Björt og fögur framtíð blasir við konum

Eftir Þórhildi Þorleifsdóttur.

Jæja stelpur. Ekki blæs byrlega um þessar mundir og á ég þá ekki við baráttuna að koma okkar konu í forsætisráð”herra”stólinn. Hún tekur nú hvern glæsisprettinn af öðrum eins og sannkölluð veðhlaupahryssa. Líneyk veit ég langt af öðrum bera...

Það sem ég á við er að varla líður sá dagur að ekki berist ótíðindi af málum kvenna. Þau alvarlegustu þykja mér vera þau að veruleg afturför hefur orðið í afstöðu ungs fólks til jafnrar stöðu kynjanna og kvenfrelsis. Rannsóknir sýna svo ekki verður um villst að unga fólkið er íhaldsamara en þeir sem eldri eru. Kannski ræður aldurinn og reynslan þarna einhverju um. Raunveruleikinn er besti kennarinn, en það þarf þó að taka til hendinni til að hafa áhrif á skoðanir unga fólksins og breyta þeim til hins betra. Reynslan sýnir að ekki dugir að treysta á guð og lukkuna í þessum efnum og ekki heldur stjórnvöldum, a.m.k. ekki þeim sem setið  hafa við völd.

Það er oft rifjað upp í gamni og haft í flimtingum þegar stjórnmálamanni nokkrum varð fótaskortur á tungunni fyrir svo sem eins og tveimur áratugum og sagði að konan væri best geymd bak við eldavélina. En við skulum hætta að hlæja að brandaranum – unga fólkið er að stórum hluta sammála þessum forna kappa. Finnst konan best geymd við þvottavélina með skúringafötuna sér við hlið. Þar á hún að vera óáreitt meðan maðurinn er úti að sinna fjármálunum. Ekki mælt með að hún skipti sér af þeim! Ekki björt framtíðarsýn það!

Nýlega mátti lesa um rannsóknir í framhaldsskólum þar sem kom m.a. í ljós að stelpurnar – ekki síður en strákarnir – treysta strákum betur til að gegna embættum í skólanum og notuðu sígilt orðalag um þær stelpur sem sóttust eftir áhrifum. Frekar, stjórnsamar (lesist neikvætt þegar stelpur eða konur eiga í hlut) og athyglissjúkar. Við þekkjum þetta allt enda margt viðlíka brúkað undanfarið til að hnekkja á vissri konu – nefni engin nöfn. Þetta er getraun!

Og talandi um getraunir, hvað finnst okkur um “Gettu betur”? Strákar og aftur strákar og aðeins einstaka sýnishorn af hinu kyninu. Er ekki alltaf verið að lýsa áhyggjum af slæmu gengi stráka í skólanum! Eða auglýsing SPRON! Grobbinn strákur sem veit allt best – hefur meira að segja vit á hljómburði í kirkjum – og á eftir honum töltir lítil niðurlút stúlka sem mælir ekki orð af vörum og gengur ævinlega í humátt. Þetta á líklega að vera grín, en hverjum þykir þetta fyndið? Ekki mér, en ég er kannski búin að missa húmorinn, hafi ég þá einhvern tíma haft hann. Og svo halda menn því fram að þetta sé allt að koma!

I frábærum pistli Þorgerðar Einarsdóttur um daginn kallaði hún það örlagabjartsýni að halda að sér höndum og treysta á guð og lukkuna. “Þetta er allt að koma” hefur verið hin opinbera stefna  undanfarið og því miður kvaka margar konur með. Árangurinn blasir við. Þetta er greinilega ekki allt að koma – þetta er allt að fara. Nema konur grípi í taumana og blási til aðgerða. Krefjist virkrar jafnréttisfræðslu í skólum og að kennaranemar fái þá menntun sem nauðsynleg er til að vera færir um að annast þá fræðslu og að námsefni sé endurskoðað og kennsluaðferðir sömuleiðis. Það eru frábærar konur að reyna þetta í KHÍ en eru af lýsingum að dæma dálítið eins og Don Kíkóti. Vindmyllurnar allt í kring.

Ef það er staðreynd að unga kynslóðin sé svona íhaldssöm, og ekkert bendir til að ástæða sé til að véfengja það, þá verður að spyrja af hverju það stafi. Hún lærir það sem fyrir henni er haft og ætli að það sé ekki örlagabjartsýniskarlveldið sem er helsta fyrirmyndin og sú megna kvenfyrirlitning sem við blasir út um allt í orði og æði. Og ekki hjálpar klámið sem flæðir út um allt óáreitt. Örlagabjartsýniskarlveldið er borið uppi af andlega samkynhneigðum körlum sem girnast hreinlega ekki konur. Þeir dást hver að öðrum, elska, virða  - og kjósa. Konur eru því miður upp til hópa gagnkynhneigðar og girnast því karla, dást að þeim, elska, virða og kjósa!

Konur þurfa enn einu sinni að sameina kraftana, verða andlega samkynhneigðar og byrja á því að koma konu í forsætisráð”herra”stólinn. Það yrði mikilvægt skref en nægir ekki eitt og sér. Mörg önnur eru framundan og sum verður að stíga oft, en hvað um það - konur eru nú vanar síendurteknum tiltektum.

Þórhildur er baráttukona.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Halldóra Halldórsdóttir

Heyr heyr Þórhildur! Það þarf stöðugt viðhald í þessum málum. Sennilega þarf að skapast "critical mass" til að hægt verði að slaka á þrýstingnum. Og sá tími er ekki kominn.

Halldóra Halldórsdóttir, 5.5.2007 kl. 20:55

2 Smámynd: Pálmi Gunnarsson

Takk fyrir Þórhildur. Ég hef notið þeirra forréttinda að vera umvafinn konum allt mitt líf og það í eiginlegri merkingu orðsins. Alinn upp af tveimur einstökum konum, móður minni heitinn og systur og svo bý ég svo vel að hafa deilt lífinu að mestu með þremur konum þ.e konunni minni og tveimur dætrum. Jafnréttishugsuninni var troðið inní hausinn á mér strax á unga aldri, það sá hún móðir mín um. Síðan þá hef ég litið svo á að kynin eigi að eiga sama rétt til allra hluta en hef því miður horft uppá allt annað og verra. Ein lítil saga í lokin. Rétt eftir ég og konurnar mínar þrjár vorum flutt í nýtt hverfi fór ég með þvott útá snúru sem er ekki í frásögu færandi. Á mínu heimili er ég stundum kallaður uppþvottatæknir og er dálítið montinn af.  Þar sem ég er að hengja á snúruna verð ég var við að einhver kíkir á mig fyrir horn á næsta húsi. Það var greinilegt að ég vakti athygli. Það var svo rétt í þann mund sem við fluttum okkur um set að ég sá í fyrsta skipti húsbóndann úr næsta húsi hengja upp þvott. Trúlega tróni ég ekki á topp 10 hjá þessum fyrrum nágranna mínum.

Pálmi Gunnarsson, 5.5.2007 kl. 21:35

3 identicon

Frábær pistill Þórhildur. Umræðunni verður að halda vakandi og það þarf að tryggja að jafnréttisfræðsla verði órjúfanlegur hluti af menntun skólabarna á öllum skólastigum, leik- grunn- og framhaldsskóla. Það vakti athygli mína að þú nefndir starf í KHÍ sem miðar að þessu. Langar að koma því að í þessu sambandi að undirrituð kennir tvö námskeið við kennaradeild Háskólans á Akureyri í námskrár- og kennslufræðum og í báðum eru ofangreindir þættir í menntun barna einn af námsþáttum námskeiðsins. Það hefur verið mér sérstakt ánægjuefni hversu virkir og áhugasamir nemendur hafa verið um þennan þátt sérstaklega

Anna Ólafsdóttir (anno) (IP-tala skráð) 5.5.2007 kl. 22:31

4 Smámynd: Sonja B. Jónsdóttir

Þetta er því miður rétt hjá ykkur báðum, þér og Þorgerði, það þýðir ekkert að vera með þessa örlagabjartsýni. Það þarf að bretta upp ermar, samþætta jafnréttis- eða öllu heldur kvenfrelsisvinkilinn inn í öll mál. Það er greinilega mjög mikilvægt að koma jafnréttisfræðslu inn í skólakerfið og byrja þá strax í leikskólanum og linna ekki látum fyrr en fólk útskrifast úr framhalds- og háskólum. Það dugar ekkert minna!

Og við verðum að koma okkar konu í forsætisráð"herra"stólinn, eins og þú segir, því það er m.a. mikilvægt að skapa fyrirmyndir fyrir stelpurnar.

 Bestu kveðjur, Sonja

Sonja B. Jónsdóttir, 5.5.2007 kl. 22:49

5 Smámynd: Sara Dögg

Frábær pistill þetta. Málið er einmitt að þetta er ekkert að koma... Jafnréttisumræðan og kennslan í grunnskólum er afar takmörkuð og nær á flestum stöðum ekki lengra en yfir eitt og eitt verkefni um jafnrétti en ekki alvöru samræður við nemendur. það gleymist oftar en ekki að raunveruleikatengja slíka vinnu með börnum og unglingum þannig að þau glími við sjálfan sig - það skilar árangri.

Sara Dögg, 6.5.2007 kl. 10:06

6 Smámynd: Þóra Kristín Þórsdóttir

Góður pistill! Það þarf að berjast á öllum vígstöðvum, ekki síst að kenna unglingum og börnum að hugsa krítískt um gildi og viðmið samfélagsins. Á það við um efnishyggjuna og hin hefðbundnu kynhlutverk ofl ofl. Maður hélt að "lífsleikni" myndi taka þetta inn en svo virðist ekki hafa verið... 

Þóra Kristín Þórsdóttir, 6.5.2007 kl. 12:13

7 Smámynd: Viðar Eggertsson

Flott Þórhildur! Vildi líka hafa þig á þingi!

Viðar Eggertsson, 6.5.2007 kl. 13:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundar

Trúnó
Trúnó
Trúnó er vettvangur kvenna sem aðhyllast femíníska jafnaðarstefnu

Tónlistarspilari

Brigitte Bardot - Ca pourrait changer

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband