Græðum á nýju sumri.

Eftir Bryndísi Ísfold Hlöðversdóttur

Nú þegar fer að líða að sumri með hækkandi sól tínist fólk út í 
garðana sína til að þrífa upp ruslið sem fokið hefur og fest sig í 
gróðrinum. Vandvirkir hreyfa við moldinni og þeir metnaðafyllstu sá 
fræjum sem veita þeim svo ómælda ánægju þegar sumarið skellur á.

Ástandið í garði ríkisstjórnarinnar er ekki glæsilegt og sæmir ekki 
stjórnarheimilinu. Illgresið hefur náð miklum vexti og fá fræ hafa 
verið sett niður. Helstu blómin sem nú “blómstra” í vetrarhörkunni 
eru afleggjarar sinnuleysis og fyrir það líður þjóðin. Sinnuleysið er 
mikið en eitt þeirra fúnu blóma sem virðist aldrei ætla að ná að 
blómstra í þessum illa hirta garði er marglitaða jafnréttisblómið.

Kynjajafnrétti þessarar ríkistjórnar hljóðar upp á 0% árangur í 
baráttunni gegn kynbundnum launamun. Skelfileg skilaboð til allra 
þeirra kvenna sem leggja á sig ómælda vinnu til þess að standa til 
jafns á við karla í samfélaginu. Leikreglurnar eru svo óskýrar að 
þrátt fyrir lög um jafnan rétt kvenna og karla þá virðist tilefni til 
þess að framfylgja lögunum lítið sem ekkert. Enda getur hver sem er 
brotið þau lög og hlotið fyrir vikið enga refsingu.

Kynbundið ofbeldi hefur hvorki minnkað né hafa dómar sem fallið hafa 
hækkað í hlutfalli við tilkynnta ofbeldisglæpi gagnvart konum. Ekki 
er þó svo að skilja að stjórnarliðar hafi ekki vitnesku um alvarleika 
málsins því þeir lofa bótum í hver sinn sem þeir fá tækifæri til í 
fjölmiðlum. En ekki þora þeir svo að framkvæma þegar á reynir þrátt 
fyrir að stjórnarandstaðan hafi boðið upp á ýmsar leiðir til að bæta 
úr ástandinu.

Rétt fyrir lok þingsins auglýstu stjórnarliðar nýtt frumvarp til 
breytinga á jafnréttislögum. Bjartsýni ríkti í u.þ.b. viku, þar til í 
ljós kom að þeir myndu ekki þora að leggja frumvarpið í dóm sinna 
eigin þingmanna. Frumvarpið var bara hluti af þeirri sýningu sem þeir 
munu nú standa fyrir í aðdraganda kosninganna sem gengur út á að 
þykjast ætla að jafna leikinn og boða hinar ýmsu leiðir í því skyni 
en á endanum segja þeir einfaldlega: þetta er allt að koma.

Í raun hefur jafnréttið verið ,,alveg að koma” allan síðasta áratug í 
stjórnartíð Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins.

Engar aðgerðir, engar lausnir og á meðan sitja konur með styttra 
stráið í höndunum og vetrarharkan geisar áfram í þeirra garði. Fyrir 
okkur sem virkilega langar í jafnréttisinnaðan garð er tækifærið núna 
að kjósa aðgerðir í stað orða.  Sú sem kann að rífa upp gamlan og 
rótgróinn arfa og sú sem þorir að hreyfa við moldinni og getur 
plantað kynjuðum blómum til framtíðar er leiðtogi Samfylkingarinnar 
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir.

Gefum von með vorinu og kjósum alvöru garðyrkjumann til að sá fræjum 
til jafnréttisframtíðar.

Bryndís Ísfold er frambjóðandi í Reykjavík fyrir Samfylkinguna. Hún 
hlakkar til að taka á móti sumrinu í íslenskri pólitík.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Er það eina hugsunin sem að í dag í hugum fólks og konur eru ekkert skárri en karlarnir. "Græðum"  "Græðum"

þÓRARINN þÓRARINSSON (IP-tala skráð) 19.4.2007 kl. 17:51

2 identicon

Græðarar sem græða og græða.

Fyrst við erum að tala hér um jafnrétti og græð..?.. má ég þá segja smá um peninga ?  Af því að ég fékk bjánahroll og kuldahroll með póstinum um daginn.

10. mars 2007. Auglýsing til mín persónulega og eins til dóttur minnar:

" Við viljum bjóða þér á leiðtoganámskeið fyrir konur þar sem þú getur látið að þér kveða.....Námskeiðið hefur verið haldið nokkrum sinnum í heimabæ.....og.....og....og ávallt fyrir fullu húsi...........Eingöngu konum á Akureyri er boðið á námskeiðið sem haldið er af Sjálfstæðisfélögunum á Akureyri og er þátttakendum að kosnaðarlausu, þar með talinn hátíðarkvöldverðurinn. ( Feitletrað í auglýsingu. ) Námskeiðið er fjögur kvöld.... Hér er um einstakt tækifæri að ræða fyrir þig að efla þig sem leiðtogi........."

Og svo þetta:

20. apríl 2007. Staksteinar:

......"Skoðanakannanir í vetur hafa sýnt að Sjálfstæðisflokkurinn stæði höllum fæti meðal kvenna. Nú virðist það vera að breytast...."

Nú er ég víst svona frekar vænissjúk, einstrengingsleg, full af forræðishyggju og allt það. Ég er t.d. með Þórbergst viðhorf til gosdrykkja. Hvað er líka með öll þessi tilboð ? Er ekki alltaf verið að troða upp á okkur óhollustu ? " Þú færð 10 lítra af gosi með tveimur hamborgurum, ókeypis."    " Ummm.....ókeypis.....jú það er nú ókeypis.....annars er ég alveg á móti gosi og alveg á móti því að krakkarnir séu að drekka það......en fyrst það er ókeypis......." Svo er bara allt í einu alltaf til gos og bara alltaf gos með matnum. "Nei, ég meina.....fyrst það er til gos þá geta krakkarnir alveg fengið smá.....sko......ég meina, á ég barasta að henda því eða hvað?"

Og læknarnir og lyfjafyrirtækin? Ekki má múta læknunum til að nota ákveðin lyf en það má veita þeim fræðslu. Fyrirtækin eru náttúrulega sérfræðingar, ekki bara í auglýsingum, heldur líka í að skapa velvilja, t.d. með því að gefa læknum að borða á meðan þeim er boðið upp á vönduð fræðsluerindi, því læknum getur víst fundist þeir frekar skuldbundnir því fyrirtæki sem þeir hafa þegið eitthvað af. 

Var ekki einhvern tímann verið að tala um að eyða minna í kosningaáróður? En svona fallegt námskeið, það er alls ekki áróður, er það nokkuð ?

Ég verð bara svo stressuð yfir svona og langar að biðja ykkur elskulegu og yndislegu konur að vera leiðtogar í verki og láta ekki plata ykkur til að drekka gosið og gefa börnum ykkar það ef þið eruð á móti því í hjarta ykkar.

Ef þið hafið gefið Sjálfstæðisflokknum hlutdeild í dýrmætum tíma ykkar, munið þá að þið skuldið honum ekki neitt, sérstaklega ekki atkvæðið ykkar.

Ingiríður Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 20.4.2007 kl. 11:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundar

Trúnó
Trúnó
Trúnó er vettvangur kvenna sem aðhyllast femíníska jafnaðarstefnu

Tónlistarspilari

Brigitte Bardot - Ca pourrait changer

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband