Vannýttur mannauður

Það er við hæfi að bjóða allar konur og alla menn velkomna á trúnó á þessu hausti. Nú þegar þing er komið saman að nýju er vert að pússa kynjagleraugun og rýna vel um holt og grundir. Vissulega þarf ekki bara að rýna á störf framkvæmdavaldsins heldur ekki síður gjörðir þeirra sem ráða um sveitir og borg. En tímasetningin er samt sem áður engin tilviljun. Trúnó fór í loftið í aðdraganda þingkosninga og því fannst ritstjórn vel til fundið að koma saman, um leið og þingheimur, til skrafs og ráðagerða. Velkomin á trúnóið. Fyrst ríður á vaðið Kristín Atladóttir kvikmyndagerðarkona.

 

"Fuglaflensan er lent, það segir Stefanía!"  Dóttir mín kom heim úr skólanum með þessar fréttir. Fuglaflensufurðusögufaraldurinn, sem átti upptök sín í fréttum annars vegar og hjá skólasystur með ríkt hugmyndaflug og djúpstæðan sjúkdómaótta hins vegar, var búinn að geisa um nokkurt skeið á heimilinu. "Hvaða vitleysa, þetta var gæs sem fannst við norðurströnd Skotlands, hún drukknaði eftir að hafa étið yfir sig".

Fuglaflensuhræðslan var að stigmagnast og fuglaflensufréttir næsta dags voru: "Fjölskyldan hennar Stefaníu er búin að fylla búrið af dósamat, mamma hennar segir að það verði allir í einangrun heima hjá sér."  Það rifjaðist upp fyrir mér sagan um maurinn og engisprettuna og undir ábúðarfullu augnaráði dótturinnar íhugaði ég eigið fyrirhyggjuleysi. Kannski er eitthvað til í þessu, mamma Stefaníu er jú læknir og pabbi hennar kennari...

Nokkru síðar, þegar ég var að hlusta á fréttir af loftslagsbreytingum rifjaðist fuglaflensufárið upp. Í framhaldi velti ég fyrir mér hvort og á hvaða hátt fjallað er um loftslagsbreytingar í skólum. Einnig hvort einhverjar áætlanir væru uppi í ráðuneyti og hjá viðeigandi stofnunum um að útbúa fræðsluefni og samræma upplýsingamiðlun til barna (og foreldra). Vissulega er erfitt að velja flöt á þá umræðu því fátt er vitað um loftslagsbreytingarnar annað en að þær eru að eiga sér stað. Mikil umræða á sér stað í fjölmiðlum og niðurstöður nýrra rannsókna á framgangi og hugsanlegum afleiðingum breytinganna á vistkerfi og náttúru eru kynntar reglulega og oftar en ekki stangast niðurstöðurnar á. Heimildamyndir um efnið eru sýndar í sjónvarpi og kvikmyndir eru gerðar um líf í kjölfar náttúruhamfara.  Allt þetta berst börnunum til eyrna, og augna. Sjálfsagt eru mörg þeirra sem nú þegar eiga sér andvökustundir og dreymir óþægilega drauma.

Mér er ekki ljóst hvernig á að upplýsa börnin um gróðurhúsaáhrif og loftslagsbreytingar án þess að vekja ótta og óöryggi. Né hvernig fara á að því að tryggja að samfélagsumræða og fréttaflutningur ræni ekki börnin áhyggjuleysi æskuáranna. Þau okkar sem upplifðu kjarnorkuógn Kalda stríðsins þekkja slíkar tilfinningar og vangaveltur. Mannfólkið óttast hið ókunnuga og börn í dag búa við það að veröldin sem þau þekkja er að breytast, jafnvel það hratt að ekki er hægt að fullyrða um hvernig náttúrufar og umhverfi þeirra verður eftir einn eða tvo áratugi. 

Það hlýtur að þurfa að ræða þetta á opinskáan hátt við börnin og leita leiða til að miðla til þeirra upplýsingu og þekkingu á einhvern þann hátt að viðunandi skilningur á stöðunni sé í boði fyrir þau. Með þessum hætti væri einnig hægt að forðast rangfærslur og misvísandi túlkanir sem gjarnan leiða til misskilnings og hræðslu. 

Kristín Atladóttir er kvikmyndagerðarkona.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundar

Trúnó
Trúnó
Trúnó er vettvangur kvenna sem aðhyllast femíníska jafnaðarstefnu

Tónlistarspilari

Brigitte Bardot - Ca pourrait changer

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband