8.5.2007 | 01:20
Eru konur dæmdar til ævarandi og endalausrar fátæktar?
Eftir Þórhildi Þorleifsdóttur.
Hvað finnst ykkur um þá staðreynd að engar ljósmæður sem útskrifast í vor ætla að fara til starfa á fæðingardeild Landspítala vegna óviðunandi launa? Þær krefjast 285 þúsunda í mánaðarlaun. Algjört lágmark segja þær. Eftir sex ára nám sér er nú hver frekjan! Ætlar þessu aldrei að linna? Sífelld verkföll kennara, hjúkrunarkvenna, leikskólakennara og ætla nú ljósmæður að bætast við. Konurnar (og nokkrir karlmenn) sem kenna börnunum okkar, annast okkur í veikindum, öryrkju og í ellinni osfrv. osfrv., í stuttu máli allar uppeldis- og umönnunarstéttir landsins, eru í sífelldri baráttu við vinnuveitendur sína (kannski er orðið vinnukaupendur betra), og þar af leiðandi þjóðina, í þeim tilgangi að fá störf sín metin að verðleikum og komast varla af byrjunarreit.
Er það ekki bara frekja að neita að bera sífellt skarðan hlut frá borði þrátt fyrir aukna menntun og mikilvægi starfanna? Frekjur, nei, burðarásar það er eina réttnefnið en hvernig launum við þeim lífgjöfina? ILLA!
Það má treysta því að ef Ingibjörg Sólrún kemst í forsætisráðherrastólinn, og þar ráða atkvæði kvenna úrslitum, muni hún minnka eða jafnvel útrýma kynbundnum launamun. Guð láti gott á vita en hitt stendur eftir að matið á öllum hefðbundnum kvennastörfum er óviðunandi og algjörlega óásættanlegt og dæmir konur til endalausrar, ef ekki fátæktar, þá til efnahagslega verri stöðu en karla.
Það er ljóst að þetta mat, sem sífellt setur kvennastörfin skör lægra en karla, er ekki mat á störfunum heldur á konum. Samfélagið, stjórnað af körlum, metur konur einfaldlega minna en karla og er afrakstur og birtingarmynd andlegrar samkynhneigðar karla. Þeir eru hreinlega ekki nógu hrifnir af konum!
Það er til lítils að segja sífellt að konur verði bara að læra til og sækjast eftir betur launuðum störfum. Það geta ekki allar konur farið út í bissness, stofnað fyrirtæki, orðið forstjórar eða komist á þing. Ekki frekar en karlar.
Enda væri hollt fyrir alla að hugleiða hvernig færi ef allar konur hlýddu því kalli.
Enn og aftur er niðurstaðan sú sama. Konur verða að standa saman um breytingar sem enginn mun gera nema þær sjálfar. Þeim hefur aldrei verið réttt neitt á silfurfati þær hafa sótt öll réttindi konum til handa sjálfar. Alltaf í óþökk einhverra kvenna sem engu að síður njóta afraksturins. Á því hefur engin breyting orðið.
Aðgerða er þörf - þegar búið er að vinna kosningarnar, ISG í stólinn - þær skila mestu. Enn einu sinni þarf nýjar hugmyndir, nýjar aðferðir, nýjan kraft. Reynslan sýnir að af þessu eiga konur nóg ef þær leggja saman.
P.S. Það er kaldhæðnislegt að hugsa til þess að Bjarni Ármannsson gæti með því einu að seilast í eigin vasa leyst launamál ljósmæðra og ef allir hinir strákarnir sem hafa sótt í hálaunastörf og farið út í bissness leggðu nú sitt ávaxtaða pund í púkkið gætu þeir borið meginþungann af sanngjarnri launahækkun kvennastéttanna! Kaldhæðnislegt en ekki ásættanlegt. Beiningakonur viljum við ekki vera heldur - burðarásar.
Þórhildur er baráttukona - og burðarás
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Pæling dagsins
- Kvennaþing í Hveragerði 11.-12. apríl. Stjórnmálaumræður með femínískum jafnaðarkonum. Ball með ROKKSLÆÐUNNI um kvöldið. Ertu búin að skrá þig?
Nota bene
Bloggandi konur
Anna Kristjáns
Arndís Anna
Arndís Steinþórs
Ása Richards
Ásta R. Jóhannesdóttir
Björk Vilhelmsdóttir
Bryndís Ísfold
Edda Agnarsdóttir
Beta Ronalds
Erla Sigurðardóttir
Eva Bjarna
Guðríður Arnardóttir
Dagbjört Hákonard
Helga Vala
Ingibjörg Stefáns
Jóhanna
Katrín Anna
Katrín Júlíusdóttir
Lára Stefánsdóttir
Magga Stína
Oddný Sturludóttir
Ólína Þorvarðardóttir
Rósa Erlings
Sonja B Jónsdóttir
Steinunn Valdís
Svanfríður Jónasdóttir
Þorgerður Diðriks
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (24.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 3
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 3
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Þórhildur, þú hefur lög að mæla nú sem endranær. Konur eru búnar að fá nóg! Á hverjum einasta kvennavinnustað sem ég hef komið inná í kosningabaráttunni (og þeir skipta tugum) hefur ég hitt konur sem sætta sig ekki lengur við að halda uppi velferðarkerfi fyrir lúsarlaun. Hingað og ekki lengra, nú skiptum við um ríkisstjórn 12 maí! ÞSv.
Þórunn Sveinbjarnardóttir (IP-tala skráð) 8.5.2007 kl. 11:32
Guð hvað þetta er leiðinleg bloggsíða. Konur með kjaft. Úff. Hvað græðið þið á þessu tuði? Getið þið ekki bara verið þægar og sætar og gert það sama og mæður ykkar og ömmur, skúrað gólf og eldað lambalæri með baunum og kartöflum? Þá munduð sumar ykkar allavegana giftast.
Hrólfur Guðmundsson, 8.5.2007 kl. 18:45
Þetta er alveg rétt hjá Þórhildi og rétt að halda því á lofti, að það er ekki bara kynbundni launamunurinn sem þarf að útrýma, heldur þarf líka að bæta laun svokallaðra "kvennastétta" sem eru verulega vanmetnar.
Skortur á hjúkrunarfræðingum, ljósmæðrum, leikskólakennurum o.fl. er vandi sem verður ekki leystur nema með hærri launum.
Svala Jónsdóttir, 8.5.2007 kl. 19:24
Þetta er bara spurning um framboð og eftirspurn. Svo lengi sem það eru biðlistar inn í kennaraháskólann, þá munu laun kennara ekki hækka. Af hverju eru kvennastéttir svona illa launaðar? Er það vegna þess að vondu karlarnir neita að greiða konum laun til jafns við karlmenn? Nei, það er vegna þess að karlmenn sækjast ekki eftir að komast í láglaunastörf. Því má spyrja sig, af hverju er svona mikil ásókn kvenna í hjúkrunarfræði og kennaraháskólann. Þurfa þeir kvenmenn sem þangað sækja, ekki að spyrja sig fyrirfram hvort þær eru tilbúnar til að vinna fyrir launin sem í boði eru að námi loknu?
Það þýðir ekki að kvarta bara og kvarta, eina vitið er að gera eins og ljósmæðurnar, neita að vinna fyrir þessi lágmarkslaun, ef fleiri kvenmenn gera það sama þá þarf ekki nema í mesta lagi eitt kjörtímabil af kennaralausum skólum og umönnunarlausum sjúkrahúsum til að launin hækki. Framboð og eftirspurn kæru konur!
Valgeir (IP-tala skráð) 8.5.2007 kl. 21:12
Í hvaða veröld lifir fólk sem heldur að 285.000 í byrjunarlaun háskólafólks hjá ríkinu séu lágar tekjur? Þetta eru afar svipaðar tölur og hjá lögfræðingum og viðskiptafræðingum. Lágmarkstaxti hjá BHM er 200.000 sléttar (1. mars 2006, hefur hækkað um 2,5% síðan).
Svona bulli eins og þessi pistill er, á auðvitað ekki að svara, en stundum ofbýður manni einfaldlega fáviskan og ofstopinn. Næsta skref í þroskabrautinni er að fara að skrifa af þekkingu frekar en vanþekkingu, vita hvað málið snýst um áður en ætt er fram á ritvöllinn og vanþekkingin afhjúpuð jafn afdráttarlaust og hér er gert.
Þrándur (IP-tala skráð) 9.5.2007 kl. 00:05
Þú hefur alveg rétt fyrir þér og þetta er ótrúlega sorglegt. Satt að segja finnst mér ótrúlegt hvað mikilvægustu stéttir landsins yfir höfuð eru vanmetnar að launum. Þjóðfélagið hagnast af því að eiga heilbrigða og vel menntaða einstaklinga. Hvers vegna viljum við þá ekki búa kennurum og heilbrigðisstéttum betri kjör til þess að gera þau að ákjósanlegri störfum fyrir gott og hæft fólk? Er það vegna þess að meirihluti þeirra sem vinna þessi störf eru konur?
Ef ég eignast einhvern tímann börn vil ég að þau eigi kost á bestu mögulegu menntun. Betri menntun eykur lífskjör fólks, það hefur reynslan sýnt okkur. Til þess að það sé mögulegt verðum við að gera fólk kleift að geta unnið og vilja vinna sem kennarar.
Ef að vinnuafl þjóðarinnar er heilbrigt og ánægt getur það ekki annað en leitt til þess að það skapi hagnað í þjóðfélaginu. Hvers vegna ættum við þá ekki að vilja að heilbrigðiskerfið okkar virki vel? Til þess þarf til að byrja með starfsfólk og auðvitað viljum við hæft starfsfólk. Það vill enginn vinna við svona störf ef þau eru svona illa launuð og illa farið með fólk með lélegum starfskjörum og álags vegna manneklu.
Er þetta vegna þess að konur eru svona vanmetnar eða er þetta vegna þess að þessi störf skapa ekki skyndigróða?
Hulda Sif Ólafsdóttir (IP-tala skráð) 9.5.2007 kl. 01:23
Með meiri ójöfnuði verður meiri ófriður. Ég veit um margt ungt fólk sem trúir því að allt sé svo gott á Íslandi, mikið jafnrétti og svona, við best í heimi og allt það kjaftæði, og trúir ekki öðru en það hljóti að vera hægt að lifa mannsæmandi lífi sem t.d. leikskólakennari eða kennari vegna þess að í þeirra huga eru þetta góð og gegn störf. Raunin hefur svo orðið önnur þegar námi er lokið og á þetta reynir, mesta basl að eiga fyrir húsnæði og svona. Ung fólk fer í nám til að starfa við það sem það hefur áhuga á og er oftast fullt af bjartsýni svona framan af. Og ungum konum dettur ekki í hug að þær fái lægri laun en karlar fyrir sömu eða sambærilega vinnu. Auðvitað ekki, enda fáránleg hugmynd.
Við þurfum meiri jöfnuð í þetta samfélag, ekki endalausa mismunun !
I.S. (IP-tala skráð) 9.5.2007 kl. 14:51
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.