Ég á mér draum

Eftir Guðnýju Guðbjörnsdóttur, prófessor og fyrrverandi alþingismann.

Það var árið 1909 sem konur - eða hluti kvenna- fengu kosningarétt á Íslandi. Nú um 100 árum síðar standa konur ekki jafnfætis körlum á mörgum sviðum.

-Um 100 árum síðar eru  konur rúmlega hálfdrættingar á við karla í launum.
-Um 100 árum síðar eru völd kvenna hvergi sambærileg við völd karla í opinberu lífi.

Fyrstu jafnréttislögin á Íslandi tóku gildi fyrir rúmlega 30 árum. Þrátt fyrir skýrt ákvæði í stjórnarskrá um að ekki megi mismuna eftir kynferði, virðist það gert. Nú er kominn tími á eðlisbreytingu.

Þó að bankarnir séu örlátir á laun til bankastjóra, þá eru engar konur í þeim stöðum.  Bilið á milli þeirra sem hafa og þeirra sem hafa ekki er nú óðum að breikka. Gjaldþrot blasir við mörgum heimilum.  En réttlætisbankinn er ekki gjaldþrota, eða hvað?

Nú er tíminn og tækifærið til að komast upp úr misréttishjólförunum á braut jafnréttis í víðri merkingu þess orðs. Nú er tíminn til að hverfa af braut misréttis og á braut jafnréttis.
 
Gerum þjóðfélagið réttlátara fyrir þegna þessa lands. Gerum þetta 100 ára afmæli kvennabaráttunnar á Íslandi að upphafi nýrrar sýnar í stjórnmálum.

Sem betur fer eru nú margir karlar femínistar í þeirri merkingu að vilja jafnrétti kynjanna og vera tilbúnir til að vinna að því. Því göngum við saman til þessa verks konur og karlar. Samstaða kynjanna er mikilvæg nú sem fyrr, öllum í hag.

Líklega þarf ekki að minna okkur Íslendinga á mikilvægi þess að ná fram réttlæti á friðsamlegan hátt, eins og Martin Luther King fannst mikilvægt að árétta við sitt fólk 28. ágúst 1963. Femínistar eru  fyrst og fremst metnaðargjarnt fólk með sterka réttlætiskennd

Við verðum ekki ánægð fyrr en launa- og valdamisréttið hverfur. Við verðum ekki ánægð fyrr en konur og  þeirra störf verða metin til jafns við karla og þeirra störf, bæði til launa og virðingar.

Kosningaþátttaka er á niðurleið. Æ fleiri Íslendingar með full lýðréttindi sjá varla tilgang með því að kjósa, því þeir sjá engan mun á stjórnmálaforingjunum. 
 
Nei við erum ekki ánægð, og verðum það ekki fyrr en réttlætið flæðir um þjóðfélagið, flæðir eins og vatn, eins og öflugt fljót.

Konur hafa oft verið skapandi við sínar aðstæður en hafa jafnframt mátt þola ýmislegt, sem er óðum að koma fram í dagsljósið og að ná athygli stjórnmálanna. En betur má ef duga skal.

Lítum öll í eigin barm, í öllum kjördæmum, til sjávar og sveita, og gerum eitthvað til að breyta þessu.

Eigum við ekki sameiginlegan draum?  Draum um jafnrétti þegna þessa lands, draum um virðingu fyrir landinu og náttúru þess, draum um velferð barna okkar, draum um góðan aðbúnað aldraðra og öryrkja og fallegan draum um örugga framtíð?

Ég á mér draum um að við Íslendingar áttum okkur brátt aftur á því að „allir menn eru fæddir jafnir” og að við höfum að auki stjórnarskrá og jafnréttislög sem ættu að gefa öllum þegnum landsins sömu tækifæri.

Ég á mér draum um að börnin á landsbyggðinni eigi sömu möguleika og börnin í Reykjavík til menntunar og á því að verða það sem þau vilja.

Ég á mér draum um að konurnar í kvennastörfunum; kennarar, hjúkrunarfræðingar og fólk í umönnunarstörfum, vinnukonur kerfisins, geti tekið völdin í sínar hendur, og uppskeri virðingu og réttlæti í  launum.

Ég á mér draum um að fólk verði ekki metið eftir líkamsgerð, hvort sem það er kynferði,  hörundslitur eða  holdafar, heldur eftir hæfileikum, menntun og mannkostum.

Með þessum draumi gætum við breytt landi okkar og þjóð í samhent samfélag bræðra og systra.

Ef  Ísland á að skara fram úr sem jafnréttisþjóðfélag verðum við að snúa af þeirri braut misréttis sem við erum á: Þar sem konur eru  hálfdrættingar í launum á við karla, þar sem ofbeldi gagnvart konum viðgengst, þar sem of stór hópur barna býr við fátækt, þar sem aldraðir, sjúkir og öryrkjar búa við biðlista og afskiptaleysi, þar sem háskólar mismuna nemum og kennurum eftir fræðasviðum- og þar sem þeir ríku verða miklu ríkari.

Hringjum bjöllum réttlætis og jafnréttis- í Reykjavík suður, í Reykjavík norður, í Suðvesturkjördæmi, í Norðvesturkjördæmi, í Norðausturkjördæmi og í Suðurkjördæmi.

Hringjum bjöllum réttlætis og jafnréttis hátt og skýrt út um allt land- alla leið upp í stóla bankastjóranna, inn í stjórnir stórfyrirtækjanna, allstaðar þar sem ráðum er ráðið.

Látum jafnréttið ná upp í stjórnarráðið og helst alla leið - í stól forsætisráðherrans.  

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir lyfti grettistaki í jafnréttismálum í Reykjavíkurborg. Gefum henni umboð og tækifæri til að endurtaka það á landsvísu, landi og þjóð til framdráttar.

Nú í fyrsta sinn í sögu lýðveldisins er kona formaður stjórnmálaflokks, sem á raunhæfan möguleika á að leiða ríkisstjórn. Þessi kona getur gert drauminn að veruleika. Nú er einstakt tækifæri, klúðrum því ekki.

Kjósum Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur í alþingiskosningunum á laugardaginn. Kjósum Samfylkinguna út um allt land. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Benedikt Halldórsson

....gulir blýantar eru mjög áhrifamiklir í dag, ekki á morgun.

Benedikt Halldórsson, 12.5.2007 kl. 17:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundar

Trúnó
Trúnó
Trúnó er vettvangur kvenna sem aðhyllast femíníska jafnaðarstefnu

Tónlistarspilari

Brigitte Bardot - Ca pourrait changer

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband