Bad things happen when good people do nothing

Eftir Oddnýju Sturludóttur.

Þessi spöku orð mælti Bob nokkur Marley sem mig grunar að hafi verið nokkurn veginn í kjörþyngd. Góðar hugmyndir fæðast á hverjum degi og örfáum er gefið að hrinda þeim í framkvæmd – til allrar lukku fyrir okkur hin, samfélagið og komandi kynslóðir.

Ein slík hugmynd fæddist hjá Mary Evans Young og þann 6. apríl, fyrir 15 árum var fyrsti alþjóðlegi Megrunarlausi dagurinn haldinn hátíðlegur. Ef ég fengi öllu að ráða væru allir dagar megrunarlausir – en þó væri leyfilegt, í einn dag á ári, að rifja upp hallærislegar megrunaraðferðir, trénaðar staðalmyndir og þá gömlu góðu daga ,,þegar fólk var ennþá að fara í megrun, abbabbabb”. Sá dagur rennur upp fyrr en síðar.

Ég er gríðarleg áhugamanneskja um jafnrétti kynjanna og reyni að bregða jafnréttisskapalóninu á allt mann- og kvenlegt. Það þarf engan snilling til að sjá að megrun er náfrænka útlitsdýrkunar sem er stjúpsystir klámvæðingar sem aftur speglast í því að konur eru þolendur í heimi sem innréttaður var af körlum. Sífellt yngri stúlkur eru gagnteknar af vigtinni. Gott fólk; ætlum við að standa aðgerðarlaus hjá? Ætlum við að spyrna við fótunum eða finnst okkur í lagi að fermingarbörn fari í megrun?
 
Konur eiga að vera grannar, og eru minntar á það á hverjum degi. Á forsíðum blaða, í útvarpi, í bíó. Það er hvergi stundarfriður fyrir áróðri um grannar og fallegar konur. Íslensk tímarit eru undirlögð af  hallelújaboðskap um konur sem misstu tugi kílóa. Ég samgleðst þeim innilega en minni á að feitar konur eru líka forsíðustúlkur.

Ég sit oft til borðs með konum sem borða sig ekki saddar. Sem narta í matinn eins og fuglar, sem panta sér forrétt eða ,,smárétt” í kvöldmat. Þessar konur eru ekki feitar en samt fara þær svangar í háttinn. Þessar konur eru æðislegar, fallegar og kynþokkafullar en yfir þeim hangir fitubolluvofan. Það er ljótt að vera feitur segja blöðin, það er óhollt að vera feitur segja læknarnir, það er merki um skort á sjálfstrausti að hafa mjúkar línur og þrýstinn barm.

Gott fólk á ekki að standa hjá og gera ekki neitt, við eigum öll að láta okkur þetta varða. Við gætum byrjað á því að hrósa ekki stelpum og konum í hástert fyrir að vera grannar, jafnvel horaðar. Stundum finnst mér sem konur hrósi ekki öðrum konum nema fyrir eðlisþyngd þeirra!

Konur geta litið vel út fyrir margra hluta sakir, þær geta haft lokkandi blik í augum, heilbrigt og glansandi hár, dásamlega þrýstinn rass, breið og falleg læri, yndislegan húðlit, sérstakt bros. Svo ekki sé talað um hugmyndaauðgi, sanngirni, kímnigáfu og rétthugsun. Það sem gerir manneskju að manneskju.

Breytum þankaganginum. Í trylltum heimi sem keyrir áfram í fimmta gír og sturtar yfir okkur óæskilegum skilaboðum um allt mögulegt er þankagangur eitthvað sem við getum haft sæmilega stjórn á.

Byrjum strax í dag.


Oddný óskar skipuleggjendum Megrunarlausa dagsins á Íslandi til hamingju með 6. maí! Þessi grein birtist í dag í blaði sem tileinkaður er Megrunarlausa deginum, 6. maí.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Svo satt, svo satt Oddný.  Og kröfurnar færast jafnt upp sem niður eftir aldri.

alla (IP-tala skráð) 7.5.2007 kl. 11:36

2 Smámynd: Edda Agnarsdóttir

Takk fyrir góð skrif og áminninguna!

Edda Agnarsdóttir, 7.5.2007 kl. 16:00

3 identicon

Fyrir stuttu horfði ég á heimildarþátt sem fjallaði einmitt um þetta vandamál nema að þarna var fjallað um megrunaræði barna allt frá 4 ára aldri! Þar sem ég sat í sófanum með snakkið mitt fylltist ég heilbrigðum hrylling-þannig að ég styð þennan pistil þinn heilshugar. Góðar kveðjur, Svanfríður.

Svanfríður (IP-tala skráð) 7.5.2007 kl. 22:02

4 identicon

„Ég er gríðarleg áhugamanneskja um jafnrétti kynjanna og reyni að bregða jafnréttisskapalóninu á allt mann- og kvenlegt. Það þarf engan snilling til að sjá að megrun er náfrænka útlitsdýrkunar sem er stjúpsystir klámvæðingar sem aftur speglast í því að konur eru þolendur í heimi sem innréttaður var af körlum.“

Er þetta ekki frekar gróft í árina tekið? Megrun og átröskun eru tveir ólíkir hlutir. Ertu líka á móti líkamsrækt? Er hún ekki þá dæmi um sömu útlitsdýrkun og þú talar um? Ég held þú sért að rugla áhuga almennings (bæði karla og kvenna) á heilbrigðu líferni saman við skipulagða kúgun karla á kvenþjóðinni.

Svo finnst mér nú vera svolítið niðrandi í garð kvenna að segja þær vera þolendur (bara svona í heiminum almennt). Mér þykir þú vera með mjög óheilbrigt sjálfsálit ef þú lítur á þig þannig. Konur geta verið "winners" rétt eins og karlar og fer það nú frekar eftir einstaklingnum heldur en kyni.

Bjarni Rafn Gunnarsson (IP-tala skráð) 8.5.2007 kl. 01:39

5 identicon

Óskylt efni færslunar en eruði viss um að hér sé farið rétt með tilvitnanir (bad things happen when good people do nothing):

 http://www.tartarus.org/~martin/essays/burkequote.html

Er ekki viss um að Marley hafi sagt þessi ágættu orð. Svo má spyrja hvort gott fólk er gott fólk ef það gerir ekki neitt þegar hið illa fer á stjá?

Kalli (IP-tala skráð) 8.5.2007 kl. 17:21

6 identicon

Ég hef uppgötvað að þetta er eiginlega bara í vestrænu þjóðfélagi. T.d. þar sem ég hef farið að skemmta mér á svona latin klúbbum í Bandaríkjunum, þar sem aðallega eru menn frá Mið- og Suður-Ameríku, eru þykkar konur með mjaðmir, rass (samt ekki hamborgararass) og stór brjóst mun eftirsóknarverðari en einhver módel og eru ekki látnar í friði. Það var frekar furðuleg en ánægjuleg upplifun. 

Hulda Sif Ólafsdóttir (IP-tala skráð) 9.5.2007 kl. 04:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundar

Trúnó
Trúnó
Trúnó er vettvangur kvenna sem aðhyllast femíníska jafnaðarstefnu

Tónlistarspilari

Brigitte Bardot - Ca pourrait changer

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband