2.10.2007 | 21:55
Grátið á Grænuborg
Eftir Oddnýju Sturludóttur
Það var í ágústlok sem ég sótti börnin mín tvö á Grænuborg. Þau voru sólbökuð og sæl inni í stórasal að leika sér, veðrið hafði leikið við Reykvíkinga þennan dag sem og aðra daga í sumar og stutt í brosið hjá börnum og starfsfólki. Ég settist niður hjá starfsfólkinu og fylgdist með krökkunum leika sér, tímdi varla að fara með þau heim svo vel leið þeim í leikskólanum. Eitt foreldri af öðru kom að sækja sitt barn og ég fór að tygja mín börn til heimferðar.
En skyndilega barst snökt mér til eyrna, ég leit í kringum mig en sá ekkert barn gráta. Snöktið færðist nær og þá kom í ljós að ein mamman var skælandi. Dóttir hennar hljóp í fangið á henni, sex ára myndarleg stelpa sem var að hefja skólagönguna í Austurbæjarskóla. Þetta var síðasti dagurinn hennar á Grænuborg. Mamman hafði farið um allar deildir leikskólans að kveðja starfsfólkið og nú var komið að því að klæða dótturina í síðasta sinn, kveðja öryggi leikskólans í hinsta sinn.
Hvað er ég að misskilja?
Dóttirin var spennt að byrja í skóla og mig grunar að hún hafi verið dálítið vandræðaleg yfir tilfinningaseminni í mömmu sinni sem var algjörlega óhuggandi. Hún faðmaði starfsfólkið að sér og þakkaði fyrir allar góðu stundirnar, öryggið, alúðina og væntumþykjuna. Hún lýsti því með ekkasogum hversu vel dóttur hennar hefði liðið á Grænuborg, hversu stórkostlegt starfið væri, hversu dásamlegt starfsfólkið væri. Ekki leið á löngu þar til tárin voru farin að renna niður flestar fullorðnar kinnar í salnum og mig var farið að kvíða hressilega fyrir því að kveðja leikskólann þegar sá elsti hæfi grunnskólagöngu.
,,Þú verður bara að skella í annað barn, manneskja, sagði einn leikskólakennarinn við hina grátandi og þakklátu móður. Hún tók ekki illa í það, sagðist raunar vera að falla á tíma en hvað gerir kona ekki fyrir fleiri góðar stundir á Grænuborg?
Á leiðinni heim var ég hugsi. Hversu margar starfsstéttir ætli búi við það að ,,viðskiptavinirnir kveðji þær með táraflóði? Djúpu þakklæti og trega? Af hverju flykkist fólk ekki til starfa á leikskólum, af hverju er ekki slegist um hvert gefandi og þakklátt starf sem losnar? Af hverju eiga leikskólarnir í basli með að halda starfinu gangandi vegna manneklu? Hvað er ég að misskilja hér?
Allt er hægt að mæla...
Í flestöllum starfsstéttum eru mælanleg markmið, árangur, prósentur, einkunnir, krónutölur, viðmið og ávöxtun. Ýmsar breytur til að meta og mæla verðmæti.
En hvernig mælum við gleði, vellíðan og hamingju? Hvernig mælum við árangur leikskólastarfs? Við mælum hann meðal annars í ánægju foreldra, gleðitárum þeirra þegar leiðir skiljast. Við mælum hann í hlátrasköllum barnanna, tilhlökkun, litlum og stórum listaverkum sem verða til í listasmiðjum, leikjum, söngvum og sögum sem þau læra innan veggja leikskólans. Við mælum hann í tengslum, vináttuböndum og væntumþykju milli barna og starfsfólks.
Gefum okkur tíma, látum í okkur heyra
Stundum heyri ég að foreldrar séu svo mikið að flýta sér að þeir gefi sér varla tíma til að kasta kveðju á starfsfólkið, ég er varla saklaus af því frekar en aðrir. Ég legg til að allir foreldrar leikskólabarna setji sér það markmið að hrósa starfsfólkinu minnst einu sinni í viku. Segjum þeim að þau séu frábær, að börnunum okkar líði vel, að starfið sé skapandi og skemmtilegt. Látum þau finna að starf þeirra sé verðmætt . Ég efast ekki um að við foreldrar erum gríðarlega sterkur þrýstihópur til að knýja á um að þessi mikilvægu störf verði metin að verðleikum. Látum í okkur heyra, breytum viðhorfum, sýnum þakklæti okkar í verki.
Mannauðurinn í starfsfólki leikskólanna er ómælanlegur en ómetanlegur. Tvennt er þó hægt að mæla, tvennt sem er miður gott og lýsir alls ekki viðurkenningu samfélagsins á mikilvægi velferðar barna. Þetta tvennt er skortur á starfsfólki og lág laun. Verðmætamat samfélagsins verður að breytast, það er skömm að því að bjóða fólki hærri laun fyrir að gæta fjár í banka heldur en barna í leikskóla.
Eða þekkið þið einhvern sem kveður gjaldkerann sinn með ekkasogum?
Oddný er borgarfulltrúi. Greinin birtist í Fréttablaðinu þann 2. október 2007
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:18 | Facebook
Pæling dagsins
- Kvennaþing í Hveragerði 11.-12. apríl. Stjórnmálaumræður með femínískum jafnaðarkonum. Ball með ROKKSLÆÐUNNI um kvöldið. Ertu búin að skrá þig?
Nota bene
Bloggandi konur
Anna Kristjáns
Arndís Anna
Arndís Steinþórs
Ása Richards
Ásta R. Jóhannesdóttir
Björk Vilhelmsdóttir
Bryndís Ísfold
Edda Agnarsdóttir
Beta Ronalds
Erla Sigurðardóttir
Eva Bjarna
Guðríður Arnardóttir
Dagbjört Hákonard
Helga Vala
Ingibjörg Stefáns
Jóhanna
Katrín Anna
Katrín Júlíusdóttir
Lára Stefánsdóttir
Magga Stína
Oddný Sturludóttir
Ólína Þorvarðardóttir
Rósa Erlings
Sonja B Jónsdóttir
Steinunn Valdís
Svanfríður Jónasdóttir
Þorgerður Diðriks
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 5
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 5
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Sæl,
Ég vil aðeins bæta við að öllum mínum barna- og barna-barnabörnum hefur liðið vel í leikskólum sínum; það er full ástæða að gera vel við þetta ágæta starfsfólk leikskólanna.
Addi (IP-tala skráð) 3.10.2007 kl. 14:04
Þetta er falleg saga og kemur bara tárakirtlunum í uppnám hjá mér. Það er auðvitað augljóst að fólk sem vinnur á leikskólum fær ekki nógu há laun fyrir sitt góða starf. Ég hef unnið á leikskóla og þekki það hvað það er gefandi að umgangast börnin en hætti útaf laununum. Hvað er til ráða? Ég held að það þurfi að skipta um stéttarfélag og þau sem vinna þarna eiga bara að vera ein og sér, sama hvort það er faglært eða ekki. Ekki vafi í mínum huga. Góðar stundir...
Kolbrún Stefánsdóttir, 7.10.2007 kl. 17:50
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.