Áfram stelpur !

Eftir Steinunni Valdísi Óskarsdóttur

Síðustu daga hef ég henst á milli staða og stofnana, heilsað upp á fólk og kynnt stefnuna.  Það er gömul klisja stjórnmálamanna að segjast finna fyrir miklum meðbyr og svona bla bla tal.  Ég hef tekið þátt í þó nokkrum kosningabaráttum og það er nú bara þannig, að maður finnur nokk hvernig landið liggur.  Þannig fann ég síðastliðið vor að það var stemming fyrir því að skipta um stjórn í Reykjavík og þannig finn ég núna að það er mjög rík krafa um að skipta um ríkisstjórn.   Síðustu daga er ég búin að fara í Spöngina, Kringluna, Kolaport og víðar og ég skynja mjög sterkt að landið er heldur betur að rísa hjá okkur í Samfylkingunni.  Sérstaklega finn ég að konur sem ætluðu að kjósa aðra flokka og kannski sérstaklega  VG eru farnar að skipta um skoðun.  Ég ætla ekki að velta mér upp úr hvers vegna þær urðu okkur afhuga en annað er víst að margar konur sjá núna að atkvæði greitt Samfylkingunni er ávísun á áherslur sem eru konum að skapi.  Auðvitað veit ég að útkoma okkar margra kvenna í prófkjörum hefur  farið fyrir brjóstið á mörgum, en það þýðir ekkert að gráta það endalaust heldur bara að setja undir sig hausinn og halda áfram.  Við samfylkingarkonur eigum líka svo flotta ferilskrá og eigum að minna á það.  Ég nefni eitt lítið dæmi úr félagsmálaráðherratíð Jóhönnu Sigurðar - konur sem standa í atvinnurekstri þekkja sjóð sem er vistaður í félagsmálaráðuneytinu og gengur alltaf undir nafninu "Jóhönnusjóður"  Sá sjóður var settur á laggirnar til að styðja og styrkja sérstaklega konur í atvinnurekstri.  Við þekkjum allar verk Ingibjargar Sólrúnar í Reykjavík.  Þar var biðlistum á leikskóla eytt, sett var tímasett aðgerðaáætlun varðandi kyndbundinn launamunur og konum var fjölgað í yfirstjórn.  Sjálf finn ég að fólk metur það mikið að í minni borgarstjóratíð hækkuðu laun lægst launuðu kvennastéttanna verulega.    

Við eigum nefnilega að vera óþreytandi að hæla hver annarri, við eigum frábærar konur út um allt land.  Og það sem við höfum umfram Sjálfstæðisflokkinn er að við höfum konur með feminískar ferilskrár.  Þegar sjálfstæðiskonur eru spurðar um þessi málefni nefna þær alltaf fæðingarorlofslögin og ekkert annað.  Allir eru sammála um að þessi lög voru stórt skref til jafnréttis en má ég minna á eitt.  Það var gamli Kvennalistinn sem fyrst flutti þingmál um stofnun fæðingarorlofssjóð en þá - eins og oft áður - var ekki réttur flokkslitur á þeim sem áttu hugmyndina.  Ég var á landsfundi Kvennalistans líklega 1992 þar sem Ingibjörg Sólrún talaði fyrir þessu.  Þá þótti hún alltof róttæk hugmyndin um að atvinnurekendur greiddu allir ákveðið framlag í sjóð sem myndi gera það að verkum að það yrði "jafn áhættusamt" að ráða karla eins og konur, vegna réttarins til töku fæðingarorlofs.    

Það er gott að sjálfstæðisflokkurinn er ánægður með fæðingarorlofslögin enda voru þau hugsuð og sett fyrst fram af framsýnum feministum í Kvennalistanum.

Steinunn Valdís er feministi og frambjóðandi.    


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hér með hæli ég þér Steinun Valdís, fyrir þetta frábæra innlegg í umræðuna. Og þá er best að nota tækifærið og hæla líka Ingibjörgu Sólrúnu og ÖLLUM okkar frábæru konum sem ég hef tröllatrú á.

Ég er stolt af því að vera kona og taka þátt í starfi Samfylkingarinnar þar sem raddir okkar fá svo sannarlega að hljóma

Við kjósendur í NV-kjördæmi vil ég segja þetta: Samkvæmt skoðanakönnunum vantar okkur herslumuninn upp á að Anna Kristín Gunnarsdóttir, sá frábæri fulltrúi Samfylkingarinnar og kvenna almennt, haldi þingsæti sínu. Ég hvet ykkur til þess að kynna ykkur í þaula hvað hún stendur fyrir og leggja ykkar lóð á vogarskálarnar svo hún geti haldið áfram að gera góða hluti fyrir kjördæmið okkar.

Baráttukveðjur,

Anna Lára Steindal

Anna Lára Steindal (IP-tala skráð) 23.4.2007 kl. 13:26

2 Smámynd: Edda Agnarsdóttir

Anna í NORÐVESTÉg fór að smala atkvæðum

kvöld eitt fram í dal

og kominn var ég lengst inn í bláan fjallasal.

Þá ungri mætti ég blómarós

með augun djúp og hress

og er ég spyr að nafni, hún ansar:

"Anna í norðvest"

Anna í norðvest, Anna í norðvest,

með augun frá, svo langbest

af ástarþrá ég sest.

Anna í norðvest, Anna í norðvest,

nei, engin er eins best

og hún Anna mín í norðvest.

Edda Agnarsdóttir, 23.4.2007 kl. 16:29

3 identicon

Steinun, þessi pistill þinn segir allt sem segja þarf, fólk með heilbrigða hugsun er ekki í framboði fyrir Sf og fólk með heilbrigða hugsun kýs ekki Sf.  Flokkur sem segist boða jafnrétti en stærir sig svo af því að berjast fyrir málefnum, eingöngu eftir kynferði umbjóðenda sinna, er á villigötum.  Hefur svo mikið sem hvarflað að þér að karlar vilja jafnrétti án þess þó að láta vaða yfir sig á háhæluðum skóm feminismans?  Eða hefur hvarflað að þér að konur líta almennt ekki á sig sem aumingja sem vilja njóta forréttinda út á kynferði sitt?

Sjálfsagt ekki, þá værir þú ekki í framboði fyrir Sf. 

Þrándur (IP-tala skráð) 24.4.2007 kl. 01:31

4 Smámynd: Ingibjörg Stefánsdóttir

Þrándur. Það var engin að biðja um forréttindi. Bara jafnan rétt OG jöfn tækifæri og jöfn laun á við karla. Það er nú allt og sumt.

Hins vegar virðist vera mikið um að karlar séu kosnir og karlar séu ráðnir eingöngu af því að þeir eru karlir. Stundum hjálpar líka að vera lögfræðingur og af réttum ættum. Hefurðu hugsað út í þetta?

Ingibjörg Stefánsdóttir, 24.4.2007 kl. 13:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundar

Trúnó
Trúnó
Trúnó er vettvangur kvenna sem aðhyllast femíníska jafnaðarstefnu

Tónlistarspilari

Brigitte Bardot - Ca pourrait changer

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband