé að þetta er stórlega misnotað.  Konur hafa umvörpum komið "heim" til þess eins að fá þessa þjónustu á kostnað íslenskra skattgreiðenda, en eru svo farnar aftur heim, hafandi fengið rándýra þjónustu á kostnað annara, án þess nokkurn tíman hafa borgað til samfélagsins eina krónu, búandi erlendis.

Þrándur (IP-tala skráð) 10.5.2007 kl. 02:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundar

Trúnó
Trúnó
Trúnó er vettvangur kvenna sem aðhyllast femíníska jafnaðarstefnu

Tónlistarspilari

Brigitte Bardot - Ca pourrait changer

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband