Hvað ef....

eftir Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur

...ég hefði ekki orðið þeirrar gæfu aðnjótandi að eiga þátt í stofnun Kvennaframboðs í Reykjavík fyrir 25 árum? Ég get eiginlega ekki hugsað þá hugsun til enda – slíkur örlagavaldur var Kvennaframboðið í mínu lífi.

Þar mótaðist feminísk sýn mín á samfélagið sem hefur fylgt mér allar götur síðan; þar lærði ég að hugsa sjálfstætt og fylgja eigin sannfæringu; þar losnaði ég undan pólitísku skilgreiningavaldi vinstri sinnaðra karla; þar lærði ég að meta mitt eigið kyn að verðleikum; þar skynjaði ég til fulls reynslu og þekkingu kvenna; þar kynntist ég öllum þeim frábæru konum sem ég hef síðan átt samleið með.

Konum sem voru tilbúnar til að þrasa um viðtekna hluti. Allt sem ég hef tekið mér fyrir hendur í stjórnmálunum hefur mótast af fyrstu skrefunum sem ég steig með Kvennaframboðinu og síðar Kvennalistanum.

Á kosningahátíð Kvennaframboðsins í Laugardalshöll vorið 1982 stóð ég á sviðinu, nýgræðingur í stjórnmálum  í blómóttum kjól og sagði að þátttakan í Kvennaframboðinu hefði verið stærsta ævintýr lífs míns. Ég var ekki nema 27 ára en ég hafði mjög sterka tilfinningu fyrir því að ég væri að upplifa eitthvað einstakt – einhvers konar straumhvörf - og ekkert yrði eins og það áður var. Breytingin lá í loftinu, það var næstum hægt að þreifa á henni. Þrátt fyrir allt sem hefur á daga mína drifið síðan þá er þetta ennþá stærsta ævintýrið.

Kvennaframboðið og síðar Kvennalistinn mörkuðu tímamót í íslenskum stjórnmálum. Nú varð ekki lengur undan því vikist að taka mark á konum, hlusta eftir röddum þeirra og þörfum og gera hindranir, sem urðu á vegi þeirra á degi hverjum, að pólitísku úrlausnarefni.

Kosningahegðun kvenna breyttist og þær tóku í auknum mæli að kjósa konur, konum fjölgaði í öruggum sætum á framboðslistum, leikskólar, launajafnrétti og fæðingarorlof urðu stefnuskrármál flokkanna. Það hefur náðst mikill árangur en samt er enn langt í land raunverulegs jafnréttis.

Konur og karlar eru ekki eins. Ef þau væru það þá þyrfti ekki að berjast fyrir jafnrétti. Jafnrétti snýst um að leggja að jöfnu, meta einstaklingana á eigin forsendum en leggja ekki á þá mælistiku smíðaða úr aldagömlum, menningarbundnum fordómum.

En þarna liggur hundurinn einmitt grafinn. Mörgum sýnilegum hindrunum hefur verið rutt úr vegi jafnréttis en við erum enn í viðjum menningarbundins arfs sem er konum óhagstæður. Þessi arfur birtist í því gildismati og þeim leikreglum sem ríkja í atvinnulífi og stjórnmálum.

Þegar við veljum konur sem fulltrúa á þjóðþingum, í ríkisstjórn eða í öðrum valdastofnunum samfélagsins þá sendum við þær inn í umhverfi sem er mótað af körlum fyrir karla. Í þessu kerfi lenda þær gjarnan í mikilli togstreitu. Þær halda fram hugmyndum og gildum sem skipta kynsystur þeirra miklu, í umhverfi sem stjórnast af öðrum gildum og byggist á annars konar hefðum en þeirra eigin.

Sendiboðarnir okkar verða að sætta tvo ólíka heima og þóknast báðum. Þær verða að halda í sjálfar sig en aðlagast um leið. Þær verða að standast körlunum snúning án þess þó að kasta kvenhlutverkinu fyrir róða.

Við þessu er bara eitt ráð og það er að fjölga konum í öllum valdastofnunum samfélagsins. Við þurfum að vera margar. Þó að ein og ein kona rati inn í raðir stjórmálamanna eða embættismanna verður engin kerfisbreyting. Ein kona, hversu velviljug og dugleg sem hún er breytir ekki eins og hendi sé veifað stórvirku karlakerfi sem byggir á áratugahefð.

Við þurfum að verða fleiri. Reynsla mín m.a. sem borgarstjóri hefur kennt mér að það skiptir höfuðmáli að fjölga konum hvarvetna þar sem mikilvæg mál eru til lykta leidd. Þannig næst fram viðhorfsbreyting í stjórnkerfinu sem mun skila bæði konum og körlum miklum ávinningi.

Ingibjörg Sólrún er formaður Samfylkingarinnar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Edda Agnarsdóttir

"Sendiboðarnir okkar verða að sætta tvo ólíka heima og þóknast báðum. Þær verða að halda í sjálfar sig en aðlagast um leið. Þær verða að standast körlunum snúning án þess þó að kasta kvenhlutverkinu fyrir róða."

Ja hvað getur maður sagt. Þetta er bara snilld. Viltu gera svo vel að skrifa oft á Trúnó?

Sjáumst á morgun vonandi.

Kv. Edda

Edda Agnarsdóttir, 23.2.2007 kl. 15:29

2 identicon

Þakka þér fyrir pistilinn. Það er forvitnilegt – og mikilvægt– að vita hvernig þær konur hugsa sem eru komnar inn í hringinn – eða eigum við að segja út á bersvæði? Hvernig þær upplifa mismuninn á leikreglum í hreinu kvennasamhengi og þar sem bæði kynin starfa. Oft er stutt í vonbrigðin þegar konur í forystuhlutverkum hegða sér öðruvísi en við hefðum óskað. Ég tek heils hugar undir orð Eddu. Enn er um tvo ólíka heima að ræða en markmiðið hlýtur að vera að þetta verði einn fallegur heimur! Dæmi um að þetta eru tveir ólíkir heimar er hvernig orðræða myndast í kringum stjórmálakonur. Körlum finnst eðlilegt að þeir hafi sitt þéttriðna tengslanet – það er jafn sjálfsagt og andrúmsloftið – en um leið gera þeir tortryggilegt að konur eigi sér kvennanet. Nú er um að gera að standa saman og bæta heiminn!

Erla Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 24.2.2007 kl. 13:49

3 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Við konur þurfum nýtt KVENNAFRAMBOÐ

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 24.2.2007 kl. 19:45

4 identicon

Eru athugasemdirnar ritskoðaðar?

Eg. (IP-tala skráð) 24.2.2007 kl. 21:51

5 Smámynd: Edda Agnarsdóttir

Nú er ég komin heim frá fundi og hátíðarkvöldverði Kvennahreyfingar Samfylkingarinnar. Ég get ekki lýst því hér og nú hvað þetta var merkilegur fundur og skemmtilegt og sérstök tilfinning.

Ein leiðrétting til ErluSigurðardóttur: Útdrátturinn hér að ofan innan gæsalappa eru ekki mín orð, því miður, þetta eru orð Ingibjargar.

Og svo til Önnu: Ég vildi óska að þú hefðir verið á fundinum í dag, þarna voru saman komnar yfir100 konur og nokkrir karlmenn og aðra eins stemmningu hef ég ekki upplifað. Þarna voru bara feminístar og ef ég hef einhvern tíma efast um sameiningu kvenna í Samfylkingunni að þá er sá efi ekki lengur til staðar. Áfram feminístar!

Edda Agnarsdóttir, 24.2.2007 kl. 22:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundar

Trúnó
Trúnó
Trúnó er vettvangur kvenna sem aðhyllast femíníska jafnaðarstefnu

Tónlistarspilari

Brigitte Bardot - Ca pourrait changer

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband