Hvernig kona ert þú?

Eftir Kristínu Atladóttur.

Það er oft talið konum til minnkunnar að hafa hin mjúku mál á oddinum í pólitík. Velferð, hvort sem hún birtist í heilbrigðiskerfinu, almannatryggingum eða skólakerfinu, eru mjúk mál og því mál kvenna. Stjórnmálakonur sem stunda pólitík af þessu tagi eru ekki taldar traustvekjandi og ekki til þess hæfar að stýra heilli þjóðarskútu. Þetta er bull, en því miður lífseigt bull.

En já, sumar konur er mjúkar og næmar og hafa samkvæmt nýlegum athugunum ekki viðlíka áhuga á að græða peninga og karlar. Vissulega hafa þær áhuga á að eignast peninga en ekki á kostnað velferðarsamfélagsins. Þessar konur hafa ekkert á móti því að lifa við lúxus, safna eignum og auðin það gera þær ekki fyrr en sjálfsögðum þörfum fólks hefur verið mætt.

Þær telja sig ekki hafa efni á því fyrr en:
öldruðum er tryggð mannsæmandi afkoma og þeim er þurfa hjúkrað við aðstæður sem taka að fullu tillit til mannlegrar reisnar.
börnum er tryggt gott atlæti, hvatingu og þá bestu umönnun sem samfélagið hefur getu til að veita þeim á heimilum, í dagvistun og í skóla.
veikburða einstaklingum er veitt skjól og stuðningur til að lifa eins góðu lífi og aðstæður hvers og eins leyfa.
hlúð er að ungu fólki á þann hátt að það nær að nýta til fulls hæfileika sína og getu, í skóla sem og á vinnumarkaði.
fjölskyldur og heimili landsins eru virt sem hornsteinn samfélagins og þeim tryggð eins góð afkoma, í fjárhags- og félagslegu tilliti, og unnt er.

Þessar konur sem um ræðir vita að það verður að stunda ábyrga hagstjórn, tryggja atvinnu- og viðskiptalífinu hagstæð skilyrði, ástunda skynsamleg samskipti við erlend ríki og bandalög og huga að framtíðinni með því að reka styrka og ábyrga stefnu í náttúru- og umhverfismálum sem og í menntun, vísindum og tækni.

Þessar konur vita líka að samábyrgð er skynsamleg, allir eigi að leggja eitthvað af mörkum öðrum til handa. Hvers vegna? Vegna þess að það er mennska og slík mennska gerir samfélag að góðu samfélagi.

En hvaða konur eru þetta? Hvaða konur eru svona skynsamar, þroskaðar og réttsýnar? Þær finnast víða, sem betur fer, en margar segja eins og Mona Sahlin sagði við upphaf landsfundar Samfylkingarinnar: Ég er kona og þess vegna hugsa ég um velferðarmál. Ég er kona og þess vegna er ég jafnaðarmaður.

Þjóðin á skilið svona konu í forsætisráðherrastól í vor.

Kristín er svona kvikmyndagerðarmaður, svona kona...og jafnaðarmaður.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Svo sammála !

Mér finnst boðskapur jafnaðarmanna ljúfur. 

Boðskapur hægri manna, að með því að gera þá ríku ennþá ríkari hrjóti fleiri molar til hinna fátækari, finnst mér frekar þreytandi.

Frumskógarlögmálin eru sterk og ekki þarf að styðja stjórnmálaflokk til að efla þau. Það sem er manninum erfitt og kostar mest átak er að hefða sig yfir frumskógarlögmálin, að haga sér eins og siðaður maður.

Það er engin hætta á að frumskógarlögmálin deyi út, þess vegna viljum við kjósa fólk sem vinnur meira í þessu erfiða, velferð fyrir alla, t.d. SVONA KONUR.  

I.S. (IP-tala skráð) 22.4.2007 kl. 12:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundar

Trúnó
Trúnó
Trúnó er vettvangur kvenna sem aðhyllast femíníska jafnaðarstefnu

Tónlistarspilari

Brigitte Bardot - Ca pourrait changer

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband