Kæru systur og bræður!

Eftir Guðrúnu Evu Mínervudóttur

Stundum getur kona ekki annað en furðað sig á því að baráttan fyrir jafnrétti kynjanna skuli ganga svona hægt og að það sé svona mikil fyrirhöfn að leiðrétta augljóst óréttlæti. Samfélagið er ennþá illa haldið af komplex eða nevrósu sem á sér rætur djúpt aftur í fortíðinni og kallar á sálgreiningu jafnt sem hugræna atferlismeðferð.

Þegar ég var lítil stelpa átti ég mér þann vonlausa draum að vera strákur. Samt var ég alls ekki í hjarta mínu strákur fastur í stelpulíkama. Frekar mætti segja að ég vildi vera strákur fastur í stelpulíkama. Það var í mínum unga huga skárra en að vera stelpa föst í stelpulíkama.

Ég hafði nefnilega óljósa hugmynd um að strákarnir væru betri og merkilegri en við stelpurnar, en ég vissi ekki hvaðan sú hugmynd kom og velti því heldur ekki fyrir mér. Þetta var bara eitthvað sem ég taldi mig vita án þess að vita hvernig ég vissi það. Ég trúði móður minni fyrir þessu og hún sagði mér að henni hefði liðið eins. Hún sagðist á sínum tíma hafa spurt mömmu sína: Mamma, hvenær verð ég strákur? Eins og í því fælist eins konar stöðuhækkun til handa verðugum stúlkum.

Við sáum ekki í gegnum þetta. Það er skelfilega erfið játning, en ég er ansi hrædd um að mér hafi þótt það viss huggun að ég skyldi ekki vera eins og aðrar stelpur; ég var merkileg manneskja í dulargervi.

Nú veit ég að þetta er ekkert einsdæmi. Þær eru óteljandi konurnar sem hafa trúað mér fyrir því að þegar þær voru litlar hefðu þær verið strákastelpur. Síðan eru tínd til ýmis dæmi um að þeim hafi þótt gaman að klifra í trjám og að þær hafi haft keppnisskap og svo framvegis. Svona tal veldur mér alveg sérstökum hrolli því nú þykir mér liggja í augum uppi að lítil stúlka sem hefur ekki gaman af að klifra í trjám er ekki af náttúrunnar hendi venjuleg lítil stúlka heldur bæld lítil stúlka.

Auðvitað hef ég vissan skilning á þessu; það eru ekki nema tæp tíu ár síðan einhver hrósaði mér fyrir að vera karl-leg kona. Þvílíkt endemis bull! En það var meint sem hrós og ég var nógu stutt á veg komin í sannleiksleit minni til að taka því sem slíku.

En hvaðan koma þessar undarlegu hugmyndir sem valda því að þegar stúlkur/konur uppgötva í sér vissa kosti (áræðni, dugnað, úthald, sjálfstæði) dragi þær þá ályktun að þær búi yfir þessum kostum vegna þess að innst inni séu þær strákalegar/karllegar?

Svarið er: Úr misskilningsþrungnu og hugsunarlausu daglegu tali okkar. Úr sjónvarpinu og bíómyndum. Meira að segja úr bókum, sem þó hafa það orð á sér að vera einstaklega göfgandi miðill.

Ég get nefnt óteljandi dæmi, en ætla bara að nefna tvö:

Enid Blyton var greinilega óskaplega hrifin af strákum. Þeir voru sterkir og klárir og redduðu öllu án þess að hafa neitt fyrir því. Eina stelpan sem lagði eitthvað til málana (eitthvað annað en að hlaupa grenjandi heim til sín) var það sem nú til dags er kallað trans-sexúal. Það er að segja; hún var í raun og veru strákur. Enid Blyton er óhemju afkastamikill og vinsæll höfundur og bækurnar hennar sitja pikkfastar í kollinum á okkur flestum.

Indiana Jones myndirnar voru í miklu uppáhaldi hjá mér í gamla daga, en þegar ég sá þær aftur um daginn fékk ég hversdagsáfall. Skilaboðin í þeim eru afar skýr: Konur eru leiðinlegir aumingjar sem þvælast fyrir í stað þess að gera gagn. Ef heimurinn ætti eitthvað sameiginlegt með Indiana Jones bíómynd væri betra að hafa sex ára strák með sér í liði en fullorðna konu.

Já, þetta eru stór orð, en ég er líka dáldið sár yfir að hafa verið heilaþvegin með þessum hætti og þurfa síðan að eyða tíma og kröftum í að endurforrita sjálfa mig. Þetta skiptir máli. Lífsbaráttan er hörð og það hefur sýnt sig að ef konur eru fyrirfram dæmdar úr leik fer allt fjandans til. Ef við erum öll saman í liði gengur allt betur.

Guðrún Eva er rithöfundur og stolt af því að vera bæði feminín og femínisti.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir

Amen!

Ég man eftir að hafa bölvað því að vera ekki strákur í gamla daga.  Mér þótti skildustörf þeirra í sveitinni léttari. 

Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir, 9.3.2007 kl. 21:39

2 Smámynd: Guðríður Arnardóttir

Skoðanakönnun á www.gudridur.blog.is   hvaða konu treystið þið best sem forsætisráðherra

Guðríður Arnardóttir, 9.3.2007 kl. 21:39

3 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Mínerva...mikið segir þetta um æsku mína...en hafði eiginlega ekki pælt í því fyrr...en þú mælir af visku!

Er að reyna að kenna syni mínum hversu flott tippið hans er (4 ára) og hversu flott píkan er á stelpum...han er alveg sammála!

 Mamma gat þetta ekki...tippið var flottara!


Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 9.3.2007 kl. 22:32

4 Smámynd: Edda Agnarsdóttir

Síðustu orð þín eru orð að sönnu. Verum öll (allar) í sama liði og skorum mörk! 

Edda Agnarsdóttir, 9.3.2007 kl. 23:06

5 identicon

Vá, Það er svo merkilegt að í hvert skipti sem maður les svona línur eftir femínista (hvað sem það er), þá ýtir það alltaf undir þá heimskulegu fordóma sem maður hefur um sumar konur(notabene SUMAE, þ.e. að þær eru með minnimáttarkennd, hafa gaman að röfla um ekki neitt, skortir allt frumkvæði og áræði, ófrumlegar o.s.frv.

  Keep up the good work!!! 

guðmundur (IP-tala skráð) 9.3.2007 kl. 23:17

6 identicon

Eitt annað líka:

  Nú ætla ég að reyna að vera alvarlegur. Það er til orð sem heitir RÖK. Þetta orð virðist vefjast voðalega mikið fyrir sumum, og sérstaklega þá sem kalla sig femínista. Það er stundum alveg sama hvað maður segir þá er alltaf reynt að fara eins og köttur í kringum heitan grautinn. Af hverju???????

  Stundum veltir maður því fyrir sér að þetta fyrirbæri femínismi sé einskonar sjálfshjálp eða lækning fyrir viðkomandi einstakling. Búa til einhvern raunveruleika eða þá hvernig raunveruleikinn mótaði ástandið í dag, sem á sér enga stoð!!!

   T.d. að konur hafa verið undirokaðar í þúsundir ára. Fólk og aðallega karlmenn voru undirokaðir í gegnum aldirnar. Konur sluppu við það, vegna þess að þær voru konur.

 Annað. Kosningaréttur var ekki eitthvað sem bara konur voru sviknar um. Langflestir karlmenn fengu ekki kosningarétt fyrr en á seinni hluta 19. aldar...

  Af hverju reynið þið ekki að hegða ykkur eins og menn, og hætta þessari minnimáttarkennd. Þetta er gjörsamlega óþolandi andskoti. Takk fyrir, 

guðmundur (IP-tala skráð) 9.3.2007 kl. 23:33

7 Smámynd: Bryndís Ísfold Hlöðversdóttir

Frábær pistill

Bryndís Ísfold Hlöðversdóttir, 10.3.2007 kl. 00:18

8 Smámynd: Vilborg Ólafsdóttir

Virkilega frábær texti hjá þér Guðrún Mínerva. Þvílíkur heimur

Vilborg Ólafsdóttir, 10.3.2007 kl. 00:58

9 Smámynd: kona

Bravó.   Flott hugleiðing og þörf.

kona, 10.3.2007 kl. 09:44

10 identicon

ég skil ekki alveg þetta með að ef stúlka hefur ekki áhuga á að klifra í trjám þá sé hún bæld. stúlkur og konur hafa oft allt önnur áhugasvið heldur en karlkynið. oft vantar í þær lætin og gauraganginn og það er einfaldlega af því þær sjá engan tilgang með þannig háttalagi en ekki af því þær séu bældar eða kúgaðar.

 hins vegar er það nú þannig að það sem konum líkar eða leggja metnað sinn í er oft ekki talið neitt merkilegt.  það er alveg magnað hvað það er lögð mikil áhersla á að konur verði LÍKA forstjórar, framkvæmdastjórar, stjórnmálamenn ofl. það vantar svo miklu meira inn í þessa umræðu að áhugasviði kvenna sé gert hátt undir höfði og metið. td umönnunarstörf af öllu tagi. af hverju er það að eiga mörg börn ekki að klifra metorðastigann?  

kristín (IP-tala skráð) 10.3.2007 kl. 11:25

11 Smámynd: Púkinn

Púkanum finnst það alltaf athylivert að enginn femínisti svarar nokkurn tíman spurningum eins og þeim sem hann spurði hér.

Púkinn, 10.3.2007 kl. 13:01

12 identicon

Þetta virðist ansi oft snúast upp í smjaður, en ekki upp í umræðu. Jæja, það var þó eitthvað af umræðu hjá Kristínu.

 Nú ætla ég að prófa að búa til andhverfa stutta útgáfu af orðum Guðrúnu: Mér finnst ég fastur í líkama mínum sem karlmaður. Ég mun enda sem dropout í skóla, vinna eins og brjálæðingur láta síðan konuna taka húsið og bílinn, síðan ef ég er heppinn þá fæ ég að sjá börnin einstaka sinnum. Enda sem andsk. klámhundur, líklega nauðgari. Kemst ungur í kast við lögin, dey líklega ungur, frem líklega sjálfsmorð. Ef ég kemst þá á eftirlaunaaldur, dey ég líklega 5 árum fyrr á gullaldarárum mínum. 

  Ég gæti haldið áfram endalaust!!! Svona er nú erfitt að vera karlmaður!!!!!  æææææ greyið ég..

......núna vonast ég til að fá nóbelsverðlaunin í sjálfsvorkun!!

guðmundur (IP-tala skráð) 10.3.2007 kl. 14:12

13 identicon

Þetta minnti mig á þegar ég vann í fiski sem unglingur úti á landi. Ég og einn bekkjarbróðir minn byrjuðum á sama tíma að vinna á færibandi, vorum jafn gömul og höfðum jafn mikla reynslu í fiski....sem var engin. Á fyrsta útborgunardegi (alltaf á fimmtudögum) opnuðum við saman launaumslögin. Ég fékk 22þús. fyrir vikuna....hann 35þús. Hann hló að mér og þá fannst mér þetta fyrst raunverulegt. Strákur er á einhvern ólýsanlegan máta metinn meira en ég!

Þessu SKAL ég fá að breyta og hlæja síðan framan í hann!

Ásdís (IP-tala skráð) 10.3.2007 kl. 23:15

14 identicon

Ótrúlegt hvað sumir hlutir rætast nákvæmlega eins og maður heldur!!!

 Nánast öll innlegginn endurspegla nákvæmlega þau karaktereinkenni sem ég sagði einkenna sumar konur:

 Fyrst skrifaði:

 Bryndís= smjaður

 vilborg=smjaður, ófrumlegheit

  eva =minnimáttarkennd

 ásdís=minnimáttarkennd, og ófrumlegheit, og smá dass af biturð og fordómum. Kannski hún hafi ekki áttað sig á því að mögulega hafi hann verið betri starfskraftur. Allavega hef ég lent í því oftar en einu sinni að kona í sama starfi og ég sé með hærra kaup. Þá byrjaði ég ekki að leita að einhverju óréttlæti sem gæti skýrt út muninn!! Ég leit einfaldlega á mitt framlag vs. hennar og komst að því að hún átti alveg skilið að fá hærra kaup en ég.

Núna þegar ég hef nánast SANNAÐ mál mitt, þá veit ég að nákvæmlega engin á eftir að skrifa hérna neitt, og hef ég þó hvorki verið dónalegur eða ómálefnanlegur.

  .......kannski fyrir utan það að ég sagði að Guðrún Mínerva ætti að fá nóbelsverðlaun fyrir sjálfsvorkunn ;-)

guðmundur (IP-tala skráð) 11.3.2007 kl. 00:21

15 identicon

þegar ég skrifaði "eva", þá átti ég við Helgu Völu. Afsakið.

guðmundur (IP-tala skráð) 11.3.2007 kl. 00:26

16 Smámynd: birna

Frábær pistill !
Ég heyrði vinnufélaga minn segja stoltur frá stelpunni sinni um daginn. Hún er sannkölluð strákastelpa!
Datt honum ekki í hug að hún væri tápmikil og klár stelpa ? Sannkölluð stelpu-stelpa ?

b

birna, 11.3.2007 kl. 13:47

17 Smámynd: Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

Frábær færsla, Eva!  

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 11.3.2007 kl. 14:34

18 identicon

Jæja, gaman að fá einhver viðbrögð.

 Ég sé allavega tilefni til að halda "leiknum" áfram

Helga Vala=ófrumlegheit(var það kannski komið?). Síðan er góður möguleiki að skella inn ófrumlegheitum, þá varðandi það að halda því fram að ef aðili gagnrýnir sumar konur, þá eigi hann í einhverjum erfiðleikum með allar konur. Þetta er náttúrulega klassíker. Síðan jafnvelt hægt að setja inn skort á áræði, þar sem Helga nennir alls ekki að tala um efni pistilisins hennar Guðrúnar.

Hvernig er annað hægt en að fyllast sjálfshóli þegar það þarf einungis að nota 1% heilabúsins til að reka reyndan fjölmiðlamann á flótta undan einkar glæsilegum rökum

 Með von um fólk nái að skilja hysmið, til að skilja kjarnann.....skilið!! 

Guðmundur (IP-tala skráð) 11.3.2007 kl. 21:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundar

Trúnó
Trúnó
Trúnó er vettvangur kvenna sem aðhyllast femíníska jafnaðarstefnu

Tónlistarspilari

Brigitte Bardot - Ca pourrait changer

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband