Leikskóli er bara byrjunin...

eftir Evu Bjarnadóttur

Þrennt skilur á milli frelsi kvenna til þess að velja eigin lífsstíl og að þær neyðist til þess að velja milli barna og frama; dagvistun, viðurkenning á jafnri þátttöku kvenna á atvinnumarkaði og sameiginlega ábyrgð foreldra á börnum.

Við eigum það til að gleyma orrustunum sem unnist hafa í baráttunni fyrir kynjajafnrétti. Það er ekkert skrítið, þar sem auðvitað er fullkomlega eðlilegt að konur hafi kosningarétt, geti boðið sig fram til Alþingis og sveitastjórna, þeim séu tryggð jöfn réttindi samkvæmt lögum og geti haft börn sín á leikskóla meðan þær vinna.

Við megum þó ekki gleyma því að þessi réttindi eru ekki sjálfsögð um heim allan. Ekki þarf að leita lengra en til Þýskalands, þar sem ríkisrekin dagheimili eru af skornum skammti og einkarekin eru of dýr fyrir meðalfjölskyldu.

Það er þó ekki það eina sem hamlar þýskum konum, heldur er almenningsálitið þannig að jafnvel þótt þær sæki sér mikla menntun vinna þær heima eftir hafa átt börn. Lausnin fyrir konur sem vilja vinna úti er að eignast ekki börn og velja sífellt fleiri konur þann kost. Það getur varla talist sanngjarnt val – ef val skyldi kalla.

Sameiginleg ábyrgð foreldra á barnauppeldi og breytt viðhorf til kvenna er lykilþátturinn í því að ná jafnrétti, auk þess sem ríkið verður að koma til móts við foreldra með ríkisreknum leikskólum. Það hefur verið sýnt fram á það, t.d. í Kanada, að dagvistun er ekki hægt að einkareka ef verðið á að vera viðráðanlegt fyrir meðalfjölskyldu.

Við megum ekki gleyma því að ef ekki væri fyrir góða leikskóla á Íslandi gætu mæður ekki unnið úti, sem hefði í för með sér fólksfækkun og minni atvinnuþátttöku kvenna.

Þannig stendur jafnrétti á Íslandi í dag. Leikskólarnir eru undirstaða þess að konur geti unnið úti á meðan að sameiginleg ábyrgð foreldra á börnum og heimili er ekki orðin almenn.

Sameiginleg ábyrgð á börnum og heimili hefur ekki aðeins áhrif á atvinnuþátttöku kvenna. Það er einnig baráttumál karla að fá jafnan aðgang að heimilinu. Feðraorlof var skref í rétta átt og vonandi hefur það í för með sér jafna skiptingu á uppeldishlutverkinu og heimilisstörfunum. Hvernig heimilin í landinu eru rekin er ekki síður mikilvægt heldur en atvinnulífið.

Leikskólar eru bara byrjunin. Við verðum líka að breyta hugfari okkar. Tvöföld byrði kvenna er hnattrænt vandamál, sem við ættum í sameiningu að há orrustu gegn.

Eva Bjarnadóttir er BA í kynja- og stjórnmálafræði og hefur alið konuna í Köben í vetur. Hún kemur heim í dag – velkomin Eva!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Himnasmiður

Ertu BA í kynjafræði?

Himnasmiður, 21.3.2007 kl. 21:08

2 identicon

Nei, ég er BA í stjórnmálafræði með kynjafræði sem aukagrein.

Eva Bjarnadóttir (IP-tala skráð) 22.3.2007 kl. 16:00

3 Smámynd: Himnasmiður

Þannig að ef ég myndi taka BS í eðlisfræði, með kynjafræði sem aukagrein, væri ég þá BS í kynja- og eðlisfræði?

Himnasmiður, 22.3.2007 kl. 20:01

4 identicon

Nei, þú værir BS í eðlisfræði með kynjafræði sem aukagrein en það er, held ég, ekki hægt taka slíka gráðu í HÍ þar sem greinarnar eru ekki í sömu deild. Án þess þó að vera alveg viss.

Ritstjórn trúnó kýs líklega að kalla mig BA kynja- og stjórnmálafræði til þess að leggja áherslu á að ég tók kynjafræði sem aukagrein. Það liggur ekki endilega að baki mikil alvara í því að breyta titlinum á þann hátt, enda skiptir hann ekki höfuðmáli í þessu tilviki.

Eva Bjarnadóttir (IP-tala skráð) 23.3.2007 kl. 17:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundar

Trúnó
Trúnó
Trúnó er vettvangur kvenna sem aðhyllast femíníska jafnaðarstefnu

Tónlistarspilari

Brigitte Bardot - Ca pourrait changer

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband