Hvers vegna?

Eftir Helgu Völu Helgadóttur.

Einn angi peningahyggjunnar á Íslandi síðustu ára birtist í afskiptaleysi yfir kjörum eldri borgara. Eldri borgarar eru týnda barnið á Íslandi. Það þykir ekkert tiltökumál þó að fullorðin manneskja bíði í tvö ár eftir viðunandi úrræði þegar til þess þarf að koma. Tvö heil ár í lífi manneskju sem aldurs síns vegna býr við ýmis konar krankleika, er heillangur tími og lengri tími en við líðum á nokkrum öðrum stað í velferðarkerfinu. Ég sæi okkur í anda ef við þyrftum að bíða í tvö ár eftir leikskólaplássi eða öðru skólaplássi. Bíða í tvö ár eftir íbúðarlánum eða plássi í áfengismeðferð. En þetta fólk, sem hefur skilað sínu í öll þessi ár til samfélagsins fær að bíða, og það stundum lengur en heilsan leyfir.

Heilabilaðir bíða eftir viðunandi úrræðum og á meðan eru nánustu aðstandendur í gíslingu. Eldri hjón eru skilin að vegna þess að ekki er til viðunandi húsnæði sem hýsir þau bæði. Eldri borgarar sem fá svíðandi lágan ellilífeyri eftir áratuga vinnu fyrir okkur hin, eldri borgarar sem á gamals aldri eru settir í sambúð með öðru gömlu fólki sem það hefur aldrei hitt áður. Eldri borgarar sem vegna stolts síns biður ekki um aðstoð fyrr en á ögurstundu.

Hvers vegna er ekki hrópað á götum úti? Hvers vegna förum við ekki niður á Austurvöll með bílhlöss af drullu og sturtum fyrir framan þinghúsið?

Skýringin felst líklega í því að þetta snertir ekki atvinnulífið. Við þurfum ekki á þeim að halda til að peningavélin gangi. Hjól atvinnulífsins gengur sem smurt þó að þessi hópur búi við kröpp kjör. Við hin erum á spani við að halda okkur sjálfum á floti, svo að gamla fólkið okkar verður útundan. Fólkið sem gerði landið að því sem það er.

Við verðum að vakna upp af doðanum og fara að hugsa með hjartanu. Látum ekki peningavaldið ráða för.

 Það stendur ekki allt og fellur með atvinnulífinu á meðan fólkið í landinu blæðir út. Látum hjartað ráða för.

Helga Vala vann eitt sinn á Elliheimilinu Grund og líkaði það vel.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Alveg er ég hjartanlega sammála þér Helga Vala. Það dapurlegasta er að ég held að enginn sé sáttur við stöðu  þessara mála í dag - en allt of margir taka henni sem hverju öðru hundsbiti vegna þess að "lögmálið" sem veruleiki okkar hefur stjórnast af s.l. 12 ár getur ekki tekið á þessu og reiknar ekki með því. Hugmyndafræði hægripólitíkusa fókuserar ekki á jöfn tækifæri eða ábyrgð eins manns gagnvart öðrum heldur rétt einstaklingsins til athafna af ýmsu tagi, svo lengi sem það skaðar ekki aðra. Allir eiga að hafa RÉTT, en enginn hefur á móti skylduna til þess að skapa grundvöll til þess að allir geti NOTIÐ réttinda sinna.  

Góðu fréttirnar eru þær að við erum ekki undirseld "lögmálinu" sem er auðvitað bara stjórntæki sem við getum hafnað í vor.  Nú er lag að taka upp nýtt "lögmál" sem setur fólk í öndvegi og gengur út frá því að skapa þurfi forsendur til þess að réttindi séu ekki bara tómt hugtak í lífi alltof margra.

Anna Lára Steindal (IP-tala skráð) 2.3.2007 kl. 11:54

2 identicon

Ég beið í 2 ár eftir leikskólaplássi fyrir strákinn minn. Hálfs dags plássi þar sem ég svaf hjá manni.

Þetta var áður en Ingibjörg Sólrún kom í bæinn

Stelpan mín fékk heilsdags pláss þegar ég þurfti á að halda og ég gat farið að nota menntunina mína.

takk fyrir það

birna

birna (IP-tala skráð) 2.3.2007 kl. 12:38

3 identicon

Ég vil þakka þér hjartanlega Helga Vala fyrir að benda á hver aðstaða gamla fólksins er í þessu landi og á þá von heitasta að þin skrif verði til þess að fleiri láti í sér heyra. Væri velmegunin og almennt góðar aðstæður yngra fólksins í dag sú sama, ef ekki einmitt þessi eldri kynslóð hefði ekki lagt hart að sér til þess að skapa okkur þann heim, sem við búum við í dag. Mig langar einnig til þess að benda á að nú fara þær konur, sem harðast ruddu brautina í kvenréttindamálum, börðust fyrir menntun og þurftu oft að líða fyrir fordóma varðandi það að þær væru að vanrækja börnin sín, að komast á eftirlauna aldur og mér finnst það skylda yngri kvenna og karla að gleyma ekki fórnum þeirra og afreka. Það er annað, sem mig langar að minnast á, alltof margir eru svo önnum kafnir við að vinna fyrir betri bílum, nýtískulegum húsgögnum, réttu fötumum og utnalagsferðunum, svo eitthvað sé nefnt að það gefst ekki tími til þess að heimsækja og ræða við gamla fólkið, sem geymir svo ómetanlegan arf fortíðarinnar og okkur öllum væri holt að kynna okkur, það er að segja úr hvaða jarðvegi við erum sprottin. Nei, það er munað eftir "gamlingjunum" á jólum og páskum og ef til vill afmælisdögum en þess á milli mega þeir oft lifa í mikilli einsemd og vanlíðan svo mánuðum skiptir án þess að kvarta og án þess að ættingjar sjái sóma sinn í því að sinna þeim. Ég hvet ykkur konur, sem skrifið á "Trúnó" til þess að halda þessari umræðu áfram.

kv.

Hraundís

Svava (IP-tala skráð) 2.3.2007 kl. 13:37

4 identicon

Þakka þér, Helga Vala, fyrir þessa þörfu og frábæru grein.

Í vor verður ekki kosið um græna framtíð þessa lands heldur nútíðina þar sem málefni aldraðra eru í ólestri og framtíð þessa lands, börnin okkar, búa við mikla óvissu í menntamálum sínum. Kjaradeilda leik- og grunnskólakennara mun marka kosningabaráttuna og það er skylda Alþingis að grípa þar inní með því að veita auknu fjármagni til sveitarfélaganna svo þau geti staðið við þær miklu og auknu skuldbindingar sem þau standa frammi fyrir í menntamálum.

Samfylkingin stendur sterk í þessum málaflokkum og við eigum að hamra á þeim því járnið þar er sannarlega heitt.

Ingibjörg (IP-tala skráð) 2.3.2007 kl. 14:13

5 identicon

Það er alltaf rétt að hugsa með hjartanu en það skaðar ekki að nota önnur líffæri með. Vandi umönnunarþjónustu á Íslandi liggur í launum þeirra sem við þau fást. Vandinn er ekki bundinn við hjartalag heldur þann innbyggða launamun sem er  milli starfstétta á Íslandi. Ef að lægst launaða stéttin á Íslandi fær launahækkun þá þurfa þeir sem fyrir ofan eru í launum að fá leiðréttingu. Þegar við höfum verðlagt mikilvægi starfana og náð um það samkomulagi og greiðum í samræmi við það. Bara eitt að lokum ! Hvers vegna er Helga Vala ekki enn í vinnu á Grund fyrst henni líkaði það vel?

kv

Jón Sigurðsson Blönduósi 123.is/jonsig

Jón Sigurðsson (IP-tala skráð) 2.3.2007 kl. 14:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundar

Trúnó
Trúnó
Trúnó er vettvangur kvenna sem aðhyllast femíníska jafnaðarstefnu

Tónlistarspilari

Brigitte Bardot - Ca pourrait changer

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband