Útrunnum mat fargað - hvað með ríkisstjórnina?

eftir Björk Vilhelmsdóttur

Mikið voru þær ánægjulegar fréttirnar í gær að 3.5 tonni af útrunninni matvöru hafi verið fargað hjá Sorpu undir eftirliti heilbrigðiseftirlitsins. Fólk sem við öll þekkjum, fólk sem hefur dregist aftur úr fjöldanum á undanförnum árum, hefur að mati fyrirtækja og hjálparsamtaka á borð við Fjölskylduhjálp Íslands mátt nærast á útrunninni matvöru.

Þetta viðhorf og slík aðstoð gerir ekkert annað en að auka enn frekar á fátækt fólks, enda byggir það ekki upp sjálfstraustið að láta sig hafa það sem engum öðrum er bjóðandi.
Það sem á hvergi heima nema á haugunum.

Tími ölmusunnar

Í tíð núverandi ríkisstjórnar hefur ölmusuhugsanaháttur gengið yfir samfélagið. Við höfum siglt hraðbyri frá samtryggingar- og velferðarhugsun norrænna ríkja að amerískri einstaklingshyggju þar sem hinir ríku láta fáeina gullmola falla af gnægtarborðinu til hinna snauðu.

Þetta eru stór orð en sönn. Hugsum nokkur ár aftur í tímann þegar það heyrði til algerra undantekninga að fólk stæði í biðröðum eftir matargjöfum. Lífeyrisþegar höfðu það þá alls ekki gott, en þó þolanlegra en þeir hafa það nú á dögum.

Nú á dögum leita á hverju ári þúsundir eftir matargjöfum frá hjálparsamtökum eins og Mæðrastyrksnefnd, Hjálparstarfi kirkjunnar og Fjölskylduhjálp Íslands.

Það hafa sprottið upp líknar- og vinafélög til að styðja við bakið á þeim sem veikjast og/eða fatlast. Félög sem starfa eftir þeirri hugmyndafræði að gera eitthvað fyrir aumingja fólkið en ekki vinna með því.

Ég vil ekki gera lítið úr þörf fyrir aðstoð hjálpar- og líknarfélaga. Þar sem fólk býr við fátækt og óöryggi er gott að fá aðstoð en aðstoðin má ekki taka af fólki stoltið og sjálfsvirðinguna.

Að mati félagsráðgjafa og annars fagfólks í velferðarmálum er slík aðstoð ekki til þess fallin að hjálpa fólki út úr þeim aðstæðum sem hrjá viðkomandi. Raunveruleg aðstoð felst í að vinna með fólki, breyta lífi þeirra til hins betra.

Það er gert með því að vinna með fólki í að bæta fjárhagsstöðu fólks til lengri tíma og nýta sér þann rétt sem það á. Byggja þarf upp sjálfstraustið og virðingu fyrir sér og samfélaginu. 

Á haugana eða...?

Mér finnst að ríkisstjórn sem hefur innleitt meiri ójöfnuð en áður hefur þekkst í íslensku samfélagi eigi að fara sömu leið og útrunni maturinn. Ekki að ég ætlist til þess að heilbrigðiseftirlitið fylgi 12 ráðsmönnum- og konum þjóðarinnar á Sorpu.

Ég vil eftirláta kjósendum 12. maí að ákveða örlög þeirra því kjósendur hafa val. Ólíkt matvælunum sem þóttu að sumra mati nógu góð handa bónbjargarfólkinu má setja ráðafólkið í endurvinnslu. Sumir geta eflaust farið í fyrri störf og aðrir lifað góðu lífi á sínum eftirlaunalífeyri.

Ég er viss um að annað fólk með annað verðmætamat geti tekið við stjórnarráðinu.

Björk er kona og félagsráðgjafi sem getur ekki horft á þann ójöfnuð sem ríkir í samfélaginu þó hún sé í hópi þeirra sem hafa það mjög gott.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Bryndís Ísfold Hlöðversdóttir

svo satt

Bryndís Ísfold Hlöðversdóttir, 6.3.2007 kl. 23:48

2 Smámynd: Jens Guð

Ég get skrifað undir flest af þessu.  Nema þetta með útrunnu matvælin.  Matur er sjaldan betri en þegar farið er að slá í hann. 

Ef kæstur hákarl,  kæst skata og helmingurinn af þorramatnum kæmi fram á sjónarsviðið í dag yrði hann bannaður sem skemmd matvæli.  Sama má segja um súrmjólk og skyr.  Jafnvel rúsínur sem eru ekkert annað en útrunnin vínber.

Jens Guð, 6.3.2007 kl. 23:54

3 Smámynd: Karl V. Matthíasson

Þetta er vel skrifað og við ættum að hugsa betur um það hvernig við viljum koma fram við fátækt fólk. Halda því á horriminni eða reyna að stuðla að því að það komist út úr gildru fátæktarinnar. 

Oft er sagt það verður alltaf til fátækt fólk og auðvitað er það rétt. En við verðum að bæta því að sú skylda hvíli á okkur að okkur beri gera allt sem við getum til að útrýma fátækt.

Ég hef verið að pæla í því hvort gefendur hinna útrunnu matvæla hafi komist hjá förgunarkostnaði með því að gefa fátækum þennan mat? Kalli Matt

Karl V. Matthíasson, 6.3.2007 kl. 23:57

4 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

Mín kæra Björk.

Meðan þú varst stjórnarformaður Strætó bs. stóðst þú að mestu skerðingu á þjónustu við þá sem minnst mega sín m.a. þ.e. með skemmdarverkum á leiðakerfi almenningssamgangna í Reykjavík.

Þú stóðst líka að tekjuhækkun til okkar starfsmanna Strætó bs. þ.e.a.s. okkar sem ekki vinnum hjá verktökunum en þar hafa menn 15-20% lægri laun en við.

Svo stóst þú líka að launalækkun hjá okkur sömu og engum hækkunina. Ég man að ég nefndi það við þig, en þú sagðir það útilokað að Einar Kristjánsson ynni að launalækkun hjá okkur.

Staðreynd hvað mig varðar er að ég fékk 108.000 kr. lægri laun árið 2006 en 2005 þrátt fyrir alla hækkunina. Það er hagræðingarkúnstum ykkar Einars að þakka!!!

Það fara ekki alltaf saman orð og efndir hjá stjórnmálamönnum.

Heimir Lárusson Fjeldsted, 7.3.2007 kl. 00:39

5 Smámynd: Tómas Þóroddsson

Þetta er ekki alveg rétt hjá þér Jens. Kæstur matur, sýrður matur og þurkkaður matur eru matreiðsluaðferðir og eiga ekkert skilt við útruninn mat.

Tómas Þóroddsson, 7.3.2007 kl. 01:37

6 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

Kæsing, súrsun og þurrkun eru ekki matreiðsluaðferðir, heldur meðferð matvæla til að auka geymsluþol.

Heimir Lárusson Fjeldsted, 7.3.2007 kl. 11:09

7 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Takk fyrir góðan pistil Björk.  Ég bloggaði sjálf um þetta og finnst þessi ölmusupólitík alveg fyrir neðan allar hellur. 

Jenný Anna Baldursdóttir, 7.3.2007 kl. 13:29

8 Smámynd: birna

Vel skrifað Björk, orð í tíma töluð

birna, 7.3.2007 kl. 14:23

9 identicon

Útrunnar matvörur ríkisstjórninni að kenna?    Starfsemi góðgerðafélaga hefur alltaf verið nauðsynlegur þáttur í þjóðfélaginu og verður það áfram.   Hverslags alræðis hugsunarháttur er þetta eiginlega?   Ert þú ekki í vitlausum flokki?

Svona málflutningur byggir ekki upp trúverðuleika.   

Bjarni Ingason (IP-tala skráð) 7.3.2007 kl. 14:43

10 identicon

Hvernig matur var þetta sem var útrunninn? Ég hef heyrt að þetta hafi verið til dæmis; morgunkorn, kex og annar þurrmatur en sjálfsagt margt fleira.

 Ég hef nú aldrei talið sjálfan mig fátækan en hef samt með góðri lyst borðað Cheerios sem er komið fram yfir síðasta söludag, einnig súrmjólk, nýmjólk, léttmjólk, jógúrt, engjaþykkni, skinku, hangikjöt, spaghettí, Corn Flakes, Cocoa Puffs, súkkulaði, brjóstsykur og margt fleira. Mér hefur ekki liðið neitt verr fyrir vikið, að minnsta kosti hefur mér ekki liðið sem annars flokks borgara fyrir vikið.

Auðvitað er svo miklu betra að útrunninn matur fari beint á haugana heldur en að hann nýtist öðrum...

Guðjón Torfi Sigurðsson (IP-tala skráð) 7.3.2007 kl. 15:08

11 Smámynd: Björk Vilhelmsdóttir

Takk fyrir viðbrögðin. Gaman að vekja upp umræðu.

Hvað varðar útrunnin mat þá hef ég oft valið að borða slíkan mat í stað þess að henda honum. En það er ólöglegt að selja og gefa mat sem er útrunnin - og því er verið að lítillækka fólk sem fær hann gefins - því annars fer hann á hauganna. Fátækt fólk ´sem leitar til hjálparsamtaka  hefur ekki val um hvers það neytir. 

Takk aftur, Björk 

Björk Vilhelmsdóttir, 7.3.2007 kl. 20:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundar

Trúnó
Trúnó
Trúnó er vettvangur kvenna sem aðhyllast femíníska jafnaðarstefnu

Tónlistarspilari

Brigitte Bardot - Ca pourrait changer

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband