Hver er munurinn á nefnd og nefnd hjá hæstvirtum menntamálaráðherra?

eftir Höllu B. Þorkelsson

Á liðnum árum hefur þeim sem hafa reynslu og kunnáttu til kennslu blindra og sjónskertra fækkað. Nú er svo illa komið að aðeins einn blindrakennari er starfandi hér á landi og nokkur ár eru síðan foreldrar blindra barna hófu búferlaflutninga til annarra landa.

Ekki vegna þess að það væri draumur þeirra, þeir neyddust til þess. Á okkar ágæta landi er ekki boðið upp á þjónustu við blind/sjónskert börn í sama mæli og á hinum Norðurlöndunum.

Árið 1999 fluttum við hjónin hingað suður vegna sjónskertrar dóttur okkar. Eitt af því fyrsta sem við gerðum var að ganga í foreldrafélag blindra og sjónskertra barna. Það var mikið heillaspor.

Á sjónstöðinni fékk barnið góða þjónustu en ýmsar brotalamir voru í hinum almenna grunnskóla. Kennarar dóttur minnar gerðu sitt besta og eru hið ágætasta fólk, það dugði bara ekki því sérþekkingu vantaði til þess að aðgengi fyrir hana að námi væri á svipuðu róli og annara barna.

Á fyrstu fundunum okkar með foreldrafélaginu heyrði ég talað um að það þyrfti að byggja upp þekkingarmiðstöð svo hægt væri að sinna betur málum blindra og sjónskertra barna.

Árið 2004 taldi ég að nú væru málin komin í góðan faraveg, en það var mikil bjartsýni.

Á næstsíðasta degi þingsins, veturinn 2007 sagðist menntamálaráðherra Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir ætla að skipa nefnd, en ekki ,,enn eina nefndina”, heldur framkvæmdanefnd.

Ég spyr: hafa þá allar þær nefndir sem menntamálaráðherra stofnaði til verið ,,platnefndir”? Til að friða heimtufrekan almúginn?

Í sömu ræðu segir ÞKG að blindir nemendur eigi rétt á menntun eins og allir aðrir í samfélaginu. Heyr á endemi. Ég bið hátt og í hljóði að þekkingarmiðstöð fyrir blinda og sjónskertra verði komið á laggirnar.

Ég treysti ekki orðum menntamálaráðherra.

Ég átti fund með ráðherra vegna aðgengi heyrnarskertra og menntunarmála þeirra, þar sem aðstandendur bókstaflega grátbáðu um rittúlkun (talað mál ritað á tölvu og hinn heyrnarskerti les af tölvuskjá) en slík þjónusta er valfrjáls á hinum Norðurlöndunum.

Á fundinum spurði ég ráðherra hvort einhverju fé væri ætlað í þetta brýna aðgengismál heyrnarskertra. Nei, var svarið en ég mun skoða þessi mál....

Síðan er liðið á þriðja ár og enn bólar ekki einu sinni á svari.

Í eldhúsdagsumræðum í fyrradag fór ráðherra mikinn og hafði uppi gífuryrði um stjórnarandstöðuna. Það er mín skoðun að ráðherra ætti að líta eigin barm og láta orðum fylgja efndir og sleppa hanagalinu.

Halla er reið móðir sjónskerts barns.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Laufey Ólafsdóttir

Mér finnast þetta skelfilegar fréttir Halla. EINN blindrakennari á öllu landinu??? Það þarf nú bara að fá svör við þessu strax og finna lausnir.

Stuðningskerfi við börn í skólum landsins er reyndar stórlega ábótavant á mörgum sviðum og þyrfti nú bara að skoða það í heild sinni. Kannski jafnvel veita í það meira fjármagni. Hvað skyldi annars kosta að halda úti öllum þessum nefndum?

ÖLL börn eiga jafnan rétt á námi og að fá tilskyldan stuðning til að geta gengt því.

Laufey Ólafsdóttir, 16.3.2007 kl. 12:36

2 Smámynd: Átakshópur um heilbrigða skynsemi í pólitískri umræðu

Það má líka spyrja menntamálaráðherrann hver sé munurinn á vönduðum undirbúningi sem krefst mikils tíma og óásættanlegri flýtimeðferð.

Ráðherra sagði nefnilega að vanda þyrfti svo vel til setningar nýrra jafnréttislaga, sem þó höfðu verið afar lengi í vinnslu með víðtæku samráði, að ekki væri ráðlegt að leggja þau fram og afgreiða svo skömmu fyrir þinglok.

Á sama tíma var sami ráðherra á fullu að leika sitt hlutverk í litla leikþættinum um auðlindaákvæði í stjórnarskrá þar sem boðið var upp á breyta sjálfri stjórnarskrá lýðveldisins á tveimur dögum með því að bæta inn ákvæði sem samið var af tveimur körlum á sólarhringslöngum leynifundi!

Átakshópur um heilbrigða skynsemi í pólitískri umræðu, 16.3.2007 kl. 14:27

3 Smámynd: Edda Agnarsdóttir

Það sem virðist alvarlegt í þessu máli er að í landinu okkar er skólaskylda  sem allir vita um og senda börn sín í skóla þar sem fram á að fara fræðsla fyrir hvert og eitt barn eða nemanda.

Stundum þarf að nota sérþjónustuna annars staðar en í skólahverfi viðkomandi og kannski ekkert við því að segja.

En það alvarlegasta er að í landinu okkar er luka nokkuð sem heitir FRÆÐSLUSKYLDA - það eru lög í landinu og virkar stórfurðulega að þeir sem fara með stjórn Menntamála bregðist ekki við því.

Edda Agnarsdóttir, 16.3.2007 kl. 14:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundar

Trúnó
Trúnó
Trúnó er vettvangur kvenna sem aðhyllast femíníska jafnaðarstefnu

Tónlistarspilari

Brigitte Bardot - Ca pourrait changer

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband