Koma svo!

Eftir Oddnýju Sturludóttur.

Landsfundi Samfylkingar lauk í gær, raunar nótt, því dansinn dunaði á Grand hótel til klukkan 3. Landsfundurinn var einfaldlega stórkostleg upplifun. Setningarathöfnin og ræður Ingibjargar Sólrúnar, Helle Thorning-Schmidt og Monu Sahlin voru einfaldlega magnaðar. Þráin eftir jafnrétti, jöfnuði og betri heimi skein hreinlega úr augum þeirra, og raunar allra landsfundargesta. Tár féllu og menn féllust í faðma. Önnur dagskrá fundarins var frábær, skapandi og frumleg. Krefjandi og góðar pólitískar umræður en ég tók þátt í málefnahópum sem tengdust kvenfrelsis- og jafnréttismálum, mannréttindum og innflytjendum.

Umgjörð fundarins var æðisleg enda ekki við öðru að búast þegar Þórhildur Þorleifsdóttir og Beta Ronalds leggja saman krafta sína. Þvílíkar kempur sem skipulögðu fundinn, Sigrún Jónsdóttir, Sólveig Arnarsdóttir og Hólmfríður Garðarsdóttir sem leiddi vinnunna. Ótal fleiri lögðu hönd á plóg. Það var einmitt Hólmfríður sem bað mig að flytja stutta ræðu í gær, en undir þeim dagskrárlið töluðu einnig Amal Tamimi, Jakob Frímann Þorsteinsson og Arnar Guðmundsson. Hér er hún, værsogú.

,,Í gær, föstudaginn 13. apríl, var gaman að lifa. Þá stóðu hér í rósahafi þrjár konur sem markað hafa djúp spor í stjórnmálasögu Norðurlandanna. Allar eru þær í minnihluta í sínu landi, allar eru þær í meirihluta í hjarta mínu.

Helle Thorning-Schmidt talaði um velferð og hinn eina sanna tón jafnaðarstefnunnar sem meinar það sem hún segir, alltaf og einatt. Helle varaði við felubúningum hægriflokkanna sem þeir klæðast þegar kosningar nálgast. Jafnaðarstefnan er nefnilega svo dásamleg að flestir vilja komast í fötin okkar þegar mikið liggur við.

Þetta könnumst við vel við á Íslandi. Á kosningavori vilja allir vera eins og við – munurinn á okkur og hinum er sá að þessi föt, eru okkar hversdagsföt – velferðin og jafnréttismálin klæða okkur best. Svo einfalt er það.

Mona Sahlin talaði um af hverju hún væri jafnaðarmaður, og hún tíndi margt til. Hún er jafnaðarmaður af því hún er kona, svo einfalt var það! Hún nefndi líka velferðarmálin, börnin og erindið sem jafnaðarhugsjónin ætti við samfélagið á öllum tímum. Viðfangsefnin eru þau sömu - öll viljum við betrumbæta samfélagið. Heimurinn hins vegar breytist og svörin og lausnirnar er ekki alltaf þau sömu. Þess vegna er svo nauðsynlegt að jafnaðarstefnan sé við lýði.

Að vega og meta hverja þraut sem fyrir okkur er lögð er okkar stærsti kostur. Samstarf, samráð, athygli og löngun til að þekkja hversdagsleg verkefni, vandamál og verkefni fullorðinna, barna og barnafólks, þarfir atvinnulífs og launþega, er okkar aðall.

Viðfangsefni réttlátrar og jafnréttissinnaðrar Samfylkingar eru ofin úr margbreytilegum þráðum sem spinna hinn hversdagslega vef. Lífið er pólitík og pólitík er lífið. Gleymum því aldrei. Og í lífinu, rétt eins og pólitíkinni er sífellt verið að gefa upp á nýtt, lausnirnar og svörin eru aldrei þau sömu. Gleymum því aldrei.

Ingibjörg Sólrún talaði í sinni ræðu um hversdagsleg vandamál sem er svo áríðandi að greiða úr. Biðlista sem verður að eyða, vanrækslusyndir og óstjórn.

En hún talaði ekki bara um biðlista, heldur líka lista sem tveir menn ákváðu að skrá okkur á og við viljum helst koma okkur út af sem fyrst – Að eyða biðlistum og blóðugum stríðlistum verða fyrstu verkefni ríkisstjórnar undir forystu Ingibjargar Sólrúnar.

Mona eggjaði mig mjög með þrástefi ræðu sinnar, af hverju hún væri jafnaðarmaður: og ég spyr sjálfa mig af hverju ég sé í Samfylkingunni? Fyrir því eru þrjár ástæður: Ingibjörg, Sólrún og Gísladóttir. Þó er ég sannarlega laus við foringjadýrkun og tel víst að fyrirmyndin Ingibjörg Sólrún skipti meira máli en persónan sjálf.

Ég var lítil stelpa þegar Ingbjörg Sólrún kom fram á hið pólitíska sjónarsvið. Alla tíð hefur hún verið þarna, inni í sjónvarpskassanum, á síðum blaðanna og alltaf að tala um hversdagsleg viðfangsefni sem snertir fólk, mig og ykkur á hverjum degi.

Vera hennar í stjórnmálum, óbilgirni, sigrar, hæðir og lægðir hafa fylgt mér öll unglingsárin og árin mín sem ung kona á Íslandi. Ég varð þeirrar gæfu aðnjótandi að hafa hana sem fyrirmynd – hún hafði engar, eins og hún kom að í ræðu sinni í gær. Ég hafði hana og það hefur haft mikið að segja fyrir mig og aðrar konur. Konur gátu stjórnað borg og gert það vel, konur hlutu þá að geta allt. Kvenfrelsi er kraftaverk í lífi hverrar konu, hefur Ingibjörg Sólrún sjálf sagt.

Fyrirmyndir eru geysilega mikilvægar, þess vegna var dásamlegt að sjá þessar þrjár konur á sviðinu í gær. Ef landsmenn þeirra bera gæfu til að leiða þær allar til forsætis, ef franska og bandaríska þjóðin bera gæfu til þess að kjósa konur sem forseta verður heimurinn ekki samur.

Berum höfuðið hátt, kæru vinir og finnum fyrir krafti og mikilvægi jafnréttisbaráttunnar sem er ein af þungamiðjum okkar flokks.

Lífið er pólitík og pólitík er lífið. Þær stöllur Mona og Helle margsögðu í gær að þetta væri ekki flókið. Konur eru helmingur mannkyns og við græðum öll á því að hlusta á sjónarmið beggja. Svo einfalt er það.

Við í Samfylkingunni höfum skýrustu velferðarpólitíkina, barnapólitíkina, jafnréttispólitíkina, efnahagspólitíkina og umhverfispólitíkina. Við megum vera rígmontin af byggðapólitíkinni, menntapólitíkinni og menningarpólitíkinni.

Við vitum þetta ósköp vel, okkar starf næstu vikur verður að kalla þetta á torgum úti, hvísla í óákveðin eyru, tjá okkur í ræðu og riti, og leyfa engum landsmanni að ganga til náða þann 11. maí án þess að hafa hlýtt á okkar boðskap.

Það er verkefni næstu vikna, og ekkert okkar má liggja á liði sínu. Koma svo!"

Oddný er í sjöunda himni eftir frábæran landsfund.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Var einmitt að setja færslu á síðuna mína steinunnvaldis.is um landsfundinn og þessa ólýsanlegu gleði sem þar ríkti.  Stelpur - nú tökum við þetta á endasprettinum

Steinunn Valdís (IP-tala skráð) 15.4.2007 kl. 15:09

2 Smámynd: Tómas Þóroddsson

Þetta var frábær ræða hjá þér. Fundurinn var alveg magnaður, allt þetta fólk með blik í augum, stolt í eigin skinni.

Mér finnst þessi punktur hjá Monu og Helle um fyrimynd fyrir stelpur hitta mig algjörlega.  Það er lykillinn að kvennafrelsi.  Ég vill að dætur mínar eigi sér fyrirmyndir í leiðtoga.  Vigdís var það, Ingibjörg sem borgarstjóri.  Næsta skref er Ingibjörg sem forsætisráðherra.  Ég er á móti kynjakvóta, get ekki séð hann sem réttlæti.  Vill ekki að sonur minn verði undir vegna kvóta.  Ég er jafnaðarmaður, þess vegna vill ég að Ingibjörg Sólrún verði næsti forsætisráðherra.

Tómas Þóroddsson, 16.4.2007 kl. 00:26

3 identicon

Frábær ræða.

kv. fyrrverandi óákveðinn, núverandi X-Samfylking

GHB (IP-tala skráð) 17.4.2007 kl. 09:07

4 identicon

var fundurinn haldinn í Norður Kóreu. Ég hef ekki séð viðlíka leiðtogadýrkun og í þessum skrifum allt mitt líf. Fjallaði ISG eitthvað um vinavæðingu jafnaðarmanna eða á lygina sem hún bauð uppá sem borgarstjóri, laug að kjósendum

duddi (IP-tala skráð) 17.4.2007 kl. 09:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundar

Trúnó
Trúnó
Trúnó er vettvangur kvenna sem aðhyllast femíníska jafnaðarstefnu

Tónlistarspilari

Brigitte Bardot - Ca pourrait changer

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband