Karlaslagsíða á fjölmiðlum

eftir Svanfríði Jónasdóttur

Einungis 12-18% íþróttafrétta á Íslandi fjalla um konur!

Þriðja hver íþróttafrétt í Evrópu fjallar um knattspyrnu karla! Einungis 12-18% íþróttafrétta á Íslandi fjalla um konur! Hlutur kvenna í erlendum íþróttafréttum sem sýndar eru hér á landi er mun hærri en í innlendum íþróttafréttum!

Þetta og margt fleira hefur evrópska verkefnið „Sports, Media and Stereotypes“ eða ,,Íþróttir, fjölmiðlar og staðalímyndir“ leitt í ljós en niðurstöður þess voru kynntar í upphafi síðasta árs.
Mér fannst við hæfi að rifja þetta upp þegar ég sá frétt um að Páll Magnússon útvarpsstjóri og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra hefðu nú loks undirritað samning um það að RÚV beri að gæta jafnræðis kynjanna, í umfjöllun um íþróttir og íþróttaviðburði.
Það er hluti skilgreiningar á útvarpsþjónustu í almannaþágu. Samningurinn tekur gildi 1. apríl næstkomandi og er til fjögurra ára. Í honum er kveðið á um að uppfylltar séu menningarlegar, lýðræðislegar og þjóðfélagslegar þarfir íslensks samfélags með sem hagkvæmastri tækni, eins og þar segir.
Hugsa sér að það skuli þurfa sérstakan samning um það að ríkisútvarpið gegni þessu lýðræðislega hlutverki. Lengra erum við ekki komin.
Ljóst er að stórlega hallar á hlut kvenna þegar litið er til íþróttafrétta. Markmið verkefnisins „Sports, Media and Stereotypes“ var ekki einungis að leiða í ljós þann mun sem væri til staðar heldur einnig að leita leiða til að breyta því ástandi sem fyrir er.

Því var unnið, samhliða rannsókninni, fræðsluefni sem er ætlað íþróttafréttamönnum, íþróttakennurum og þjálfurum. Fræðsluefnið er gefið út á margmiðlunarformi. Markmið fræðsluefnisins er að hvetja til breytinga á birtingamyndum kynjanna í íþróttum og íþróttafréttum með því að vekja athygli á áhrifum einsleitrar endurspeglunnar af íþróttakonum og körlum.

Íþróttafréttamennirnir hafa því aðgang að góðu fræðsluefni nú þegar þeim verður gert að vinna öðruvísi en hefðin og vaninn segja þeim og er þá vonandi ekkert að vanbúnaði að segja meira frá hinum helmingi landsmanna.

Uppáhalds íþróttagrein Svanfríðar er sund sem hún stundar á hverjum morgni, í öllum veðrum. Sem unglingur átti hún laugarmet í 100 metra bringusundi í gömlu Kópavogslauginni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Himnasmiður

Hverjir fylgjast helst með íþróttum?

Með hvaða íþróttum fylgjast þeir?

Himnasmiður, 5.4.2007 kl. 21:25

2 identicon

Ertu að segja að fjölmiðlar eigi ekki að taka mark á framboð-eftirspurn lögmálum markaðsins? Þjóðin þarf fyrst að fá jafn mikin áhuga á íþróttum kvenna áður en markaðurinn fer að endurspegla það (og hann myndi gera það sjálfkrafa um leið og slíkur áhugi yrði til staðar). Eiga karlmenn að væla yfir því að vera ekki helmingur þeirra sem koma fram í tískuþáttum? Á að þvinga slíkum hlutföllum þar? Jafnrétti er að allir einstaklingar hafi sama frelsi til þess að fara eigin leiðir í lífinu. Jafnrétti er ekki að þvinga kynin til þess að vera nákvæmlega eins og hafa öll hlutföll 50/50.

Geiri (IP-tala skráð) 6.4.2007 kl. 02:38

3 Smámynd: Himnasmiður

Tók einhver annar en ég eftir því að það var klár gender-bias í Sex and the City? Hefðu augljóslega átt að vera tvær konur og tveir karlar.

Himnasmiður, 6.4.2007 kl. 08:57

4 Smámynd: Laufey Ólafsdóttir

Því miður er þetta vandamál ekki bara í fréttaflutningi heldur í íþróttaiðkun kvenna almennt. Kvenfólk fær litla sem enga hvatningu til að stunda íþróttir og margar íþróttagreinar eru aðeins með karladeildir. Eigandi 2 dætur veit ég alveg um hvað ég er að tala en það er ákaflega lítil virðing borin fyrir íþróttaiðkun kvenna almennt, bæði innan félaganna og í fjölmiðlum. Kvennalið fá líka lægri styrki og... eins og segir í grein Svanfríðar, minni umfjöllun. Kæru Himnasmiður og Geiri, er ykkur ómögulegt að skilja að það er kannski ástæða fyrir þessum litla íþróttaáhuga kvenna?

Laufey Ólafsdóttir, 6.4.2007 kl. 10:53

5 Smámynd: Inga Lára Helgadóttir

Mig langar aðeins að koma með eitt komment, en er ekki í lagi að sé einhverstaðar af einhverjum ástæðum kynjamunur ? Ég hafði td. gaman af því að horfa á NBA leikina hér áður í körfu, ekki mundi ég nenna að horfa á konur í körfubolta en er sjálf ekki á því að karlar eigi að vera æðri konum. Eru þessi jöfnuðarmál milla kynja ekki aðeins komnar út í öfgar hér ?

Karlar fá ekki að ganga með börn eða fæða þau, er það ekki nokkuð ósanngjarnt ? Mér finnst þetta alveg jafn hallærislegt

Inga Lára Helgadóttir, 6.4.2007 kl. 18:42

6 Smámynd: Laufey Ólafsdóttir

Þótt einhverjum þyki skemmtilegra að horfa á karla en konur í körfubolta þá eiga körfuboltakonur sama rétt á að um þær sé fjallað í fjölmiðlum og körfuboltakarlmenn. Hvað fólk svo kýs að horfa á er þeirra mál.

...og, ef karlmenn gætu gengið með og alið börn, það væri frábært!

Laufey Ólafsdóttir, 6.4.2007 kl. 19:20

7 Smámynd: Hammurabi

Réttur fólks til að um það sé fjallað í fjölmiðlum, hvar grófstu upp þann rétt. Gefum okkur rökfærslunnar vegna að sá réttur sé til. Hafa fatlaðir þá ekki þann sama rétt. Jafnvel mætti ganga svo langt og segja að þeir sem eru lélegir í íþróttum, en iðka þær samt, hafi rétt á því að þeirra "afrekum" sé gert góð skil.

Hammurabi getur skrifað undir það að fjölmiðlar eigi að gæta jafnréttis í umfjöllun sinni, hvað varðar kyn. Það á ekki að þýða að fyllsta jafnræðis sé gætt í hverjum dagskrárlið fyrir sig. Íþróttir eru bara ekki fyrir konur, þær hafa fæstar áhuga á honum og þær sem það hafa geta ekkert í þeim. Tökum dæmi um íþróttir þar sem líkamlegt atgerfi skiptir ekki máli svo sem skák og bridge. Hversvegna eru þær lélegri en karlkynið þar. Þar fá þær, í bullandi mótsögn við allt sem gæti kallast jafnrétti, að keppa í eigin riðlum og keppnum. Þannig er auðveldara fyrir konu en karl að fá verðlaun í bridge og skák.

Jafnrétti í íþróttum væri að sjálfsögðu að konur kepptu við karlmenn á jafnréttis grundvelli. Að komast í landslið kvenna í íþrótt krefst lítils annars en að stunda þá íþrótt frá æsku, og fara sparlega með nammið. Að ná árangri sem karlmaður í íþrótt krefst þess, auk hæfileika. Það nennir engin að horfa á íþróttir kvenna vegna þess að þar er ekki um neinn árangur að ræða, einungis áhuga.

Konur hafa svo ýmsa kosti fram yfir karlmennina, þó íþróttir séu ekki fyrir þær. Þessir kostir munu vafalaust líta dagsins ljós á næstu árum, enda er mikið verið að rannsaka svona konu eitthvað. 

Hammurabi, 7.4.2007 kl. 03:05

8 Smámynd: Laufey Ólafsdóttir

Já já, og Venus og Serena Williams alltaf eitthvað að dunda sér eitthvað í tennis og svona... Flo Jo skokkandi eitthvað hring eftir hring á sínum tíma... Vala Flosa eitthvað hoppandi útum allar tryssur. það er ekkert vit í að styrkja svona lagað! Konur hafa engan metnað í slíkt og eiga að vita sín mörk

...ég hef bara eina spurningu... UNDAN HVAÐA STEINI SKREIÐST ÞÚ???   Velkominn á nýja öld kæri vinur!

Laufey Ólafsdóttir, 7.4.2007 kl. 04:06

9 Smámynd: Laufey Ólafsdóttir

Nema auðvitað þú hafir verið að grínast... sem hlýtur að vera málið

Laufey Ólafsdóttir, 7.4.2007 kl. 04:18

10 Smámynd: Himnasmiður

Það er bara svo vandræðalegt að horfa á konur spila karlmennskuíþróttir. Handbolti, fótbolti og körfubolti t.d., konurnar virðast alltaf vera nýbúnar að læra leikinn miðað við karlana. Hver nennir að fylgjast með því?

Himnasmiður, 7.4.2007 kl. 10:11

11 Smámynd: Laufey Ólafsdóttir

Sumum er ekkert við bjargandi, sjá bara heiminn úr eigin... holu, hvernig sem hver kýs að skilgreina það.

Laufey Ólafsdóttir, 7.4.2007 kl. 11:01

12 Smámynd: Einar Ben

Svona er kynjaskiptingin boltaíþróttum á íslandi í dag, er þá nokkur furða að meira sé fjallað um þeir greinar sem vinsælastar eru, það er alþekkt staðreynd að knattspyrna karla er útbreiddasta og vinsælasta íþróttagrein í heimi. 

Fótbolti.

Karlar Íslandsmót 4 deildir, og í neðstu deild eru 4 riðlar.
Konur  Íslandsmót 2 deildir og í neðri deildinni eru 2 riðlar.

Karlar Lengjubikar, 3 deildir með í allt 9 riðlum
Konur Lengjubikar, 3 deildir með í allt 3 riðlum.

Svona er skiptingin á íslandsmótum þessara greina í meistaraflokki.

Fótbolti. 

kk 61 lið 
kvk 25 lið 

Handbolti.

kk 16 lið
kvk 17 lið

Karfa

kk 44 lið
Kvk 15 lið

Það sem vekur athygli er að það séu fleiri kvennalið í handboltanum en karla, og vil ég meina að þar hafi fjölmiðlar staðið sig vel í umfjöllun um kvennahandboltann, og að stelpurnar hafi fengið síst minni umfjöllun en karlarnir. Hef að vísu enga tölfræði um það, kannski einhver annar geti svarað því.

Þetta snýst allt um framboð og eftirspurn, ef blöðin einn daginn tækju sig til og fjölluðu einungis um boccia aldraðra í stað knattspyrnu, er ég ansi hræddur um að áhuginn á lestri þeirra blaða myndi dvína umtalsvert.

Danir hafa í fjölda ára átt eitt besta kvennalandslið í heiminum í handbolta, og félagsliðin þeirra hafa eins staðið sig mjög vel í evrópu keppnum, umfjöllun danskra fjölmiðla um stelpurnar hefur verið stórgóð og mjög mikið gert úr árangri þeirra.

Þannig að þessi umæli um að það sé gert upp á milli kynjanna í fjölmiðlaumfjöllun á ekki við rök að styðjast, þetta snýst um framboð og eftirspurn.

Allir vita hvað stendur í séð og heyrt, en "enginn" kaupir það, samt er það bullið sem þar er skrifað, lesið og blaðið selst, hver er sökudólgurinn á að svona innihaldslaus blöð komi út út um allan heim, og ganga nokkuð vel?

Er það sá sem gefur út eða sá sem kaupir og les, ég spyr hver er asninn, sá sem framleiðir eða sá sem tekur á móti með opnum örmum?

kv. af skaga.

Einar Ben, 8.4.2007 kl. 11:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundar

Trúnó
Trúnó
Trúnó er vettvangur kvenna sem aðhyllast femíníska jafnaðarstefnu

Tónlistarspilari

Brigitte Bardot - Ca pourrait changer

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband