24.4.2007 | 22:50
Hverju breytir stjórnmálaþátttaka kvenna?
eftir Rósu Erlingsdóttur
Í aðdraganda kosninga vilja allir stjórnmálaflokkar vera málsvarar kynjajafnréttis og benda gjarnan á hlutfall kvenna á framboðslistum sínum eða mál sem þeir telja sig hafa talað fyrir á liðnu kjörtímabili samanber íslenska umræðu um fæðingarorlofslögin. Aðrir stjórnmálamenn sem aldrei eða sjaldan hafa tjáð sig opinberlega um jafnréttismál gera það gjarnan síðustu vikurnar fyrir kosningar. Þetta gera stjórnmálaflokkar af því þeir vita að konur kjósa konur og konur kjósa frambjóðendur sem þær telja líklega til að vinna að hagsmunamálum sem snerta daglegt líf kvenna.
Valgerður Sverrisdóttir er dæmi um stjórnmálamann sem sífellt kemur á óvart. Hún hefur verið málsvari kvenna í utanríkisráðuneytinu og breytt áherslum í verkefnum friðargæslunnar. Hún hefur stóraukið stuðning Íslands við UNIFEM og UNICEF sem eru undirstofnanir Sameinuðu þjóðanna og vinna að málefnum kvenna og barna. Forverar hennar í embætti voru ekki miklir femínistar og þó breytingar Valgerðar hafi ekki verið stórkostlegar var um mikla andlitslyftingu fyrir karllæga utanríkisþjónustu að ræða. Í gær, þriðjudag mátti lesa í Fréttablaðinu tilvitnun í ræðu Valgerðar um jafnréttismál þar sem hún talar um karlægar samþykktir á alþjóðavettvangi og kerfi andsnúið konum í pólitík. Sama kona hefur oftar en einu sinni talað um sterkar konur í Framsóknarflokknum sem þurfi ekki kynjakvóta eða aðra sérmeðferð í stjórnmálum. Hún hafi aldrei orðið þess vör að konur og karlar búi við mismunandi aðstæður í stjórnmálum. Var Valgerður alltaf femínisti eða er þetta undirbúið útspil framsóknarmanna nú skömmu fyrir kosningar? Ég veit það ekki.
Ingibjörg Sólrún er dæmi um stjórnmálamann sem aldrei víkur frá áherslum kvenfrelsins og jafnréttismála. Hún lætur verkin tala og er sér meðvituð um ábyrgð sína sem kona í forystusveit íslenskra stjórnmála.
En hvaða máli skiptir það að hafa konur í stjórnmálum? Eiga þær að hafa áhrif á inntak stjórnmálanna eða erum við bara ánægð (-ar) þegar hausatalningin sýnir jafnt kynjahlutfall.
Stjórnmálafræðingurinn Anne Phillips segir fræðilega og opinbera orðræðu um konur og stjórmál enn bera þess merki að ekki ríki einhugur um hvort og þá hverju þátttaka kvenna breyti fyrir skipulag og inntak stjórnmálanna. Hún segir fullyrðingar um að konur séu á einhvern hátt öðruvísi en karlar og muni þ.a.l breyta inntaki stjórnmálanna með þátttöku sinni sjaldgæfari en þær voru fyrir tíu árum. Með öðrum orðum er óskýrara hvernig við viljum færa rök fyrir nauðsyn aukinnar þátttöku kvenna í stjórnmálum.
Phillips er einna helst þekkt fyrir að hafa fært sterk rök fyrir lýðræðislegri nauðsyn þess að fulltrúasamkundur endurspegli þjóðfélagið. Hún hefur bent á að kosningaréttur sé ekki réttur mælikvarði á lýðréttindi kvenna. Lítil stjórnmálaþáttaka og fæð þeirra í áhrifastöðum endirspegli ójöfn tækifæri og ójafna möguleika kynjanna til félagslegs hreyfanleika þ.e.a.s möguleika einstaklinga til að breyta þjóðfélagi byggðu á kynjamisrétti. Lýðræðið verði að taka mið af kynjamismun og ójafnrétti kynjanna til að konur geti orðið þátttakendur í sama mæli og karlmenn í pólitískri ákvarðanatöku. Ef þátttaka kvenna er tryggð með sértækum aðgerðum eins og kynjakvótum muni það til lengri tíma draga úr áhrifum kynferðis á skipulag stjórmálanna sem í dag þjónar hagsmunum karla fremur en kvenna. Fjölgun kvenna sé þannig upphafið að réttlátara fulltrúalýðræði þar sem pólitísk þýðing mismunar hefur verið viðurkennd.
Rök Phillips fyrir nauðsyn þess að auka hlut kvenna í stjórnmálum hafa verið dregin saman í fjórar megináherslur. Í fyrsta lagi séu konur í stjórnmálum sterk fyrirmynd annarra kvenna, í öðru lagi sé um að ræða sjálfsagt réttlæti milli kynja, í þriðja lagi verði sérhagsmunir kvenna að eiga ötula talsmenn og í fjórða lagi muni aðkoma kvenna auka gæði stjórnmálanna og lögmæti fulltrúastofnanna. Síðasta áherslan byggir á þeirri skoðun Phillips að sýn kvenna og karla á stjórnmál sé mismunandi og byggi að einhverju leyti á ólíkum bakgrunni og reynslu kynjanna. Sterkustu rökin segir hún vera réttlætisrökin þ.e að það sé fjarstæðukennt, ósanngjarnt og andstætt hugmyndum okkar um fulltrúalýðræði að karlar einoki pólitískar stöður.
Hausatalning ? sagan öll?
En er krafan um réttlæti nægilega sterk til að ná samþykki og þar með nauðsynlegum stuðningi almennings við markmiðið um jafnara hlutfall kynjanna í fulltrúastöðum? Mikið hefur verið rætt og ritað um framtíð lýðræðis vegna vaxandi óánægju almennings með stjórnmál sem m.a kemur fram í sífellt lægri kosningaþátttöku í vestrænum lýðræðisríkjum eins og Þýskalandi, Frakklandi, Bretlandi og Bandaríkjunum.
Umræðan um kynjajafnrétti í stjórnmálum verður að taka mið af þeirri stöðu sem upp er komin og hún verður að snúast meira um áhrif kvenna á inntak stjórnmálanna, stefnumótun og þar með á líf hins almenna kjósenda. Við eigum að sannfæra fólk um að það sé á valdi stjórnmálanna að breyta lífi þeirra til hins betra, að fátækt, láglaunastörf og kynskiptur vinnumarkaður sé ekki náttúrulögmál. Að til séu leiðir til að berjast gegn heimilisofbeldi og skorti á dagvistunarúrræðum svo dæmi séu tekin. Ein leiðin er að fjölga konum í stjórmálum þar sem alþjóðlegar samanburðarrannsóknir sýni að konur eru frekar málsvarar þeirra hagsmuna sem brenna á flestum konum eins og þeirra sem snúa að jafnrétti, félagslegu réttlæti og úrræðum í heilbrigðis og félagsmálum.
Á Íslandi hafa stjórnmálakonur á vinstrivæng stjórnmálanna barist fyrir ofangreindum áherslum, áherslum sem hafa skipt sköpum fyrir stöðu jafnréttismála á Íslandi. Í vor getum við kosið um frekari framgang jafnréttismála þar sem okkur stendur til boða að kjósa konu í stól forsætisráðherra, konu sem er þekkt fyrir árangur í málaflokknum.
Rósa Erlingsdóttir, femíniskur stjórnmálafræðingur.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:02 | Facebook
Pæling dagsins
- Kvennaþing í Hveragerði 11.-12. apríl. Stjórnmálaumræður með femínískum jafnaðarkonum. Ball með ROKKSLÆÐUNNI um kvöldið. Ertu búin að skrá þig?
Nota bene
Bloggandi konur
Anna Kristjáns
Arndís Anna
Arndís Steinþórs
Ása Richards
Ásta R. Jóhannesdóttir
Björk Vilhelmsdóttir
Bryndís Ísfold
Edda Agnarsdóttir
Beta Ronalds
Erla Sigurðardóttir
Eva Bjarna
Guðríður Arnardóttir
Dagbjört Hákonard
Helga Vala
Ingibjörg Stefáns
Jóhanna
Katrín Anna
Katrín Júlíusdóttir
Lára Stefánsdóttir
Magga Stína
Oddný Sturludóttir
Ólína Þorvarðardóttir
Rósa Erlings
Sonja B Jónsdóttir
Steinunn Valdís
Svanfríður Jónasdóttir
Þorgerður Diðriks
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 5
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 5
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Takk fyrir þennan pistil Rósa.
Anna Lára Steindal (IP-tala skráð) 25.4.2007 kl. 10:17
Það breytir öllu
Sigurður Sigurðsson, 25.4.2007 kl. 16:33
Fín grein!
Salvör Kristjana Gissurardóttir, 26.4.2007 kl. 16:15
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.