28.3.2007 | 08:04
Eru álver fyrir konur?
eftir Arndísi Steinþórsdóttur
Undanfarin 30-40 ár hafa ungar konur flutt af landsbyggðinni til borgarinnar. Þetta er ekkert einsdæmi á Íslandi, sama þróun hefur átt sér stað víðast hvar í heiminum. Heimurinn hefur verið að breytast, vélar hafa fækkað ársverkum í landbúnaði, konur hafa fengið aukið frelsi og ungar konur á landsbyggðinni hafa ekki fundið sig í hefðbundnum hlutverkum í heimabyggð. Þær hafa tekið rútuna suður og farið í framhaldsnám eða fjölbreyttari störf. Strákarnir hafa svo fylgt í humátt á eftir.
Þingmenn og sveitastjórar (70% karlar) hafa reynt að snúa þessari þróun við með því að skapa "öflugt atvinnulíf" handa kjósendum sínum á landsbyggðinni. Laxeldi, refa- og minkarækt hafa samt ekki stöðvað ungu konurnar. Þær hafa viðstöðulaust brunað í bæinn, borðað þar laxinn og klætt sig í restina. Nú eru álverin töfralausnin. Þannig á hið nýja Fjarðarál ekki einungis að fá konur ofan af því að flytja til borgarinnar heldur er talið að það muni beinlínis laða konur austur. Skyldi hugmyndin um hamingjusömu konuna sem vinnur í álveri höfða til kvenna?
Í könnun sem Fjarðarál lét Gallup gera fyrir rúmu ári kom í ljós að um 94% kvenna á Austurlandi vildu gjarna vinna í álverinu. Reyndar var hart deilt á aðferðafræðina en spurningin mun hafa verið á þessa leið "ef spennandi starf væri í boði, hefðir þú þá áhuga á að starfa hjá Alcoa Fjarðaráli?" Þrátt fyrir meintan áhuga 94% austfirskra kvenna eru aðeins 32% af starfsmönnum Fjarðaráls konur. Líklegt er að hlutfallið lækki þegar búið verður að ráða starfsmenn í framleiðslustörfin en reynsla hinna álveranna er sú að konur sækja síst í þau. Í álverinu í Straumsvík eru konur um 17% starfsmanna. Á Grundartanga eru um 16% starfsmanna konur. Það virðist því vera að þegar konur geta valið um störf þá velja þær ekki álver. Það segir manni einnig að þegar konur geta valið á milli búsetu sem býður upp á fjölbreytt störf og búsetu sem býður upp á álver þá munu þær í langflestum tilfellum velja fjölbreytnina.
Í ýmsum könnunum sem gerðar hafa verið á viðhorfum fólks til umhverfismála og til ýmissa byggðamála kemur alltaf það sama í ljós. Konur vilja fjölbreytt atvinnulíf, menningu og mannlíf, góða skóla og góða þjónustu í nærumhverfinu.
Arndís er hugsandi yfir mýtunni um hamingjusömu álverskonuna.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:13 | Facebook
Pæling dagsins
- Kvennaþing í Hveragerði 11.-12. apríl. Stjórnmálaumræður með femínískum jafnaðarkonum. Ball með ROKKSLÆÐUNNI um kvöldið. Ertu búin að skrá þig?
Nota bene
Bloggandi konur
Anna Kristjáns
Arndís Anna
Arndís Steinþórs
Ása Richards
Ásta R. Jóhannesdóttir
Björk Vilhelmsdóttir
Bryndís Ísfold
Edda Agnarsdóttir
Beta Ronalds
Erla Sigurðardóttir
Eva Bjarna
Guðríður Arnardóttir
Dagbjört Hákonard
Helga Vala
Ingibjörg Stefáns
Jóhanna
Katrín Anna
Katrín Júlíusdóttir
Lára Stefánsdóttir
Magga Stína
Oddný Sturludóttir
Ólína Þorvarðardóttir
Rósa Erlings
Sonja B Jónsdóttir
Steinunn Valdís
Svanfríður Jónasdóttir
Þorgerður Diðriks
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 1
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 4
- Frá upphafi: 106410
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 4
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Ég er eindreginn andstæðingur þeirrar kolgeggjuðu stóriðjustefnu sem nú er rekin af stórnvöldum. Hins vegar þekki ég ágætlega til álframleiðslu eftir að hafa unnið við slíkt í fyrndinni.
Þetta eru einfaldlega ekki sömu skítugu verkamannadjobbinn og var hér í den. Þriðjungur starfsmanna er háskólamenntaður, þriðungurinn með tækni- og iðnmenntun, og síðasti hópurinn er sérþjálfað lið þar sem störfin byggjast fyrst og fremst á eftirliti með framleiðsluferlinu.
Þessi störf eru vel launuð og henta ekki síst konum. Bullið og ýmyndargerðin um skítuga krímuga verkamanninn sem hrærir í glóandi málmpotti með stjöku er liðin tíð. Það er vel.
Sveinn Ingi Lýðsson, 28.3.2007 kl. 09:07
Konur hafa sömu laun og karlar í álverinu í Straumsvík. Jafnrétti kynja er algert. Álverið borgar hærri laun en bjóðast að jafnaði á almennum vinnumarkaði. Er ég að misskilja baráttu kvenna?
Kveðja Tryggvi L. Skjaldarson
Starfsmaður Alcan
Tryggvi L. Skjaldarson (IP-tala skráð) 28.3.2007 kl. 09:27
Nákvæmlega Arndís. Kannski væri nær fyrir fylgjendur álversins að upplýsa okkur um hvernig "hið mikla atvinnutækifæri" sem felst í stækkun álvers t.d. í Hafnarfirði vinnur með jafnréttisbaráttunni og jöfnum tækifærum kvenna og karla til atvinnuþátttöku. Það væri gaman að heyra talað svolítið um öll þessi tækifæri sem verða jöfn fyrir konur sem karla í ferlíkinu.
Sara Dögg, 28.3.2007 kl. 09:31
Ég gubba næst þegar ég heyri af hugmyndum eða framkvæmdum um enn eitt álverið. Svar mitt við spurningu Gallup hefði verið þvert nei. Þungaiðnaður, pappírsvinna, matseld eða þrif... einfaldlega NEI vil fleiri Álverum. Tíðindi Tryggva eru góð, en það hefur kannski meira með stjórn þess fyrirtækis að gera en iðnaðinn sem slíkan. Það mættu fleiri stjórnendur taka þetta til fyrirmyndar.
Laufey Ólafsdóttir, 28.3.2007 kl. 10:00
Sæl Sara Dögg
Hið mikla atvinnutækifæri er fólgið í að sækja um vinnu á þar til gerðu eyðublaði. Fjöldi starfa krefst háskólamenntunar eða iðnmenntunar og ófaglærðir starfsmenn eiga þess kost að sækja sérhæft starfsnám hjá fyrirtækinu.
Fyrir miskilning og/eða ókunnugleika eru margir með ranghugmyndir um störfin í álverum. Raunin er að fáir geta státað af meiri tölvu og tæknibúnaði en álver.
Kveðja Tryggvi L. Skjaldarson
Starfsmaður Alcan
Tryggvi L. Skjaldarson (IP-tala skráð) 28.3.2007 kl. 10:02
Á maður að skilja þetta sem svo að konur vilji ekki fara í framleiðslustörf eða störf sem teljast óþrifastörf? Á þar að leiðandi að skilja þetta þannig að konur vilji heldur vinna á huggulegum og hlýjum skrifstofum.
Ber að skilja þetta svo, að þróunin verði þannig í framtíðinni að karlmenn verði nær eingu í öllum erfisstörfunum á meðan konur fái störf í það sem geti kallast hugguleg og þrifaleg vinna? Viljum við hafa þetta svona??
Störf í álverum hér á landi eru vellaunuð enda eiga þau að vera það. Stefna hjá Reyðaráli er að fá sem flestar konur til að vinna þar.
Það eru merki þess að með tilkomu Reyðaráls eru farin að spretta upp afleidd störf í sambandi við þjónustu, skólar hafa batnað þar og menning og mannlíf er farin að blómstra á Fjarðarbyggðarsvæðinu. Fjölbreytni og fjölskrúðugt mannlíf hafa verið fylgisfiskar umsvifa Alcoa í Fjarðarbyggð. Nú eru t.d. komnir þrír bankar á Reyðarfirði; en þar á undan var bara einn, auk afgreiðslu annars banka sem var opinn nokkra daga vikunnar. Tilkoma þessara banka hafa t.d. skapað 20 störf á Reyðarfirði. Ég veit dæmi til að þess að ung kona frá Eskifirði sem hafði verið meira eða minna atvinnulaus þangað til 2003, stofnaði hreingeringarfyrirtæki til að þjónusta Alcoa þar og núna er hún með 40 manns í vinnu hjá sér. Þar að auki hefur ferðamannastraumur aukist mikið til Fjarðarbyggðar nú loksins þegar fólk uppgötvaði að til sé staður sem heitir Fjarðarbyggð. Hefði hún getað þetta á þessu svæði ef Alcoa hefði ekki komið???
Örninn (IP-tala skráð) 28.3.2007 kl. 11:30
Hjá Ísal eru 25% starfsmanna iðnmenntaðir, 13% háskólamenntaðir og 63% ófaglærðir.
Konur eru ekki fjölmennar í hópi rafvirkja, vélvirkja, rafeindavirkja eða í öðrum þeim iðngreinum sem helst henta til starfa í álveri.
Háskólamenntaðir starfsmenn í álverum eru flestir með menntun á sviði verkfræði og tæknifræði. Aftur eru konur í minnihluta í þessum námsgreinum, þó að þeim hafi fjölgað í verkfræðinni hin síðari ár. Örfáir eru viðskiptafræðimenntaðir eða með aðra háskólamenntun.
Þá eru eftir störf ófaglærðra. Eru það spennandi störf? Hættir fólk við að flytja sig um set út af mögulegu verkamannastarfi í álveri?
Svala Jónsdóttir, 28.3.2007 kl. 11:39
Ótengt kynjapunktinum, þá ná þessi rök um uppgang á Austurlandi vegna framkvæmdanna afar stutt.
Auðvitað verður uppgangur á landsvæði þar sem búið er að setja 200 milljarða í atvinnuþróun. Þetta er bara spurning um að velja gáfulegri kosti heldur en stóriðju.
hee (IP-tala skráð) 28.3.2007 kl. 12:25
Eru allir vissir um að álverið sé að greiða svona fín laun? Jú, heildarlaunin eru ágæt en að baki þeim liggur erfið vaktavinna og alls kyns álag vegna hennar hífir upp launin.
Ibba Sig., 28.3.2007 kl. 12:47
Sæl,Ibba Sig hjá Alcan er launajafnræði milli kynja, vinnutími er 36 stundi það er hvorki álag né erfið vinn sem hífa launin upp laun á vöktu meðalaun kvenna jafnt sem karla er um 360.000 kr Frí föt fríar ferðir og mötuneyti, geturðu bent mér á einhvern stað sem gerir betur.
Kv. Sigurjón Vigfússon Trúnaðarmaður og varaaðaltrúnaðarmaður starfsmanna Alcan
Rauða Ljónið, 28.3.2007 kl. 13:24
Til IbbuSig: Meðallaun starfsfólks í framleiðslu í álverum eru ca. 430 þús. á mánuði og þá er allt talið með.
Til Hildar: Þessir 200 mia.kr. sem settir hafa verið í álversdæmið eru ekki úr ríkissjóðir, heldur leggur Alcoa 100 mia.kr. og Landsvirkjun aðra 100 mia.kr. sem teknir eru að láni en síðan endurgreiddir á 30 árum með hluta af þeim fást fyrir orkusöluna þannig að Alcoa er reyndar að borga fyrir byggingu Kárahnjúkavirkjunina.
Sannleikurinn er reyndar sá, að enginn var einfaldlega tilbúinn að leggja fé í atvinnuuppbyggingu á Austurlandi nema Alcoa og Landsvirkjun - ekki voru það auðmennirnir hér á landi, eða Marel, eða Actavis, eða Össur, eða....... osv.frv.
Spurningin er; afhverju ættu konur ekki að vinna í álveri??? - það er t.d. kona sem er forstjóri eins af álverunum hér á landi......
Örninn (IP-tala skráð) 28.3.2007 kl. 13:50
Ef meðallaun hjá Alcan eru 360.000 en meðalllaun í álverum á landsvísu 430.000, hljóta meðallaun á Grundartanga að vera 500.000. Önnur hafa ekki tekið til starfa.
Þetta er miðað við tölur í athugasemdum Rauða ljónsins og Arnarins.
Björgvin Valur (IP-tala skráð) 28.3.2007 kl. 17:20
Það eru nokkuð margar konur í stjórnendastöðum og á skrifstofu ÍSAL. Þá er þetta eitt af fáum fyrirtækjum á Íslandi sem gefið hefur út sérstaka jafnréttisáætlun. Get ekki séð annað en þarna séu mjög vönduð vinnubrögð í gangi. Hef ekki kynnt mér hvernig þetta er hjá hinu álverinu sem er í gangi á Íslandi eða hjá Alcoa. Einn kosturinn við þessi alþjóðlegu fyrirtæki er að þau koma með agaða starfshætti inn í íslenska atvinnumenningu, sem mörg íslensk fyrirtæki mættu vera duglegri að taka sér til fyrirmyndar.
Sigurður J. (IP-tala skráð) 28.3.2007 kl. 17:44
Hmm.. Greinilegt að Örninn er ekki innfæddur Austfirðingur... nema hann sé svona ílla að sér varðandi Fjarðabyggð... Smá leiðrétting hérna..
Nr 1. Það voru 3 bankar á Reyðarfirði áður en Alcoa/Fjarðaál kom .. Gatan sem bankarnir voru allir við var stundum í gamni kölluð "Wall street" ( Landsbankinn var áður til húsa þar sem skrifstofa Alcoa er núna )
Nr 2. Álverið heitir ekki Reyðarál.. Það heitir Fjarðaál.. En er á Reyðarfirði..
Nr 3. Þessi unga kona frá Eskifirði sem stofnaði hreingerningarfyrirtækið heitir Lára og er á fimmtugsaldri síðast þegar ég vissi.. með atvinnuleysið veit ég ekki, enda hafa allir sem vilja vinna verið með vinnu á Austurlandi áður en Fjarðaál / Alcoa kom.. Störfin voru kanski ekki fjölbreytt..
Með vinsemd..
Innfæddur Fjarðabyggðabúi.. :)
Innfæddur Fjarðabyggðabúi (IP-tala skráð) 28.3.2007 kl. 19:20
Meðallaun félagsmanna í Rafiðnaðarsambandinu við álverið á Grundartanga eru undir meðallaunum félagsmanna í Rafiðnaðarsambandinu almennt. Það getur því varla verið að launin á Grundartanga séu að hífa landsmeðaltalið upp. Fyrir utan að þar er starfsmannavelta afar ör sem bendir til lítillar ánægju starfsmanna.
Það er rétt að alls staðar þar sem 200 milljörðum er eytt verður uppgangur á meðan. Það er hins vegar fáránlega há upphæð til að skapa 200 störf - milljarður á hvert starf!
Það er líka rétt að þetta eru peningar sem stjórnvöld þurftu ekki að leggja út með beinum hætti. Þau þurftu hins vegar að gangast í ábyrgð fyrir framkvæmdinni og hún er framkvæmd af ríkisfyrirtæki svo auðvitað er þetta bara ríkisaðgerð.
Ef stjórnvöld hefðu haft hug og dug til þá hefðu þau getað sett brot af slíkum peningum í sjóð sem hefði haft þann tilgang að fjárfesta annars vegar í innviðum samfélagsins fyrir austan og hins vegar í nýsköpun og þróun atvinnulífsins t.d. með milljón á móti milljón hugsuninni. Það hefði verið hin sanna Landsvirkjun.
Hvað varðar spurninguna um konur og álver þá virðist mér þeirri spurningu hafa verið svarað afdráttarlaust - um 17% kvenna vilja vinna í álveri. Stór hluti þeirra vinnur þar hefðbundin kvennastörf sem eru eins störf og í hvaða öðru fyrirtæki sem er - mötuneyti, símsvörun, bókhald ofl. þ.h. Álið er ekki málið þegar kemur að konum.
Dofri Hermannsson, 29.3.2007 kl. 00:24
Voðalega er Dofir eitthvað alla að sér í tölum, og hann sem er stjórnmálamaður. Ef samherjar hans í stjórnmála er eins illa að sér í tölfræði, þá bara Guð hjálpi Íslensku þjóðinni!
Það verða ekki 200 störf til á Austurlandi vegna álversins heldur ca. 400 í byrjun og 500-550 þegar álverið er komið á fullan skrið. Afleidd störf er ca. tvöfalt-þrefalt fleiri allt eftir þróun mála.
Til Fjarðarbyggðarmannsins: Er er gammal Fjaðrabyggðarbúi, svo það getur verið að minnið sé farið að förlast, en ég veit að mikið atvinnuleysi var meða kvenna þar FYRIR árið 2003.
Svo til að allra sem hafa á móti störfum í álverum; voðalegt snobb er þetta í ykkur - hvað er að verkamannastörfum???? Það eru störf eins og hver önnur störf - skammist ykkar!!! Mörg ykkar eru örugglega Vinstri-Græn sem kenna sig við jöfnuð, þvílík mótsögn í ykkur.
´Örninn (IP-tala skráð) 29.3.2007 kl. 11:42
Ég var ekki að hæla Grundartanga með þessum tölum heldur var ég að benda á hversu fjarstæðukenndar 430.000 krónurnar í kommenti Arnarins eru.
Björgvin Valur (IP-tala skráð) 29.3.2007 kl. 13:46
Örninn, það er misskilningur ef þú heldur að ef maður mótmæli stóriðjuáformum sem framtíðaratvinnustefnu þá sé maður snobbaður eða líti niður á verkamannastörf.
Það verða alltaf einhverjir að vinna verkamannastörf sem eru jafn heiðarleg og hver önnur. Við viljum hins vegar mörg hver byggja framtíðina á þekkingarhagkerfi og möguleikum fyrir menntað vinnuafl. Bæði er það menntunarhvetjandi og kemur í veg fyrir atgervisflótta. Eða hvað á menntað fólk að gera þegar lítið er í boði annað en verkamannastörf? Og er ekki traustast að styrkja bæi og byggðarlög úti á landi með því að auka tækifæri íbúa þeirra á að sækja sér menntun og fá vinnu í samræmi við hana?
hee (IP-tala skráð) 29.3.2007 kl. 16:39
Athyglisvert hvað feministum virðist uppsigað við verkamannastörf og tilhugsunina um að konur leggist svo lágt að vinna óþrifastörf veldur þeim greinilega klígju og sálarkvölum. Þarf ekkert að jafna hlutföll í óþrifastörfum? Þarf ekki jákvæða mismunun þegar kemur að subbulegum störfum þar sem hætta er á að nögl brotni.
Furðuleg fyrirbæri þessir feministar, vælandi öllum stundum um karlaveldi og misrétti, en ef þeim er boðið í hópinn þá fytja gerpin uppá nefið og fussa og sveija, það var nefnilega aldrei ætlunin að vera með þessum hóp skítugra launþega, þær vilja allar fá að vera í dragt, telja peninga og klóra sér í buddunni milli þess sem þær sitja þing um hrikalega áþján þess að þurfa að burðast með leg, eða blaða í gegnum píkusögur og moggablogg.
En það er misskilningur pistlahöfundar, eða sjálfsblekking, að konur farið "suður" í leyt að fjölbreytni og menningu. Konur fara "suður" til að finna betri fyrirvinnu, því þær vilja ekki hafa fyrir lífinu, girls just wanna have fun!!
Þrándur (IP-tala skráð) 31.3.2007 kl. 02:12
Þótt þú leggist svo lágt að kalla mig gerpi ætla ég samt að árétta eftirfarandi við þig:
Þegar ég tala um heilbrigðari atvinnustefnu með áherslu á menntun er ég að meina bæði fyrir karla og konur. Þú gerir þér grein fyrir því er það ekki?
Það er oft talað um að jafna hlutföllin í stjórnunarstöðum og uppeldisstöðum. En á sama hátt og ekki er barist fyrir því að konum fjölgi í verkamannastöðum í álverum þá er heldur ekki talað um mikilvægi þess að körlum fjölgi í býtibúrum og ræstingum. Hvort tveggja eru vitaskuld heiðarleg störf og vanmetin, en þú getur að minnsta kosti ekki kvartað undan ósamræmi þarna!
hee (IP-tala skráð) 4.4.2007 kl. 00:20
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.