9.4.2007 | 23:03
Hvað er að konum?
Eftir Iðunni Steinsdóttur.
Hann var ekki gæfulegur páskadagsboðskapur Staksteina í Mogganum sem byggður var á síðustu skoðanakönnun Capacent- Gallup. Ekki nóg með að Ingibjörg Sólrún og Steingrímur Joð væru bæði sett út í kuldann heldur fylgdu í kjölfarið Össur og allt nánasta samstarfsfólk hans og Ingibjargar í Samfylkingunni.
Burt úr pólitíkinni, allt þetta leiðindalið! Og það sem meira er: Ekki örlar á neinni yngri forystusveit í Samfylkingunni þannig að dagar hennar eru taldir. (Ha, ha, ha!) Það á nú ekki við Sjálfstæðisflokkinn, hann á mjög öfluga unga sveit sem bíður þess í ofvæni að fá að byrja að hræra í pottunum og taka við einkavinavæðingunni.
Græni armurinn mun yfirtaka Vinstri græna og nýtt fólk koma þar til sögunnar, engin ástæða til að hafa áhyggjur af þeim. Getur verið að Mogginn sé kominn með spámann sem sér fram í tímann? Þetta var slík örlagaspá að óneitanlega setti að mér kuldahroll.
Að vísu hef ég allt frá barnæsku vanist því að taka ekki pólitískan boðskap Moggans bókstaflega, ekki einu sinni á jólum eða páskum. En ég er ekki samnefnari fyrir allar konur í landinu.
Þetta málgagn hefur nú nítt af Ingibjörgu Sólrúnu skóinn svo mánuðum og árum skiptir og mér til sárrar armæðu sé ég hve vel það hefur skilað sér til margra kynsystra minna. Ein af annarri tyggur það sama:
- Mér finnst nú að hún Ingibjörg ætti að fara að hugsa sig um og róa sig niður.
- Ha, segi ég forviða, hvað meinarðu?
- Nú, hún er svo frek og hörð.
- Bíddu, en karlarnir? Er hún frekari en þeir?
Þá vefst viðmælendum yfirleitt tunga um höfuð, þær höfðu greinilega ekki spáð í karlana eða dottið í hug að bera hana saman við þá.
- Ja, mér mér finnst bara að hún gæti brosað svolítið.
- Mér finnst hún einmitt alltaf svo brosmild, ég dáist að því hvað hún getur endalaust verið glaðleg, sama hvaða leiðindagaurar eru í kringum hana.
- Nei, hún er alltof hörð.
Og þá dett ég ofan í mína hefðbundnu ræðu um það hvað Ingibjörg sé skýrmælt og rökföst. Ég bendi þeim líka á að meðferð moggans á henni stafi af því að hún sé keppinauturinn sem stjórnarflokkarnir hræðist.
- Heldurðu það? svara sumar öldungis hissa.
Þegar ég spyr hvort þeim finnist ekki kominn tími til að kona verði forsætisráðherra verður fátt um svör.
Ég hélt reyndar að það væru bara konur, komnar yfir miðjan aldur sem hugsuðu svona. En þegar rúmlega tvítug stúlka sem hafði á sínum tíma stutt Ingibjörgu til formannskjörs kom með sömu klisjuna var mér allri lokið.
Hvað er að konum? Af hverju geta þær ekki staðið með kynsystrum sínum, og sjálfum sér um leið?
Ég hef kennt í grunnskóla í áranna rás og skynjað muninn á kynjunum þegar komið er upp í 7. til 8. bekk. Það er að sjálfsögu ekki hægt að alhæfa og segja: Strákar eru svona og stelpur hinsegin. En í heildina eru stelpurnar samviskusamar, duglegar, hlédrægar og standa klárar á sínu meðan stór hluti strákanna er barnalegur, óþægur og alltaf til í að láta álit sitt í ljósi, líka óumbeðið.
Það er svo skrítið að horfa upp á þennan mun og finna hvað stelpurnar eru miklu hæfari en um leið víkjandi. Ég spyr mig hvort það sé innbyggt í kvenkynið að karlkynið sé æðra? Eða er þetta afleiðing af uppeldi?
Hvað sem það er, þarf það að breytast. Það þarf að breytast svo að okkur finnist jafn sjálfsagt að konur svari fullum hálsi eins og að karlar geri það.
Einu sinni sagði kunningjakona mín að jafnréttinu yrði fyrst náð þegar það þætti jafnsjálfsagt að ráða óhæfa konu í stöðu eins og óhæfan karl.
Ég vil bæta við: Og að konur gegni æðstu stöðum af því að þær eru jafnhæfar eða hæfari en karlarnir í kring og þegar kona sem sýnir ákveðni og þor er kölluð "ákveðin" en ekki "frek".
Iðunn er ein af okkar ástsælustu barnabókahöfundum.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Pæling dagsins
- Kvennaþing í Hveragerði 11.-12. apríl. Stjórnmálaumræður með femínískum jafnaðarkonum. Ball með ROKKSLÆÐUNNI um kvöldið. Ertu búin að skrá þig?
Nota bene
Bloggandi konur
Anna Kristjáns
Arndís Anna
Arndís Steinþórs
Ása Richards
Ásta R. Jóhannesdóttir
Björk Vilhelmsdóttir
Bryndís Ísfold
Edda Agnarsdóttir
Beta Ronalds
Erla Sigurðardóttir
Eva Bjarna
Guðríður Arnardóttir
Dagbjört Hákonard
Helga Vala
Ingibjörg Stefáns
Jóhanna
Katrín Anna
Katrín Júlíusdóttir
Lára Stefánsdóttir
Magga Stína
Oddný Sturludóttir
Ólína Þorvarðardóttir
Rósa Erlings
Sonja B Jónsdóttir
Steinunn Valdís
Svanfríður Jónasdóttir
Þorgerður Diðriks
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 1
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 4
- Frá upphafi: 106410
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 4
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Ég á bara ekki til orð Iðunn, er þér í alvöru alvara með þessum skrifum þínum?
Guðmundur H. Bragason, 9.4.2007 kl. 23:53
Mér finnst undarleg fullyrðingin um að það vanti yngra fólk í Samfylkinguna eru menn alveg búnir að gleyma varaformanni flokksins sem er nú vart hægt að telja nálægt því að vera miðaldra. Ágúst Ólafur hefur staðið sig vel í hlutverkinu og er öflugur.
En já það vantar fyrirmyndir fyrir konur í framvarðarsveit í pólitík. Sem betur fer er þó ein kona í formaður stjórnmálaflokks og því verður ekki á móti mælt að enginn formaður hefur þurft að þola aðra eins stormsveit árása og einmitt hún. Það er beinlínis aðdáunarvert hvað hún stendur þetta af sér.
Ég hef nú kennt í nokkur ár í framhaldsskóla og sé ekki þennan greinilega mun á samviskusemi kynjanna. Né heldur að strákar séu óþekkari - kannski breytist þetta með aldrinum. Hinsvegar hefur það komið mér á óvart að ungar konur trúa því ekki að þær hafi ekki sömu möguleika og karlar fyrr en þær hafa verið á vinnumarkaði í nokkur ár. Nokkrar þeirra hef ég heyrt rifja upp undanfarið hversu mikið þetta hafi komið þeim á óvart og rifja upp umræður í framhaldsskólanum þar sem þær voru vissar um að þetta væri "gamaldags" mál. Svo líklega þarf að huga að þeim aðferðum sem eru notaðar til að útskýra og gera grein fyrir.
Lára Stefánsdóttir, 10.4.2007 kl. 00:02
spurningar;
Snýst þetta um konur á móti körlum eða bara jafnréttindi?
Þurfa konur séraðstoð eða meðferð, til að komast á þing?
Nanna Katrín Kristjánsdóttir, 10.4.2007 kl. 01:40
Ég varð nú svo hlessa við þessi bloggskrif Iðunnar að ég varð að skrifa heila bloggfærslu um málið.
Egill Jóhannsson, 10.4.2007 kl. 02:53
Góð grein.
Fyrir utan þegar þú sagðist "finna hvað stelpurnar eru miklu hæfari en um leið víkjandi."
Þetta finnst mér alveg hryllilegt að þú skulir láta út úr þér. Ætti ég barn í tíma hjá þér væri ég ekki lengi að kippa honum þaðan. Það er fyrir neðan allar hellur að þú skulir gera svona lítið úr þeirri jafnréttisbaráttu sem mörg okkar stöndum fyrir með því að tala niður til annars kynsins á þennan hátt.
Ég skammast mín fyrir hönd okkar allra sem viljum jöfn tækifæri og jafnan rétt beggja kynja án sleggjufordóma og alhæfinga af þessu tagi. Versta karlremba myndi varla þora að tala svona.
Kristján Eðvald (IP-tala skráð) 10.4.2007 kl. 11:12
Þetta er nú einmitt vandamál í skólakerfinu, sérstaklega í fyrstu bekkjum grunnskóla, að námið miklu fremur sniðið að stelpum heldur en strákum.
Heilmiklu púðri er eytt í myndskreytingar og ýmist dútl sem flestir strákar á þessum aldri hafa hreinlega ekki þolinmæði í og bíða því spenntir eftir næstu frímínútum þar sem þeir geta farið út og fengið útrás (þannig var það a.m.k. með mig og marga í kringum mig á þessum aldri).
Því held ég að Hjallastefnan (að hafa kynin aðskilin) sé alls ekki svo vitlaus því kynin hafa svo ólíkar þarfir, sérstaklega í fyrstu bekkjum grunnskóla.Hjalli (IP-tala skráð) 10.4.2007 kl. 12:12
hahaha skemmtileg grein Iðunn.
"jafnréttinu verður fyrst náð þegar það þykir jafnsjálfsagt að ráða óhæfa konu í stöðu eins og óhæfan karl"
birna, 10.4.2007 kl. 12:12
Sammála Birnu - þetta er góður punktur og þarfur.
Það er svo margt gott við þessa grein, en það fellur í skuggann af þessum fornaldarhugsunarhætti um að annað kynið sé að eðlisfari með yfirburði yfir hitt.
Ég hefði átt von á svona ummælum hjá fylgismönnnum "Frjálslynda" flokksins en ekki jafnréttissinnaðri jafnaðarmanneskju. Sveiattan bara.
Kristján Eðvald (IP-tala skráð) 10.4.2007 kl. 14:12
Það er algjörlega vandræðalegt að horfa upp á Samfylkinguna engjast um yfir því hvað fjölmiðlar séu vondir við Ingibjörgu Sólrúnu sbr. orð Láru Stefánsdóttur í athugasemdinni hér að ofan.
,,En já það vantar fyrirmyndir fyrir konur í framvarðarsveit í pólitík. Sem betur fer er þó ein kona í formaður stjórnmálaflokks og því verður ekki á móti mælt að enginn formaður hefur þurft að þola aðra eins stormsveit árása og einmitt hún. Það er beinlínis aðdáunarvert hvað hún stendur þetta af sér."
Í fyrsta lagi þá hefur Ingibjörg Sólrún ekki mátt þola neitt samanborið við það skítkast sem Halldór Ásgrímsson mátti þola á meðan hann sat í embætti formanns Framsóknarflokksins, ekki síst frá einstaklingum sem nú barma sér mest yfir ,,meðferðinni" á Ingibjörgu.
Í öðru lagi þá vantar ekkert fyrirmyndir fyrir konur í íslenskum stjórnmálum. Þær eru hins vegar flestar í Framsóknarflokknum. Eini flokkurinn sem er með jafn margar konur og karla í oddvitasætum fyrir þessar kosningar. Eini flokkur í sögunni sem hefur verið með jafnmarga kven- og karlráðherra í ríkisstjórn. Flokkurinn sem hefur á að skipa fyrsta kvenutanríkisráðherranum, og raunar fyrsta kveniðnaðarráðherranum líka. Já og fyrsta.... ég þarf vonandi ekki að halda áfram til að sanna það innan hvaða flokks er ástundað mest jafnrétti í verki, en afrekalistinn er langur.
Hvenær ætla þær konur sem kenna sig við femínisma að fara losa sig úr flokkspólitísku hjólförunum og viðurkenna það sem vel er gert? Hvenær ætlar femínistafélagið að hrópa verðskuldað húrra framsóknarkonum?
Stefán Bogi Sveinsson (IP-tala skráð) 10.4.2007 kl. 14:24
Þetta er flott grein hjá þér Iðunn. Það má vel vera að þú hafir tekið fullsterkt til orða að ungar stúlkur séu hæfileikaríkari en strákar en allt um það. Það er allt öðruvísi tala um konur en karla og þeir sem ekki sjá eineltið og aulabrandarana á flestum bloggsíðum um Ingibjörgu eru bara ekki vel upp aldir. Það veitti ekki af að setja snarvölu á þá suma
Kristján Elís (IP-tala skráð) 10.4.2007 kl. 15:13
Ég mun nú seint hrópa húrra fyrir nokkrum í Framsóknarflokknum en get sagt sem satt er að þeir hafa verið framarlega að þessu leiti og ég held að það sé enginn að draga neitt úr því hér.
Annars er greinin um margt góð en þó nokkrir punktar sem stungu mig og fæ mig ekki til að vera sammála.
Dagný Rut Haraldsdóttir (IP-tala skráð) 10.4.2007 kl. 15:33
mér datt einmitt í hug að breyta því þar sem stendur "strákar" í "hvíti maðurinn" og "stúlkur" í "svarti maðurinn". hvernig hefði það komið út?
ég er kannski svo rosalega barnalegur? og foreldrar mínir líka? en þau ólu mig allavega upp þannig að maður ætti ekki að kjósa e-n af því að hann væri karl eða kona? maður ætti að kjósa eftir málefnum, og horfa til framtíðar, hvernig þjóðfélagi maður vildi búa í, og hver það væri sem væri tilbúin að beyta sér fyrir málefnum sem vörðuðu mannn sjálfan, og hverjum manni treysti best til þess að stjórna þessu landi okkar. en það var nú meiri barnaskapurinn í mér, maður á auðvitað að kjósa konuna, hún er jú kona, mér er alveg sama hvað hún stendur fyrir og hvað hún ætlar að gera, hún er kona.
Leifur (IP-tala skráð) 10.4.2007 kl. 19:13
femínistar að sýna sitt rétta andlit
Plato (IP-tala skráð) 10.4.2007 kl. 20:00
Var Halldóri Ágrímssyni sem sagt aldrei bent á að hann mætti brosa meira???
Stefán Bogi Sveinsson (IP-tala skráð) 10.4.2007 kl. 20:03
Það sem mér finnst skrítnast, og ég hef tjáð mig um áður, er þegar fólk segist ekki geta hugsað sér að kjósa Ingibjörgu "af því að hún er svo reið" og ætla þess í stað að kjósa Steingrím J, sem er sannanlega reiðasti maður landsins. Honum er hins vegar talið til tekna að vera reiður og jaðra við að vera harðlínumaður í ýmsum málaflokkum. Ég spyr mig hvort þetta hafi eitthvað með kynferði þeirra að gera.
Ég tek annars undir með Stefáni Boga að því leytinu til að það má sannarlega hrósa konum í öðrum flokkum fyrir þeirra góðu frammistöðu. Ég hef fullyrt og stend við það, að ef jafnrétti væri náð væri Siv Friðleifsdóttir formaður Framsóknar en ekki Jón Sigurðsson. Raunar held ég að það væri ekki loku fyrir það skotið að Þorgerður Katrín væri líka formaður Sjálfstæðisflokksins en þó finnst mér minni munur á henni og Geir.
hee (IP-tala skráð) 10.4.2007 kl. 21:00
PS. tek líka undir að það er ekki greindarlegt að halda því fram að stúlkur séu hæfileikaríkari en strákar því að það held ég að sé augljóslega ekki rétt. Það sem hins vegar er að mínu mati augljóst er að stúlkur eru jafn hæfar og strákar en hafa frekar minni trú á getu sinni en strákar og vafalaust spila þar staðalímyndir inn í.
hee (IP-tala skráð) 10.4.2007 kl. 21:04
Ef ég vissi ekki betur þá myndi ég halda að Iðunn Steinsdóttir væri dulnefni fyrir áróðusdeild Frímúrara, persóna sköpuð til að koma veikum blett á framburð jafnréttissinna.
En í ljósi þess að Iðunn er höfundur Snuðru og Tuðru bókanna þá má ætla að nafnið og höfundurinn sé raunverulegur.
Kannski er Iðunn með þessa sleggjudóma vegna þess að hún kemur utan að landi? En eins og við vitum þá er Landsbyggðarfólk á heildina litið barnalegt, óþægt og alltaf til í að láta skoðun sína í ljós óumbeðið.
Ef þú ert að lesa þessar athugasemdir Iðunn þá er það nefnilega þannig að það er litið verulegu hornauga í samfélagi nútímans að dæma fólk eftir kynþætti, þjóðerni eða trúarbrögðum. Það hefur oft verið reynt en alltaf endað í hörmungum.
Finnst þér að konur séu ekki nógu ákveðnar? Hvern vegna ekki þá að einbeita sér að því að leiðrétta það?
Kalli (IP-tala skráð) 10.4.2007 kl. 23:31
Tek undir með Hildi varðandi samanburðinni á Ingibjörgu og Steingrími Joð. Það er greinilegt að mælikvarðinn á konurnar í pólitíkinni er ekki sá sami og gagnvart körlunum.
Konur og stelpur hafa oft minni trú á sér en karlar. Það held ég að flestir þekki. Margar konur og karlar virðast líka hafa minni trú á konum en körlum í pólitík, jafnvel þó að þær séu jafnhæfar eða hæfari en karlarnir.
Svala Jónsdóttir, 10.4.2007 kl. 23:41
Nú er það nokkuð merkilegt að margir frjálslyndir Sjálfstæðismenn sem gagnrýna Ingibjörgu Sólrúnu mikið eru á þeirri skoðun að Margaret Thatcher fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands sé einni mesti, ef ekki merkilegasti stjórnmálamaðurinn eftir seinna stríð.
Ef þetta er rétt þá hlýtur ástæða andstöðu þessa sama fólks við Ingibjörgu að vera vegna persónu Ingibjargar. Þetta fólk flykktist í kringum Margaret Thatcher á sínum tíma, og hún er þegar ég síðast vissi Kona.
En er það of einfölt skýring? Hlýtur það að vera vegna kvennafyrirlitningar sem Ingibjörg er svona óvinsæl?
Stórt er spurt.
Kalli (IP-tala skráð) 10.4.2007 kl. 23:51
Það má reyndar halda því til haga að það að Ingibjörg sé óvinsæl hjá Sjálfstæðismönnum er alls ekkert endilega slæmt í alla staði, heldur má segja að það sýni svart á hvítu að þeir líta á hana sem ógn við veldi sitt. -ennþá að minnsta kosti, þótt það gæti breyst ef VG verða miklu stærri en Samfylkingin sem má samt enn teljast frekar ólíklegt.
Það eru annars ekki bara Sjálfstæðismenn sem telja Margaret Thatcher einn mesta stjórnmálamanninn í seinni tíð. Ég hef ekki heyrt marga vinstrimenn mótmæla því sjónarmiði að hún hafi verið afar aðsópsmikill og klókur stjórnmálamaður þó svo að vitaskuld taki vinstrimenn ekki undir hennar stefnumál, ekki á nokkurn hátt. Það má annars bæta því við að þrátt fyrir að Thatcher hafi náð miklum vinsældum og góðri stjórn á sínum eigin flokki fór það að lokum svo að henni var bolað frá völdum af sínum samflokksmönnum (körlum).
Sem leiðir okkur að kjarna málsins: Vandamálið liggur ekki bara, og kannski síst, í óvinsældum Ingibjargar meðal Sjálfstæðismanna. Það liggur fyrst og fremst í hennar samflokksfólki nú og öðrum á vinstrivængnum sem hafa yfirgefið flokkinn og farið yfir í vinstri græna af því að þeim fannst Ingibjörg "svo reið" án þess að hafa rökréttan samanburð í Steingrími. Það er það sem skiptir máli og ég held það sé hollt fyrir Samfylkingarfólk að líta í eigin barm áður en það kvartar undan Sjöllum eða öðrum. Hvað veldur því að Samfylkingarfólk á svona bágt með að mynda samstöðu um formann flokksins? Ingibjörg er, þrátt fyrir allt, flottur og öflugur formaður. Og hvað í lífinu veldur því að kjósendur, alls ekki síður konur en karlar, eru að yfirgefa Samfylkinguna í hrönnum og fara yfir í VG?
Það má vera öllum ljóst að stefnumál og útspil flokksins í ýmsum málum hefur sannarlega sitt að segja að mörgu leyti eins og alltaf þegar breytingar verða á fylgi flokkanna. Af þeim sökum er afar erfitt að skera úr um að hvaða leyti hægt er að skýra fylgistapið með kynferði formannsins. Hitt er þó alls ekki vafamál að mínu mati að ákveðni Ingibjargar og festa mætir blendnari viðbrögðum hjá kjósendum heldur en ákveðni og festa karlkyns kollega hennar. Og það er nauðsynlegt að ræða það og skoða með gagnrýnu hugarfari.
hee (IP-tala skráð) 11.4.2007 kl. 01:23
málstaður feminista fellur alltaf um sjálfan sig þegar að þeir tala um að nú sé kominn tími til að konur fái valdastöður þegar að málstaður þeirra á að ganga út á jafnrétti, sem snýst um allt annað en að konur fái eitthvað sérstaklega völd frekar en karlar
gunso (IP-tala skráð) 11.4.2007 kl. 03:04
Frábærar athugasemdir hjá þér Hildur.
Og mikið finnst mér leiðinlegt þegar fólk alhæfir um femínista, konur, karla eða sjálfstæðismenn.
Ég frábið mér t.a.m. að eiga nokkra samleið með fólki eins og gunso, fyrir utan að vera hugsanlega með sömu æxlunarfæri.
Það er til fólk sem kemur slæmu orði á alla hópa, karla, útlendinga, Vinstri-Græna, Framsókn og þar fram eftir.
Kristján Eðvald (IP-tala skráð) 11.4.2007 kl. 10:23
Því er haldið hér fram að ISG sé ákveðin og föst fyrir, því er einfaldlega öfugt farið, hún er óákveðin og laus. Fólk er ekki búið að gefast upp á Sf vegna þess að ISG sé svo "reið" heldur af því að undir hennar stjórn hefur Sf orðið stefnulaust rekald. Flokkurinn stendur ekki fyrir neitt, nema ef vera skyldi að gera ISG að forsætisráðherra. Fyrir venjulegt fólk er það vægast sagt léleg ástæða til að kjósa Sf.
Svo kristallast eiginleikar kvenna í hennar gjörðum, og einnig viðbrögðum við gagnrýni á hana. Konur hafa einfaldlega ekki hæfileika til að stjórna og taka erfiðar ákvarðanir, en túlka síðan réttmæta gagnrýni sem einelti og ómálefnilega, af því að gagnrýnin beinist að konu.
Fólk vill stefnufestu og ábyrgð, ekki rótleysi og sjálfsvorkun.
Þrándur (IP-tala skráð) 11.4.2007 kl. 11:32
Ég læt það liggja milli hluta hvað þú segir um Samfylkinguna Þrándur.
En takk samt fyrir að sýna það og sanna að við höfum rétt fyrir okkur um karlrembuleg viðhorf á sviði stjórnmála. Takk.
hee (IP-tala skráð) 11.4.2007 kl. 14:02
Það er svo skrítið að horfa upp á þennan mun og finna hvað stelpurnar eru miklu hæfari en um leið víkjandi”
Er þessi kona ennþá að kenna????? Er hún hæf til þess??? Það stórlega efast ég um. Það er eitthvað mikið að svo mikið er víst.Örvar Þór Kristjánsson, 12.4.2007 kl. 10:27
Töpum okkur ekki alveg hérna Örvar og co.
Iðunn segir einmitt þetta í greininni: "Það er að sjálfsögu ekki hægt að alhæfa og segja: Strákar eru svona og stelpur hinsegin..." Auk þess gengur stelpum að jafnaði betur en strákum í grunnskólanámi, sem er væntanlega það sem Iðunn er að vísa í. Og er að sjálfsögðu eitthvað sem við eigum að bregðast við, alveg eins og t.d. sú staðreynd að stelpum sjá sjálfar sig síður fyrir sér sem stjórnendur en strákar.
Takk fyrir greinina.
Anna Pála Sverrisdóttir, 15.4.2007 kl. 01:53
Hvernig væri nú bara að hætta að tala um stelpur og stráka, og byrja bara að tala um mismunandi einstaklinga?
Það eiga allir að hafa jöfn tækifæri.
Mér finnst fáránlegt að segja að stelpur séu hæfari en jafnframt víkjandi.
Ekki segja að það sé að sjálfsögðu ekki hægt að alhæfa en gera það svo engu að síður. Það er óréttlátt fyrir þá einstaklinga sem skera sig út úr "hefðbundu hópunum".
Hvað er að vera þægur? Er það að sitja alltaf, gera eins og manni er sagt, og tala aðeins þegar það er talað við mann?
Sjá blogg um þetta málefni á: http://hafthorarinsson.bloggar.is
Hafthorarinsson (IP-tala skráð) 17.4.2007 kl. 14:12
Skemmtilegar umræður, takk öllsömul.
Fyrstu viðbrögð mín við grein Iðunnar voru: " Nei, enn gaman að heyra í kennara sem ekki er strákasleikja", því það hefur verið talað svo mikið um strákana og hvað strákar eigi bágt í skólunum að halda mætti að eitthvað mikið væri að stelpunum og skólunum að fara svona með þá. Hvers eiga stelpurnar að gjalda ? Það er sjaldan talað jákvætt um eiginleikann sem gagnast svo vel í skóla, hæfnina til að læra. Margir leyfa sér að segja, og þar á meðal sumir kennarar, að stelpur séu leiðinlegri en strákar. Slík viðhorf hafa sín áhrif og margir foreldrar hefðu mátt taka stelpurnar sínar úr skóla vegna þeirra. Niðurstöður prófa eru einungis lítill hluti þess sem krakkar taka með sér úr skólanum.
Það vekur viðbrögð að Iðunn notar svolítið jákvæðari orð um stelpur og neikvæðari um stráka en tíðkast hefur í umræðunni undanfarið. Mér sýnist flestir kannast við það sem hún lýsir en líki ekki orðalagið. Fólk er fljótt að fara að passa upp á strákana.
Og þar stendur hnífurinn í kúnni. Það tíðkast ekki að tala eins um konur og karla og konur og karlar mega ekki tala eins. Það er svo sem alveg vitað.
Og viljum við eitthvað breyta þessu? Stundum held ég t.d. að Ingibjörg Sólrún fái slatta af mínusum með plúsunum þegar einhver sæmilega venjulegur karl fellur í skuggann af henni. Sérstaklega ef hún gerir smágrín á kostnað hans. Hroki Ingibjargar ? Það voru svo margir fegnir þegar hún hjólaði í Davíð. Kannski hafa fáar konur séð syni sína eða eiginmenn í honum. En karlarnir núna eru ekki eins árásargjarnir og þá finnur fólk sig strax knúið til að fara að passa þá. Stelpur og konur verða bara að þola það að koma í annað sætið, þær eru líka svo vanar því.
Það er aldrei að vita nema karlpeningurinn brotni niður ef stefnt er að algjöru jafnrétti og það væri ekkert gaman fyrir okkur kerlingarnar, við þyrftum þá bara að passa ennþá fleiri en nú !
Ingiríður Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 18.4.2007 kl. 18:37
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.