Kynbundinn launamunur og "frelsi einstaklingsins"

eftir Örnu Einarsdóttur

Í Kastljósi gærkvöldsins tókust Oddný Sturludóttir, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar og Heiðrún Lind Marteinsdóttir, laganemi, á um kynbundinn launamun.

Heiðrún Lind gerðist svo brött að halda því fram að launamunur kynjanna væri í raun enginn. Hún hélt því fram að vísindakannanir væru ófullkomnar og að það hlyti að vera önnur ástæða fyrir þessum 15-20% mun sem iðulega kemur fram. Ég veit ekki hvers vegna hún leggur í þennan leiðangur en mér dettur ekki í hug að horfa fram hjá vísindum út af illa rökstuddri skoðun einnar konu, þó svo að kannanir séu aldrei fullkomnar.

Oddný gerði grein fyrir máli sínu á afar málefnalegan og skýran hátt og gerði okkur þann greiða að leiðrétta nokkuð útbreiddan misskilning þegar kemur að launaleynd.

Að aflétta launaleynd er að tryggja rétt einstaklingsins til þess að ræða um laun sín EF einstaklingurinn hefur áhuga á því. Að aflétta launaleynd segir ekkert um að opinbera öll laun eða að einstaklingar verði að gefa upp laun sín við hvern sem er. Hins vegar má hann það, ef hann vill!

Að mínu mati eru þetta sjálfsögð mannréttindi sem snúa að frelsi einstaklingsins, eins og Oddný benti réttilega á. Launaleynd hins vegar heimilar fyrirtækjum að banna starfsfólki að gefa upp laun sín eða ræða sín á milli. Þar hallar nú heldur betur á frelsi einstaklingsins, sem Heiðrún Lind og félagar hampa þó iðulega sem sinni helstu pólitísku lífssýn.

Ég get nefnt dæmi af eigin reynslu:

Sem stendur starfa ég hjá ríkisspítölum og er blessunarlega laus, að ég tel, við kynbundinn launamun. Þrjú sumur, 1997-1999, starfaði ég hins vegar við rannsóknir hjá stóru fyrirtæki.
Þriðja sumarið safnaði ég kjarki og bað um launahækkun í ljósi reynslu. Ekki var orðið við þeirri beiðni, með þeirri skýringu að sumarstarfsfólkið væri allt á sömu launum.
 
Félagi minn úr háskólanáminu fékk starf við svipaða rannsóknarvinnu og ég þetta sumar. Mér sárnaði ekki lítið seinna um sumarið þegar ég komst að því að hann hafði fengið talsvert hærri laun en ég. Við vorum jafnlangt komin í okkar grunnnámi. Það eina sem skildi okkur að var að ég var kona og hafði tveggja sumra lengri starfsreynslu en hann, sem var nýr.

Ég má teljast langrækin en ég hef aldrei getað gleymt þessu vegna þess að mér fannst á mér brotið. Í fyrirtækinu ríkti launaleynd sem varð til þess að ég þorði aldrei að kvarta undan þessu misrétti. Þetta var eitthvað sem ekki mátti ræða og mér leið og eins sakamanni að hafa komist að sannleikanum. Vitanlega var fyrirtækið einfaldlega að mismuna okkur.

Þetta dæmi er fullkomlega óvísindalegt í stærra samhengi en engu að síður persónuleg reynsla sem styrkti mig í minni trú á jafnréttisbaráttuna. Að halda því fram að ekki þrífist kynbundinn launamunur í okkar samfélagi er ekkert annað en sorgleg afneitun í ljósi þeirra ótal vönduðu kannanna sem fyrir liggja.

Með því að aflétta launaleynd leysum við ekki allan vandann en það er sannarlega skref í rétta átt. Og þar tala ég af eigin reynslu.

Arna er læknir og treystir Samfylkingunni best til að leiðrétta kynbundinn launamun. Það gerðu Samfylkingarkonur í Reykjavíkurborg í tíð R-listans. Næst á dagskrá er landið allt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: birna

Ef þessar kannanir eru ófullkomnar, hversvegna er niðurstaðan þá aldrei að konur séu með hærri laun er karlar ?

birna, 22.3.2007 kl. 16:29

2 Smámynd: LM

Það er örugglega mjög auðvelt að fá út að konur hafi 20% hærri laun en karlar, bara velja réttu parametrana.  Rétt eins og Oddný kaus í þessu umrædda viðtala að halda sig við kannanir sem ignora parametra eins og raunverulega ábyrgð og faglega reynslu.

LM, 22.3.2007 kl. 21:53

3 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

LM...blablabla!

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 22.3.2007 kl. 22:04

4 Smámynd: Karl V. Matthíasson

Ég hef aldrei skilið þessa launaleynd - hún er bara til að ala á tortryggni og ósamstöðu meðal fólks og stuðla að launmisréttti ekki síst kynbundnum. Liggur það ekki augum uppi og af hverju ættu menn að þurfa að fela hvað þeir eru með í kaup?

Takk fyrir þessi skrif Arna þau eru góð.

Kalli Matt

Karl V. Matthíasson, 22.3.2007 kl. 23:02

5 Smámynd: Tómas Þóroddsson

Góð grein hjá þér Arna. 

Misskilningur hjá mörgum að aflétta launavernd sé "að ekkert fái maður að hafa í friði " Að aflétta launavernd er frelsi.

LM þú vilt ekki koma undir fullu nafni, er það? 

Tómas Þóroddsson, 22.3.2007 kl. 23:21

6 Smámynd: Sigurður Ásbjörnsson

Ingibjörg Elsa skrifaði þessa færslu á sína síðu fyrir skömmu:

Að aflétta launaleyndEinu sinni var ég að vinna í einkafyrirtæki þar sem karlmennirnir við hliðina á mér voru með talsvert hærri laun þótt við værum að vinna svipuð störf. Í fyrirtækinu ríkti launaleynd. Ég fattaði hins vegar ekki að karlmennirnir væru með hærri laun fyrr en þeir fóru að kaupa sér einbýlishús og bíla en ég bjó ennþá í lítilli blokkaríbúð og tók strætó. Ég skynjaði að eitthvað var undarlegt á seyði en ég gat ekki sannað eða staðfest að eitthvað væri að. Síðan gerðist það fyrir tilviljun að ég sjá ljósrit af launalistum sem kærulaus ritari hafði skilið eftir á ljósritunarvélinni. Þá sá ég að karlmennirnir sem voru að vinna svipuð störf og ég voru með allt að 200 þús. hærri laun á mánuði. Ég hætti að vinna í fyrirtækinu skömmu síðar.

Sigurður Ásbjörnsson, 23.3.2007 kl. 00:38

7 identicon

Ég er nú karlkyns og hef lent í því sama og þú.

Ég var að vinna í afgreiðslustarfi eitt sumarið á bensínstöð. Ég hafði reyndar verið að vinna smá hjá sama fyritæki með skólanum um veturinn. Um sumarið bað ég um launahækkun en var neitað af sömu ástæðu og þér var neitað. Seinna komst ég að því að stelpa, yngri en ég og komin styttra í skóla(ef það hefur skipt máli), var með töluvert hærri laun en ég.

Lífið er bara svo ótrúlega  ósanngjarnt.

Reyndar held ég að ég hafi verið fórnalamb kynjamisréttis. Bæði stöðvarstjórinn og starfsmannastjórinn á þeim tíma voru kvennkyns og þegar vinkona mín bað um launahækkunina var það "ekkert mál".

Jóhann (IP-tala skráð) 23.3.2007 kl. 01:04

8 identicon

Það er rétt að ef til vill þyrfti að taka meira tillit til raunverulegrar ábyrgðar í starfi þegar bera á saman laun kynjanna, og Heiðrún benti á að manneskja með 3 starfsmenn undir sér væri metin á sama hátt og manneskja með 300 starfsmenn á sinni ábyrgð. Vissulega getur þetta skýrt launamuninn að einhverju leyti, en hinu verður ekki litið framhjá að meðal háskólamenntaðra í toppstöðum er launamunur kynjanna mun minni heldur en meðal ómenntaðra almennra starfsmanna. Það er því fráleitt að halda því fram að það sé létt verk að fá hvaða niðurstöðu sem er þegar laun kynjanna eru borin saman.

hee (IP-tala skráð) 23.3.2007 kl. 14:30

9 identicon

 

Hver haldið þið að ástæða sé þess karlmenn eru helmingi líklegri til að stunda frumkvöðlastarfsemi en konur?

Er það vegna þess að það ríkir ekki jafnrétti á umsóknarblöðunum? 

Við ættum frekar að einbeita okkur að því að auka starfshugrekki kvenna því það er það sem skortir helst. 

Launamismunurinn (ef einhver er) er einfaldlega konum sjálfum að kenna. 

Kalli (IP-tala skráð) 24.3.2007 kl. 17:19

10 identicon

Að mínu mati er margt til í því sem Heiðrún benti á í Kastljósinu, m.a. ábyrgðin. Jafnframt væri áhugavert að skoða hvaða laun fólk óskar eftir þegar það ræður sig til starfa og greina það eftir kyni. Ætli sé möguleiki á því að konur óski hreinlega eftir lægri launum, geri minni kröfur um byrjunarlaun? Ég er ekki að fullyrða að svo sé, en það er heldur ekki hægt að útiloka það nema búið sé að rannsaka það.

Varðandi launaleyndina þá þykir mér sjálfsagt frelsi að fólk fái að tjá sig um sín eigin laun ef það kýs að gera það. Ég styð því afnám launaleyndar, en ég hef litla trú á því að það hafi jákvæð áhrif fyrir konur sérstaklega. Eftir því sem ég kemst næst er ekki launaleynd hjá opinberum stofnunum. Samt sem áður er því haldið fram að þar ríki kynbundinn launamunur.

Margir eru sannfærðir um að til staðar sé kynbundinn launamunur. Áður en hægt er að uppræta þann mun hlýtur að vera eðlilegt að komast að því hver sé ástæðan. Ég hef ekki séð neinn rannsaka ástæður þessa munar, hefur það verið gert? Er ekki eðlilegast að ráðast að rót vandans?

Mbk, Auður

Auður Hermannsdóttir (IP-tala skráð) 26.3.2007 kl. 14:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundar

Trúnó
Trúnó
Trúnó er vettvangur kvenna sem aðhyllast femíníska jafnaðarstefnu

Tónlistarspilari

Brigitte Bardot - Ca pourrait changer

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband