Soccer Moms - í fúlustu alvöru

Eftir Ingibjörgu Hinriksdóttur

Undanfarnar vikur hefur verið mikið rætt um stöðu kvennaknattspyrnu innan KSÍ og hafa margir farið mikinn. Ég ætla ekki að blanda mér í þá umræðu en langar þess í stað að hvetja allar konur sem hafa skoðun á málinu og vilja veita konum í knattspyrnu brautargengi, til að bjóða sig fram til starfa innan sinna félaga.

Fyrst og fremst vantar fleiri konur til starfa í félögunum. Þetta segi ég í fúlustu alvöru og af langri reynslu af starfi innan knattspyrnuhreyfingarinnar.

Í henni Ameríku er til orðasambandið ,,Soccer Mom", fótboltamamma, sem lýsir venjulegri amerískri húsfrú sem fylgir börnunum sínum á fótboltaæfingar og keppni. Við sjáum þessa konu gjarnan afgreiða pylsur og popp í veitingasölu, hún huggar særða knattspyrnukappa af báðum kynjum, hún er alltaf tilbúin með vatnið þegar hlé er gert á leiknum, en síðast en ekki síst er hún ákafasti stuðningsmaður liðs barnanna sinna.

Á Íslandi má finna mýmargar konur sem sinna hlutverki fótboltamömmunnar. En af hverju er ekki til hugtakið ,,Soccer Dad"? Hvar er pabbinn þegar börnin hans eru á æfingum eða í keppni. Jú, vitanlega eru hann og margir aðrir að fylgjast með af sama áhuga og fótboltamamman. En sjaldnar sjáum við hann hugga særða knattspyrnukappann (nei, hann gerir það ekki... pabbinn hugsar öðruvísi en mamman, hann hvetur knattspyrnukappana til að halda áfram leik þá hæst hann stendur, ,,farðu aftur inn á, ekki vola, áfram með leikinn!").

Sjaldan sjáum við fótboltapabbann með vatnsbrúsana (þó megi finna undantekningu á þessu, sérstaklega ef fótboltamamman er upptekin við að hugga knattspyrnukappann). En aldrei, aldrei sjáum við fótboltapabbann í sjoppunni að afgreiða pylsur og popp og alveg örugglega ekki ef barnið hans er að keppa! Það er gjörsamlega útilokað.

En fótboltapabbinn gæti líka verið annars staðar, hann gæti verið á stjórnarfundi að taka mikilvæga ákvörðun um hver eigi að þjálfa barnið hans á næsta tímabili. Hann gæti verið á hliðarlínunni að stýra liðinu og hann gæti verið inni á vellinum að dæma leikinn. Hann er með öðrum orðum það sem oft er kallað ,,virkur þátttakandi í leiknum."

En fótboltamömmur og allar konur geta líka verið ,,virkir þátttakendur í leiknum." Þess vegna hvet ég þær til að mæta á aðalfundi sinna félaga, taka þar til máls um jafnréttismál og hvetja stjórnir þeirra til dáða.

Ég hvet allar konur sem hafa áhuga á fótbolta til að bjóða sig fram í stjórnir félaganna. Ég hvet allar konur, fótboltamömmur sem og aðrar, til að taka knattspyrnudómarapróf og ég vil hvetja allar konur, fótboltamömmur sem og aðrar, til að mæta á eitt af ótal mörgum þjálfaranámskeiðum KSÍ. Þannig koma þær að ákvörðunum um hvernig málum skuli háttað við þjálfun barnanna þeirra.

Á þeim vettvangi hafa fótboltamömmur sannarlega skoðun og liggja ekki á henni í samtölum sínum við aðrar fótboltamömmur. Þetta skiptir öllu máli, þessi mál brenna á mörgum og þessi mál leiða okkur í átt að betra samfélagi þar sem kynin njóta meira jafnréttis en verið hefur innan knattspyrnuhreyfingarinnar.

Þetta á við um KSÍ, öll íþróttafélögin og þjóðfélagið almennt.

Áfram stelpur - í fúlustu alvöru.

Ingibjörg hefur starfað að kvennaknattspyrnu í næstum 30 ár, lengst af í Breiðablik. Síðustu 5 árin hefur hún setið í stjórn KSÍ.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Enda hefur þú nú lagt þitt af mörkum í umræðunni Ingibjörg Hinriksdóttir, http://www.ingibjorg.net. Meðal annars hér og hér og hér og hér og hér og hér og hér.

Hvar var aftur þessi sérstaki staður í helvíti? -Er þetta sá stuðningur sem altari Ingibjargar Sólrúnar veitir öðrum konum? Hvurslags femínismi er það?

Fótbolti (IP-tala skráð) 15.2.2007 kl. 13:37

2 identicon

Já, áfram stelpur! Nema sumar, ef marka má þessi skrif sem fótbolti vitnar til.

hke (IP-tala skráð) 15.2.2007 kl. 15:00

3 identicon

Takk fyrir hvatninguna Ingibjörg.

Þið hinar sem eruð í stjórn, eða hafið áhuga á að bjóða ykkur fram í stjórn íþróttafélags. Spyrjið endilega eftir því hvernig styrkir skiptast á milli deilda / flokka.

Follow the money

birna (IP-tala skráð) 15.2.2007 kl. 18:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundar

Trúnó
Trúnó
Trúnó er vettvangur kvenna sem aðhyllast femíníska jafnaðarstefnu

Tónlistarspilari

Brigitte Bardot - Ca pourrait changer

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband