Vikugamalt trúnó - rúmlega 9.000 heimsóknir

Ritnefnd trúnó þakkar lesendum samfylgdina sína fyrstu viku í bloggheimum - viðtökurnar hafa verið framar öllum vonum og margar konur sent okkur efni. Höfundar fylla nú fimm tugi og gott betur, ef smellt er á HÖFUNDAR hér til vinstri sjást trúnópennar í stafrófsröð.

Fyrsti pistill trúnó setti tóninn - andsvar kvenna við reykfylltum bakherbergjum. Óneitanlega kemur ljóð Ingibjargar Haraldsdóttur upp í hugann, sem birtist í ljóðabókinni Orðspor daganna. Ljóðið heitir ,,Kona" og er jafngamalt Kvennalistanum sáluga sem bauð fyrst fram til Alþingis árið 1983. Þá voru þrjár konur á þingi en eftir kosningarnar 1983 voru þær orðnar níu.

Þær voru komnar til þess að opna bakherbergin, breyta dagskránni og skilgreina vandamál heimsins upp á nýtt.

Ýmislegt hefur breyst en samt eru konur allt of víða ekki með í ráðum - þar sem ráðum er ráðið. Þær eru ekki við kjötkatlana þar sem þeir eru heitastir.

Skrif trúnókvenna bera vott um óþreyju. Nýja Ísland er í okkar huga land beggja kynja.

KONA

Þegar allt hefur verið sagt
þegar vandamál heimsins eru
vegin metin og útkljáð
þegar augu hafa mæst
og hendur verið þrýstar
í alvöru augnabliksins
-kemur alltaf einhver kona
að taka af borðinu
sópa gólfið og opna gluggana
til að hleypa vindlareyknum út.

Það bregst ekki.

Ingibjörg Haraldsdóttir, úr ljóðabókinni Orðspor daganna frá árinu 1983.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ingibjörg Stefánsdóttir

Góður pistill - gott ljóð.

Ingibjörg Stefánsdóttir, 15.2.2007 kl. 08:55

2 Smámynd: Elfur Logadóttir

Góður vettvangur, gott framtak. 

Það eina sem vantar er að við sem stöndum fyrir utan, fáum að vita hvernig við komumst inn, því augljóslega hlýtur það að vera markmið vettvangsins, að fjölga konunum. 

Elfur Logadóttir, 15.2.2007 kl. 15:48

3 Smámynd: Björk Vilhelmsdóttir

Ingibjörg Haraldsdóttir er alltaf einhvernveginn best - að öllum öðrum ljóðskáldum ólöstuðum.

Björk Vilhelmsdóttir, 15.2.2007 kl. 17:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundar

Trúnó
Trúnó
Trúnó er vettvangur kvenna sem aðhyllast femíníska jafnaðarstefnu

Tónlistarspilari

Brigitte Bardot - Ca pourrait changer

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband