Alltaf á haus og passa gleraugun

Eftir Þórhildi Þorleifsdóttur.

Einhver, ég man ekki hver, var að agnúast út í Ingibjörgu Sólrúnu og kvað úreltan stjórnmálastíl hennar vera orsök óvinsælda hennar. Gaman að einhver skuli vekja máls á stíl. Eitthvað sem vert væri að skoða oftar og betur. Og reyna að greina.

En til að festast ekki í staðalímyndum er nauðsynlegt að víkka sjónarhornið, setja upp ný gleraugu eða jafnvel standa á haus (en passa að missa ekki gleraugun) og spyrja síðan: Hver er hinn rétti stíll og er nauðsynlegt að vera karlmaður til að ganga upp í ímyndinni um réttan stíl stjórnmálaskörunga, leiðtoga, formanna og forsætisráðherra?

Úff, mér verður bókstaflega illt í huga og hönd! Þvílíkir titlar og allir lýsa þeir karlmönnum. Er það furða að kona passi ekki inn í ímyndina og að ekki sé óskað eftir nærveru hennar. Það myndi svo sannarlega riðla góðri heildarmynd.

En nú ætla ég að taka mér Bessaleyfi og spá í stíl þeirra leiðtoga sem voru í Kastljósi síðastliðið mánudagskvöld. Þá verður fyrst að nefna heildarmyndina. Fimm karlar og ein kona. Stílleysi heildarmyndarinnar blasti við: konan eins og prentvilla í annars gallalausum stíl.

Byrjum greininguna á vinstri væng skjásins, þar sem sátu reyndar hægri öfl stjórnmálanna. Þar sátu fastir fyrir þrír karlar sem helst minntu á sextugan hamarinn og upp í hugann komu ljóðlínur Jóns Helgasonar: Jötuninn stendur með járnstaf í hendi, jafnan við Lómagnúp, kallar hann mig og kallar hann þig...

Svartklæddir voru þeir með ljósa bringu og litla skrautrönd sem vísaði niður í átt að manndómsmerkjum þeirra. Minnti á ýmsa fuglategundir sem skreyta sig til að ná athygli kvenfugla! Þeir töluðu, sérstaklega tveir þeirra, eins og virðulegir embættismenn frá 19. öld.

Sá fyrsti, í annálum kallaður Jón, haldinn pínulítilli þráhyggju og gat ekki hætt að segja ,,stopp" og ,,handbremsa". Dálítið eins og upptrekktur dúkkukarl sem byrjar aftur á prógramminu þegar búið er að vinda hann upp.

Næsti, sem gegnir nafninu Geir, var meira eins og góðlátlegur og vel taminn bangsi sem átti ekki að ,,performera" í kvöld. Tók bara einstaka spor og settist svo aftur. Engin sérstök tilþrif og ekkert niðrandi athugasemdir um sætustu stelpuna eða einhverjar kvensur sem hvort eð er verða ófrískar.

Sá þriðji, Guðjón, er kannski best geymdur bak við tjöldin!

Fjórði, að vísu einnig í traustvekjandi stjórnmálaleiðtogajakkafatastíl með tilheyrandi skyrtu og skrautrönd en auk þess líka með hjartað hangandi utan á sér. Fullt af blóði og hjartslátturinn ,,Ómaraði" inn á hvert heimili þar sem á annað borð var sjónvarp í gangi. Það voru bara jakkafötin sem komu í veg fyrir alvarlegt stílbrot.

Síðan kom stílbrotið, skarðið í hamrabergið. Hvítklædd kona með plíseraðar ermar! Snjóskafl sem ekki hefur náð að bráðna með hækkandi sólu, eða ljós í myrkri. Spurning um stíl og smekk.

Henni við hlið sat karlmaður í jarðarlitum. Minnti á mosató sem fest hefur rætur utan í berginu. Hefði verið alvarlegt stílbrot ef framkoman og talsmátinn hefði ekk ihalað hann í land. Aldrei þessu vant æpti hann ekki eins og hann vissi ekki að búið væri að finna upp hljóðnema og hátalara. En vísifingurinn var alltaf á lofti. Predikarinn og besserwisserinn á sínum stað. En hann mælti oft manna heilastur. Verst hvað mér gengur illa að trúa því að Steingrímur J sé gargandi femínisti!

Skoði nú hver eins og hann hefur gáfurnar til, og muna að standa á haus og passa gleraugun, stíl Ingibjargar Sólrúnar og spyrji svo: Hver er úreltur?

Þórhildur er leikstjóri og tekur sér gjarnan Bessaleyfi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Edda Agnarsdóttir

Það þarf náttúrlega ekki að segja það við þig Þórhildur, en það mega gjarnan aðrir sjá að þessi skrif eru tær snilld!

Edda Agnarsdóttir, 12.4.2007 kl. 10:36

2 identicon

Unaðsleg greining. Takk fyrir. Þórunn Sv.

Þórunn Sveinbjarnardóttir (IP-tala skráð) 12.4.2007 kl. 13:50

3 Smámynd: Hammurabi

Hárbeittur texti, og vel skrifaður. Hver er þessi Bessi sem þú ert að fá leyfi hjá, einhver sem við þekkjum?

Hammurabi, 12.4.2007 kl. 17:04

4 identicon

Gott hjá þér Þórhildur, voru þeir ekki allir með þverröndótt á ská? Þa ku vera svo traustvekjandi!

Ég safna bindum, á nokkra tugi, en ekkert þverröndótt á ská!

Það segir eflaust margt um mig. Ég mun aldrei setja upp bindi sem gæti hugsanlega tengt mig við menn sem nota skárendur!

Ævar (IP-tala skráð) 12.4.2007 kl. 19:41

5 identicon

Gott ef þessi pistill nær ekki að kritalla sérstöðu Sf.  Ómálefnalegur og fullur af sjálfsvorkun þess sem hefur ekkert fram að færa annað en ergelsi og tuð, heimskulegt þvaður og ómálefnalegt skítkast á andstæðinginn.

Ekki langt síðan ein þeirra kvenna á þessu bloggi fullyrti að stelpur væru miklu hæfari en strákar, og nú er fullyrt að karlar séu úreltir vegna klæðaburðar.  Þarf svosem ekki að koma á óvart að það lið sem jánkar og jammar með slíkum málflutningi skuli ekki eiga uppá pallborðið hjá eðlilegu fólki.  Þetta eru augljóslega rænulausir fábjánar sem nærast á fordómum og skítkasti. 

Þrándur (IP-tala skráð) 13.4.2007 kl. 00:30

6 Smámynd: Tómas Þóroddsson

Snildar myndlíkingar.

Tómas Þóroddsson, 13.4.2007 kl. 10:19

7 identicon

Eins og mér fannst póstur Svanfríðar sannfærandi og kraftmikill. 

Alveg með ólíkindum hvað þessi er fullur af hroka, hatri og neikvæðni. Ykkur finnst þetta kannski málefnalegt eða smart. Ekki mér.

Drífa Magnúsdóttir (IP-tala skráð) 13.4.2007 kl. 12:06

8 Smámynd: Viðar Eggertsson

Frábær pistill, eins og þín var von og vísa Þórhildur!

kv.

Viðar Eggertsson, 15.4.2007 kl. 00:25

9 Smámynd: Sveinn Valdimar Ólafsson

Hvað rugle er þetta nú. Þessir karlar voru kosnir lýðræðislega og hananú. ISG líka. Fyrir mér er þettta þráðbeint karlahatur. Meiga karlar ekki hljóta kosningu nema skamma sín fyrir að þiggja þá niðurstöðu? Ef ég er karl og verð formaður í stjórnmálaflokk skal ég tekin fyrir vegna kynferðis. Er það ekki í andstöðu við það sem jafnréttisbaráttan gengur út á?

kveðja Sveinn

Sveinn Valdimar Ólafsson, 20.4.2007 kl. 01:01

10 Smámynd: Kristján Pétursson

Mjög áhugaverð grein hjá Þórhildi.Hún er frábær og fjölhæf listakona,sem ég ber mikla virðingu fyrir.

Kærar þakkir fyrir greinina.Kær kveðja.

Kristján Pétursson, 25.4.2007 kl. 21:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundar

Trúnó
Trúnó
Trúnó er vettvangur kvenna sem aðhyllast femíníska jafnaðarstefnu

Tónlistarspilari

Brigitte Bardot - Ca pourrait changer

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband