26.4.2007 | 17:52
Við viljum konu - en kannski ekki þessa konu....
eftir Guðrúnu Helgadóttur
Í fréttum og stjórnmálaskýringum frá Bandaríkjunum heyrist því haldið á lofti að þar í landi geti menn alveg hugsað sér konu á forsetastóli en kannski ekki Hilary Clinton. Sama er uppá teningnum í Frakklandi gagnvart Ségoléne Royal, fyrstu konunni sem þar stefnir í stól forseta lýðveldisins. Þetta væri alveg eðlileg vangavelta ef það væru margar konur sem stefndu að forsetaframboði í þessum löndum í næstu kosningum þá væri hægt að spyrja hvort kjósendur vilji þessa eða hina konuna. Eins og er stendur spurningin þó bara um hvort þeir vilji konu eða enn einn karlinn. Það er nefnilega bara ein kona í boði.
Þannig var það líka þegar frú Vigdís Finnbogadóttir bauð sig fyrst fram til embættis forseta Íslands. Þá hafði það aldrei gerst hérlendis og reyndar óvíða erlendis að kona væri kjörin þjóðhöfðingi eða þjóðarleiðtogi. Það er enn sjaldgæft, því miður er það enn ekki orðið jafn eðlilegur hlutur að konur séu leiðtogar og karlar. Fordæmi Vigdísar hafði þó mikil áhrif á hugarheim okkar íslendinga, það að hafa hana sem forseta gerði það eðlilegt og sjálfsagt að sjá konu í því hlutverki. Litlar stelpur jafnt sem litlir strákar áttu jafna möguleika á að verða forseti þegar þau yrðu stór.
Við stöndum aftur frammi fyrir þeirri spurningu hvort við séum tilbúin að brjóta blað í jafnréttismálum og kjósa okkur konu sem forsætisráðherra. Erum við tilbúin að fylgja jafnréttishugsjónum okkar eftir og segja þegar margir jafnhæfir eru í boði skulum við velja konu? Eða ætlum við að falla í þá gryfju að segja að við viljum ekki þessa ákveðnu konu, heldur einhverjar aðrar sem því miður eru ekki í framboði og velja þá bara enn einn karlinn af gömlum vana?
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir er án alls vafa jafn hæf til forystu og formenn annarra stjórnmálaflokka. Það er því sögulegt tækifæri í þessum alþingiskosningum að kjósa Samfylkinguna og kjósa þar með konu í fyrsta sinn forsætisráðherra lýðveldisins Íslands. Það er eðlilegt og sjálfsagt skref í átt til jafnréttis á Íslandi.
Guðrún vill einmitt svona konu í stól forsætisráðherra....
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Pæling dagsins
- Kvennaþing í Hveragerði 11.-12. apríl. Stjórnmálaumræður með femínískum jafnaðarkonum. Ball með ROKKSLÆÐUNNI um kvöldið. Ertu búin að skrá þig?
Nota bene
Bloggandi konur
Anna Kristjáns
Arndís Anna
Arndís Steinþórs
Ása Richards
Ásta R. Jóhannesdóttir
Björk Vilhelmsdóttir
Bryndís Ísfold
Edda Agnarsdóttir
Beta Ronalds
Erla Sigurðardóttir
Eva Bjarna
Guðríður Arnardóttir
Dagbjört Hákonard
Helga Vala
Ingibjörg Stefáns
Jóhanna
Katrín Anna
Katrín Júlíusdóttir
Lára Stefánsdóttir
Magga Stína
Oddný Sturludóttir
Ólína Þorvarðardóttir
Rósa Erlings
Sonja B Jónsdóttir
Steinunn Valdís
Svanfríður Jónasdóttir
Þorgerður Diðriks
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 5
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 5
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Hefðir þú með sömu rökum kosið frú Thatcher í Bretlandi? Ég studdi hana, vegna þess að ég var sammála henni og taldi hana hæfa, ekki vegna þess að hún er kona. HHG
Hannes Hólmsteinn Gissurarson, 26.4.2007 kl. 19:52
Margt af því sem frú Thatcher afrekaði hefur nú ekki staðist vel tímans tönn en hún var ótvírætt skársti kosturinn í Bretlandi á þeim tíma. Stóru flokkunum bresku hafði þá um langa hríð ekki gengið vel að finna verðuga arftaka gömlu turnanna. Það vandamál þekkist víðar.
Ár & síð, 26.4.2007 kl. 23:01
Vegna ummæla Ægis: Ég vil ekki svipta bændur lífsgrundvelli sínum með einu pennastriki, heldur leyfa þeim að feta sig eðlilega í átt til framleiðslu fyrir markað á eðlilegum forsendum. Þetta er verið að gera. Vinstri menn hafa ekki skapað grundvöll framfara með hagstjórn, heldur grafið undan honum. Hér eru ekki okurvextir banka (vaxtamunur inn- og útlána), eins og ég hef sýnt fram á í grein á bloggsíðu minni, heldur eru hér háir vextir (vaxtamunur Íslands og annarra landa vegna forvaxta Seðlabankans), og það er til að ná niður verðbólgunni, en stöðugt verðlag er ein forsenda öflugs atvinnulífs. Ég tel sjálfsagt að virkja og selja rafmagn, ef það borgar sig og veldur ekki teljandi umhverfisspjöllum, og ég tel raunar prýði að fleiri vötnum (uppistöðulónum) á hálendinu. Vinstri menn eru á móti. Guðrún Helgadóttir var á móti Netinu hér áður fyrr og skrifaði um það á móti Birni Bjarnasyni. Steingrímur J. Sigfússon var á móti Flugstöðinni í Keflavík (hvað eiga menn að vera að flækjast til útlanda?). Jóhanna Sigurðardóttir kom í veg fyrir einkavæðingu bankanna, þegar hún var ráðherra 1991-1994. Þetta fólk hafði uppi hrakspár, þegar útvarp var leyft, bjór var leyfður, skattar voru lækkaðir, fyrirtæki voru einkavædd o. sv. frv. HHG
Hannes Hólmsteinn Gissurarson, 27.4.2007 kl. 09:36
Þessir "háu vextir" eru tilkomnir vegna stóriðjustefnunnar.
Því hún veldur þenslu og verðbólgu sem Seðlabankinn reynir að hafa hemil á með því að hækka stýrivexti.
Ríkisstjórnin hefur unnið á móti Seðlabankanum og á þessvegna sök á því að vextirnir eru jafn háir og raun ber vitni.
birna, 27.4.2007 kl. 14:44
Kjósa konu af því hún er kona..... held nú að ISG vilji verða kosin út á eiginleika og kosti. Það er eðlilegt að kona verði einhvern tíman Forsætisráðherra en á réttum forsendum.
Þorgerður Katrín verður það vonandi einn daginn...
Örvar Þór Kristjánsson, 27.4.2007 kl. 16:00
Loksins hef ég séð ljósið. Hingað til hef ég aldrei séð tilganginn með því að kyngreina frambjóðendur og velja óháð málefnum og stefnu. En þessi pistill er slík snilld að ég get varla beðið eftir því að fá að kjósa Ingibjörgu. Veit reyndar ekkert hvað hún stendur fyrir, hefur eitthvað með það að gera að hún er kona og ekki vensluð við Tatcher, svo er hún náskyld Vigdísi forseta, ekki satt ? Sem alvöru jafnréttissinni, þá kýs ég auðvitað konu, án þess þó að hafa hugmynd um hvers vegna, enda feministi inn að beini.
Svo veit ég líka að Solla er alveg jafn hæf, reyndar miklu hæfari til að stýra landinu, en einhverjir kallar, enda er konan kona. Svo er mér mikill heiður af því að fá að vera þátttakandi í því að velja konu sem forsætisráðherra. Skítt með kjarabætur, efnahagslega afkomu og lífsgæði, mín fullnæging fellst í því að hafa kosið konu! Samt ekki viss um að þessi afstaða sé veðhæf, en Solla reddar því eins og öllu öðru, ekki spurning.
Þrándur (IP-tala skráð) 28.4.2007 kl. 04:40
Ingibjörg Sólrún er formaður flokks sem er með góða og þarfa stefnu, hún er besti stjórnmálaleiðtoginn í dag og hún er kona. Auðvitað á hún að verða forsætisráðherra. Svona fínir stjórnmálamenn eru bara ekkert á hverju strái.
Ég vildi óska að næstu tvö til þrjú kjörtímabil yrðu konur í öllum ráðherraembættum. Síðan mætti setja kynjakvóta fyrir mér.
I.S. (IP-tala skráð) 28.4.2007 kl. 11:31
Hannes Hólmsteinn ég vil, eins og hefur reyndar verið gert í öðru samhengi, hvetja þig til að lesa vandlega texta sem þú hyggst leggja útaf. Í pistlinum mínum kemur vel fram að ég kýs Ingibjörgu Sólrúnu vegna þess að hún er að mínu mati hæfari en karlarnir sem leiða aðra stjórnmálaflokka. Ég hvet hinsvegar þá sem hafa trú á þeirri leið til að auka jafnrétti kynjanna að velja konu í starf sem jafnan er skipað körlum - sé hún a.m.k. jafnhæf, til að velja Ingibjörgu Sólrúnu á þeim forsendum.
Guðrún Helgadóttir, 28.4.2007 kl. 13:36
Guðrún, ég skildi pistil þinn þannig, að það væru sjálfstæð rök fyrir því að kjósa Samfylkinguna, að Ingibjörg Sólrún væri kona. Ég tel það ekki sjálfstæð rök. Raunar held ég ekki, að nokkrir jafnhæfir leiðtogar með jafngóða stefnu séu í boði í þessum kosningum. Ég er sammála þeim fjölmörgu, sem telja, að Geir Haarde beri af flokksformönnunum. Ég veit ekki, hver stefna Ingibjargar Sólrúnar er. Hún tekur ekki á erfiðum málum, heldur sendir þau í umræður. Hún safnaði skuldum í Reykjavík, á meðan Geir Haarde greiddi niður skuldir ríkisins. Hún hækkaði útsvar og aðrar álögur í Reykjavík, á meðan Geir Haarde lækkaði skatta ríkisins. Hún naut góðærisins alveg eins mikið og hann í meiri skatttekjum Reykjavíkur, en nýtti sér það ekki. Ástæðan til þess, að biðlistar styttust eftir barnaheimilisrými, var, að barnafólkið hraktist í önnur sveitarfélög vegna lóðaskorts! Ég held, að Ingibjörg Sólrún sé að mörgu leyti hæfur stjórnmálamaður. Að minnsta kosti er hún mælsk og örugg, og henni tókst að halda saman meiri hlutanum í Reykjavík og vinna þrennar kosningar. Það er auðvitað ákveðið framlag (þótt síðar missti hún þennan ávinning sinn niður). En þau Geir Haarde og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir eru að mínum dómi blátt áfram hæfari. Hvernig væri að beita rökum þínum á Þorgerði Katrínu? Hvers vegna ekki að kjósa Sjálfstæðisflokkinn til að styðja hana til áhrifa? Og þau Geir og Þorgerður Katrín hafa hina einu sönnu jafnaðarstefnu, sem er að fjölga tækifærum fólks til að komast út úr fátækt með öflugu atvinnulífi og mörgum atvinnutækifærum, ekki að jafna tekjur með því að taka frá ríkum til að láta fátæka fá, svo að allir verði að lokum jafnfátækir (og síðan fá hinir fátæku féð frá hinum ríku aldrei, því að það fer allt í kostnað í kerfinu). Frá 1991 hefur hin gamla valdastétt, sem lifði og þreifst á úthlutun almannafé (sem hún úthlutaði auðvitað sjálfri sér), misst völdin. Nú komast menn áfram án þess að veifa flokksskírteinum eða fæðingarvottorðum, eins og dæmin sanna um hina nýju auðmenn, sem hafa auðgast án opinberrar fyrirgreiðslu. Þetta er miklu heilbrigðara kerfi. Guðrún! Þú hæddist á sínum tíma í blaðagreinum að Netinu ásamt flokksbróður þínum, Svavari Gestssyni. Menn úr ykkar hópi vildu ekki litasjónvarp, greiðslukort, flugstöð í Keflavík (Hvað þarf þetta fólk að vera að flækjast um heiminn? spurði Steingrímur J. Sigfússon) og alls konar önnur framfaraspor, stór og smá. Ég vil ekki hverfa aftur til þess tíma, þegar sjónvarpið sendi ekki út á fimmtudögum, það var í svarthvítu, áfengi var ekki selt á miðvikudögum, sækja þurfti um gjaldeyri með nokkurra daga fyrirvara til gjaldeyrisnefndar, bíða þurfti í löngum röðum snemma á morgnana eftir bankastjórum o. sv. frv. Ég man þessa tíma. Ég vil, að mannlífið fái að vera í öllum regnbogans litum, þar á meðal rauðu og grænu (og bleiku), en ekki í svarthvítu, eins og þegar gamla valdastéttin réði.
Hannes Hólmsteinn Gissurarson, 29.4.2007 kl. 10:02
Kona sem forsætisráðherra yrði nýr litur í regnboga okkar íslendinga.
Gaman væri að vita meira um valdastéttir. Fortíð - nútíð.
Ég hef séð sjálfstæðismenn nota aðstöðu sína hjá hinu opinbera. Sjálfstæðismenn ráða aðra sjálfstæðismenn án auglýsingar. Nýjar stjórnunarstöður búnar til og sjálfstæðismenn ráðna í þær einnig án auglýsinga. Er það þannig að þegar ráða á í stöðu sé hæfasti maðurinn einmitt á lausu og það vilji einmitt svo ( skemmtilega ? ) til að hann er einmitt í sjálfstæðisflokknum ? Eða er í gangi sjálfstæðisflokkskvóti til að jafna út óréttlæti fyrri ára þegar sjálfstæðisflokkurinn fékk ekkert að gera fyrir ríkjandi valdastéttum ?
I.S. (IP-tala skráð) 30.4.2007 kl. 13:06
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.