Karlar sem styðja konur

eftir Erlu Sigurðardóttur

Ég man eftir síðustu alþingiskosningum. Ég sat negld við netið fram eftir öllu og sofnaði sæl með þær fréttir í fanginu að Ingibjörg Sólrún og Lára Stefánsdóttir væru komnar inn. Næsta morgun voru þær báðar dottnar út – og munaði mjóu.

Ég man eftir vangaveltum góðra kvenna, sem höfðu staðið með Ingibjörgu Sólrúnu í kvennapólitíkinni. Fengi hún nú raunveruleg áhrif sem forsætisráðherra ef hún var titlalaus innan flokksins? Þær veðjuðu á aðra hesta en urðu frekar niðurlútar þegar í ljós kom hve litlu hafði munað. 

Erna Indriðadóttir fjallaði um valt brautargengi stjórnmálakvenna í Mogganum 6. febrúar. Á því „herrans ári“ 2007 virðist lýðræðið ekki náð það langt, að umboð íslenskra stjórnmálakvenna sé jafngilt umboði karla. Þá virðist stuðningur kvenna við Samfylkinguna vera á reiki. Þar ræður prófkjörið eflaust einhverju um en fyrir mér staðfesti það illan grun um vafasamt ágæti þessa fyrirbæris – ekki síst fyrir konur.

Hér í Danmörku virðist Helle Thorning-Schmidt, formaður danskra jafnaðarmanna, hinsvegar sópa að sér fylgi. Þegar hún var kjörin formaður naut hún þess - andstætt Ingibjörgu Sólrúnu - að enginn vænti neins af henni. Það var glott að kvenlegu útliti hennar og Gucci-veski. En hún stóð fast á sinni sannfæringu. Hún myndaði sterkan hóp í kringum sig og setti gamla gæðinga tímabundið út á gaddinn ef þeir voru með neikvæðni. Sumir eru komnir inn í hlýjuna aftur en skilaboðin eru skýr:

Formaðurinn verður að geta treyst sínu fólki.

Danski krataflokkurinn er að vísu rótgróinn, andstætt Samfylkingunni. Þar kallast grasrótin á við forystuna og þykir eðlilegt lýðræðislegt ferli. Allir vita þó að samtakamátturinn er grundvallarforsenda fyrir að vinna traust kjósenda. Það skal enginn segja mér að fv. formenn flokksins hafi aldrei efast um hæfni Helle Thorning en enginn þeirra valsar um í fjölmiðlum af ábyrgðarleysi eins og Jón Baldvin Hannibalsson gerði á dögunum. Var það athyglisþörf hans og málgleði sem réð ferðinni? Eða var karlmannsstolt hans sært? Hefur nýi formaðurinn ekki leitað ráða hjá honum?

Karlar í öllum flokkum, líka hennar eigin flokki, hafa einbeitt sér að því að draga úr mætti Ingibjargar Sólrúnar. Aðferðirnar eru útúrsnúningar og rangtúlkanir. Er þetta viðmót að hafa áhrif á konur? Er lausnin að stökkva upp í fangið á öðrum flokksforingjum þegar Samfylkingin ein getur státað af formanni sem hefur unnið ötullega árum saman bæði í grasrót kvennahreyfingarinnar og í pólitík í umboði kvenna? Feminískar áherslur hennar hafa ekki alltaf þótt nógu beinskeyttar, hún hefur líka verið gagnrýnd fyrir hve sein hún var að átta sig á mikilvægi röggsamrar stefnu í umhverfismálum.

Engu að síður er hún líklegust íslenskra flokksforingja til að leiða raunhæfar breytingar í íslensku þjóðfélagi.

Er það gamalt óöryggi í okkur konum sem gerir það að verkum að við treystum ekki kynsystrum okkar til að gera hlutina betur? Ætlum við að lenda í þeirri stöðu eftir kosningar að sitja uppi með óbreyttar áherslur af því að konurnar sem við bundum vonir við voru ekki nákvæmlega eins og við vildum hafa þær?

Það er stutt til kosninga og ég hvet allar konur til að skoða málin með feminískum gleraugum og láta ekki pólitískan loddaraskap rugla okkur í ríminu.

Í Politiken síðastliðin sunnudag kom fram hvað Jens Stoltenberg, forsætisráðherra Noregs, var Helle Thorning mikill stuðningur. Þegar sótt var að henni úr öllum áttum sendi hann henni sms og hvatti hana til að gefast ekki upp. Þetta virðist vera almennilegur maður sem er vanur því að konur séu forsætisráðherrar. Hann styður félaga sína, jafnvel þó að það séu konur.

Komið þið auga á einhvern karl með þennan kalíber í íslenskri pólitík?

Erla Sigurðardóttir er 49 ára ritstjóri og þýðandi, búsett í Kaupmannahöfn


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Jamm, mætast nú stálin stinn og fengitími Steingríms stendur nú sem hæst. En tekst honum að koma fram vilja sínum frá því í Kryddsíldinni, þar sem hann sýndi vopn sín og verjur? Vinstri grænir og Samfó í eina sæng og Steingrímur kóngur um stund, eða verður hann drottningin í því lostabandi? Þegar stórt er spurt...

Eiríkur Kjögx (IP-tala skráð) 11.2.2007 kl. 10:06

2 Smámynd: Ingibjörg Stefánsdóttir

Takk Erla fyrir frábæra grein! Bestu kveðjur á Austurbrú og bendi á nýja skoðanakönnun um fylgi flokkanna sem bendir til þess að brátt komi betri tíð með blóm í haga fyrir Samfylkinguna. Vinstri stjórn í augsýn og við gleðjumst.

Ingibjörg Stefánsdóttir, 11.2.2007 kl. 14:05

3 Smámynd: Karl V. Matthíasson

Sæl Erla.

Skrif þín eru góð og tek ég heils hugar undir þau.  Ef við stöndum ekki þétt að baki formanni okkar þá getum við ekki búist við nokkrum árangri.

Þetta á reyndar við um alla formenn, ef félagarnir styðja þá ekki þá er voðinn vís.

Mér hefur  fundist þetta vanta hjá okkur í samfylkingunni eins og þú skrifar.

Reyndar finnst mér eins og við séum að átta okkur á því að samstaða Samfylkingarinnar er grundvöllur þess að sú ósk rætist að  næsti forsætisráðherra verði Ingibjörg Sólrun. 

Að svo verði er nauðsynlegt fyrir lýðræðið í landinum.

Samræðupólitíkin sem Ingibjörg Sólrún leggur áherslu á er vonandi að koma meira inn í samfélag okkar, en slíkt mun auka gróandann í grasrótinni, samstöðuna en síðast en ekki síst mun það frelsa okkur frá þeim viðjum sem við teljum stundum vera frelsi okkar og gæði.

Í frelsunarguðfræði Suðurameríku er t.d. ekki aðeins lögð áhersla á að fresla hinn kúgaða heldur llika þann sem kúgar en að það geti gerst verður aðeins fyrir samræðu, er leiðir til sáttar.

Stöndum saman

X - S (Success)

Kalli Matt

Kalli Matt

Karl V. Matthíasson, 11.2.2007 kl. 14:39

4 Smámynd: Svala Jónsdóttir

Góð grein. Það er nauðsynlegt fyrir Samfylkingarfólk að átta sig á því að samstaða skiptir öllu máli varðandi gengi flokksins og þá skiptir ekki síst máli að flokksmenn standi þétt að baki formanni sínum. Annað er ávísun á vandræði.

Svala Jónsdóttir, 12.2.2007 kl. 11:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundar

Trúnó
Trúnó
Trúnó er vettvangur kvenna sem aðhyllast femíníska jafnaðarstefnu

Tónlistarspilari

Brigitte Bardot - Ca pourrait changer

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband