Fjórðungsjafnrétti

eftir Kristínu Atladóttur

Tveir hópar skipta með sér völdum. Í hópunum eru jafn margir einstaklingar og allir einstaklingar jafnir gagnvart lögum og rétti. Við ákvarðanatöku og stjórnun eru það 75% einstaklinga úr öðrum hópnum sem hafa eitthvað um hlutina að segja en 25% úr hinum. Samt telur fólk jafnræði ríkja meðal hópanna.

Það er afar merkilegt að í samantektum um hlutfall kynja í stjórnun og við ákvarðanatöku, sem og við kringumstæður þar sem gæðum og völdum er útdeilt, er kynjaskiptingin undantekningarlítið 17-24% konur á móti 76-83% körlum. 

Aftur og aftur, æ ofan í æ staðfestist að á Íslandi ríkir fjórðungsjafnrétti.

,,Réttindi kvenna hafa færst fram um ljósár” sagði Jakob Frímann Magnússon í Silfri Egils fyrir tveimur árum í aðdraganda formannskjörs Samfylkingarinnar.

Ekki er ég viss um að hún amma mín, sem barðist fyrir kosningarétti kvenna og stofnaði fyrsta verkakvennafélag landsins fyrir rétt tæpum 100 árum síðan, væri honum sammála. Vissulega myndi hún gleðjast yfir því að á árinu 2007 myndu konur standa sig almennt betur í námi en karlar og nálgast það að verða sá helmingur samfélagsins sem betur er menntaður.

En hvernig ætti ég að útskýra fyrir henni hlut kvenkyns stjórnenda í atvinnulífinu? Kynbundinn launamun? Hlutfall kvenna í stjórnum og ráðum, hvort sem er í einkageiranum eða hjá hinu opinbera?

Mér væri það ekki fært enda málið í raun óskiljanlegt.

Það mætti halda að mönnum þyki sem jafnrétti kynjanna eigi að komast á smám saman og algjörlega af sjálfu sér. Samfélagið þarf einungis nokkrar aldir í viðbót og þá smellur þetta hjá okkur. Þrátt fyrir misrétti í launum og stöðuveitingum höfum við náð þokkalegasta árangri.

Þetta er afstaða þeirra sem valdið hafa og vilja síður deila því. Þetta er afstaða þeirra sem telja fjórðungsjafnréttið boðlegt og ásættanlegt.

Kristín er kvikmyndargerðarkona og búsett í Reykjavík.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mikið ofboðslega er þetta heimskulegur pistill.  Nú á að skipa konur í stjórn hlutafélaga þó svo þær eigi ekki svo mikið sem eitt hlutabréf í félaginu, eða hvað?  Ætli eigendur kæri sig um að fyrir þeirra hönd, við stefnumótun og til að tryggja hagsmuni eigendanna, sitji manneskja sem hefur enga hagsmuni af því að hagur eigendanna sé tryggður?

Mér er til efs að pistlahöfundur hafi svo mikið sem hundsvit á hvaða hlutverki stjórnir hlutafélaga eiga að gegna samkvæm lögum um hlutafélög, eða hvað sömu lög um hlutafélög segja hvernig eigi að kjósa í stjórnir þeirra.  Slíkur er vanþroskinn og heimskann sem einkennir þennan pistil.

Það vita það allir sem eitthvað vita á annað borð um markaðsöflin og samkeppni, að félag sem gerir sér það að leik að borga hærra verð fyrir sín aðföng en það þarf, fer lóðbeint á hausinn.  Einstaklingur kaupir ekki vöru fyrir 100 kall ef hann getur fengið nákvæmlega eins, eða betri vöru á 80 krónur.  Það gera atvinnurekendur ekki heldur.  Ef feministar eru svo sannfærðir um að til sé eitthvað sem hægt er að kalla "kynbundinn launamun" þá ættu þær að spyrja sig af hverju konur eru almennt verri vinnukraftur en karlar, ekki að spinna upp einhverja lygaþvælu um reykfyllt bakherbergi og glerþök.

Ástæðan fyrir því að þessi umræða er á villugötum er kjarkleysi þeirra sem ekki þora að horfast í augu við staðreyndir, en jarma og grenja öllum stundum yfir ímynduðu óréttlæti, eins og pistlahöfundur er frábært dæmi um. 

Þrándur (IP-tala skráð) 28.3.2007 kl. 01:07

2 identicon

Sæl Elísabet,

Það er greinilegt að þú hefur ekki skilning á hugtakinu "jafnrétti", frekar en svo margir sem tjá sig um þetta málefni, meira af kappi en viti.

Hugtakið "jafnrétti" fjallar um einstaklinga, ekki hópa.  Það liggur í orðinu að allir einstaklingar njóta jafns réttar.  Kosningar þar sem eitt atkvæði konu/svertingja/homma hefur jafn mikið vægi og eitt atkvæði karls/forstjóra/konungs er t.d. dæmi um hið fullkomna jafnrétti, þ.e. réttindin eru einstaklingsins, ekki hópsins sem einstaklingurinn telur sig tilheyra, eða einhverjir besserwisserar vilja að einstaklingurinn tilheyri.  Þannig er það EKKI dæmi um jafnrétti að kona fái forgang umfram karl fyrir það eitt að vera kona, það er klárt dæmi um misrétti þar sem einn einstaklingur nýtur þess að vera hluti af hóp, en annar einstaklingur geldur fyrir það að vera hluti af hóp.

Þegar þú hefur öðlast grundvallarþekkingu á mannréttindum og rétti einstaklingsins í þjóðfélaginu til að fá að njóta sín sem einstaklingur, án þess að vera dregin í dilka fyrir kynferði sitt, litarhátt, kynhneigð eða trú, þá skal ég eyða dýrmætum tíma mínum til að ræða við þig sem viti borna manneskju.  Eins og staðan er í dag, þá áttu langt í land að svo verði.

Þrándur (IP-tala skráð) 29.3.2007 kl. 01:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundar

Trúnó
Trúnó
Trúnó er vettvangur kvenna sem aðhyllast femíníska jafnaðarstefnu

Tónlistarspilari

Brigitte Bardot - Ca pourrait changer

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband