Vigdís, Ingibjörg Sólrún og Ségoléne Royal

Eftir Bergþór Bjarnason.

Í síðustu viku hlustaði ég á Vigdísi Finnbogadóttur á fyrirlestri í Sorbonne-háskóla í París. Hún sagði sögu sína og íslenskra kvenna í baráttunni fyrir jafnrétti í stjórnmálum sem og víðar í þjóðlífinu. Það var sannarlega gaman. Ekki síst að heyra upprifjun á öllum þeim neikvæðu röddum sem heyrðust meðal annars frá mótframbjóðendum hennar eins og ,,hver sér þá um heimilið? Hvernig getur einhleyp kona verið forseti?" og fleira í þeim dúr. Vigdís sýndi svo sannarlega hvað í henni bjó, um það þarf ekki að hafa fleiri orð.

En þar sem ég sat í Sorbonne og hlustaði á Vigdísi, velti ég fyrir mér hvort kjör hennar, og síðar tilurð Kvennalistans, hafi mótað lífsýn mína sem æ síðan hefur grundvallast af jöfnum rétti kvenna og karla til að blómstra í einka- og opinberu lífi. Ég rifjaði upp vorið ´94 þegar við söfnuðumst saman í kringum Ingibjörgu Sólrúnu til að vinna borgina, það var einstök upplifun og stemning.

Þá voru uppi loforð um að breyta stöðluðu kerfi til að jafna hlut kvenna hvað varðaði laun, stöðuveitingar og ekki má gleyma öllum leikskóladeildunum sem voru reistar og gerðu konum kleift að hella sér af krafti út í atvinnulífið til jafns við karla.

Þetta voru loforð sem voru efnd.

Enn eina ferðina er ég að dreifa bæklingum, líma plaköt og senda tölvupósta til vinahópsins, fyrir konu, jafnaðarkonuna Ségolène Royal sem keppir um forsetaembætti Frakklands. Frakkland er svo sannarlega eftirbátur Íslands í jafnrétti í stjórnmálum því hér heyrast allir frasarnir sem voru notaðir um Vigdísi árið 1980.

Á dögunum var Ségolène gestur í pólitískum þætti og fyrsta línan í einu blaðanna daginn eftir var ,,í hvítum jakka yfir svartan kjól..." Það var það fyrsta sem blaðamanni kom í hug! Ég get ekki einu sinni ímyndað mér einhleypa konu í framboði í Frakklandi. Ségolène er ekki gift en hefur búið áratugum saman með manni sínum og á með honum fjögur börn, en hún yrði fyrsti ógifti forsetinn sem sest að í Elysée-höll.

En baráttan er hörð og þegar er búið að endurtaka hundrað þúsund sinnum að þessi kona sem hefur ,,bara" verið þingmaður fjögur kjörtímabil og ,,bara" verið ráðherra í sex ár (að auki í ,,ómerkilegum kvennaráðuneytum" eins og umhverfis-, fjölskyldumála- og skólamálaráðuneyti en ekki fjármála- eða innanríkisráðuneyti, og ,,bara" verið forseti héraðstjórnar Poitou-Charente, þá eru sumir byrjaðir að trúa því að ,,hún geti ekki verið forseti."

Nú kem ég að efninu. Því hugurinn leitar heim þegar líður að þinkosningum. Því miður er vantrú karla, og kvenna, á konum enn rótgróið. Jafnvel á Íslandi. Mér finnst svo augljóst að markvisst sé unnið að því að sverta orðstír Ingibjargar Sólrúnar, kannski til þess að koma í veg fyrir að hún verði forsætisráðherra.

Hvarlar það ekki að neinum að það sé gamla karlveldið sem ,,ætlar nú ekki að lát´ana komast í Stjórnarráðið, hún hrifasði nú til sín völdin í Ráðhúsinu í þrígang"!

Hvað varð um þann góða stuðning kvenna sem fylgdu Kvennalistanum að málum og R-listanum síðar meir? Að styðja við konur í prófkjörum og kosningum til þess að koma þeim að, hver sem flokkurinn væri? Ég veit vel að Samfylkingunni hefur ekki tekist nógu vel að skipa konur í efstu sæti listanna en það á ekki við í Reykjavík þar sem góðar konur eins og Steinunn Valdís, Kristrún Heimisdóttir og Valgerður Bjarnadóttir eru í framboði.

Það er heldur ekki nóg að hafa fallega jafnréttisstefnu, það þarf sömuleiðis að framkvæma hana og það gerði fyrrum borgarstjóri svo sannarlega í þau níu ár sem hún stýrði borginni. Hvaða stjórnmálamaður getur státað af jafn augljósri og góðri ferilskrá í jafnréttismálum og Ingibjörg Sólrún?

Ætla konur að hoppa af vagninum þegar konur mega síst við því?

Bergþór Bjarnason er fyrsti karlmaðurinn sem fær að skrifa á trúnó enda gallharður femínísti. Hann var aðstoðarkosningastjóri Kvennalistans árið 1995, starfar hjá tískuhúsi Yves Saint Laurent í París og vinnur nú í kosningabaráttu Ségolène Royal í frítíma sínum.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Til hamingju Bergþór með skrifin - fyrsti karlmaðurinn. 

Ég veit að þú stendur alltaf kvenfrelsisvaktina hvort sem er í París eða Reykjavík en mikið hefðir þú glaðst á setningu landsfundar.  Þar fóru kvenfrelsisbylgjur um salinn þegar þær Sólrún, Helle og Mona skiptust á skoðunum.  Nú er bara að krossa putta og vona að þín kona í París vinni sigra líkt og við ætlum að gera þann 12. maí.

Steinunn Valdís 

Steinunn Valdís (IP-tala skráð) 14.4.2007 kl. 01:01

2 identicon

Þvílíkt og annað eins, maður veit varla hvort er meira viðeigandi eftir lestur þessa pistils, grátur eða hrossahlátur. Ef áfram sem heldur sem horfir þá verða guðspjöllin um ISG orðin fleiri en um Jesú, og í fjarlægri framtíð fær Bergþór stöðu Maríu Magdalenu. Hann fékk jafnvel fyrstur karla að skrifa á bloggi lærimeyjanna, þó svo að hann hafi starfað hjá YSL. Í alvöru talað, þessi málefnalausa persónudýrkun á foringjanum er yfirgengilega og barnaleg. Þrátt fyrir tilburði Bergþórs til að gera kosningu Vigdísar að einhverjum merkisviðburði í framfarasögu þjóðarinnar, þá verður sá sigur hjóm eitt við hliðina á því ef einhvern tíman yrði einhleypur verkamaður af karlkyni kosin í þá stöðu. Ef minnið bregst mér ekki þá hefur slíkur frambjóðandi aldrei komið fram, og við núverandi andrúmsloft mun hann sjálfsagt aldrei koma fram. Sigur Vigdísar var með stuðningi ráðandi afla í þjóðfélaginu, ekki gegn ráðandi öflum í þjóðfélaginu. Hún hafði frá fyrsta degi stuðning menntastéttarinnar, þeirra stéttar sem hefur áhrif langt umfram fjölda eða vit. Allar tilraunir einhverra kverúlanta til að snúa þessari staðreynd á haus eru dæmi um uppgerðarlega eða áunna fávisku. Hitt er svo annað mál að "valdatíð" Vigdísar var í engu frábrugðin forverum hennar, hún var bara frontur, svona eins og ungrú Ísland, það var nú öll merkilegheitin.

Þrándur (IP-tala skráð) 14.4.2007 kl. 02:13

3 identicon

Sammála Þrándi

Eiríkur (IP-tala skráð) 14.4.2007 kl. 10:12

4 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Ingibjörg Sólrún er frábær leiðtogi, enda var ég Kvennalistakona og "rann" inn í SF, en hæun kæmi með karlaher á eftir sér inn í þing og ég er svo leið á því!

Hef "svikið" lit og mun kjósa VG vegna kvennaflettu þess lista!  Ungu konurnar þar eru svo frambærilegar á meðal karlanna!  Ólíkt SF, þar sem ég yrði að kjósa Ingibjörgu (vegna kyns) og svo koma BARA karlar á þing!!! Þetta eru SVIK SF við kvennalistakonu, eins og mig!

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 14.4.2007 kl. 23:39

5 Smámynd: Edda Agnarsdóttir

Frábær pistill og það eru engin svik í tafli þegar prófkjör er vihaft og niðurstaðan eins og hún varð. Það segir okkur einungis hvað okkur ber að gera næst. Ég  segi að baráttan hefði aldrei orðið jafngóð og hún er í dag ef niðurstaðan hefði orðið önnur. Ég meina eftir þessa prófkjörsreynslu hafa konur innan Samfylkingarinnar tvíeflst og baráttuviljinn tífaldast, ég hef aldrei upplifað annan eins baráttuanda, ekki einusinni í Rauðsokkahreyfingunni í den hvað þá kvennalistanum. Þetta er einstakt tækifæri sem við fengum upp í hendurnar sem varð til þess leysa verkefnið með krafti og yfirvinna þann ótta sem fylgdi í kjölfar prófkjörs.

Edda Agnarsdóttir, 16.4.2007 kl. 16:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundar

Trúnó
Trúnó
Trúnó er vettvangur kvenna sem aðhyllast femíníska jafnaðarstefnu

Tónlistarspilari

Brigitte Bardot - Ca pourrait changer

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband