Málefnalegur ágreiningur

eftir Elfi Logadóttur

Það er ekki flókið mál að rífast. Það er eiginlega óþægilega einfalt mál. Maður er ósammála öðrum einstaklingi og tekur að rökræða við hann. Oftast reiðist annar aðillinn hinum fyrir að vera ósammála og við það tilefni nálgast annar rökþrot og grípur oftar en ekki til persónulegra ávirðinga eða órökstuddra fullyrðinga. Sumir ganga svo langt að kasta fram algjörlega óraunhæfum fullyrðingum með risastórum lýsingarorðum til þess að taka niður manneskjuna með valdi, úr því ekki tókst að taka hana niður með rökum.

Það er hins vegar miklu flóknara mál að rökræða andstæðar skoðanir með málefnalegum hætti. Að vinna rökræðu á grundvelli málefna, án þess að grípa til útúrsnúninga, rökvilla eða persónulegra neðanbeltisskota, krefst aga og yfirvegunar.

En málefnalegur og ómálefnalegur ágreiningur á það þó oftast sammerkt að andstæðingnum verður ekki snúið - rökræðan verður ekki unnin. Í mesta lagi verður fólk sammála um að vera ósammála.

En hvers vegna er þá rökrætt, ef gagnaðilanum verður ekki snúið? Getur það verið að við rökræðum og jafnvel rífumst til þess að sannfæra einhvern annan en gagnaðilann? Eða getur verið að rifrildið snúist um völd? Um viljann til að vinna?
Ég hugsa að flestar þær rökræður sem fara fram á opinberum vettvangi, málefnalegar eða ómálefnalegar, eru gerðar til þess að snúa þriðja aðila. Einkum og sérílagi pólitískar rökræður.

Ég stóð upp um daginn og varði sjónarmiðið ,,Ingibjörg Sólrún er ekki vindhani". Ég varði sjónarmiðið af því ég trúi því raunverulega að hún sé öflugur stjórnmálaleiðtogi og að fullyrðingar pólitískra andstæðinga formannsins séu fyrst og fremst pólitískt skak settar fram til að taka niður manneskjuna með valdi, úr því ekki hafði tekist að taka hana niður með rökum.

Ég varði sjónarmiðið vitandi að ég myndi ekki snúa gagnaðilanum í rökræðunni. Ég varði það af því ég taldi það rétt og ég taldi mikilvægt að rökræðan færi fram - að túlkunum hægri manna yrði mótmælt á þeim vettvangi sem til þeirra var stofnað.

Hvaða sjónarmið hefur þú varið nýlega?

Elfur er lögfræðingur og viðskiptafræðingur í framhaldsnámi í upplýsingar- og samskiptatæknilögum við Háskólann í Osló.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Mikið rétt...sjá m.a hér!

http://svartfugl.blog.is/blog/svartfugl/entry/127176/

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 25.2.2007 kl. 15:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundar

Trúnó
Trúnó
Trúnó er vettvangur kvenna sem aðhyllast femíníska jafnaðarstefnu

Tónlistarspilari

Brigitte Bardot - Ca pourrait changer

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband