Kvennahreyfingin og stjórnarskráin

eftir Kristrúnu Heimisdóttur 

Ég var að ljúka störfum í stjórnarskrárnefnd - að sinni. Þar var ég önnur tveggja kvenna, hin var Jónína Bjartmarz. Þegar nefndin hóf störf átti Ingibjörg Sólrún sæti í henni og þær tvær voru fyrstu konurnar til að taka sæti í nefnd um stjórnarskrármálefni í sögu landsins.

Það er sláandi staðreynd.

Eftir tvö ár og 26 fundi er stjórnarskrárnefnd að skila áfangaskýrslu og einni tillögu; allar breytingar að stjórnarskránni skal bera undir þjóðaratkvæði.

Nú ríður á að allir sameinist um að heildarendurskoðun fari fram sem allra fyrst eftir kosningar því stjórnarskráin er að mörgu leyti úrelt.

Kvennahreyfingar landsins stilltu saman strengi sína og komu fram með frábærlega vel unnar tillögur sem Samfylkingin tók hjartanlega undir í nefndinni. Því miður fengu þær ekki mikinn tíma í dagskrá nefndarinnar. Og því miður höfðum við ekki dagskrárvaldið.

Það var mergjaður samhljómur með tillögum kvennahreyfingarinnar og því sem framtíðarhópur Samfylkingar um lýðræði og jafnrétti skilaði af sér. Þar var lögð ofuráhersla á að koma jafnréttismálum í framkvæmd - með róttækum breytingum, fagmennsku og fjármagni.

Það er hægt að minnka kynbundinn launamun, fjölga konum í stjórnunarstöðum og efla jafnrétti á öllum sviðum: Það sannaði Reykjavíkurlistinn eftirminnilega. 

Kvennahreyfingin  lagði til  að  við  2.  málsgrein  65.  greinar stjórnarskrárinnar yrði  bætt  setningu um athafnaskyldur stjórnvalda til að afnema misrétti og tryggja jafnrétti kynjanna - ábyrgjast jafnrétti í reynd.

Þetta er lykilatriði til að styrkja framkvæmdir í jafnréttismálum.

Hin mikla hægristjórn sem hér hefur ráðið of lengi er á móti því að skylda stjórnvöld til að aðhafast. Það telur hún brjóta gegn frelsi. Þess vegna verða jafnréttismarkmið aldrei nema innantóm orð hjá þeim, engar aðgerðir fylgja – kné fylgir ekki kviði.

Kvennahreyfingin lagði líka til að við 71. grein, sem fjallar  um friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu, yrði bætt setningu sem kveður á um að ,,allir skuli njóta mannhelgi og verndar gegn ofbeldi á opinberum vettvangi sem og í einkalífi og að allir skuli njóta líkamlegs sjálfsforræðis".

Mannréttindahugtakið hefur í íslenskri lagahefð fyrst og fremst tengst vernd eignarréttinda og annarra borgaralegra réttinda - en mannhelgi og forræði kvenna yfir líkama sínum hefur notið mun veikari lagaverndar. Þetta náðist ekki í gegn, því miður.

Vinnu sameinaðrar kvennahreyfingar leiddu Birna Þórarinsdóttir (UNIFEM), Drífa Snædal (Kvennaathvarfi), Elsa Þorkelsdóttir (lögfræðingur) og fleiri konur sem sóttu í smiðju stjórnarskrárbreytinga í Finnlandi, Grikklandi, Þýskalandi, Suður-Afríku, Kólumbíu og Brasilíu.

Það munar öllu þegar svo faglega er að málum staðið. Við megum nefnilega ekki við vanhugsuðum tillögum að nýjum lagabókstaf.
Óframkvæmanleg lög spilla fyrir góðum málstað.

Fögrum fyrirheitum í lögum verður að fylgja vilji og kunnátta til
framkvæmda. Það höfum við lært af misheppnuðum jafnréttislögum fyrri ára á Íslandi. Við höfum verk að vinna í vor.

Kristrún Heimisdóttir er lögfræðingur og var einn af hópstjórum Framtíðarhóps Samfylkingarinnar - www.framtid.is. Hún býr beint á móti ísbúðinni á Hjarðarhaga.

ATHUGASEMD: Sigríður Dúna var í stjórnarskrárnefnd fyrir Kvennalistann 1985-1992, það láðist að geta þess í pistilinum - Kveðja, Kristrún Heimisdóttir

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hvernig væri að fellla út 62 grein stjórnarskrárinnar sem kveður á um að þegnar landsins skuli tilheyra Þjóðkirkjunni?  Svona grein er alger tímaskekkja. 

Við erum ekkert öll kristinn og fráleitt að spyrða trúarbrögð inn í stjórnarskrá nema hugsanlega að því leyti að kveða á um trúfrelsi.

Meðlimum Þjóðkirjunnar hefur fækkað stöðugt frá 1990 og með sama "fækkunar"hraða munu þjóðkirkumeðlimir verða 49,9% árið 2059.

 Þetta er miðað við meðaltal frá 1990.  Fækkunin s.l 5 ár hefur verið milklu hraðari.  Spuring hvað meðlimir trúfélagsins Þjóðkirkjunnar þurfa að vera fáir til að þessu óréttláta stjórnarskrárákvæði sé fellt út.

 -Annars er ég hjartanlega sammála hugleiðingum þínum hér ofan.

 Teitur

Teitur Atlason (IP-tala skráð) 23.2.2007 kl. 15:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundar

Trúnó
Trúnó
Trúnó er vettvangur kvenna sem aðhyllast femíníska jafnaðarstefnu

Tónlistarspilari

Brigitte Bardot - Ca pourrait changer

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband