Ekki benda á mig

eftir Lindu Vilhjálmsdóttur

Það er ekki svo ýkja langt síðan að mér var gersamlega fyrirmunað að samþykkja þá staðreynd að ég væri sjálf ábyrg fyrir lífi mínu og hamingju. Þrátt fyrir það þóttist ég vera sjálfstæð kona og ég stóð á því fastar en fótunum að ég hefði alla tíð fylgt hugsjónum mínum eftir af festu og einurð. Ég taldi mér sömuleiðis trú um að ytri aðstæður lífs míns hefðu komið í veg fyrir að ég væri ekki bara málsmetandi manneskja, heldur mikilsvirt á einhverju sviði – sem ég vissi reyndar ekki alveg hvert var. Það var ýmislegt, og raunar ansi margt ef grannt var skoðað, sem hindraði mig í að ná þeim árangri í lífinu sem efni stóðu til. Það voru foreldrar mínir til dæmis og skólakerfið. Foreldrarnir voru ekki nógu vel stæðir og skólinn var sífellt að púkka uppá ofvitana og tossana en á sama tíma gleymdist að hvetja okkur hin til dáða. Það voru krakkarnir sem fæddust með silfurskeið í munni og þurftu ekkert fyrir lífinu að hafa. Menntaskólinn í Reykjavík sem fældi mig frá langskólanámi. Maðurinn minn sem skildi mig ekki. Sjúkraliðafélagið sem samþykkti lúsarlaun fyrir mína hönd. Jólabókaflóðið. Rithöfundasambandið. Húsnæðismálastofnun. Launamisréttið. Skatturinn. Ríkisstjórnin. Stefnuskrá fjórflokksins sem var aldrei sniðin að mínum þörfum. Óeining á vinstri væng stjórnmálanna. Kosningalögin og kjördæmaskipanin.

Í öllu þessu volæði minntist ég sjaldnast á kynbundið misrétti enda ætlaði ég ekki að láta húkka mig á einhverju kvennavæli. En lýðræðið var mér fjötur um fót. Mér fannst Íslendingar misnota lýðræðisleg réttindi sín gróflega. Málfrelsið með því að úttala sig í heitu pottunum en þegja síðan þunnu hljóði á opinberum vettvangi og kosningaréttinn með því að kjósa yfir sig sömu stjórnina á fjögurra ára fresti en kvarta sáran yfir óréttlætinu í þjóðfélaginu þess á milli. Mér ofbauð þýlyndi þjóðarinnar og skildi ekki hvers vegna þessi sínöldrandi meirihluti sat alltaf á sömu þúfunni og beið eftir Godot í stað þess að rísa upp og mótmæla. Ég var orðin ansi rassblaut þegar ég áttaði mig loksins á því að ég var einn af forsöngvurunum í þessum aðgerðarlausa búktalarakór. Á sama tíma rann það upp fyrir mér að afstaða mín til manna og málefna var alltaf byggð á neikvæðum forsendum. Viðhorf mín og viðbrögð stjórnuðust af mótþróa við afstöðu og athafnir annarra og atkvæði mitt var yfirleitt svokallað mótatkvæði. Ég vissi uppá hár hvað ég vildi ekki en ég var tregari til að viðurkenna það, bæði fyrir sjálfri mér og öðrum, hvað það var sem ég vildi. Þá hefði ég hugsanlega þurft að standa fyrir máli mínu – og það sem verra var – ég hefði neyðst til að líta í eigin barm og gangast við ákvörðunum mínum og gjörðum í gegnum tíðina.

Ég tel það síðan mitt mesta lán í lífinu að hafa staldrað við á þessum tímapunkti. Þá fékk ég ráðrúm til að endurskoða viðhorf mín til sjálfrar mín og lífsins. Ráðrúm til að taka ábyrgð á eigin velferð og annarra. Ráðrúm til að breytast. Þeir þræðir tilverunnar sem ég hef í hendi mér eru að vísu sárafáir en þeir eru traustir ef ég beiti þeim rétt. Þó að vald mitt sé eingöngu fólgið í því hvernig ég bregst við lífinu frá degi til dags getur það engu að síður haft víðtæk áhrif á tilveru annarra. Þess vegna vil ég vanda mig. Ég kýs að leita að því sem tengir mig við aðra menn í stað þess að einblína á það sem greinir mig frá þeim. Rækta þau málefni sem sameina okkur mennina í stað þess að einblína á þau sem sundra okkur. Leggja mitt af mörkum til að við getum öll notað þá hæfileika sem við búum yfir, okkur sjálfum og öðrum til góðs. Til þess að svo geti orðið þarf grunnurinn sem samfélagið byggir á að vera heilsteyptur. Við þurfum að gefa okkur tíma til að finna það út hvernig við ætlum að lifa í þessu landi án þess að ganga sífellt á náttúruna. Við verðum að vera reiðubúin til að borga okkar réttláta skerf í sameiginlegan sjóð til að treysta grunninn. En við eigum líka að gera kröfu til þess að þeim fjármunum sé varið á skynsamlegan hátt. Það er skylda okkar að endurreisa velferðarkerfið frá grunni og byggja upp metnaðarfullt skólakerfi. Ekki af því að við höfum efni á því – heldur er ástæðan sú að við höfum ekki efni á öðru.

Þegar ég spyr sjálfa mig að því hverjum ég treysti best til að búa þannig í haginn
– að börn þessa lands hafi jafnan rétt til að njóta sín
– að öryggisnetið fyrir þá sem búa við skerta getu og starfsorku sé strekkt út í öll horn
– að frelsi eins sé aldrei á kostnað annars
þá liggur svarið í augum uppi. Það eru jafnaðarmenn. Þess vegna kýs ég Samfylkinguna í vor.      

Linda er einn af okkar allra bestu rithöfundum og hún hefur valið...


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Takk Linda. Skemmtilega vel skrifuð grein, þetta með að taka ábyrgð á lífi sínu og líka þetta að hafa áhrif frá degi til dags, á sjálfan sig og aðra, - sérstaklega góður punktur þegar ég sé svona dálk sem heitir Konur sem eiga eftir að breyta heiminum og ég hugsaði bara sick! En líka þetta með hvað sameinar okkur frekar en aðgreinir og þetta með lýðræðisleg réttindi. Já, ég þarf einmitt að hugsa hvað ég vil. Takk kærlega.

Elísabet Kristín Jökulsdóttir (IP-tala skráð) 28.4.2007 kl. 14:06

2 identicon

Valgerðu Sverrisdottir er kvenskörungur kjósum Valgerði

leeds (IP-tala skráð) 28.4.2007 kl. 17:21

3 Smámynd: birna

Vá! góð grein. Tak

birna, 29.4.2007 kl. 14:14

4 Smámynd: Björk Vilhelmsdóttir

Takk Linda. Þú ert frábær eins og þú ert.

Björk Vilhelmsdóttir, 30.4.2007 kl. 10:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundar

Trúnó
Trúnó
Trúnó er vettvangur kvenna sem aðhyllast femíníska jafnaðarstefnu

Tónlistarspilari

Brigitte Bardot - Ca pourrait changer

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband