,,Pointið" - unglingar greina femínisma í Degi Sigurðarsyni

eftir Ingileif Ástvaldsdóttur

Ljóðatími í unglingadeild. Nemendur sitja í litlum hópum og lesa hver fyrir annan.
Unglingur: Hey, kennari má sleppa?
Kennari: Sleppa?
Unglingur: Æ, þúst... stytta textann sinn, taka til dæmis aftan af ljóðinu sínu?
Kennari: Nú, hvað ertu að lesa góurinn og hverju viltu sleppa?
Unglingur: Sko, ég er að lesa Lífsreynsluljóð eftir Dag Sigurðarson, hlustaðu:

I
Það er erfitt að vera karlmaður
og mæta fallegri stelpu á götu
af tilviljun.

Brúnin þyngist. Brjóstið
herpist saman. Ég
stend eins og glópur og glápi.

Það er svo sorglegt
svo átakanlegt.

Maður getur næstum farið að skæla
eins og krakki sem fær ekki pelann sinn.

II
Ef til vill sé ég þig aldrei framar.
Það sem verra er: Ég gæti hitt þig
af hendingu eftir 30 ár.
Ég stend kyrr og horfi á þig fjarlægjast.
Ég æpi á þig í hljóði.

Ég sé andlit þitt markast djúpum hrukkum
mittið hverfa í skvap
kálfana þrútna og afskræmast af æðahnútum
hörundið verða á litinn eins og sigin ýsa.

Það er svo sorglegt
svo átakanlegt.
Maður getur næstum
jájá það er mikil mæða
að vera karlmaður.

III
Og þó er það skömminni skárra
en að vera falleg stelpa
fá ekki nema 16,14 á tímann
fyrir að puða í saltfiski

og vera komin uppá einhvern déskotans
draumaprins sem oftast reynist bölvaður
drullusokkur þegar yfir lýkur.

,,Og hverju viltu svo sleppa?” spyr kennarinn aftur. ,,Nú, síðasta erindinu mar!” svarar drengurinn undrandi á spurningu kennarans. Svo heldur drengur áfram: ,,Það einhvern veginn passar ekkert við hitt. Það erindi, sko, skiluru? Mér finnst pointið helst vera í síðasta erindi annars hluta, ha?”

,,Kræst!” kvaka bekkjarsystur hans sem höfðu lagt við hlustir. ,,Pointið er niðurstaðan, fattaru? Og hún, niðurstaðan er þarna í því síðasta, finnst okkur, skiluru?”

En drengur heldur áfram: ,,Jú, mamma segir það líka. En sko ha, en fyrir mig ha, í þessu ljóði skiluru, þá er pointið þarna í miðjunni, ha!”

Bekkjarsysturnar kvaka: ,,Dííí, en sko, raunveruleikinn ha, hann er í síðasta hlutanum, og raunveruleikinn, hann er pointið, fattaru!”

Skólabjallan hringdi og saman ruddust bekkjarsystkinin út í raunveruleikann.

Ingileif er kennari á Dalvík og skilur pointið í flestum hlutum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Edda Agnarsdóttir

 Ég er hlæjandi út í eitt! Takk fyrir þennan Ingileif mín.

Edda Agnarsdóttir, 17.3.2007 kl. 13:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundar

Trúnó
Trúnó
Trúnó er vettvangur kvenna sem aðhyllast femíníska jafnaðarstefnu

Tónlistarspilari

Brigitte Bardot - Ca pourrait changer

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband